Gömul auglýsing sem skýrir hlutverk Sparisjóðsins fyrir Eyjamönnum

blikEitt af því skemmtilegra sem ég geri er að grúska.  Stundum stel ég mér tíma og kynni mér eitthvað sem ég ekki myndi læra annars.  Seinustu helgi rakst ég til dæmis á bók um tónlist sem ég vissi ekki að ég ætti og las ég mér þá lítillega til um finnska tónskáldið Sibelius.  Lesturinn stafaði ekki af óbilandi áhuga á klassískri tónlist (er ekki einu sinni viss um að ég myndi þekkja nokkurt lag með Sibelius) heldur vegna þess að mér finnst gaman að grúska, grúsksins vegna.

Því miður gefst mér ekki oft tími til að grúska en kvöldið í kvöld var kjörið í grúsk.  Konan í saumaklúbbi, börnin sofnuð, félagarnir komust ekki til að tefla eins og við gerum oftast þegar konurnar eru í saumaklúbbum.  Allt klárt og fyrir valinu varð lestur á tímaritinu Blik frá 1965.

Það sem vakti mestan áhuga minn í þessu skemmtilega riti var auglýsing frá Sparisjóði Vestmannaeyja (sjá mynd hér til hliðar).  Auglýsingin er svo hljóðandi:

Sparisjóður Vestmannaeyja,
greiðir yður ávallt hæstu vexti af sparifé yðar.  Hann annast innheimtur.

Sannleikur um Eyjabúa:
Vestmanneyingar!

Sparisjóður Vestmannaeyja hefir lánað Eyjafólki á undanförnum árum um 900 fasteignalán, samtals um 25 milljónir króna.  Þetta er árangur af góðvilja Eyjabúa til Sparisjóðsins og traust á honum og starfi hans.  Aukum sparifé Sparisjóðs Vestmannaeyja og árangurinn segir til sín í bæjarfélaginu: auknar byggingarframkvæmdir til mannsæmandi lífs og framfara, - framkvæmdir til hagsældar Eyjabúum í heild, einstaklingum sem atvinnufyrirtækjum. 

Ágóði af rekstri Sparisjóðsins rennur í varasjóð hans eða til menningarframkvæmda í bænum, því að sparisjóðurinn er sjálfeignarstofnun en ekki hlutafélag.  Því meira sparifé, sem Eyjabúar leggja inn í Sparisjóðinn, því meira fé verður að senda framleiðslustarfinu annarstaðar frá og þannig eykst fjármagnið í bænum bæjarbúum til hagsældar.

Þetta er sú staðreynd og sú fjármálaviska, sem Eyjafólk skilur.  Það hafið þið Eyjabúar sýnt í verki gagnvart Sparisjóðnum.

Sparisjóðurinn, stjórnendur og stofnfjáreigendur, hefur sem sagt alla tíð haft hlutverk sjóðsins á hreinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Gaman að þessari augl. Ég býð spenntur eftir næstu skrefum hjá "hinum útvöldu" og hvernig þeir tækla framtíð Sparisjóðsins og stofnfjárkrónanna. Svolítið sérstakt ef að menn geta farið að selja þetta stofnfjár dæmi til eigin ávöxtunnar, sérstaklega í ljósi þess að þarna hefur ákveðnum aðilum, væntanlega venslatengdum eða þóknanalegum þeim er í stjórn sitja hverju sinni á meðan öðrum er haldið frá. Við sjáum hvað gerist en gaman að þú grófst þetta upp. Líka gaman þar sem að í stjórn Sparisjóðsins eru líka menn sem hafa gaman að alls kyns grúski ætli þeir hafi aldrei hnotið um þetta.

Gísli Foster Hjartarson, 12.3.2008 kl. 11:04

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Að grúska er góð íþrótt og skemmtileg þar er ég þér sammála Elliði.  Það grátlegasta við málefni Sparisjóðs Ve. er, að þá þegar eru komnir brestir í undirstöður hans. Heyrst hefur, að þó nokkrir handhafar stofnfjárbréfa hafi selt þau aðilum, sem ekkert tengjast Eyjunum. Ef þetta sem ég segi  núna eru staðlausir stafir ættu stofnfjáreigendur að sýna þann manndóm og kjark að láta í sér heyra, ef ég fer hér  með staðlausa stafi.
En ef satt reynist, sem ég hefi hér sagt, má líkja því við að innbrotsmönnum sé hleypt inn bakdyra megin  í Sparisjóð Ve. og er það ódrengilega gert og gerir lítið úr og svertir minningu brautryðjanda Sparisjóðsins,  Þorsteins Þ. Víglundssonar.
 Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 12.3.2008 kl. 23:57

3 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Ég var búinn að spirja þig hvað þú atlaðir að gera gagnvart svæðiðinu í kringum spraunguna,Þá Fiskiver og Steipustöðina,Svar óskast kv

þorvaldur Hermannsson, 19.3.2008 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband