Fólk í átthagafjötrum á gamla vaxtarsvæðinu

Heimakl 2002Í Fréttablaðinu í dag er ágætis umfjöllun þar sem rætt er við mig og tvo kollega mína, þá Ólaf Hr. Sigurðsson á Seyðisfirði og Ómar Már Jónsson í Súðavík um stöðuna á landsbyggðinni.  Í viðtali við blaðamann hélt ég fram þeirri skoðun minni að handstýring hins opinbera þar sem fólki er beint til búsetu á ákveðnum svæðum sé skaðleg.  Frelsi til búsetu er síst minna virði en annað frelsi og sú stefna hins opinbera að beita opinberri uppbyggingu til að flytja fólk á milli búsetusvæða er hrein og bein frelsisskerðing.

Ég vil halda því fram að á seinustu 10 til 15 árum hafi fólki verið beint markvisst á suð-vesturhornið með afskiptum ríkisvaldsins.  Ákvörðun var tekin um að nota ríkisfjármagn til að byggja upp "sterkt" höfuðborgarsvæði m.a. til að mæta samkeppni við útllönd um hæfa starfskrafta og "auka hagræðið" í ríkisrekstri.  Nánast öll sú þjónusta sem ekki er beinlíns þörf á að hafa á landsbyggðinni var fundin staður í borginni.  Andstætt við yfirlýsta stefnu voru störf og þjónusta flutt á höfuðborgarsvæðinu.  Skýr dæmi um þetta má finna hér í Vestmannaeyjum þar sem td. Vinnueftirlitið, Vaktstöð siglinga, Skipaskoðun Siglingastofnunar og margt fleira hefur verið flutt héðan.  Þá hefur yfirstjórn einnig verið flutt frá Eyjum og á það til að mynda við Tollembættið og Rannsóknarlögreglu.  Í raun má að segja að ef frá eru skildar heilbrigðis- og menntastofnanir eins og skólar og sjúkrahús í viðbót við grunnlöggæslu og slíkt þá sé afar lítið af ríkisstörfum eftir á landsbyggðinni (skrifa meira um það næst og þá sérstaklega stoðkerfi sjávarútvegsins).

Þessi ákvörðun að efla höfuðborgarsvæðið á kostnað landsbyggðarinnar varð til þess að ríkið lagði eld að þenslubáli fjármálageirans með fjölgun ríkisstarfa á höfuðborgarsvæðinu.  Bensínið á eldinn var svo gríðarleg uppbygging á þjónustumannvirkjum og íbúðarhúsnæði fyrir alla þessa nýju íbúa.  Nýjar sundlaugar, skólar, leikskólar, menningarmiðstöðvar, knattspyrnuhús og stúkur spruttu upp eins og gorkúlur á vaxtarsvæðinu.  Í örvæntingu eltu mörg landsbyggðarsveitarfélög þjónustuaukninguna þannig að enn var kynnt undir bálið og enn breikkaði bros okkar pólitíkusa þegar klippt var á borða við vígslur.  Lán voru tekin í stórum stíl og stólað á að þjónustuuppbyggingin myndi skila nýjum íbúum sem stæðu undir afborgunum með útsvarsgreiðslu.  Veruleikinn varð annar.  Nú er allt stopp.  Fjármálakerfið er hrunið og ríkið þarf að draga saman um u.þ.b. 20%.  Í kjölfarið vill fólk í auknu mæli komast til þeirra svæða sem ekki fóru þess leið.  Svæða sem byggja á verðmætasköpun í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri frumgreina.  Svæða þar sem sígild gildi eru enn ríkjandi og þjóðfélagshópar standa saman um sameiginlega velverð.  Stétt með stétt.

Greinin í Fréttablaðinu hljóðar svo:

Nú í kreppunni hefur áhugi fólks á því að búa á landsbyggðinni stóraukist og nú þegar fjölgar ungu fólki í nokkrum byggðum þar sem slíku hefur ekki verið að fagna í áraraðir.  Þetta segja Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Ólafur Hr. Sigurðsson, starfsbróðir hans frá Seyðisfirði, og Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Öryggi og fjölskylduvænt samfélag er eitt það helsta sem fólkið leitar eftir, segja þeir, auk þess sem margir vilja snúa baki við þeim gildum sem ráðið hafa ríkjum á suðvesturhorninu.
„Ég held að það felist ákveðin tækifæri fyrir fólk í því undarlega umhverfi sem við búum við einmitt núna,“ segir Ómar Már. „Og það felst í því að hér [á landsbyggðinni] eru mannlífs- og
atvinnulífshættir reistir á betri grunni heldur en það sem hefur verið að byggjast upp á svokölluðum þenslusvæðum.“

En ekki geta allir sem vilja flust út á landsbyggðina; Elliði segir fjölmarga sitja í átthagafjötrum í borginni. „Fólkið hefur elt fjármagnið og atvinnuna sem öll hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en nú þegar bólan er sprungin situr það uppi með ofurskuldsetta eign svo að það er í raun í átthagafjötrum í borginni.“

Ómar segir að ríkið þurfi að styðja betur við bakið á sprota og nýsköpunarfyrirtækjum á landsbyggðinni. „Við höfum heyrt mikla umræðu um nýsköpun en því miður virðast orð og æði ekki
fara þar saman,“ segir hann. 

Elliði og Ólafur hafa hins vegar hug á öðruvísi stuðningi. „Veigamesti stuðningurinn sem við gætum fengið frá ríkinu væri að fá frið til að byggja upp okkar atvinnuvegi án þess að eiga það sífellt á hættu að fótunum verði kippt undan því,“ segir Elliði. „Það er óþolandi að vinna í sjávarútvegi þegar sífellt er verið að ögra þeim forsendum sem fyrir honum eru.“ Á hann þá meðal annars við umræður um eignarupptöku á kvóta og veiðileyfagjöldum. „Stundum er aðgerðarleysi af hálfu ríkisins það skásta,“ segir Ólafur. „Það sést vel á fyrirtækjum sem eru alfarið í eigu ríkisins, eins og RARIK og Pósturinn. Þar gilda græðgissjónarmið sem reytt hafa af landsbyggðinni út í það óendanlega í nafni óeðlilega mikillar arðsemi. En það sjá allir hvernig þess háttar græðgi hefur reynst þjóðinni.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband