Sósíalísk afskipti af kapítalisma - Gestapenni

23fef80aa3f0b063d21a0a6bb6f7631f_tryggviFall Kapítalismanns hefur orðið vinstrimönnum tíðrætt seinustu vikur.  Upplifun þeirra hefur verið sú að rétt eins og hrun kommúnismans var samspyrt við hrun Berlínarmúrsins þá sé hrun kapítalismans samspyrt við hrun hins íslenska bankakerfis.  Þessu er ég ekki sammála en tel þetta mjög skiljanlegt að vinstrimenn leiti sóknarfæra í þessari samtíma söguskýringu.  Minn góði vinur og félagi Tryggvi Hjaltason (sjá mynd hér til hliðar) fjallar um þetta í greininni hér að neðan og hefur þar með á ný gerst gestapenni hér á síðunni minni.  Eins og fyrr eru öll skrif gestapenna á þeirra eigin ábyrgð og skoðanir þeirra þurfa ekki endilega að endurspeggla mínar skoðanir (þó að oft sé þó svo).

Hvað gerðist?

Það eru margir sem hrista einfaldlega hausinn yfir ástandinu í landinu um þessar mundir. Á innan við hálfs árs tímabili hefur öllu verið snúið á haus á landinu okkar sem í ágúst var besta land í heimi, algjörlega ósnertanlegt. Eins og gefur að skilja er mikið af reiðu fólki og hvað gerir reitt fólk þegar það vill ekki áfellast sjálft sig eða skilur ekki alveg hvernig er komið fyrir því? Jú það finnur sökudólg.

Eitt af fórnarlömbum þessa sökudólgaleitar hefur verið kapítalisminn. Ég verð að viðurkenna að fyrir hálfu ári, ef einhver hefði sagt við mig að ég ætti eftir að setjast niður og skrifa varnaðarorð fyrir kapítalismann þá hefði ég nú líklegast gefið lítið fyrir það. En ég hef sterka réttlætiskennd og ég get ekki tekið undir það að kapítalískri stefnu sé um að kenna hvernig er komið fyrir Íslandi. Þvert á móti tel ég að sósíalísk afskipti af kapítalisma hafi heldur valdið þeirri kreppu sem nú ríkir á Íslandi.

Í lok áttunda áratugarins var fyrirtækjalögum breytt m.a. til þess að reyna að koma í veg fyrir fjandsamlegar yfirtökur sem þóttu of tíðar á þeim tíma. Þetta leiddi til þess að starfsmenn fjármálastofnanna, og þá sérstaklega stjórnir þeirra, fengu of mikil völd á kostnað hluthafa. Þetta er mjög andstætt kjarna kapítalismans. Yfirmenn fjármálastofnanna gátu nú í skjóli þessara laga nánast ráðið eigin launum og forsenda kapítalismans um að ef þú stendur þig vel þá er þér verðlaunað, var brotin. Þessi þróun leiddi svo til þess að stjórnendur höfðu svokallaðar gullnar fallhlífar, þ.e. að það skipti í raun ekki máli hvernig þeir stóðu sig, þeir myndu alltaf fá borgað og ef þeir þyrftu að hætta þá myndu þeir fá væna starfslokasamninga. Með þessu var rifinn kjarninn úr kapítalískri hugsun um að þú tekur áhættu með það sem þú hefur milli handanna og hagnast í samræmi við það. Nú er ástandið orðið þannig að þú tekur áhættu með það sem aðrir eiga og það skiptir í raun ekki máli hvort áhættan borgi sig fyrir þig.
 
Þetta er nákvæmlega það sem virðist hafa gerst meðal íslenskra fjármálafyrirtækja sem tóku veð, lán, endurfjármögnuðu og Guð veit hvað út á hlutafé almennings. Þá var einnig lofað áhættulausum/litlum fjárfestingum sbr. peningamarkaðsbréf sem var svo braskað með (sem jók áhættuna stórlega). ,,Áhættulausar” fjárfestingar með mikla gróðamöguleika er ekki sú hugmynd sem kapítalisminn byggir á. Til að toppa þetta virtist það hafa verið stundað að fella niður eigin skuldir meðal starfsmanna fjármálastofnanna, og þá væntanlega á kostnað hluthafa. Þetta á upptök sín í afskipti ríkisins með lagasetningum er varða fjármálageirann. Í sögulegum skilning má svo benda á það að sjaldan eða aldrei hafa ríkis-afskipti borið góðan árangur í kapítalískum kerfum. Það sem gerðist á Íslandi má miklu frekar kalla siðlausa eignaupptöku auðmanna á kostnað kapítalískra fjárfesta. Þá mætti einnig nefna peningaprentun yfirvalda út um allan heim sem skekkti verðmyndun á fjármagni og breytti þannig óeðlilega þ.e. gegn frumstefnu kapítalismans þeim aðstæðum sem voru í peningaheiminum.

Hver er þáttur Evrópusambandsins í hruni bankanna?

Ég held að fáir munu mótmæla því að Evrópusambandið (ESB) er eitt stærsta miðstýringarkerfi í heiminum í dag og verður miðstýrðara með hverju árinu sem það er starfandi.

Að mínu mati er ekki hægt að segja annað en að Evrópusambandið beri töluverða ábyrgð erlendra afla á bankahruni íslendinga (hér er ég ekki að reyna að færa ábyrgðina frá bönkunum, einungis benda á fleiri uppsprettur). Þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þá var það gert á þeim forsendum að fyrirtæki (íslensk sem og erlend) gætu starfað innan svæðisins óháð skráningarstað. Það er ekki hægt að segja annað en að íslensku bankarnir hafi nýtt sér þetta og útrásin fór á fullt seinna meir undir þessum væntingum. Bankarnir urðu hins vegar svo stórir að íslenski Seðlabankinn gat alls ekki verið þrautavaralánveitandi þeirra, a.m.k. ekki óstuddur. Þess vegna hefði mátt búast við því, gefið það að Ísland var hluti af EES að aðrir EES seðlabankar gætu aðstoðað ef á þyrfti. Af hverju ekki? Það gerðu þeir hinsvegar ekki (og í fullri sanngirni bar þeim ekki skylda til) en það er athyglisvert sérstaklega í því ljósi að íslensku bankarnir urðu aldrei gjaldþrota, heldur hrundu þeir vegna lausafjárskorts annars vegar og árásar frá Bretum (sem orsakaði lausafjárskort) hinsvegar. Ekki nóg með það heldur fengu Bretar aðstoð Evrópusambandsins til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að taka á sig skuldbindingar vegna svokallaðra Ice Save reikninga Landsbankans sem íslenska ríkið hafði hvorki stofnað til, né bar ábyrgð á. Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun og starfar eftir reglum EES og ber ábyrgð á slíkum skuldbindingum. Þetta þýðir blákalt að Evrópusambandið gerðist utanaðkomandi þrýstivald fyrir Breta gegn Íslandi. Þá má einnig benda á að regluverk ESB var meingallað í þessu samhengi og reiknaði ekki með hruni en hafði engu að síður mikil afskipti af kerfinu. Slíkt, ásamt því að vera léleg aðferðafræði stangast einnig algerlega á við kapítalíska stjórnun.

Að öllu þessu sögðu þá skil ég ekki þá Íslendinga sem nú vilja, eftir allt þetta, ganga á fund ESB og ræða málin. Burtséð frá hvað stefnur eins og sjávarútvegstefna ESB kann að fara með landið. Ísland þarf ekki aðildarviðræður til að skilja hvað er í raun í boði.

Persónulega þá finnst mér að íslendingar eigi að hafa meira stolt og trú á sjálfum sér en svo að ætla að skríða í drullunni til þess afls sem svo hunsaði okkur og réðist síðan á okkur liggjandi í kjölfarið.

Virðing

Tryggvi Hjaltason


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voðalegt bull er þetta.Er ekki hægt að fá að sjá eitthvað viturlegra.

Árni Björn Guðjónsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 17:53

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Snilldargrein!

Benedikt Halldórsson, 21.2.2009 kl. 18:58

3 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Já þetta er sko snilldargrein en ætli einhver af þessum fjölmiðlum vilji birta þetta svo að öll þjóðin fái að lesa þetta.

Bestu kveðjur

Marteinn Unnar Heiðarsson, 21.2.2009 kl. 21:30

4 identicon

Þetta er nú súrt og tómt bull takk fyrir

kristinn (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 21:32

5 Smámynd: Offari

Þetta er góð grein en greinilegt að ekki eru allir sammála. Þó tel ég að of hátt íbúðarverð hafi komið heimskreppuni á stað. Stærstur hluti tekna heimilana fór í að borga af íbúðarlánum og því enginn afgangur til að kaupa hlutabréf eða iðnaðarvörur. Þá stöðvaðist keðjan.

Offari, 21.2.2009 kl. 23:45

6 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

"Þetta á upptök sín í afskipti ríkisins með lagasetningum er varða fjármálageirann."

Höfundur segist hafa ríka réttlætiskennd en það tel ég mig einnig hafa og því langar mig aðeins að leggja hér orð í belg. Það sem höfundur er að segja er að í aðalatriðum sé það vegna afskipta ríkisins að einstaklingar hafi misnotað aðstöðu sína og: "ráðið eigin launum ... lofað áhættulausum/litlum fjárfestingum sbr. peningamarkaðsbréf sem var svo braskað með"

Hann heldur því fram að: "að sósíalísk afskipti af kapítalisma hafi heldur valdið þeirri kreppu sem nú ríkir á Íslandi". 

Spurning hvort hægt sé að elta ólar við slíkar mótsagnir en ég ætla að reyna - vegna þess að ég hef sterka réttlætiskennd og þoli illa, sérstaklega núna þegar við verðum að vinna okkur út úr alvarlegum vanda, að verið sé að ruglast með hugtök. 

"Í lok áttunda áratugarins var fyrirtækjalögum breytt m.a. til þess að reyna að koma í veg fyrir fjandsamlegar yfirtökur sem þóttu of tíðar á þeim tíma. Þetta leiddi til þess að starfsmenn fjármálastofnanna, og þá sérstaklega stjórnir þeirra, fengu of mikil völd á kostnað hluthafa. Þetta er mjög andstætt kjarna kapítalismans."

Það sem hér er að í röksemdafærslunni er að í upphafi hafi skortur á lagasetningu (þ.e. skortur á "sósíalískri afskiptasemi) valdið því að starfsmenn fjármálastofnanna (sem voru, að mestu, ríkisrekin alveg til loka tíunda áratugarins) hafi haft minni völd í hlutfalli við hluthafa (almenning?) en eftir að lögum var breytt í lok áttunda áratugarins (hvaða lögum?).

Ég veit það ekki en ég hef haft það svona á tilfinningunni að stjórnir fjármálafyrirtækja hafi fyrst fengið óhóflega mikil völd eftir að fjármálafyrirtækin voru einkavædd og þá á kostnað almennra hlutafjáreigenda og það sé svona almennt talið að skortur á eftirliti og almennum lagaramma (þ.e. sósíalískum afskiptum[sic]) hafi orsakað það sem illa fór hvað Ísland varðar sérstaklega. Það má svo deila um hvort þessi völd hafi verið eins mikil og ætla mætti eins og dómur héraðsdóms í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn stjórn Glitnis sýnir.

Má spyrja höfund hvort lagasetning og framfylgni laga almennt séu ,að hans áliti, sósíalísk afskipti?

Annars er þessi grein full af mótsögnum og rökleysum. Ég get, hins vegar, frekar tekið undir seinni hlutann varðandi ESB.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 22.2.2009 kl. 07:27

7 identicon

Ef þetta er standardinn sem pólitísk umræða er á í Vestmannaeyjum þá er ég hissa. Þetta er eitthvert versta samansafn af ósannindum og órökstuddum fullyrðingum sem ég hef lengi séð.

Til að fella þessa grein er í raun nóg að spyrja einsog Þór Þórunnarson, hér að ofan: Hvaða lög er verið að vísa í að sett hafi verið á áttunda áratugnum sem koma vitleysunni af stað? Af hverju féllu bankarnir í Bretlandi? En í Ameríku? 

Höfundur talar um "siðlausa eignaupptöku auðmanna á kostnað kapítalískra fjárfesta." Hvað er kapítalískur fjárfestir

Ennfremur er billegar fullyrðingar á borð við þessa: " Í sögulegum skilning má svo benda á það að sjaldan eða aldrei hafa ríkis-afskipti borið góðan árangur í kapítalískum kerfum."

Til að svona fullyrðingar hafi eitthvert gildi, þyrfti að fá umfjöllun um hið gagnstæða: Hvernig sér greinarhöfundur fyrir sér "kapítalískt kerfi" án ríkisafskipta? Er það einhvers staðar til? Hefur kapítalískt kerfi virkað einhvers staðar vel? 

Grein sem er bara röð af órökstuddum fullyrðingum, hjálpar ekki umræðunni.

Doddi D (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 10:12

8 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Skiptir nokkru máli hvað isminn heitir? Er það ekki þegar uppi er staðið almenn skynsemi sem kemur fólki best? Fólk í ákveðnum geirum hreinlega missti sig og dró aðra af stað með sér - allri almennri skynsemi var á endanum ýtt út í vegarkant og þá byrjaði fjörið, sem ekki sér fyrir endann á, það sem verra er að þeir sem voru skynsamir lenda í súpunni líka. Það vantar allt regluverk til að verja það fólk því blæðir jafnt og öðrum. Það þurfa að vera lög og reglur um hlutina það er á hreinu, rétt eins og í knattspyrnuleik.

Gísli Foster Hjartarson, 22.2.2009 kl. 15:37

9 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

Þór og Doddi:

Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar:

Ég a þarna við svokölluð "Corporate Governance" lagasetningar. Þið hlaupið svolítið í kringum punktin og kjarnan sem ég set fram finnst mér, það má vera rangt, en mér finnst ég lesa það úr athugasemdum ykkar :

Ég sagði það ekki að vegna ríkis afskipta fóru menn að svindla og taka: áhersla mín í þessari grein er að benda á það að það er ekki hægt að kenna kapítalismanum um alveg eins og (það sem mér finnst vera það sem þú ert að benda á) að það er ekki hægt að kenna regluverki um.

Auðvitað er kjarninn í þessu eins og Gísli bendir á að græðgi mannfólksins eins og svo oft áður var það sem felldi kerfið. Ég dreg það ekki í efa. 

En út frá réttlætiskennd minni vildi ég benda á að Kapítalisminn sem kerfi var ekki að virka eins og hann á að virka vegna ríkisafskipta, sem teljast sósíalísk (í minni bók, það er kanski umdeilanlegt) og þá finnst mér að fólk verði að skilja nákvæmlega hvaða kerfi og hvernig það kerfi varð það sem það er áður en það tekur eina hugmyndafræði og fellir hana með kerfinu.

Doddi: þú spyrð svo hvaða Kapítalísku fjárfesta ég hafi verið að ræða um, þá átti ég við þá almennu hlutafjáreigendur sem keyptu hlutabréf og bjuggust væntanlega (ég býst við því) að það væri gert á forsendu kapítalískra markaðsafla, en voru svo í raun svikin af spilltu kerfi sem var ekki það sem það leit út fyrir að vera. m.a. vegna ríkisafskipta og það sem ég tel sköddunnar á kerfinu.

Ég þakka ykkur fyrir að hafa lesið í gegnum greinina og geta haldið athugasemdum ykkar málefnalegum. Ég vona að ég hafi geta svarað fyrirspurnum ykkar.

Virðing

Tryggvi

Tryggvi Hjaltason, 23.2.2009 kl. 02:24

10 identicon

Já hérna hér. Það er alveg makalaust hvar sumir geyma höfuðið.!

Það er frumskylda að þegar menn svo draga höfuðið út og opna munnin að það komi eitthvað annað út úr því en bara heitt loft.

 "sósíalísk afskipti af kapítalisma hafi heldur valdið þeirri kreppu sem nú ríkir á Íslandi." ...magnaðasta söguskýringin til þessa.! Það hljóta að hafa verið margar andvökunæturnar sem þurfti til að kreista fram svona hugmyndaauðgi.

En þetta eru skiljanleg viðbrögð að öllu leyti. Það er sárt þegar hugmyndaheimur einstaklinga hrynur, og blekkingin kraumar eins og heitir hverir allt í kring þá er best að benda eitthvað annað, helst með bundið fyrir augun og tappa í eyrunum. see no evil, hear no evil.!

"þetta er var veginum að kenna, hann var ekki nógu breiður og beinn sagði ofurölvi ökumaðurinn sem ók útaf á ofsahraða og drap alla farþegana, svo var löggan líka að reyna að ná mér.! Þannig að mín hegðun og gjörðir eru þessu alls óviðkomandi."

Jæja, okkur er þó viðgbjargandi á meðan þessir kapítalistar eru að naga staurinn.

Lifið heil

Guðmundur Arngrímsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband