Til varnar stjórnmálamönnum

3012706615_cdff6c18c8Ímynd stjórnmálamannsins – og þá sérstaklega alþingismanna – er í dag ekki eingöngu neikvæð, hún er skaðleg fyrir lýðræðið. 

Stjórnmálamenn eru séðir sem óheiðarlegir einfeldningar sem nota öll tækifæri til að skara eld að eigin köku.  Þeir eru taldir hafa lítið vit á fjármálum og stjórnun almennt.  Þeir eru ekki taldir bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti við ákvörðunartöku heldur litið á þá sem máttlausar strengjabrúður í höndum auðmanna eða stjórnmálaflokka.  Verst af öllu er svo ef þessu “vanhæfa” fólki dettur í hug að ætlast til að fá greitt fyrir störf sín.

Persónulegt líf þeirra er gjarnan dregið inn í sviðsljósið og engu eirt.  Fjölmiðlar hafa enda “license to kill” (rétt eins og James Bond) þegar að stjórnmálamönnum kemur.  Birtar eru kauðalegar myndir af þeim og þeim velt upp úr hverju því atriði sem hugsanlegt er að gera tortryggilegt.  Verst af öllu er ef stjórnmálamaður skiptir um skoðun og gildir þá einu þótt viðkomandi hafi verið viðloðandi stjórnmál í tugi ára.  Hann skal aldrei komast upp með að halda einhverju öðru fram en hann hefur áður gert.  Slíkt er þá merki um vingulshátt, ef ekki skítlegt eðli.

Þetta verður svo til þess að mörgu góðu fólki í öllum flokkum hrís hugur við pólitískri þátttöku.  Þar með er lýðræðið í beinni hættu.

Eitt af því sem oft er gagnrýnt er ákvarðanafælni stjórnmálamanna.

Ég var nýlega minntur á viðtal við Davíð Oddsson í heilbrigðismálum.  Þar sagði hann:
,,Vandamál stjórnmálamanns er að hann þarf að taka ákvarðanir þegar hann hefur 20 til 30% af æskilegum upplýsingum til staðar.  En svo getur sagnfræðingur gagnrýnt viðkomandi harðlega þegar hann löngu síðar hefur sjálfur 70 til 80% upplýsinganna fyrir framan sig.  Ef stjórnmálamaður ætlar ekkert að aðhafast fyrr en hann hefur sama upplýsingamagn og sagnfræðingur verður honum ekki mikið úr verki."

Ég kannast sjálfur við flesta þeirra sem sitja á þingi og sumir þingmenn eru góðir vinir mínir og kunningjar.  Í viðbót þekki ég hundruði sveitarstjórnarmanna um allt land.  Það sem allt þetta fólk á sameignlegt, í öllum flokkum, er samfélagsleg ábyrgð.  Upp til hópa er þetta vinnusamt og strangheiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita.  Það vinnur undir miklu álagi og er meðvitað um ábyrgð sína.

Ég dáist af öllu því fólki sem nú er að bjóða sig fram í prófkjörum fyrir flokkana því án þeirra myndi lýðræðið ekki virka.

Ég hvet fólk til að láta af neikvæðri umræðu um persónur þeirra sem gefa sig í þátttöku á sviði stjórnmála.  Málefni er nauðsynlegt að ræða og þótt ég virði skoðanir allra þá þykir mér lítið til sumra málefna koma.  Ég vil veiða hvali, og þykir lítið til þess koma þegar einhver vill friða þessi dýr.  Ég vil ekki ganga í ESB og sé ekki þá Evrópudýrð sem sumir sjá.  Ég er á móti hátekjuskatti og tel þá hafa á röngu að standa sem básúna um slíkt.   Ég er algerlega á móti eignaupptöku bæði í sjávarútvegi og víðar og óttast afleiðingar þeirrar aðferðarfræði.  Ég dáist hinsvegar af fólkinu á bak við allir þessar skoðanirnar og útiloka ekki að ég hafi á röngu að standa í einhverjum málefnum.  Ef svo er þá áskil ég mér rétt til að skipta um skoðun.

Ég held að það sé við hæfi að enda þennan pistil á einni af uppáhalds tilvitnunum mínum.  ,,Frelsi er ekki til neins ef það felur ekki í sér frelsi til að gera mistök” (Mohands Ghandi).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan upplýsandi pistil.

EE elle

EE (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 21:01

2 Smámynd: Sigurður Rúnar Magnússon

Nú heggur sá er hlífa skildi.  Við kjósendur verðum þá að gera þá kröfu til ykkar sjálfstæðismanna, að í framboði fyrir flokkinn ykkar sé fólk, sem þjóðin treystir, en ekki dæmdir menn og viðrini, einsog Árni Johnsen og Halldór stúdent Blöndal.

Sigurður Rúnar Magnússon, 18.2.2009 kl. 21:06

3 Smámynd: Elliði Vignisson

Sigurður Rúnar minn kæri

Þá tvo stjórnmálamenn sem þú nefnir þarna þekki ég báða vel og báðir eru þeir hinir vænstu menn.  Allir hafa rétt á að bjóða sig fram og svo er það þjóðin sem velur.  Ekkert réttlætir orðaleppa eins og "viðrini" og er slíkt fyrir neðan virðingu þeirra sem vilja láta taka sig alvarlega.  Það var nákvæmlega þetta sem ég var að hvetja til að látið yrði af.  Þú átt það svo bara við þína samvisku hvað þú kýst og hvaða orðaleppa þér finnst sæmandi að nota um samborgara.

Elliði Vignisson, 18.2.2009 kl. 21:22

4 identicon

  • Upp til hópa er þetta vinnusamt og strangheiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita.  Það vinnur undir miklu álagi og er meðvitað um ábyrgð sína.

 Vinnusemi, SRANGheiðarleiki, vamm...

Þegar folk gefur sig að stjornmalum er það vegna þess að það vill hafa ahrif a hvernig samfelag við byggjum. Eitthvað gerist a leiðinni. Folk sem við sjaum i dag inni a Alþingi rifast um:

  • hver samdi drög að frumvarpi
  • hvort afengi þurfi að vera i matvöruverslunum
  • hvort einhver eigi rett a embætti forseta Alþingis til fjögurra ara
  • einkavinavæðing
  • skyldfolki komið fyrir i eftirsottum stöðum
  • o.s.m.m.fl.

Þetta sama folk hafði engar ahyggjur af að þjoðin var rænd um habjartan dag A ÞEIRRA VAKT. Engin rannsokn farin i gang, engin handtaka, fyrrum stjornendur fa að "laga til", fjarframlög til efnahagsbrotadeildar skert! en aukin framlög til oeirðalögreglu! Varðhundur BB buinn að panta 5 brynvarða oeirðabila fra Danmörku.  Varaþingkona stigur i pontu og skammar þingheim fyrir sandkassaleik og uppsker aðhlatur alla vega tveggja sjalfstæðiskvenna. Glöggt er gests augað. Þetta ser almenningur lika en finnur sig vanmattugan gagnvart rikjandi astandi.

A meðan þetta astand varir heldur umræðan afram að vera neikvæð, ekki af þvi að folk se slæmt heldur vegna þess að þvi likar ekki það sem fulltruar þeirra hafast/hafast ekki að.

Kolla (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 21:29

5 Smámynd: Elliði Vignisson

Sæl Kolla

Reiði er eðlileg og öllum erum við ósátt við hvernig staðan er núna.  Þingmenn eru það líka.  Margir þeirra axla nú ábyrgð með því að undirgangast prófkjör og síðan kosningar.  Sumir velja að hætta og vissulega er það eitt form af því að axla ábyrgð.  Í kosningum fær fólk í öllum tilvikum tækifæri til að velja upp á nýtt.  Það kýs þá þann flokk (eða jafnvel einstaklinga) sem það treystir.  Sjálfur aðhyllist ég hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og tel hana besta til að byggja upp sanngjarnt samfélag.  Ég er ósáttur við margt þegar kemur að því hvernig þessi hugmyndafræði hefur verið færð í "praktík" seinustu ár og mun gera það sem ég get til að slík mistök verði ekki endurtekin.  Sjálfstæðisflokkurinn þarf að axla ábyrgð og mistök voru gerð.  Það er alveg klárt í mínum huga. 

Deilur þær sem þú nefnir á þingi eru ekki nýjar af nálinni.  Það er samt dáldið kómískt að heyra núverandi ríkisstjórn (og stuðningsmenn hennar) kvarta yfir því að ekki sé vinnufriður fyrir dægurþrasi.  Þetta er jú sama fólkið og ítrekað hefur beitt málþófi til að tefja fyrir störfum þingsins.  Þetta er svona álíka kómískt og að mótmælendur skuli hafa horfið eins og dögg fyrir sólu þegar VG komst í ríkisstjórn.

Elliði Vignisson, 18.2.2009 kl. 21:45

6 identicon

Sæll

Ekki ætla eg að afellast þig fyrir að aðhyllast stefnu Sjalfstæðisflokksins en að kjosa flokkinn sem kom okkur i aðstöðu sem er oþekkt i 1100 ara sögu okkar, það er annað mal.

Mer finnst að þessi flokkur eigi að sitja hja i eina umferð (þ.e. ekki bjoða fram i næstu kosningum). Fordæmið er fra Þyskalandi, þar sem flokkur var bannaður til eilifðarnons vegna þess að hann setti þjoð sina og riki a hvolf. Eg er að tala um eina umferð, það væri að syna abyrgð fyrst þeir sögðu ekki af ser strax þegar bankarnir og efnahagslif þjoðarinnar for um koll fyrir þeirra oraðsiu.

Motmælin eru ekki hætt, þott þau seu fyrirferðarminni nu. Það er ekkert skrytið við að þau hafi minnkað þegar VG settist i stjorn. VG hafði lyst ymsu yfir sem þoknaðist reiðum almenningi, svo sem að standa vörð um heimili og heilbrigðisþjonustu að eg tali ekki um vilja þeirra til að elta uppi gjörningsmenn miljarðahvarfsins.

Við skulum ekki gleyma þvi að hrunið i haust voru ekki natturuhamfarir, heldur afleiðing glæpsamlegs athæfis af manna völdum.

Lifðu heill!

Kolla (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 22:15

7 identicon

Ímynd er eitthvað sem er áunnið, ef hún er neikvæð þá hefur sá sem er með hina neikvæðu ímynd skapað sér hana, hún verður ekki keypt með glansmyndum.

Þegar fólki er haldið í óvissu um stöðu mál með afar loðnu pólitísku málfari, sem sett er fram á hrokafullan hátt (jafnvel staðið að lygi, meðvitaðri eða ómeðvitaðri) þá verður það reitt því það kann að lesa á milli línanna þó fæstir hafi gert mikið með það síðustu ár, spilling innan stjórnkerfisins er ekki ný af nálinni eða eitthvað sem fólk vissi ekki um, það var bara ekki talað mikið um hana opinberlega, hrunið losaði um málbeinið.

Ákveðnar persónur á alþingi eða makar þeirra hafa tekið þátt í því sem almenningur telur siðlaust (ætti með réttu að vera ólöglegt) og því missir almenningur trú á þeim persónum og ekker óeðlilegt við það að ræða mál þeirra persóna þó að þau séu neikvæð.

Mér þykir þú sjálfur, í athugasemdum, vega ómaklega að fólki sem var að mótmæla kröftulega fyrir utan alþingishúsið eftir að þing kom saman að loknu jólafríi og ætlaði að fara í eitthvert karp eins og venjulega þegar þjóðin stendur frammi fyrir gjaldþroti, þú segir það (að sjálfsögðu óbeint) vera vinstri græna.  Ég veit ekki hvort sjálfstæðismönnum líður betur ef þeir geta talið sér trú um að eingöngu vinstri grænir hafi verið að mótmæla, en það vita allir sem voru að mótmæla að þeir vildu fráfarandi stjórn burt, hún var búin að fá tækifæri í 3 mánuði, nú er fólk tilbúið að gefa andrými fyrir nýja stjórn, henni verður líka mótmælt geri hún ekkert eða upplýsi ekkert.

Enn virðast sjálfstæðismenn ekki átta sig á að það þýðir ekkert að vera í karpi eins og venjulega, jafnvel þó að þeir séu komnir frá völdum, það eru mikilvægari mál sem þarf að leysa, hverskonar bull er það að eyða hálfum degi í að röfla um það hver stakk upp á hinu eða þessu, ef það er gott þá geta væntanlega allir þingmenn samþykkt það.  

Ég veit að málþófi hefur verið beitt af vinstri mönnum, en er nauðsyn að beita því núna á ögurstundu bara þessvegna ?, er ekki betra að leysa málin án hægri vinstri bullsins eða valdabaráttu flokka.

Þegar þjóðin sér þingmenn vinna saman að því að leysa mál skynsamlega er ég viss um að ímynd þeirra mun breitast hratt til hins betra, ég held að þú þurfir engar áhyggjur að hafa af því.

Atli (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 01:21

8 Smámynd: Elliði Vignisson

Sæll Atli

Um flest get ég verið sammál þér.  Ég get þó ekki verið sammál því ég vegi ómaklega að fólki sem mótmælti fyrrverandi ríkisstjórn.  Sjálfur studdi ég ekki þá ríkisstjórn og var þeim degi fegnastur þegar hún hætti störfum.  Ég reyndar styð ekki heldur núverandi ríkisstjórn þó ég voni að henni takist vel upp.

Staðreyndin er engu að síður sú að landi og þjóð var ekki greiði gerður með því að mynda þessi minnihlutastjórn, þótt vissulega virðist það hafa skilað sér í bættu gengi minna manna (sjálfstæðisflokksins).  Fyrrverandi ríkisstjórn hefði átt að sýna þann manndóm að sitja fram á vor.

Ég er einnig hugsi yfir þeim greinamun sem þú gerir á löglegt og siðlaust.  Ertu ekki að líta hjá því að lögin byggja fyrst og fremst á almennu siðferði?  Við búum blessunarlega í réttarríki og ég trúi því (ef til vill í einfeldni minni) að sekum verði refsað.  Þótt ég skilji reiðina og finnist hún réttlætanleg þá er dómstóll götunar og kaffistofu aftökurnar sem fram hafa farið seinustu vikur ekki mér að skapi. 

Elliði Vignisson, 19.2.2009 kl. 01:49

9 identicon

Þessi vörn sem þið Sjallar eruð í og sjálfsvorkunn sem þið veltið öllum ykkar raunveruleika uppúr er með ólíkindum, en líka bráðfyndin!

Frumforsenda stefnu ykkar er græðgi, og þú ætlast til að við trúum því að þeir menn sem hana aðhyllast vilji ekkert nema það besta fyrir allan almenning... Þetta er andvana fætt hjá þér vinur.

Gunnar (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 09:47

10 Smámynd: Elliði Vignisson

Gunnar minn kæri

Bara til að leiðrétta misskilning þinn þá vil ég benda þér á að ólíkt þér Þá dreg ég fólk ekki í dálka eftir pólitískum skoðunum þeirra.  Pistillinn hér að ofan var um stjórnmálafólk almennt en ekki flokka.

Heift fólks út í Sjálfstæðisflokkin er mikil en hún er ekki ný af nálinni.  Ákveðin hluti þjóðarinnar hefur gert það að grundvallar lífsskoðun sinni að vera á móti ekki bara stefnu Sjálfstæðisflokksins heldur einnig okkur einstaklingunum sem aðhyllumst þá stefnu.  Líklegt verður að telja að þú sért einn af þeim.  Sért þú sáttur við það þá er ég það einng.  Gangi þér allt í haginn.

Elliði Vignisson, 19.2.2009 kl. 10:26

11 identicon

Jú, ímynd stjórnmálamannsins má muna sinn fífil fegurri en er við öðru að búast þegar fólkinu í landinu finnst að því hafi verið brugðist af leiðtogum sínum. Heimurinn virðist hrynja í kring um þau og þeir sem áttu að halda uppi himninum fyrir þau virðast hafið sofið að feigðarósi.

Þetta þarf þó ekki að vera satt, það má vel vera að seinasta ríkisstjórn Íslenska lýðveldisins hafi gert allt það sem í valdi hennar stóð til að koma í veg fyrir hrun en það er þó ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að hagkerfið hrundi.

Auðvitað kann það að koma sumum sárt fyrir sjónir að vegið sé að persónu stjórnmálamanna og þá sérstaklega þegar vegið er að persónulegu lífi þess en slíkt er gjald þeirra sem stíga inn í kastljósið, allir þeir sem hafa reynt að breyta heiminum hafa orðið fyrir árásum á persónu sína eða háði. Hvort það er sanngjarnt er önnur ella en það verður þó seint sagt um tilveruna að hún sé algerlega sanngjörn.

Þó er verðugt að staldra aðeins við þegar menn skipta um skoðun og rýna í hvað liggur á bak við þessum sinnaskiptum. Eru menn að skipta um skoðun af sannfæringu sinni eða eru þeir að gera það eingöngu til þess að veiða atkvæði eða velvilja. Bera skal í huga orð Aristótelesar þegar hann sagði að það eitt að breyta rétt gerir manninn ekki dyggðugan. Að breyta rétt af því að það er sannfæring manna, það er dyggð.

Mér finnst þó áhugaverð tillaga Kollu um að banna einum stjórnmálaflokki að bjóða sig fram sem refsingu. Enn áhugaverðari finnst mér samlíkingin sem hún dregu upp á milli Sjálfstæðisflokkins og hins þýska Þjóðernissinnaða Demókrataflokkinum. En ef við treystum ekki fólki til að kjósa eftir sannfæringu sinni, sama hver hún er. Hvar er þá lýðræðið í Íslenska Lýðveldinu?

Málefnalegar Kveðjur
Egill And.

Egill And. (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 11:14

12 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Fínn pistill Elliði! Það hefur verið mikill skortur á málefnalegri umræðu hér á landi og bloggið hefur ekki bætt úr. Hér skortir umræðuhefð.

Persónulegt skítkast og gífuryrðaflaumur er í hugum sumra það sama og skoðun. Að skora mörk er aðalatriðið og þá skiptir ekki máli þótt það sé úr rangstöðu. Þeir sem slíkt ástunda gæta ekki að því að innihald slíkrar orðræðu er minna en núll, því rökfærsla er undirstaða skoðanamyndunar. 

Það sést á viðbrögðunum að ekki veitir af að vekja athygli á þessum þjóðarósóma.

Ragnhildur Kolka, 19.2.2009 kl. 11:36

13 identicon

...... vil ég benda þér á að ólíkt þér Þá dreg ég fólk ekki í dálka eftir pólitískum skoðunum þeirra. ... Líklegt verður að telja að þú sért einn af þeim ..... Þetta er svona álíka kómískt og að mótmælendur skuli hafa horfið eins og dögg fyrir sólu þegar VG komst í ríkisstjórn.

Einmitt

EA, það er ekkert nytt við að refsingum se beitt i lyðræðisrikjum, það er gert a hverjum degi.

RK, takk fyrir að bæta umræðuna með malefnalegri færslu.

Kolla (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 13:57

14 identicon

Allt virðast þetta vera hinir vænstu menn og konur í þínum huga.
Þrátt fyrir afbrot - afglöp og augljósa sérhagsmuna gæslu fyrir sig og samflokksmenn.
Eigum við ekki bara að loka augunum fyrir svona smotterí og láta eins og ekkert sé?

Ég held að málin séu einfaldlega að þróast þannig að fólk er almennt að gera sér grein fyrir því hvaða mannleysur og óþjóðalýður hafa valist til setu á alþingi enda hafa flokksmaskínunar passað uppá það að óæskilegir(heiðarlegir)einstaklingar með hugsjónir og réttlætiskennd komist ekki í gegnum síuna.

Þú mátt blása hvað þú getur og halda uppi vörnum fyrir þennan sora en aðrir og þar á meðal ég komum ekki til með að sýna nokkra linkind eða vorkunn gagnvart svona fólki.

Það er komin tími á siðbót í íslensku samfélagi og það þarf að hreinsa til.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 16:45

15 identicon

þú ferð ansi frjálslega með orðið staðreyndir að mínu mati þegar þú talar um að þjóðinni sé ekki greiði gerður með núverandi minnihlutastjórn, erfitt að fullyrða um slíkt strax í mínum huga.

Eins langar mig að nefna að gengi "þinna manna" skiptir kannski litlu máli þegar hugsa þarf um þjóðarhag sem flestir telja mikilvægari en gengi sinna manna.  Fyrrverandi ríkisstjórn hafði alla möguleika til að sýna manndóm sinn í þá 3 mánuðu sem hún sat frá hruninu en kaus að gera ekki (ég hefði óskað þess persónulega að hún hefði gert það), þessvegna fékk fólk nóg, henni (eða þínum flokk) hefði lítill greiði verið gerður í að sitja fram á vor bara til að sitja og sýna fram ímyndaðan manndóm, festu, samstöðu eða hvað sem menn kjósa að kalla það. 

Eins og þú sjálfur segir þá eiga lög að byggja fyrst og fremst á almennu siðferði, svo virðist hinsvegar ekki vera þegar þingmenn, makar þeirra, fjárglæframenn og aðrir sem leika sér með ehf kennitölur græða heil ósköp af peningum með millifærslu þeirra milli reikninga  pappírshagnaður), komast svo upp með að skilja allt fjárhagslegt tap eftir hjá almenningi eftir að hafa tekið beinharða peninga út úr ímyndargróða fyrirtækja sinna, sitja áfram á þingi án afsökunarbeiðni, keyra enn um á fínu bílunum sínum, sitja enn í sömu bönkunum (nú í ríkiseigu) og benda stöðug á að allt sem þeir gerðu sé löglegt.

Það verður fróðlegt að sjá hvort traust þitt á lögum reynist á rökum reistur en sem fordæmi má nefna olíuverðssamráðið og dóma í því máli.

Þetta verður til þess að fólk með "rétta" siðferðiskennd missir trú á lögunum sem eru jú samin og samþykkt af alþingi.

Siðferðiskennd meirihluta þjóðarinnar er slík að ef fólk telur lögin vera á skjön við almennu siðferðiskenndina fylgir það frekar siðferðiskenndinni heldur en lögunum, þetta á ekki við um suma einstaklinga.

Jú jú mikið rétt við búum við réttarríki en það er ekki nægjanlegt ef réttur útvaldra er hærra skrifaður en almennings eins og í gömlu austurblokkinni.

Ég hef lítið sótt kaffihús seinustu vikur og ætla því ekki að rengja það að einhverjar aftökur hafi farið þar fram ef þú veist meira um það en ég, hingað til hef ég ekki orðið vitni að slíkum aftökum þó að menn tali illa um þá sem þeir telja bera stóra ábyrgð á hruninu og styðja gjarnan með gögnum.

Myndin af öskrandi mótmælanda sem þú kýst að sýna með greininni er ekki rétt mynd af þeim mótmælum sem ég hef sótt, en einhverjir vilja gjarnan stilla mótmælendum upp á þennan hátt og tengja við VG ég veit ekki hvort það friðþægir þá hina sömu eða þig, þú þarft heldur ekkert að samþykkja það þó að ég telji þetta vera ómaklega vegið að mótmælendum.

Atli (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband