Réttist hlutur landsbyggðarinnar við kólnun hagkerfisins?

IMG_5092Nú eru blikur á lofti í íslenska hagkerfinu.  Álag á skuldatryggingar bankanna hækkuðu eftir að Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn stóru bankanna.  Fyrir helgi bætti Moody´s svo um betur og breytti horfum fyrir lánshæfi íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar.  Eftir sem áður er ríkið með hæstu lánshæfiseinkunn hjá fyrirtækinu eða Aaa.  Þetta byggir matsfyrirtækið ekki hvað síst á því að frekari vöxtur bankakerfisins erlendis geri ríkinu erfitt um vik að bregðast við hugsanlegri fjármálakreppu sem þó er sögð afar ólíkleg í tilkynningu Moody´s. (myndin hér til hliðar sýnir son minn í kuldanum í Eyjum fyrir viku.  Spurning hvort kuldinn í hagkerfinu verður jafn mikill).

Fjármögnun nú er því dýrari en áður og jafnvel bjartsýnustu menn farnir að horfast í augu við “lendingu” í velmeguninni.  Svo mikið er víst að bankar og fjármálastofnanir eru byrjaðir á hagræðingaraðgerðum með fækkun starfsfólks og sölu ákveðinna þátta út úr rekstri. 

Svo virðist því vera sem Seðlabankanum sé að verða að ósk sinni.  Ég spái því hér með að innan fárra vikna verði stýrivextir lækkaðir og jafnvel í byrjun apríl.

Sem betur fer er atvinnuleysi en hverfandi lítið því þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir fjármálastofnanna, niðurskurð þorskkvóta, verkloka í stóriðjuframkvæmdum og fleira var atvinnuleysi einungis 1% í janúar skv. tölum Vinnumálastofnunar. 

Það sem sett gæti strik í þess spá er að 12 mánaða verðbólga er 6,8% í dag og margir telja útlit fyrir að hún aukist.  Af sjálfsögðu verða stýrivextir ekki lækkaðir á meðan svo er.

Svo er það náttúrulega sú sögulega staðreynd að þegar kreppir að í hagkerfinu þá réttist hlutur landsbyggðarinnar í samræmi við höfuðborgarsvæðið.  Fjármagnið leitar þá gjarnan í frumgreinarnar þar sem meiri “veruleiki” er á bak við fjárfestingar.  Fólkið losnar á sama tíma undan sogkrafti þenslunnar í borginni og leitar heim á ný.  Það er óneitanlega gaman að velta því fyrir sér hvort slíkt verði upp á teningnum núna eða hvort þjóðfélagslegar og hagfræðilegar aðstæður leiði sömu niðursveiflu yfir landsbyggðina og yfir hitaveitusvæðið.  Reyndar tel ég svo ekki verða enda hefur þenslan ekki náð hingað og því ekki líklegt að niðursveiflan nái heldur hingað.

Svo er óneitanlega mikill styrkur fyrir Vestmannaeyjar hversu sterk sjávarútvegsfyrirtækin hér eru sem og Vestmannaeyjabær.  Í fyrsta skipti í sögu sveitarfélagsins er ekki gert ráð fyrir neinni lántöku, þrátt fyrir miklar framkvæmdir, og í ljósi þess hversu dýrt lánsfé er þá prísa ég mig enn sælli með þessa góðu stöðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég vona sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér. En mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru mjög skuldug og í heildina skulda þau yfir 300% af heildar útflutningsverðmætum.  Mesta af þessum skuldum eru í erlendum gjaldeyri sem hefur hækkað mikið en á móti kemur minni kostnaður innanlands vegna veikingu krónunnar. Ef marka má ársuppgjör í fyrra munu nokkur stór fyritæki verða rekin með tapi í ár vegna hærri skulda í krónum.

Sigurður Þórðarson, 10.3.2008 kl. 01:03

2 Smámynd: Elliði Vignisson

Sæll Kristinn

Takk fyrir gott innlegg.  Af sjálfsögðu höfum við áhuga á togararallinu eins og öllu öðru sem tengist sjávarútvegi.

Elliði Vignisson, 10.3.2008 kl. 14:01

3 Smámynd: Púkinn

Það er ósennilegt að vextir verði lækkaðir þetta fljótt - því miður.  Hækkun á innfluttum vörum vegna gengissigs krónunnar er ekki að fullu komin fram ennþá (það eru ekki allir jafn fljótir að hækka og olíufélögin), þannig að verðbólga mun frekar aukast en hitt næstu 2-3 mánuði,sem mun halda aftur af vaxtalækkunum.

Púkinn, 10.3.2008 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband