Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.2.2009 | 11:53
Fólk í átthagafjötrum á gamla vaxtarsvæðinu
Í Fréttablaðinu í dag er ágætis umfjöllun þar sem rætt er við mig og tvo kollega mína, þá Ólaf Hr. Sigurðsson á Seyðisfirði og Ómar Már Jónsson í Súðavík um stöðuna á landsbyggðinni. Í viðtali við blaðamann hélt ég fram þeirri skoðun minni að handstýring hins opinbera þar sem fólki er beint til búsetu á ákveðnum svæðum sé skaðleg. Frelsi til búsetu er síst minna virði en annað frelsi og sú stefna hins opinbera að beita opinberri uppbyggingu til að flytja fólk á milli búsetusvæða er hrein og bein frelsisskerðing.
Ég vil halda því fram að á seinustu 10 til 15 árum hafi fólki verið beint markvisst á suð-vesturhornið með afskiptum ríkisvaldsins. Ákvörðun var tekin um að nota ríkisfjármagn til að byggja upp "sterkt" höfuðborgarsvæði m.a. til að mæta samkeppni við útllönd um hæfa starfskrafta og "auka hagræðið" í ríkisrekstri. Nánast öll sú þjónusta sem ekki er beinlíns þörf á að hafa á landsbyggðinni var fundin staður í borginni. Andstætt við yfirlýsta stefnu voru störf og þjónusta flutt á höfuðborgarsvæðinu. Skýr dæmi um þetta má finna hér í Vestmannaeyjum þar sem td. Vinnueftirlitið, Vaktstöð siglinga, Skipaskoðun Siglingastofnunar og margt fleira hefur verið flutt héðan. Þá hefur yfirstjórn einnig verið flutt frá Eyjum og á það til að mynda við Tollembættið og Rannsóknarlögreglu. Í raun má að segja að ef frá eru skildar heilbrigðis- og menntastofnanir eins og skólar og sjúkrahús í viðbót við grunnlöggæslu og slíkt þá sé afar lítið af ríkisstörfum eftir á landsbyggðinni (skrifa meira um það næst og þá sérstaklega stoðkerfi sjávarútvegsins).
Þessi ákvörðun að efla höfuðborgarsvæðið á kostnað landsbyggðarinnar varð til þess að ríkið lagði eld að þenslubáli fjármálageirans með fjölgun ríkisstarfa á höfuðborgarsvæðinu. Bensínið á eldinn var svo gríðarleg uppbygging á þjónustumannvirkjum og íbúðarhúsnæði fyrir alla þessa nýju íbúa. Nýjar sundlaugar, skólar, leikskólar, menningarmiðstöðvar, knattspyrnuhús og stúkur spruttu upp eins og gorkúlur á vaxtarsvæðinu. Í örvæntingu eltu mörg landsbyggðarsveitarfélög þjónustuaukninguna þannig að enn var kynnt undir bálið og enn breikkaði bros okkar pólitíkusa þegar klippt var á borða við vígslur. Lán voru tekin í stórum stíl og stólað á að þjónustuuppbyggingin myndi skila nýjum íbúum sem stæðu undir afborgunum með útsvarsgreiðslu. Veruleikinn varð annar. Nú er allt stopp. Fjármálakerfið er hrunið og ríkið þarf að draga saman um u.þ.b. 20%. Í kjölfarið vill fólk í auknu mæli komast til þeirra svæða sem ekki fóru þess leið. Svæða sem byggja á verðmætasköpun í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri frumgreina. Svæða þar sem sígild gildi eru enn ríkjandi og þjóðfélagshópar standa saman um sameiginlega velverð. Stétt með stétt.
Greinin í Fréttablaðinu hljóðar svo:
Nú í kreppunni hefur áhugi fólks á því að búa á landsbyggðinni stóraukist og nú þegar fjölgar ungu fólki í nokkrum byggðum þar sem slíku hefur ekki verið að fagna í áraraðir. Þetta segja Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Ólafur Hr. Sigurðsson, starfsbróðir hans frá Seyðisfirði, og Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.
Öryggi og fjölskylduvænt samfélag er eitt það helsta sem fólkið leitar eftir, segja þeir, auk þess sem margir vilja snúa baki við þeim gildum sem ráðið hafa ríkjum á suðvesturhorninu.
Ég held að það felist ákveðin tækifæri fyrir fólk í því undarlega umhverfi sem við búum við einmitt núna, segir Ómar Már. Og það felst í því að hér [á landsbyggðinni] eru mannlífs- og
atvinnulífshættir reistir á betri grunni heldur en það sem hefur verið að byggjast upp á svokölluðum þenslusvæðum.
En ekki geta allir sem vilja flust út á landsbyggðina; Elliði segir fjölmarga sitja í átthagafjötrum í borginni. Fólkið hefur elt fjármagnið og atvinnuna sem öll hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en nú þegar bólan er sprungin situr það uppi með ofurskuldsetta eign svo að það er í raun í átthagafjötrum í borginni.
Ómar segir að ríkið þurfi að styðja betur við bakið á sprota og nýsköpunarfyrirtækjum á landsbyggðinni. Við höfum heyrt mikla umræðu um nýsköpun en því miður virðast orð og æði ekki
fara þar saman, segir hann.
Elliði og Ólafur hafa hins vegar hug á öðruvísi stuðningi. Veigamesti stuðningurinn sem við gætum fengið frá ríkinu væri að fá frið til að byggja upp okkar atvinnuvegi án þess að eiga það sífellt á hættu að fótunum verði kippt undan því, segir Elliði. Það er óþolandi að vinna í sjávarútvegi þegar sífellt er verið að ögra þeim forsendum sem fyrir honum eru. Á hann þá meðal annars við umræður um eignarupptöku á kvóta og veiðileyfagjöldum. Stundum er aðgerðarleysi af hálfu ríkisins það skásta, segir Ólafur. Það sést vel á fyrirtækjum sem eru alfarið í eigu ríkisins, eins og RARIK og Pósturinn. Þar gilda græðgissjónarmið sem reytt hafa af landsbyggðinni út í það óendanlega í nafni óeðlilega mikillar arðsemi. En það sjá allir hvernig þess háttar græðgi hefur reynst þjóðinni.
21.2.2009 | 15:30
Sósíalísk afskipti af kapítalisma - Gestapenni
Fall Kapítalismanns hefur orðið vinstrimönnum tíðrætt seinustu vikur. Upplifun þeirra hefur verið sú að rétt eins og hrun kommúnismans var samspyrt við hrun Berlínarmúrsins þá sé hrun kapítalismans samspyrt við hrun hins íslenska bankakerfis. Þessu er ég ekki sammála en tel þetta mjög skiljanlegt að vinstrimenn leiti sóknarfæra í þessari samtíma söguskýringu. Minn góði vinur og félagi Tryggvi Hjaltason (sjá mynd hér til hliðar) fjallar um þetta í greininni hér að neðan og hefur þar með á ný gerst gestapenni hér á síðunni minni. Eins og fyrr eru öll skrif gestapenna á þeirra eigin ábyrgð og skoðanir þeirra þurfa ekki endilega að endurspeggla mínar skoðanir (þó að oft sé þó svo).
Hvað gerðist?
Það eru margir sem hrista einfaldlega hausinn yfir ástandinu í landinu um þessar mundir. Á innan við hálfs árs tímabili hefur öllu verið snúið á haus á landinu okkar sem í ágúst var besta land í heimi, algjörlega ósnertanlegt. Eins og gefur að skilja er mikið af reiðu fólki og hvað gerir reitt fólk þegar það vill ekki áfellast sjálft sig eða skilur ekki alveg hvernig er komið fyrir því? Jú það finnur sökudólg.
Eitt af fórnarlömbum þessa sökudólgaleitar hefur verið kapítalisminn. Ég verð að viðurkenna að fyrir hálfu ári, ef einhver hefði sagt við mig að ég ætti eftir að setjast niður og skrifa varnaðarorð fyrir kapítalismann þá hefði ég nú líklegast gefið lítið fyrir það. En ég hef sterka réttlætiskennd og ég get ekki tekið undir það að kapítalískri stefnu sé um að kenna hvernig er komið fyrir Íslandi. Þvert á móti tel ég að sósíalísk afskipti af kapítalisma hafi heldur valdið þeirri kreppu sem nú ríkir á Íslandi.
Í lok áttunda áratugarins var fyrirtækjalögum breytt m.a. til þess að reyna að koma í veg fyrir fjandsamlegar yfirtökur sem þóttu of tíðar á þeim tíma. Þetta leiddi til þess að starfsmenn fjármálastofnanna, og þá sérstaklega stjórnir þeirra, fengu of mikil völd á kostnað hluthafa. Þetta er mjög andstætt kjarna kapítalismans. Yfirmenn fjármálastofnanna gátu nú í skjóli þessara laga nánast ráðið eigin launum og forsenda kapítalismans um að ef þú stendur þig vel þá er þér verðlaunað, var brotin. Þessi þróun leiddi svo til þess að stjórnendur höfðu svokallaðar gullnar fallhlífar, þ.e. að það skipti í raun ekki máli hvernig þeir stóðu sig, þeir myndu alltaf fá borgað og ef þeir þyrftu að hætta þá myndu þeir fá væna starfslokasamninga. Með þessu var rifinn kjarninn úr kapítalískri hugsun um að þú tekur áhættu með það sem þú hefur milli handanna og hagnast í samræmi við það. Nú er ástandið orðið þannig að þú tekur áhættu með það sem aðrir eiga og það skiptir í raun ekki máli hvort áhættan borgi sig fyrir þig.
Þetta er nákvæmlega það sem virðist hafa gerst meðal íslenskra fjármálafyrirtækja sem tóku veð, lán, endurfjármögnuðu og Guð veit hvað út á hlutafé almennings. Þá var einnig lofað áhættulausum/litlum fjárfestingum sbr. peningamarkaðsbréf sem var svo braskað með (sem jók áhættuna stórlega). ,,Áhættulausar fjárfestingar með mikla gróðamöguleika er ekki sú hugmynd sem kapítalisminn byggir á. Til að toppa þetta virtist það hafa verið stundað að fella niður eigin skuldir meðal starfsmanna fjármálastofnanna, og þá væntanlega á kostnað hluthafa. Þetta á upptök sín í afskipti ríkisins með lagasetningum er varða fjármálageirann. Í sögulegum skilning má svo benda á það að sjaldan eða aldrei hafa ríkis-afskipti borið góðan árangur í kapítalískum kerfum. Það sem gerðist á Íslandi má miklu frekar kalla siðlausa eignaupptöku auðmanna á kostnað kapítalískra fjárfesta. Þá mætti einnig nefna peningaprentun yfirvalda út um allan heim sem skekkti verðmyndun á fjármagni og breytti þannig óeðlilega þ.e. gegn frumstefnu kapítalismans þeim aðstæðum sem voru í peningaheiminum.
Hver er þáttur Evrópusambandsins í hruni bankanna?
Ég held að fáir munu mótmæla því að Evrópusambandið (ESB) er eitt stærsta miðstýringarkerfi í heiminum í dag og verður miðstýrðara með hverju árinu sem það er starfandi.
Að mínu mati er ekki hægt að segja annað en að Evrópusambandið beri töluverða ábyrgð erlendra afla á bankahruni íslendinga (hér er ég ekki að reyna að færa ábyrgðina frá bönkunum, einungis benda á fleiri uppsprettur). Þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þá var það gert á þeim forsendum að fyrirtæki (íslensk sem og erlend) gætu starfað innan svæðisins óháð skráningarstað. Það er ekki hægt að segja annað en að íslensku bankarnir hafi nýtt sér þetta og útrásin fór á fullt seinna meir undir þessum væntingum. Bankarnir urðu hins vegar svo stórir að íslenski Seðlabankinn gat alls ekki verið þrautavaralánveitandi þeirra, a.m.k. ekki óstuddur. Þess vegna hefði mátt búast við því, gefið það að Ísland var hluti af EES að aðrir EES seðlabankar gætu aðstoðað ef á þyrfti. Af hverju ekki? Það gerðu þeir hinsvegar ekki (og í fullri sanngirni bar þeim ekki skylda til) en það er athyglisvert sérstaklega í því ljósi að íslensku bankarnir urðu aldrei gjaldþrota, heldur hrundu þeir vegna lausafjárskorts annars vegar og árásar frá Bretum (sem orsakaði lausafjárskort) hinsvegar. Ekki nóg með það heldur fengu Bretar aðstoð Evrópusambandsins til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að taka á sig skuldbindingar vegna svokallaðra Ice Save reikninga Landsbankans sem íslenska ríkið hafði hvorki stofnað til, né bar ábyrgð á. Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun og starfar eftir reglum EES og ber ábyrgð á slíkum skuldbindingum. Þetta þýðir blákalt að Evrópusambandið gerðist utanaðkomandi þrýstivald fyrir Breta gegn Íslandi. Þá má einnig benda á að regluverk ESB var meingallað í þessu samhengi og reiknaði ekki með hruni en hafði engu að síður mikil afskipti af kerfinu. Slíkt, ásamt því að vera léleg aðferðafræði stangast einnig algerlega á við kapítalíska stjórnun.
Að öllu þessu sögðu þá skil ég ekki þá Íslendinga sem nú vilja, eftir allt þetta, ganga á fund ESB og ræða málin. Burtséð frá hvað stefnur eins og sjávarútvegstefna ESB kann að fara með landið. Ísland þarf ekki aðildarviðræður til að skilja hvað er í raun í boði.
Persónulega þá finnst mér að íslendingar eigi að hafa meira stolt og trú á sjálfum sér en svo að ætla að skríða í drullunni til þess afls sem svo hunsaði okkur og réðist síðan á okkur liggjandi í kjölfarið.
Virðing
Tryggvi Hjaltason
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hvalveiðar eigi að stunda svo fremi sem fyrirtæki telji þær arðbærar og stofnar þoli veiðar. Til að setja mig inn í málið grúskaði ég aðeins í þessi fræði. Eftirfarandi pistill byggi ég á minni og þeim upplýsingum sem ég viðaði að mér í ýmsum bókum og af ýmsum vefsíðum. Sannast sagna nennti ég ekki að eltast við að geta heimilda og viðurkenni ritstuld beri einhver slíkt upp á mig.
Hvalveiðar við Ísland
Hvalveiðar við Íslandsstrendur eiga sér ekki ýkja langa sögu. Lengst af voru þær stundaðar af útlendingum. Íslenskar heimildir greina frá því að hvalveiðar hafi verið stundaðar við Ísland frá útlendum skipum frá fyrstu árum 17. aldar og fram á þá 18. Einkum voru þessar veiðar stundaðar við Vestfirði og í fyrstu virðist eingöngu um spænska Baska að ræða.
Upphaflega var hvalur veiddur vegna kjötsins en þegar komið var fram undir lok miðalda var lýsi hins vegar orðið verðmætasta afurðin og á sextándu öld var það notað sem ljósmeti (og þótti taka öðru fram) en einnig í sápu, við sútun og fataiðnað.
Íslendingar hefja ekki veiðar á Hval svo einhverju nemi fyrr en um 1935 og höfðu þær þá verið bannaðar frá 1916 en þá setti Alþingi lög til að koma í veg fyrir hvalveiðar Norðmanna en ásókn þeirra þótti gengdarlaus. Atvinnuveiðar Íslendinga stóðu til 1986 þegar Alþjóðahvalveiðiráðið fyrirskipaði tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni. Segja má að síðan þá hafi mikill styrr staðið um þessar veiðar og deilan náð hámarki nú fyrir skömmu þegar Einar Kristinn fyrrverandi sjávarútvegsráðherra gaf út heimild til atvinnuveiða á ný. Núverandi ráðherra hefur svo að vel ígrunduðu máli ákveðið að breyta ekki þessari ákvörðun.
Rök með og á móti
Eins og með öll deilumál er ýmislegt sem mælir með og ýmislegt sem mælir á móti. Sterkustu rök sem færð eru fyrir veiðibanni eru að stofnar þoli ekki veiði og að hvalveiðar skaði ferðaþjónustu. Við þetta bætast svo tilfinningaleg rök svo sem þau að hvalir séu greind spendýr og ekki megi nálgast veiðar á þeim á sama hátt og á öðrum sjávardýrum. Þessi rök skyldi ekki vanmeta og vega þau síst minna en önnur praktískari rök.
Sjálfur er ég þó stuðningsmaður þess að hvalveiðar séu stundaðar.
Hvalur er nytjastofn sem þolir veiði.
Árið 1195 fór fram viðamikil talning á hrefnu og var áætlað að heildarfjöldi væri um 184 þúsund dýr í svo kölluðum Mið - Atlandshafsstofni og NA Atlantshafsstofni og við Íslandsstrendur væru um 43.000 dýr. Samkvæmt talningum árin 1987 og 1989 og fyrri merkingum við strendur Kanada var áætlað að stofnstærð langreyðar á N-Atlantshafi væri a.m.k. 50 þús. dýr og þar af um 25 þúsund hér við land. Samkvæmt talningunum 1995 voru um 9.200 sandreyðar í N-Atlantshafi. Flest bendir svo til þess að eftir margra ára friðum hafi þessir stofnar allir styrkst til muna, og ekki þarf það að koma á óvart. Reglugerð, Einars Kr. Guðfinnssonar, fyrirrverandi sjávarútvegsráðherra um leyfi til veiða á 150 langreyðum á ári og 200 hrefnum verður því að teljast afar hófstillt.
Hvalir eru í samkeppni við útgerð
Talið er að hver hvalur éti um það bil 2-4% af þyngd sinni á dag. Áætlað hefur verið að þær 83 tegundir hvala sem finnast í heiminum éti um 300 til 500 milljón tonn af sjávarfangi árlega. Það er um það bil 3 til 5 sinnum meira en fiskveiðifloti allra landa aflar.
Hér við land er talið að hvalir éti um 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega sem skiptist niður í um 4 milljónir tonna af átu og smokkfiski og 2 milljónir tonna af fiski. Hrefnan er langatkvæðamesta fiskætan.
Ef við reiknum með því að hver hrefna við landið éti 3% af þyngd sinni á dag og hrefnurnar séu 43.000 í kringum Ísland, þá er heildarfæðan um það bil 9.030 tonn á dag af fæðu. Þetta er miðað við að hrefnan sé að meðaltali 7 tonn, en hrefna er oftast á bilinu 5 - 10 tonn á þyngd. Á ársgrundvelli þýðir þetta að bara hrefnustofninn í kringum landið sé að éta tæpar 1,8 milljónir tonna af fæðu á ári miðað við að hrefnan sé hérna í 200 daga á ári. Þessar tölur eru reiknaðar út frá upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar og sýna fyrst og fremst grófa mynd af áti hvala. Hrefnan er aðeins einn hvalastofna af mörgum hér við land og hafa allir þessir hvalir í kringum Ísland gífurleg áhrif á fiskistofna og aðra nytjastofna í sjónum.
Hvalveiðar eru arðbærar og atvinnuskapandi
Mat þeirra sem best þekkja til er að ákvörðun Einars K. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um atvinnuveiðar geti leitt til þess að til verði 250 til 300 störf við veiðar, vinnslu og önnur störf. Ekki er ósennilegt að þær 150 langreyðar og 200 hrefnur sem nú verður heimilt að veiða gefi af sér 3000 til 3500 tonn af kjöti og rengi. Vafalaust er slíkt magn afar verðmætt séu á annað borð markaðir fyrir kjötið. Vanir markaðsmenn á þessu sviði telja að svo sé. Það er reyndar algerlega fráleitt að ríkið bregði fótum fyrir atvinnulífið á þeim forsendum að ekki séu markaðir til staðar. Hafi fyrirtæki trú á því að hvalveiðar séu arðbærar og vísindamenn telja stofninn þola veiðina þá á að hefja veiðar.
Fylgt úr hlaði
Ávinningurinn af sjálfbærum hvalveiðum snýst sem sagt ekki eingöngu um verðmæta- og atvinnusköpun sem tengist þeim beint. Með skynsamlegri nýtingu hvalastofna væri hægt að auka veiði á þorski og öðrum arðbærum tegundum. Þar er verið að tala um tugi milljarða króna í útflutningstekjum til viðbótar þeirri verðmæta- og atvinnusköpun sem hvalveiðarnar færa okkur.
Vonbrigðin eru eftir sem áður sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimld til atvinnuveiða séu eingöngu til eins árs. Það merkir að birgjar geta ekki verið vissir um að varan (hvalkjöt) verði áfram í boði. Markaðssetning, vöruþróun og fleira verður erfið þegar ekki er hægt að tryggja stöðugt framboð. Verslanir hika við að veita hillupláss og þar fram eftir götunum. Ég óttast að þessi ákvörðun valdi skaða en fagna því að hvalveiðar hefjast nú innan skamms.
18.2.2009 | 20:42
Til varnar stjórnmálamönnum
Ímynd stjórnmálamannsins og þá sérstaklega alþingismanna er í dag ekki eingöngu neikvæð, hún er skaðleg fyrir lýðræðið.
Stjórnmálamenn eru séðir sem óheiðarlegir einfeldningar sem nota öll tækifæri til að skara eld að eigin köku. Þeir eru taldir hafa lítið vit á fjármálum og stjórnun almennt. Þeir eru ekki taldir bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti við ákvörðunartöku heldur litið á þá sem máttlausar strengjabrúður í höndum auðmanna eða stjórnmálaflokka. Verst af öllu er svo ef þessu vanhæfa fólki dettur í hug að ætlast til að fá greitt fyrir störf sín.
Persónulegt líf þeirra er gjarnan dregið inn í sviðsljósið og engu eirt. Fjölmiðlar hafa enda license to kill (rétt eins og James Bond) þegar að stjórnmálamönnum kemur. Birtar eru kauðalegar myndir af þeim og þeim velt upp úr hverju því atriði sem hugsanlegt er að gera tortryggilegt. Verst af öllu er ef stjórnmálamaður skiptir um skoðun og gildir þá einu þótt viðkomandi hafi verið viðloðandi stjórnmál í tugi ára. Hann skal aldrei komast upp með að halda einhverju öðru fram en hann hefur áður gert. Slíkt er þá merki um vingulshátt, ef ekki skítlegt eðli.
Þetta verður svo til þess að mörgu góðu fólki í öllum flokkum hrís hugur við pólitískri þátttöku. Þar með er lýðræðið í beinni hættu.
Eitt af því sem oft er gagnrýnt er ákvarðanafælni stjórnmálamanna.
Ég var nýlega minntur á viðtal við Davíð Oddsson í heilbrigðismálum. Þar sagði hann:
,,Vandamál stjórnmálamanns er að hann þarf að taka ákvarðanir þegar hann hefur 20 til 30% af æskilegum upplýsingum til staðar. En svo getur sagnfræðingur gagnrýnt viðkomandi harðlega þegar hann löngu síðar hefur sjálfur 70 til 80% upplýsinganna fyrir framan sig. Ef stjórnmálamaður ætlar ekkert að aðhafast fyrr en hann hefur sama upplýsingamagn og sagnfræðingur verður honum ekki mikið úr verki."
Ég kannast sjálfur við flesta þeirra sem sitja á þingi og sumir þingmenn eru góðir vinir mínir og kunningjar. Í viðbót þekki ég hundruði sveitarstjórnarmanna um allt land. Það sem allt þetta fólk á sameignlegt, í öllum flokkum, er samfélagsleg ábyrgð. Upp til hópa er þetta vinnusamt og strangheiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita. Það vinnur undir miklu álagi og er meðvitað um ábyrgð sína.
Ég dáist af öllu því fólki sem nú er að bjóða sig fram í prófkjörum fyrir flokkana því án þeirra myndi lýðræðið ekki virka.
Ég hvet fólk til að láta af neikvæðri umræðu um persónur þeirra sem gefa sig í þátttöku á sviði stjórnmála. Málefni er nauðsynlegt að ræða og þótt ég virði skoðanir allra þá þykir mér lítið til sumra málefna koma. Ég vil veiða hvali, og þykir lítið til þess koma þegar einhver vill friða þessi dýr. Ég vil ekki ganga í ESB og sé ekki þá Evrópudýrð sem sumir sjá. Ég er á móti hátekjuskatti og tel þá hafa á röngu að standa sem básúna um slíkt. Ég er algerlega á móti eignaupptöku bæði í sjávarútvegi og víðar og óttast afleiðingar þeirrar aðferðarfræði. Ég dáist hinsvegar af fólkinu á bak við allir þessar skoðanirnar og útiloka ekki að ég hafi á röngu að standa í einhverjum málefnum. Ef svo er þá áskil ég mér rétt til að skipta um skoðun.
Ég held að það sé við hæfi að enda þennan pistil á einni af uppáhalds tilvitnunum mínum. ,,Frelsi er ekki til neins ef það felur ekki í sér frelsi til að gera mistök (Mohands Ghandi).
17.2.2009 | 15:48
Fréttatilkynning, erum ekki á leið í framboð
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum höfum nú sent frá okkur svo hljóðandi fréttatilkynningu:
Ákveðið hefur verið að prófkjör um val frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar vorið 2009 fari fram 14. mars næstkomandi. Eins og ætíð eru margir orðaðir við prófkjörsframboð enda rík krafa um endurnýjun í kjördæminu. Meðal þeirra sem títt eru orðuð við framboð erum við undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.
Eftir að ákvörðun var tekin um prófkjör höfum við fundið fyrir miklum stuðningi víðsvegar úr kjördæminu og þykir okkur vænt um þann stuðning. Enn vænna þykir okkur þó um hvatningu íbúa í Vestmannaeyjum um að halda áfram þeim störfum sem unnin hafa verið á kjörtímabilinu.
Staða Vestmannaeyja er um þessar mundir afar sterk og hefur íbúum nú tekið að fjölga í fyrsta skipti í 18 ár. Atvinnulíf samfélagsins stendur styrkum stoðum og útlit er fyrir að svo verði áfram. Skuldir hafa verið greiddar niður um 1,2 milljarða og engin ný lán verið tekin á kjörtímabilinu. Bæjarsjóður Vetmannaeyja er rekinn hallalaust og skilar rekstrarafgangi. Miklar verklegar framkvæmdir hafa verið settar í gang og enn fleiri eru framundan. Stutt er orðið í gríðarlegar framfarir í kjölfar breyttra samgangna þegar Herjólfur hefur siglingar í Land-Eyjahöfn 1. júlí 2010. Þar með verður hægt að sigla 7 sinnum á dag á 25 mínútum milli lands og Eyja í stað þriggja klukkutíma tvisvar á dag. Vestmannaeyingar geisla nú af sjálfstrausti, samhug og trú á framtíðina enda er hún björt fyrir Vestmannaeyjar.
Hinu er þó ekki að leyna að blikur eru á lofti og mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Staðan á fjármálamarkaði er viðsjárverð. Ríkið hyggst draga verulega úr sínum rekstri og þótt þenslan hafi ekki náð til Vetmannaeyja virðist stefnt að niðurskurði þar. Ákveðnir stjórnmálaflokkar stefna leynt og ljóst að ákvörðunum sem kunna að stofna framtíð Vestmannaeyja í hættu. Klær kreppunnar ná því miður til Vestmannaeyja eins og annarra staða. Vænleg staða getur því verið fljót að breytast til hins verra ef ekki er gætt að.
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum því tekið sameiginlega ákvörðun um að rjúfa ekki þá samstöðu sem verið hefur um störf bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Það hefur aldrei þótt hyggilegt að skipta um klár í miðri á og þá sérstaklega ekki þegar áin er straumþung og erfið viðureignar. Við undirrituð fengum traust bæjarbúa til að ljá bæjarfélaginu starfskrafta okkar í fjögur ár og fyrir það erum við þakklát. Við teljum því ekki rétt að hverfa frá störfum á okkar fyrsta kjörtímabili.
Við munum því ekki gefa kost á okkur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri
Páley Borgþórsdóttir, bæjarfulltrúi
Páll Marvin Jónsson, bæjarfulltrúi
Gunnlaugur Grettisson, bæjarfulltrúi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2009 | 12:24
Hefjast þá skrif á ný
Illu heilli hafa skrif á þessa síðu ekki átt sér stað síðan 12. mars 2008. Síðan þá hefur efnahagskerfi hins vestrænaheims hrunið, bankarnir á Íslandi farið á hausinn og komin vinstristjórn á Íslandi. Gengisvísitalan hefur farið úr 136,3 (þegar færslan var sett inn 12. mars) og í 193,4 (núna áðan). Hæst fór hún í 248,3 1. des. (sjá mynd hér til hliðar)
Ekki er víst að hér sé um orsakasamhengi að ræða en óþarfi að tefla á tæpasta vað og því mun ég hefja hér skrif að nýju og axla þannig ábyrgð á hruninu.
Fyrsti pistill kemur inn síðar í dag.
12.3.2008 | 01:21
Gömul auglýsing sem skýrir hlutverk Sparisjóðsins fyrir Eyjamönnum
Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að grúska. Stundum stel ég mér tíma og kynni mér eitthvað sem ég ekki myndi læra annars. Seinustu helgi rakst ég til dæmis á bók um tónlist sem ég vissi ekki að ég ætti og las ég mér þá lítillega til um finnska tónskáldið Sibelius. Lesturinn stafaði ekki af óbilandi áhuga á klassískri tónlist (er ekki einu sinni viss um að ég myndi þekkja nokkurt lag með Sibelius) heldur vegna þess að mér finnst gaman að grúska, grúsksins vegna.
Því miður gefst mér ekki oft tími til að grúska en kvöldið í kvöld var kjörið í grúsk. Konan í saumaklúbbi, börnin sofnuð, félagarnir komust ekki til að tefla eins og við gerum oftast þegar konurnar eru í saumaklúbbum. Allt klárt og fyrir valinu varð lestur á tímaritinu Blik frá 1965.
Það sem vakti mestan áhuga minn í þessu skemmtilega riti var auglýsing frá Sparisjóði Vestmannaeyja (sjá mynd hér til hliðar). Auglýsingin er svo hljóðandi:
Sparisjóður Vestmannaeyja,
greiðir yður ávallt hæstu vexti af sparifé yðar. Hann annast innheimtur.
Sannleikur um Eyjabúa:
Vestmanneyingar!
Sparisjóður Vestmannaeyja hefir lánað Eyjafólki á undanförnum árum um 900 fasteignalán, samtals um 25 milljónir króna. Þetta er árangur af góðvilja Eyjabúa til Sparisjóðsins og traust á honum og starfi hans. Aukum sparifé Sparisjóðs Vestmannaeyja og árangurinn segir til sín í bæjarfélaginu: auknar byggingarframkvæmdir til mannsæmandi lífs og framfara, - framkvæmdir til hagsældar Eyjabúum í heild, einstaklingum sem atvinnufyrirtækjum.
Ágóði af rekstri Sparisjóðsins rennur í varasjóð hans eða til menningarframkvæmda í bænum, því að sparisjóðurinn er sjálfeignarstofnun en ekki hlutafélag. Því meira sparifé, sem Eyjabúar leggja inn í Sparisjóðinn, því meira fé verður að senda framleiðslustarfinu annarstaðar frá og þannig eykst fjármagnið í bænum bæjarbúum til hagsældar.
Þetta er sú staðreynd og sú fjármálaviska, sem Eyjafólk skilur. Það hafið þið Eyjabúar sýnt í verki gagnvart Sparisjóðnum.
Sparisjóðurinn, stjórnendur og stofnfjáreigendur, hefur sem sagt alla tíð haft hlutverk sjóðsins á hreinu.
10.3.2008 | 00:30
Réttist hlutur landsbyggðarinnar við kólnun hagkerfisins?
Nú eru blikur á lofti í íslenska hagkerfinu. Álag á skuldatryggingar bankanna hækkuðu eftir að Moodys lækkaði lánshæfiseinkunn stóru bankanna. Fyrir helgi bætti Moody´s svo um betur og breytti horfum fyrir lánshæfi íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Eftir sem áður er ríkið með hæstu lánshæfiseinkunn hjá fyrirtækinu eða Aaa. Þetta byggir matsfyrirtækið ekki hvað síst á því að frekari vöxtur bankakerfisins erlendis geri ríkinu erfitt um vik að bregðast við hugsanlegri fjármálakreppu sem þó er sögð afar ólíkleg í tilkynningu Moody´s. (myndin hér til hliðar sýnir son minn í kuldanum í Eyjum fyrir viku. Spurning hvort kuldinn í hagkerfinu verður jafn mikill).
Fjármögnun nú er því dýrari en áður og jafnvel bjartsýnustu menn farnir að horfast í augu við lendingu í velmeguninni. Svo mikið er víst að bankar og fjármálastofnanir eru byrjaðir á hagræðingaraðgerðum með fækkun starfsfólks og sölu ákveðinna þátta út úr rekstri.
Svo virðist því vera sem Seðlabankanum sé að verða að ósk sinni. Ég spái því hér með að innan fárra vikna verði stýrivextir lækkaðir og jafnvel í byrjun apríl.
Sem betur fer er atvinnuleysi en hverfandi lítið því þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir fjármálastofnanna, niðurskurð þorskkvóta, verkloka í stóriðjuframkvæmdum og fleira var atvinnuleysi einungis 1% í janúar skv. tölum Vinnumálastofnunar.
Það sem sett gæti strik í þess spá er að 12 mánaða verðbólga er 6,8% í dag og margir telja útlit fyrir að hún aukist. Af sjálfsögðu verða stýrivextir ekki lækkaðir á meðan svo er.
Svo er það náttúrulega sú sögulega staðreynd að þegar kreppir að í hagkerfinu þá réttist hlutur landsbyggðarinnar í samræmi við höfuðborgarsvæðið. Fjármagnið leitar þá gjarnan í frumgreinarnar þar sem meiri veruleiki er á bak við fjárfestingar. Fólkið losnar á sama tíma undan sogkrafti þenslunnar í borginni og leitar heim á ný. Það er óneitanlega gaman að velta því fyrir sér hvort slíkt verði upp á teningnum núna eða hvort þjóðfélagslegar og hagfræðilegar aðstæður leiði sömu niðursveiflu yfir landsbyggðina og yfir hitaveitusvæðið. Reyndar tel ég svo ekki verða enda hefur þenslan ekki náð hingað og því ekki líklegt að niðursveiflan nái heldur hingað.
Svo er óneitanlega mikill styrkur fyrir Vestmannaeyjar hversu sterk sjávarútvegsfyrirtækin hér eru sem og Vestmannaeyjabær. Í fyrsta skipti í sögu sveitarfélagsins er ekki gert ráð fyrir neinni lántöku, þrátt fyrir miklar framkvæmdir, og í ljósi þess hversu dýrt lánsfé er þá prísa ég mig enn sælli með þessa góðu stöðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.2.2008 | 12:29
Til móts við betri bæ, gestapenni
Á lítilli eyju, þar sem íbúar hugsa stórt, skipta skipulags- og umhverfismál afar miklu. Skipulagsmál hafa í fáatíma verið fyrirferðameiri en seinustu tvö ár. Eftirspurn eftir lóðum hefur verið með eindæmum mikil og á það bæði við um atvinnushúsnæði, einbýlishús og fjölbýlishús. Af þessum ástæðum hefur formaður skipulagsráðs, Gunnlaugur Grettisson tekið við áskorun minni og gerist hér með gestapenni og skrifar hér um skipulagsmál í Vestmannaeyjum
Til móts við betri bæ.
Gestapenni: Gunnlaugur Grettisson skrifar um skipulagsmál
Landrými í Vestmannaeyjum er af augljósum ástæðum takmörkuð auðlind og ber okkur að umgangast hana sem slíka. Mikil breyting hefur orðið sl. ár í skipulagsmálum í Eyjum einkum þegar kemur að lóðaúthlutunum. Allt snýst þetta um framboð og eftirspurn. Við höfum reynt að vera á undan eftirspurninni með því að skipuleggja ný svæði sem og að benda áhugasömum aðilum á lóðir í grónum hverfum. En eftirspurnin er mikil og má segja að hún hafi aukist jafnt og þétt sl. mánuði. Það er stefna okkar að hafa stöðugt í boði góðar byggingalóðir fyrir íbúðarhús og fyrirtæki. Það hefur því mætt mikið á starfsmönnum okkar á Umhverfis- og framkvæmdasviði en þar eins og öðrum stöðum í bæjarkerfinu erum við vel mönnuð hæfu starfsfólki. Margar lóðaúthlutanir koma bæði til afgreiðslu hjá Umhverfis og skipulagsráði og Framkvæmda- og hafnarráði og hafa ráðin unnið mjög vel saman þegar svo ber við.
Íbúðarhúsnæði
Á vef Vestmannaeyjabæjar er að finna kort yfir lausar lóðir í sveitarfélaginu. Margar lóðir eru í boði og eru þar bæði um að ræða lóðir í eldri hverfum sem og nýjar götur og þá bæði fyrir einbýli sem og fjölbýli. Á síðustu fundum Umhverfis- og skipulagsráðs hefur fjölmörgum lóðum úthlutað.
Nýjar lóðir í boði.
Á sl. ári var sett í gang vinna við að skipuleggja nýjar lóðir fyrir íbúðarhús um leið og gjaldskrá lóðagjalda var endurskoðuð með það fyrir augum að gatnagerðargjald skuli standa undir gatnagerðinni sjálfri. Fyrsta gatan sem lagt var af stað með var lenging Litlagerðis til vesturs og fékk sú ákvörðun mjög góðar viðtökur. Skipulagðar voru fjórar einbýlishúsalóðir sem svo voru boðnar út. Eftirspurn var meiri en framboð og því var sýslumaður fenginn til þess að draga út heppna lóðahafa. Þeir hafa nú skilað inn teikningum sem hefur ráðið samþykkt. Um er að ræða glæsileg hús og verður gaman að sjá þau rísa á næstu misserum. Í næsta nágrenni við Litlagerði eru þegar í boði fleiri góðar lóðir s.s. í Suðurgerði, Miðgerði og Austurgerð og einnig við Smáragötu.
Í Vesturbænum er nýbúið að úthluta öllum lóðunum í síðari nýja botnlanganum í Bessahrauni og margir aðrir spennandi kostir í næsta nágrenni s.s. við Áshamar, Búhamar, Dverghamar og víðar.
Lóðir í eldri hverfum.
Mikill áhugi hefur einnig verið á lóðum í grónum hverfum og hefur ráðið á síðustu mánuðum úthlutað ágætum fjölda þannig lóða til einstaklinga og verktaka. Þegar byggt er í eldri hverfi þarf að gæta sérstaklega samræmis og bera virðingu fyrir því umhverfi sem fyrir og gilda ákveðnar reglur þar um. Stór bygging rís nú á Baldurshaga og búið er að úthluta lóð fyrir fjölbýlishús við Hilmisgötu.
Eins og áður segir er að finna kort yfir lausar lóðir á vef Vestmannaeyjabæjar. Þétting byggðar er mikilvæg og verður götumyndin mun skemmtilegri þegar búið er að stoppa í götin sem svo má að orði koma.
Lóðir fyrir atvinnuhúsnæði.
Atvinnurekendur í Vestmannaeyjum hafa ekki látið sitt eftir liggja og þar má nefna mikla ásókn í lóðir á Eiðinu. Þar er nú að rísa glæsileg kæli- og frystigeymsla Vinnslustöðvarinnar og búið að úthluta stórri lóð fyrir vatnsverksmiðju á næstu lóð. Með þeim úthlutunum eru flestar lóðir á Eiðinu farnar en ef Stórskipahöfn norðan Eiðis verður að veruleika mun koma til meiri uppfylling þar sem þýðir aftur fleiri góðar lóðir sem og gáma og athafnasvæði. Sá möguleiki er sannarlega spennandi fyrir okkur og stórskipahöfn nauðsynleg fyrir Eyjar þegar til framtíðar er litið. Af öðrum málum má nefna, nýja landvinnslu VSV, umsókn Íslandspósts um lóð fyrir nýtt pósthús og lóðaumsókn Godthaab í Nöf. Þá hefur Ísfélagið möguleika á byggingu kæli- og frystigeymslu á lóð sinni og bjórverksmiðja er í burðarliðnum.
Næstu skref.
Umhverfis- og skipulagsráð hefur þegar sett af stað grunnvinnu við skipulagningu íbúðarhúsalóða við Hraunveg, sunnan Hraunbúða og vestan við Hrauntún. Það er gert ráð fyrir einbýlishúsum, parhúsum og raðhúsum. Svæðið er gríðarlega spennandi í ljósi nálægðar við Hamarsskóla, Kirkjugerði og Hraunbúðir. Einnig hafa komið fyrirspurnir um einbýlishúsalóðir með möguleika á að hafa lítið hesthús á lóðinni eins og víða er verið að bjóða upp á. Það mál er í skoðum hjá ráðinu og standa vonir okkar til þess að við náum að skipuleggja og bjóða þess háttar svæði á næstu árum.
Annað spennandi svæði sem nefna má er t.d. malarvöllurinn við Löngulág. Með tilkomu nýs íþróttahúss við Hásteinsvöll þar sem m.a. verður vetraræfingaaðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir minnkar þörfin fyrir malarvöllinn. Svæðið er mjög mikilvægt og ekki síður dýrmætt. Þar má sjá fyrir sér sambland af íbúðarbyggð, verslun og þjónustu sem og svæði fyrir léttan iðnað. Það gildir um þetta svæði sem og önnur að gæta þarf að umhverfinu og bera virðingu fyrir því sem fyrir er í næsta nágrenni. Tryggja þarf þeim athöfnum og viðburðum sem í dag fara fram á svæðinu annan nýjan og s.s. íþróttaiðkun sem og árlega þrettándagleði ÍBV.
Að lokum.
Kjörnir fulltrúar eiga að leggja línunar og ákveða leikreglurnar í samræmi við gildandi lög og reglur. Ef farið er að þeim leikreglum er ekki síður mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu ekki mikið að þvælast fyrir einkaframtakinu heldur leyfa því að blómstra. Einungis þannig fáum við þann bæ sem við viljum búa í, þann bæjarbrag við eigum skilið og það mannlíf sem er best.
Gunnlaugur Grettisson
formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar.
27.2.2008 | 18:25
Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta?
Í dag sat ég fund þar sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi fjármálaráðherra færði útgerðamönnum í Vestmannaeyjum þær fréttir frá sjávarútvegsráðherra að loðnuveiðibann hefði verið numið úr gildi. Það liggur því fyrir að heimilað verður að veiða um 60.000 tonn í viðbót. Auðvitað er verulegur skaði þegar skeður en í öllu falli verður áfallið minna en það hefði annars orðið. Skipin eru nú ýmist komin á miðin eða á leið þangað. Myndin hér til hliðar sýnir staðsetningu skipanna eins og hún er núna kl. 18.00.
Eftir stendur að sitt sýnist hverjum um þess ákvörðun. Til eru þeir sem vilja friða loðnuna til að þorskurinn hafi meira að éta. Þar sem fiskifræði er ekki mín sérgrein þá leitaði ég til fiskifræðings til að leggja mat á þessa skoðun. Ég hafði því samband við Jón Kristjánsson fiskifræðing og samþykkti hann að gerast gestapenni hér hjá mér.
Grein sú sem hér fer á eftir er hans svar við þessari umræðu. Á það skal minnt að gestapennar sjálfir eru ábyrgir fyrir skrifum sínum og ber ekki endilega að setja jafnaðarmerki milli skoðana þeirra og minna.
Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta? - Svarið er nei.
Gestapenni: Jón Kristjánsson, fiskifræðingur
Jón Kristjánsson skrifar um fæðuþörf þorskstofnsins og loðnu: "Eina ráðið til að bæta vöxt og holdafar þorsksins er að veiða meira af honum. Með því að veiða meiri þorsk er unnt að veiða meira af loðnu."
MIKIÐ er rætt og ritað um að friða þurfi loðnu til þess að þorskurinn fái meira að éta, en hann er nú með horaðasta móti, þyngd eftir aldri í sögulegu lágmarki að sögn Hafró. Það þýðir að hann hefur gengið nærri fæðudýrum sínum og vantar meiri mat. Ekki er að undra þó nýliðun bregðist því væntanlega étur þorskurinn eigin afkvæmi án þess að spyrja um skyldleikann. En borgar sig að friða loðnu?
Reynslan úr fiskeldi sýnir að fóðurstuðull loðnu er um 7 í lokaðri kví. Til þess að þyngjast um eitt kg, þarf þorskur í kví að éta 7 kg af loðnu. Í náttúrunni, þar sem þorskurinn þarf að eyða orku í að eltast við bráðina, má reikna með hærri fóðurstuðli, segjum 10.
Reikna verður með að þorskurinn geti ekki nýtt sér alla þá loðnu sem við veiðum ekki. Gefum okkur 60% nýtingu því það eru einnig aðrar fisktegundir að eltast við loðnuna.
Af þyngdaraukningunni sem verður á þorski er leyfilegt að veiða 25% og af því sem veitt er fer 20% í slóg og innvols. Lítur þá dæmið svona út miðað við 1.000 kg af loðnu:
1.000 kg óveidd loðna x 0,6 (nýting) x 0,10 (fóðurstuðull) x 0,25 (aflaregla) x 0,8 (slægður fiskur) = 12 kg seljanlegur þorskur.
Hlutfallið loðna/ þorskur, miðað við þessar forsendur, er um 100, því þarf þorskur að vera 100 sinnum verðmætari en loðna til að aðgerðin beri sig. Víðs fjarri er að svo sé.
Bent hefur verið á að aðalfæða þorsksins sé loðna og hann sé algjörlega háður henni. En hvaðan kemur loðnan? Hver stjórnar henni?
Loðnan hrygnir við Suður- og Vesturströndina að vori og seiðin dreifast með straumi í kring um land. Ungloðan heldur sig á landgrunninu fyrstu tvö sumrin, gengur þá norður í höf og kemur aftur til hrygningar eftir rúmt ár. Það er sú loðna sem flotinn okkar veiðir en veiðar á ókynþroska ungloðnu heyra nú orðið sögunni til.
Loðnan er mikilvægust þorskinum sem fæða á meðan hún er að alast upp á grunnslóðinni. Stóra hrygningarloðnan, sú sem ber uppi loðnuaflann, nýtist þorskinum hins vegar aðeins þann stutta tíma sem hún gengur til hrygningar og þá aðeins þar sem hún fer um. Oft étur þorskurinn yfir sig og því hlýtur hún að nýtast fremur illa til vaxtar auk þess sem þetta gerist á kaldasta tíma ársins.
Sú staðreynd að þorskurinn nærist á uppvaxandi loðnu gerir það að verkum að það er í raun hann sem stjórnar því með áti sínu hve mikið af loðnu gengur norður í höf til að fita sig og koma síðan aftur til hrygningar við Suðurland. Þannig hefur þorskurinn sjálfur mikil áhrif á loðnustofninn.
Nær alltaf er því haldið fram að þorskur sé smár vegna þess að það vanti loðnu. Er það ekki fremur svo að hlutfallslega stór þorskstofn sé horaður vegna þess að hann hafi gengið of nærri loðnunni, og minnkað þannig stofninn?
Svartfugl lifir líka á loðnu og sandsíli og horaður svartfugl er merki um vöntun þessara tegunda. Á sama svæði er horaður þorskur! Hver er sökudólgurinn?
Þorskveiðar fyrir Norðurlandi hafa verið í lágmarki í tvo áratugi. Í kvótakerfi með takmörkuðum þorskafla geta menn ekki stundað veiðar á svæðum sem gefa nær eingöngu þorsk. Þorskkvótinn er notaður sem aðgangur að öðrum tegundum. Vegna lítils veiðiálags hefur þorskurinn óáreittur fengið að éta upp rækjuna, loðnuna og sandsílið e.t.v. líka.
Þegar svo ýsustofninn stækkaði bættist honum öflugur liðsauki, en ýsan étur loðnuna sem er ofan í sandinum, hrogn og seiði.
Hafa ber í huga að fæðuþörf þorskstofnsins er af stærðargráðunni 1.000 (þúsund) tonn á klukkutímann allan ársins hring. Eina ráðið til að bæta vöxt og holdafar þorsksins er að veiða meira af honum. Smávegis loðnugjöf býr bara til fleiri svanga þorska. Með því að veiða meiri þorsk er unnt að veiða meira af loðnu. Tvöfaldur bónus og svartfugl í kaupbæti.
Nú sem aldrei fyrr þarf að ræða vistfræði, samhengið í náttúrunni, og hætta að einblína á ofveiði. Eins þarf að gera tilraunir. Hvernig væri að gefa þorskveiðar frjálsar um tíma á stórum svæðum fyrir Norðurlandi og sjá hvað gerist?
Höfundur er fiskifræðingur og starfar sjálfstætt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)