Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það er innbyggt í Eyjamenn að gefast ekki upp

Slyfta2Í Morgunblaðinu í dag er að finna skemmtilega lesningu um val Eyjasýnar á manni ársins.  Þar fjallar Hjörtur Gíslason m.a. á eftirfarandi máta um stöðu útgerðar í Eyjum. 

Blaðið Fréttir í Vestmannaeyjum hefur valið útgerðarmenn í Vestmannaeyjum sem mann ársins. Athyglin beindist strax að útgerðarmönnum sem hafa sýnt það og sannað að þeir hafa trú á Vestmannaeyjum. Líka að þeir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að efla Eyjarnar með nýjum skipum og auknum aflaheimildum. Einnig hafa þeir lagt góðum málum lið. „Ekki treystum við okkur til að taka einn útgerðarmann út úr og niðurstaðan er að útvegsbændur í Vestmannaeyjum eru Eyjamaður ársins 2007. Forsendurnar ættu að vera öllum kunnar. Hingað komu m.a. sex ný skip á árinu, Guðmundur, Vestmannaey, Bergey, Gullberg, Álsey og loks Dala Rafn. Þá eru a.m.k. þrjú skip í smíðum fyrir Eyjamenn,“ segir m.a. í forsendunum. Þetta er góð niðurstaða hjá þeim íVestmannaeyingum.

Útgerðarmenn þar hafa sýnt mikla djörfung með því að bæta skipakost sinn á mjög erfiðum tímum í sjávarútvegi. Þorskveiðiheimildir skornar niður um þriðjung, gengi krónunnar mjög óhagstætt útgerðinni og olíuverð í sögulegu hámarki. Það er innbyggt í Eyjamenn að gefast ekki upp. Þeir standa saman og horfa fram á við, þegar sumir aðrir starfsbræðra þeirra eru að draga saman og jafnvel hætta starfseminni. Það er ljóst að framsýni útgerðarmannanna í Eyjum á eftir skila þeim sterkari en ella inn í framtíðina. Þeir verða með ný skip í útgerð þegar birta tekur á ný. Þá verða þeir betur í stakk búnir til þess en margir aðrir að auka þorskveiði, þegar kvótinn eykst á ný.


Árásir á sjávarútvegsfyrirtæki eru árásir á atvinnulífið í Vestmannaeyjum

hofnÉg hef fengið nokkra tölvupósta þar sem óskað hefur verið eftir því að ég birti ræðu þá sem ég hélt við afhentingu Fréttapíramítans.  Það geri ég hér með.  Myndina hér til hliðar er af hafnarsvæði okkar Eyjamanna á þriðja áratug 20. aldarinnar.  Öll uppbygging í Vestmannaeyjum frá upphafi vegar hefur verið tengd sjávarútvegi og þannig verður það áfram.  Öllum er þó ljóst að fjölga þarf járnunum í eldinum og eggjunum í körfunni. 

Ágætu fulltrúar Eyjasýnar, handhafar fréttapíramídans og aðrir Eyjamenn

Mig langar að byrja á að óska glæsilegum verðlaunahöfum til hamingju með þá vegsemd sem því fylgir að hreppa Fréttapíramídann og færa Eyjasýn þakkir fyrir því að vekja á ný athygli á þeim einstaklingum, fyrirtækjum og félögum sem skara framúr vegna elju og dugnaðar.

Það er aðdáunarvert hversu næmt auga Eyjasýn og flaggskip þeirra Fréttir hafa fyrir bæjarlífinu og á ný hefur þeim tekist að velja handhafa Fréttapíramídans sem allir eiga það sammerkt að vera fremst meðal okkar Eyjamanna.  Þar með eru þeir okkur hinum hvatning til að standa okkur í uppbyggingu á okkar gæðasamfélagi þar sem einstaklingurinn nýtur sín og allar njóta góðs af.  Verum þess minnug að á bak við árangur þeirra er ómæld vinna, kraftur, dugnaður og skýr vilji til að skara framúr.

Eitt af lykilatriðum búsetuþróunar er einmitt að kraftur og frumkvæði íbúa finni sér farveg í atvinnulífi, menningu og starfsemi frjálsra félagasamtaka.  Slíka farvegi er víða að finna hér í Eyjum.

Vestmannaeyjar eru sannarlega útgerðarbæjar og stoltur af þeirri nafnbót.  Við skörum fram úr á sviði veiða og vinnslu.  Sjómenn okkar, landvinnufólk og útgerðarmenn hafa fyrir löngu skipað sér sess í huga landsmanna allra fyrir útsjónarsemi, dugnað og þor á sviði sjávarútvegs.  Það er staða sem við eigum að verja og vera stolt af.  Það eru mikil forréttindi fyrir okkur Eyjamenn að eiga jafn öfluga útgerðarmenn og hér eru.  Slíkt er ekki sjálfgefið og mörgum byggðarlögum hefur beinlíns blætt vegna þess að atvinnulífið hefur ekki náð að laga sig að breyttum aðstæðum.  Hér í Eyjum spila menn hinsvegar sókn þegar þörf er á og nú er þörf á sókn sjávarútvegi.  Árið 2007 var okkur gjöfult.  Fiskveiðifloti okkar Eyjamanna var að stóru leiti endurnýjaður og hef ég stundum haft það að gamni að Vestmannaeyjabær sé eina sveitarfélagið á landinu sem er með sérstakan lið í bókhaldinu sem heitir “blóm vegna móttöku á nýju skipi”.  Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir frekari aukningu útgjalda þessa liðar þannig að enn hvet ég útgerðarmenn til dáða, okkur öllum til farsældar.

Vestmannaeyjabær hefur metnað til að halda stöðu sinni sem leiðandi aðili í þjónustu við íslenskan sjávarútveg.  Milli bæjarfélagsins, íbúa og atvinnulífsins er þráður sem aldrei má slitna ef ekki á illa að fara.  Það hefur verið hábölvað að fylgjast með því hvernig ákveðnir aðilar -opinberir sem einakaðilar- hafa rembst eins og rjúpan við staurinn við að tortryggja útgerðarmenn.  Lögð hefur verið áhersla á að viðhalda ógeðfeldri mynd arðræningja og kvótabraskara.    Þessi neikvæða ímynd hefur síðan stutt alþingi í að beita sértækum skatti og álögum á þessa atvinnugrein sem við á landsbyggðinni lifum á.  Þannig er staðan nú því miður sú að við íbúar í Suðurkjördæmi leggjum í dag rúmlega 1,1 milljarð (rúmlega eitt þúsund og eitt hundrað milljónir) til vegna svokallaðra potta, línumismununar og sértækra skatta.  Skýrasta dæmið um þessa ósanngirni er sennilega að 35% íbúa landsins greiða 85% skattsins sem kallaður er auðlyndagjald. 

Hafa þarf hugfast að árásir á útvegsmenn eru árásir á atvinnulífið í Vestmannaeyjum og víðar á landsbyggðinni. Sérstakar álögur á sjávarútveginn eru álögur á okkur íbúa þessara bæjarfélaga þar sem sjávarútvegur er stundaður.  Við íbúar Vestmannaeyja skiljum og finnum á eigin buddu að velgengni sjávarútvegsfyrirtækja er velgengni samfélagsins alls og erum því til í að leggjast á eitt með útgerðamönnum til að efla hag sjávarútvegsins.  Sumum virðist þó vera fyrirmunað að skilja þennan þráð milli bæjarfélagsins, íbúa og atvinnulífsis og láta sem atvinnulífið starfi í tómarúmi.

Á þessum peningi eru svo tvær hliðar.  Það dugar ekki að samfélagið standi bara með atvinnulífinu því atvinnulífið þarf einnig að styðja samfélagið.  Annars slitnar þráðurinn.  Þetta hafa útgerðarmenn og aðrir aðilar í atvinnulífi okkar Eyjamanna haft í heiðri og engum hefur dulist hversu mikil samfélagsleg vitund útgerðarmanna í Eyjum er.  Þannig eru framlög til menningar, íþrótta og lista ómæld, svo ekki sé nú minnst á aðkomu þeirra að hverskonar líknarmálum og uppbyggingu á innviðum samfélagsins svo sem aðkoma að sjúkrahúsinu hefur sýnt.  Vil ég sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka Bjarna Sighvatssyni og fjölskyldu hans fyrir þeirra framlag til sjúkrahússins.

En maðurinn lifir jú ekki á brauðinu einu.

Við öll sem hér erum eigum það sammerkt að hafa veðjað á Vestmannaeyjar sem framtíð okkar.  Hér vilum við ala upp börnin okkar og nóta þeirra forréttinda sem það er að búa í Vestmannaeyjum.  Við viljum skapa okkur öllum bjarta framtíð. 

Hér í Eyjum höfum við átt því láni að fagna að íþrótta- og menningarlífið hefur verið borið uppi af vinnufúsum eldhugum.  Ég fagna því sérstaklega að sjá fimleikafélagið Rán hér verðlaunað enda fer þar eitt öflugasta fimleikafélag á landinu.  Þá vil ég einnig óska Tyrkjaránsfélaginu innilega til hamingju með sinn píramída sem veittur var fyrir menningarlegt framtak, er það vel verðskuldað.

Ég get líka ekki látið hjá líða án þess að óska vinkonu minni og fyrrverandi nemanda – Margréti Láru Viðarsdóttur innilega til hamingju með kjör sitt sem íþróttamaður ársins.  Þar fer sannarlega Eyjakona sem nær að kristalla allt það sem samfélagið vill standa fyrir.  Dugnað, þor, kraft og óbilandi trú á að það sé eftirsóknavert að skara fram úr.

Ég beini nú orðum mínum til ykkar allra og segi “Stöndum saman um að gera það eftirsóknarvert að skara fram úr á öllum sviðum samfélagsins.  Látum ekki á neinum tímapunkti öfund eða afbrýðisemi spilla okkar góða samfélagi og halda íbúunum í helsi meðalmennskunnar”. 

Ég óska glæsilegum handhöfum fréttapíramídans til hamingju með að hafa skarað fram úr á árinu.

Elliði Vignisson
Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum 


Minnsta fækkun síðan 1993, en fækkun engu að síður.

IMG_4208Stöðug fólksfækkun í Eyjum síðan 1991 er Vestamannaeyingum öllum mikið áhyggjuefni.   Því er niðurstöðu Hagstofu Íslands um mannfjölda jafnan beðið með blöndu af spennu og kvíða.  Undanfarin ár hafa verið okkur þungbær hvað þetta varðar.  Til að mynda fækkaði Eyjamönnum um 100 í fyrra og 122 árið 2004.  Því hefur aukin áhersla verið lögð á að draga úr fækkun eins mikið og verða má (myndirnar með þessari færslu tók ég ofan af Klifi í gærkvöldi).

Hagstofa Íslands hefur nú sent frá sér frétt um mannfjölda á Íslandi hinn 1. desember.  Enn eitt árið stöndum við frammi fyrir fækkun og er það áframhaldandi verkefni að takast á við þann veruleika.  Engu að síður er ánægjulegt að verulega dregur úr fólksfækkun hjá okkur hér í Vestmannaeyjum og er fækkunin í ár sú minnsta síðan 1993 eða 35 einstaklingar í stað 100 í fyrra. 

IMG_4233Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum er samkvæmt íbúaskrá Vestmannaeyjabæjar núna 4044 og ljóst að sú tala eykur trú einhverra á að nú sé vöxtur í nánd enda hefur þessi tala tengst velgengni og vexti í undirtöðuatvinnugrein okkar.  Vonir okkar standa til að vissan um stórbættar samgöngur, velgengni atvinnulífsins og enn frekari uppbyggingu á þjónustu við bæjarbúa snúi stöðugri fólksfækkun frá 1991 í átt til vaxtar og fólksfjölgunar á komandi ári.

 


Auðlindaskattur, réttlæti og laun: lítil umræða

Eyja hinna rísandi sólar 019Í Fréttablaðinu í dag er að finna góðan leiðara eftir Þorstein Pálsson, ritstjóra.  Ég tek mér hér það bessaleyfi að birta leiðarann hér og munstra Þorstein þar með sem gestapenna hjá mér.  Auðvitað er þetta argasti dónaskapur en hér læt ég minni hagsmunni víkja fyrir meiri.  Mér finnst þessi leiðari eiga erindi til sem flestra og stóla á að Þorsteinn fyrirgefi mér.  (Myndina sem hér fylgir fékk ég ásamt Jólakveðju frá Kristjáni Egilssyni.  Þessa mynd sem hann kallar "Eyja hinna rísandi sólar" tók hann 2. des úr Stokkseyrafjöru.  Frábær mynd frá góðum manni).

Alþingi hefur að tillögu sjávarútvegsráðherra fellt tímabundið niður auðlindaskatt af þorskveiðiréttindum. Óveruleg umræða hefur farið fram um þessa breytingu. Skýringin er hugsanlega sú að hér er um að ræða tiltölulega hóflegan skatt.

Talsmenn Framsóknarflokksins eru þeir einu sem að einhverju marki hafa látið að sér kveða í þessari umræðu. Þeir hafa með gildum rökum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ganga ekki nægjanlega langt í að fella skattinn alfarið niður um tíma að minnsta kosti. Almenn hagfræðileg rök mæla þannig með lækkun skatta á atvinnufyrirtæki fremur en styrkveitingum þegar aðstæður kalla á opinberar aðgerðir.

Einörð afstaða forystumanna Framsóknarflokksins í þessu máli er um margt athyglisverð þegar til þess er litið að rétt fyrir lok vorþings lét þáverandi flokksforysta að því liggja að til stjórnarslita gæti komið fyrir kosningar ef samstarfsflokkurinn féllist ekki á að festa í stjórnarskrá skyldu til þess að leggja skatt á alla nýtingu náttúruauðlinda í samræmi við gamlar tillögur svokallaðrar auðlindanefndar.

Ef horfið hefði verið að því ráði hefði ekki verið unnt að lækka skatt á sjávarútveginn eftir þorskniðurskurðinn; hvað þá að fella hann niður með öllu. Leggja hefði þurft nýjan skatt á bændur fyrir not afrétta og ennfremur á fyrirtæki og almenning vegna kaupa á raforku og heitu vatni.

 Stundum er því haldið fram að auðlindaskattur sé annarrar náttúru en aðrir skattar fyrir þá sök að hann snúist um réttlæti. Sannleikurinn er þó sá að erfitt er að færa gild rök fyrir því að réttlætið sjálft felist í skattheimtu. Hún er hins vegar að ákveðnu marki réttlætanleg nauðsyn. Út frá hagrænum sjónarmiðum getur skattheimta svo verið misjafnlega skynsamleg og misjafnlega réttlát.

Flestum er til að mynda ljóst að ekki er sérlega réttlátt að láta eina auðlind bera skatt en ekki aðrar eins og gildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Ástæðan fyrir því að þeir sem telja auðlindaskatt vera réttlætismál hafa ekki árætt að krefjast skattlagningar á orku búskapinn er sú að skattur á því sviði á greiða leið beint út í verðlagið. Hækkun raforkuverðs og hitaveitureikninga yrði með öðrum orðum óvinsælt réttlæti.

Áhrifin á hag almennings eru óbeinni í sjávarútvegi. En þar gildir eins og annars staðar að skattar eru ekki útflutningsvara. Þeir fá ekki útrás í markaðsverði erlendis. Skattar sem leggjast á sjávarútveg en ekki aðrar atvinnugreinar hafa því fyrst og fremst þau hagrænu áhrif að veikja samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar um fjármagn og vinnuafl.

Ef arðsemi er minni í sjávarútvegi en annars staðar leitar fjármagn síður í þann farveg. En líklegast er að skattheimta af þessu tagi hafi fyrst áhrif í þá veru að veikja sjávarútveg í samkeppni um vinnuafl. Það þýðir á mæltu máli að skatturinn leiðir til þess að sjávarútvegurinn greiðir að sama skapi lægri laun en ella væri.

Margir eiga erfitt með að koma auga á afgerandi réttlæti í því að lækka laun í einni atvinnugrein en ekki öðrum með sérstakri skattheimtu. Augu forystumanna Framsóknarflokksins hafa á síðari hluta ársins verið næmari en annarra fyrir þessum einföldu staðreindum um réttlæti og hagræn áhrif skattheimtu.

Þessi afstaða verðskuldar því meiri athygli en hún hefur hlotið og reyndar nokkurt lof í fyrirferðarlítilli umræðu. Grundvallarspurningin
er stór þó að fjárhæðin sé ekki risavaxin.


Vestmannaeyjabær sýnilegur í fjölmiðlum

radhus3Sýnileiki er sveitarfélögum og fyrirtækjum afar mikilvægur.  Það er því fróðlegt að skoða hversu sýnilegur Vestmannaeyjabær hefur verið í fjölmiðlum núna í upphafi desember.  Samkvæmt úttekt á þessu hefur Vestmannaeyjabær nú þegar verið í fréttum 355 sinnum á þessu ári, 136 sinnum í ljósvakamiðlum og 219 sinnum í prentmiðlum.   Hér er átt við miðla aðra en héraðsfréttamiðla þannig að í viðbót við þessar tölur eru svo okkar sterku miðlar eins og Fréttir, Vaktin, eyjar.net og eyjafrettir.is.

Ég held að þetta séu nokkuð ásætanlegar tölur, en enn á ég eftir að skoða hvers eðlis þessar birtingar eru.  Meira um það síðar.


Söguleg fjárhagsáætlun, en vandi fylgir vegsemd hverri

radhus2Nú fyrr í kvöld fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2008.  Óhætt er að fullyrða að aldrei í sögu sveitarfélagsins hefur slík áætlun verið lögð fram.  Það er alveg ljóst að slagkraftur samfélagsins til framtíðar er mikill.  Það er líka ljóst að vandi fylgir vegsemd hverri.

Niðurstöður fjárhagsáætlunar samstæðu sýna rekstrarhagnað að upphæð 472.368.000 í stað 203.199.000 kr. halla árið 2007 en jákvætt veltufé frá rekstri er áætlað 761.244.000 í stað 22.618.000 kr. á yfirstandandi ári.  Gert er ráð fyrir að afborganir lána nemi 223.000.000 og engin ný lán eru nú áætluð í stað 331.184.000 kr. í seinustu áætlun.  Hér að öllum líkum um sögulega sérstæðan viðburð að ræða því mér er til efs að frá stofnun sveitarfélagsins hafi verið lögð fram fjárhagsáætlun þar sem ekki er gert ráð fyrir lántöku.

Það er því ljóst að staða Vestmannaeyjabæjar er rekstrarlega sterkari en áður hefur verið.  Það þarf hinsvegar sterk bein til að halda aftur af þenslu þegar þannig árar og mikilvægt að bæjarfulltrúar séu þess minnugir að fjármagn það sem snúið hefur rekstri úr tapi í hagnað hefur orðið til með þrautseigju og elju íbúa í gegnum áratugi og jafnvel ár hundruð.  Með það í huga ber okkur að haga rekstri og framkvæmdum í sveitarfélaginu þannig að eignarsala sú sem við höfum ráðist í snúi rekstri við til langstíma og gullgæsinni verði ekki slátrað.  Það er líka ástæða til að minna á að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins eru enn verulega íþyngjandi og valda ugg.  Sem dæmi má nefna að heildar söluhagnaður af Hitaveitu Suðurnesja og af fasteignum þeim sem seldar voru til Fasteignar hf. duga ekki fyrir skuldum og skuldbindingum.

Áfram þarf því að gæta aðhalds í rekstri og umgangast fjármuni með það í huga að við erum að sýsla með eignir íbúa Vestmannaeyjabæjar.  Ákvarðanir verður að taka með heildar hagsmuni íbúa að leiðarljósi en ekki skammtíma kröfur háværra þrýstihópa.  Seinustu árin hafa bæjarstjórar og bæjarfulltrúar réttilega barmað sér yfir erfiðum rekstri en öllum er ljóst að nú slær við annan tón og er það tónn bjartsýni á meðan minnt er á að vandi fylgir vegsemd hverri.  Hafi fyrir ári verið ástæða til að vera með annan fótinn á þenslu bremsunni verðum við nú að setja báða fæturna á þann petala. Í seinustu áætlun kynntum við nýyrðið “mannúðleg rekstrargildi” og stefna okkar er að vinna áfram út frá slíkum forsendum, enda er stjórnun sveitarfélags líkari stjórnun fjölskyldu en fyrirtækis.  


Samþykktir um byggingu knattspyrnuhúss standa: óski ÍBV eftir því að framkvæmdum verði frestað verður það af sjálfsögðu skoðað

ÍBVKynlega frétt, um að viðræður séu í gangi milli Vestmannaeyjabæjar og ÍBV um frestun á byggingu knattspyrnuhúss, er að finna í Vaktinni sem kemur út í dag.  Ekki var haft samband við Vestmannaeyjabæ vegna vinnslu fréttarinnar og því sendi ég eftirfarandi fréttatilkynningu til héraðsfréttafjölmiðla nú fyrir stundu.

Eins og kunnugt er hefur Vestmannaeyjabær þegar tekið ákvörðun um að byggja knattspyrnuhús vestan við Týsheimilið.  Áætlaður byggingakostnaður er um 210 milljónir fyrir utan jarðvegsframkvæmdir.  Bæjarstjórn samþykkti einróma að fela umhverfis- og framkvæmdasviði að leita hagkvæmustu leiða til að byggja slíkt knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum með það fyrir augum að það verði tekið í gagnið árið 2008.  Vestmannaeyjabær gerir ráð fyrir því að ráðist verði í byggingu og hún tekin í notkun á næsta ári enda hafa engar ákvarðanir verið teknar sem fela í sér breytingu á þessari samþykkt.  Fulltrúar ÍBV íþróttafélags hafa á óformlegan máta rætt það hvort að til greina komi að fresta byggingu knattspyrnuhússins um eitt ár og að sá kostnaður sem annars myndi verða af fjár- og skuldbindingum renna til að mæta erfiðum rekstri.  Berist slíkt erindi frá ÍBV verður það skoðað og metið með tilliti til heildar hagsmuna.  Að öðru leiti standa samþykktir Vestmannaeyjabæjar um byggingu knattspyrnuhúss.

Sem sagt engar viðræður standa yfir og að öllu óbreyttu verður knattspyrnuhús tekið í notkun á næsta ári.  Það er hinsvegar jákvætt og gott að ÍBV leiti allra leiða til að mæta erfiðum rekstri og taka á erfiðri skuldastöðu.  Vestmannaeyjabær mun áfram standa við bakið á ÍBV í þeirri viðleittni og gaumgjæfa vandlega þær leiðir sem ÍBV leggur til.


Dodge auglýsir Vestmannaeyjar

Untitled-2 copyÍslendingum flestum er kunnugt um þá gríðarlegu náttúrufegurð sem víða er að finna í Vestmannaeyjum.  Þótt landfræðileg einangrunin valdi okkur stundum vanda þá ljær hún umhverfinu sérstakt andrúmsloft sem hrífur og laðar.  Nú virðist sem bílaframleiðandinn Dodge hafi uppgötvað þetta einstaka umhverfi því á dagatali sem fyrirtækið gefur út ár hvert verða Vestmannaeyjar bakgrunnur þess bíls er skreytir marsmánuð 2008.  Gaman að þessu.

Samgöngur til Vestmannaeyja og Jökulfjarða eru sambærilegar, sem sagt engar.

IMG_1061Samgöngur til Vestmannaeyja komu til umræðu á alþingi í dag.  Eins og fyrr er öllum ljóst að núverandi ástand er algerlega óþolandi.  Með sanni má segja að samgöngur við Vestmannaeyjar séu svipaðar og við Jökulfirði, sem sagt engar.  Munurinn er þó sá að í Vestmannaeyjum búa milli fjögur og fimmþúsund manns.  Hér er atvinnulíf öflugt, mannlíf óviðjafnanlegt og vaxtartækifæri víða.  Bara engar samgöngur.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur marg ítrekað lýst sig fylgjandi framkvæmdum í Bakkafjöru að gefnum ákveðnum forsendum.  Fáum dylst að að því gefnu að forsendur þessar gangi eftir þá verður þar um gerbyltingu að ræða.  Hinsvegar eru eðlilega uppi efasemdir um það hvort forsendurnar ganga eftir enda um stórvirki á sviði verkfræði að ræða.  Bæjarstjórn hefur einróma valið að treysta helstu sérfræðingum ríkisins í þessu máli en reglulega minnt á kröfur sínar hvað varðar frátafir, verðskrá, ferðatíðni og fleira. 

Þangað til siglingar komast á milli Vestmannaeyja og Land-Eyjahafnar (Bakkafjöru) þarf hinsvegar að bæta siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.  Enda að lágmarki tvö og hálft ár þar til siglingar á nýrri leið geta hafist. 

Eins og flestir muna þá var eitt af fyrstu verkum núverandi bæjarstjórnar að marka sér stefnu í samgöngumálum.  Stefna þessi var samþykkt með 7 atkvæðum á fundi bæjarstjórnar 27. júlí 2007.

Í inngangi að stefnumótun sagði m.a.:
“Fjögur ár eru einfaldlega of langur biðtími eftir bættum samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar og verður nú þegar að ráðast í að finna heppilega farþegaferju í stað núverandi Herjólfs sem uppfyllir nútímakröfur.   Núverandi ástand samhliða mikilli aukningu farþega og flutnings með núverandi Herjólfi kallar á bættan skipakost nú þegar. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum leggja ríka áherslu á að nú þegar verði hugað að öðrum nýlegum skipakosti í stað núverandi Herjólfs sem orðinn er 14 ára gamall. Slík farþegaferja þarf að uppfylla allar öryggiskröfur sem gerðar eru til farþegaferja og siglinga í Norðurhöfum, hún þarf að stytta siglingartímann milli Eyja og Þorlákshafnar um að a.m.k. 30 mínútur í ferð, taka fleiri ökutæki og flutningavagna og hafa meira svefnrými en núverandi Herjólfur. “

Stefnan var annars á þessa leið:

1.  Herjólfur sigli þrjár ferðir á sólarhring þrisvar í viku yfir sumartímann.  Nærri lætur að næsta sumar nái þetta fram að ganga.  Enn vantar þó eitthvað af ferðum upp á.

2.  Flug milli lands og Eyja verði boðið út og ríkisstyrkur veittur til flugs.  Þetta hefur náð fram að ganga og er flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja öflugt.

3.  Stærra og nýrra skip verður leigt eða keypt í stað núverandi Herjólfs.  Þetta hefur enn ekki náð fram að ganga og er það verulega miður.  Sú barátta haldur áfram.

4.  Tryggt verði að fullnægjandi skip leysi Herjólf af maðan á slipptöku stendur.  Hér var náttúrulega átt við undirbúna slipptöku en ekki bráðatilvik eins og núna.  Þetta náði fram að ganga og hætt var við að láta flóabát leysa Herjólf af.

5.  Framkvæmdir vegna framtíðarsamgangna skulu hefjast á vormánuðum 2007 og þeim lokið eins fljótt og auðið er.  Þetta hefur náð fram að ganga að hluta til (reyndar ekki vormánuði 2007) umhverfismati er að ljúka, uppgræðsla hefur hafist og ætti hafnargerð að geta hafist innan skamms og vera lokið vor 2010. 

Það er hollt og gott að rifja upp hvað náð hefur fram að ganga og hvað ekki.  Ljóst er að skóinn kreppir þegar kemur að siglingum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.  Það er verkefnið sem nú blasir við þingmönnum og ríkisstjórn.  Vilji bæjarstjórnar til þess var kynntur fyrir einu og hálfu ári, frambjóðendur í suðurkjördæmi töldu ekkert í vegi fyrir því að nýtt skip yrði leigt þar til siglingar hefjast í Land-Eyjahöfn (Bakkfjöru) og ríkisstjórn hefur lýst yfir vilja til að bæta samgöngur til Eyja eins mikið og verða má.  Eftir hverju er þá að bíða?

Svona að lokum má geta þess að ég ræddi við Guðmund Petersen rekstrarstjóra Eimskipa fyrr í kvöld.  Hann sagði mér að viðgerð á Herjólfi gengi vel og að allar líkur væru fyrir því að skipið kæmi í áætlun á tilsettum tíma.  Í ljós kom að bilunin var minni en menn óttuðust og dugði að skipta um legur í fjórum skrúfublöðum en ekki þurfti að skipta upp ásleguna eins og menn héldu fyrst.  Unnið er allan sólarhringinn við viðgerðir enda tækifærið notað til að skoða botninn, taka upp vélarparta og fleira, um leið og unnið er að viðgerðum á þeim bilunum sem urðu til þess að taka þurfti skipið úr áætlun.  Þá eru radíomenn að vinna við að koma kallkerfi, útvarpi og sjónvörpum í það ástand sem sæmir farþegaferju.  Við ræddum einnig um mikilvægi þess að ganga tafarlaust til viðhalds á þeim hluta skipsins sem snýr beint að notendum.  Skipta þarf út stólum, bekkjum, sófum, kojudýnum og fleira.  Endurnýja þarf gluggatjöld, bæta aðstöðu fyrir börn, fyrir sjónvarpsáhorf og svo margt fleira.  Enn sem komið er þurfum við notast við þetta skip sem þjónustað hefur okkur vel síðustu 15 ár og á meðan svo er þarf að sinna viðhaldi og sjá til þess að gæðastuðlar taki mið af því að hér er um farþegaferju að ræða sem þjónustar eitt af stærstu byggðarlögum á íslandi.

 

 


Mikil uppbygging í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra

nokkvi_arnar_gautiSeinustu skrif mín fjölluðu um sjálfsmynd.  Nokkrir aðilar hafa sent mér netpóst þar sem þeir hafa meðal annars verið að velta fyrir sér hlutverki sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu sjálfsmyndar barna og unglinga.  Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. (myndin hér til hliðar er af Nökkva Dan og Arnari Gauta sem báðir eru í 6. flokki ÍBV.  Þeir eru eins og hinir peyjarnir duglegir í íþróttastarfi og það á án vafa eftir að hafa jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra).

Í mínum huga er það ljóst að hlutverk sveitarfélaga er að leggja línurnar í átt til heilbrigðs umhverfis sem eflir sjálfsmynd barna og unglinga.  Til þess að það megi verða þarf að standa vörð um heilbrigt og uppbyggjandi umhverfi sem er nægilega fjölbreytt til að gera öllum kleift að birta megundir sínar (sálfræði jargon sem merkir í raun að njóta hæfileika sinna) hverjar sem þær svo sem eru.

Vestmannaeyjabær kappkostar að veita fjölbreytta og vandaða þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra.  Slíkt er besta fjárfesting nokkurs sveitarfélags enda miðar þess háttar fjárfesting að því að efla sjálfsmynd barna og unglinga.  Núverandi bæjarstjórn er ein sú yngsta sem setið hefur í Vestmannaeyjum.  Að afstöðnum kosningum var staðan sú að allir bæjarfulltrúar meirihlutans voru 40 ára eða yngri og meðalaldur þeirra var einungis 37 ár.

Það þarf því vart að koma á óvart að höfuð áhersla hefur verið lögð á annarsvegar samgöngur og hinsvegar á uppbyggingu á þeirri þjónustu sem helst snertir börn og fjölskyldur þeirra.  Meðal þess sem gert hefur verið seinustu mánuði er að opna nýtt kaffi- og menningarhús fyrir ungt fólk (16 til 25 ára), flytja félagsmiðstöð unglinga í nýtt  húsnæði, leggja Hnefaleikafélagi Vestmannaeyja til nýtt og glæsilegt æfingahúsnæði, endurskipuleggja heilsdagsþjónustu grunnskólabarna og flytja slíka þjónustu í nýtt húsnæði, gerbreyta ferlimálum fatlaðra í Barnaskólanum og endurgera félagsaðstöðu unglinga í Barnaskólanum.

Á næstu mánuðum verður svo ráðist í að byggja nýtt útivistarsvæði við sundlaugina, setja nýtt gólf á íþróttasalinn, byggja knattspyrnuhús við Týsheimilið og þannig mætti áfram telja. 

Börn og ungmenni eru mikilvægasta fjárfesting sveitarfélagsins. Allar ákvarðanir sem breyta þjónustu við þau ber að ígrunda vandlega og taka með vegferð þeirra að leiðarljósi. Vestmannaeyjabær ætlar á næstu árum að samhæfa áherslur og renna styrkari stoðum undir allt skóla- og æskulýðsstarf í bæjarfélaginu svo börn og unglingar fái notið bestu uppeldisskilyrða og menntunar og þau mótist sem ánægðir, ábyrgir og virkir þjóðfélagsþegnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband