Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sjálfsmynd

DSCF0088Ég tók mig til áðan og las í gegnum nokkrar “blogg” færslur mínar.  Það kom mér satt að segja dálítið á óvart hversu lítið ég hef skrifað um sálfræðina sem ég varði þó stórum hluta æfi minnar í að læra.  Ég er reyndar þeirri ónáttúru gæddur að verða heltekinn af því sem ég er að fást við hverju sinni og seinustu ár hefur rekstur Vestmannaeyjabær átt hug minn allan.  Svo mun verða áfram en ég ætla þó að gera sálfræðinni hærra undir höfði hér á síðunni en verið hefur enda er sálfræði í mínum huga afar merk vísindagrein.  Það er eitthvað heillandi við að læra og lesa um eitthvað sem allir eru sérfræðingar í (mannlegt hátterni og hugsun) og einsetja sér að öðlast sérfræðiþekkingu í því.  Það er ekki úr vegi að skrifa fyrst um sjálfsmynd, en það hugtak (ásamt meðferðarformum vegna neikvæðrar sjálfsmyndar) hefur verið inntak í mörgum skrifum mínum og störfum áður en skipti um starfsvettvang. (myndin hér til hliðar er sjálfsmynd, þ.e.a.s. af mér, og var tekin þegar ég heimsótti heimili Sigmund Freud í London).

 

Hugtakið “sjálfsmynd” mætti sem best skilgreina sem "allar þær hugmyndir sem einstaklingur hefur um sjálfan sig, skoðun hans og mat á sjálfum sér". Sjálfsmynd felur því í sér allt það sem einstaklingurinn notar til að skilgreina sig og aðgreina frá öðrum, þar með talið líkamleg einkenni, félags- og sálfræðilega eiginleika, hæfileika og færni, afstöðu til lífsins og svo framvegis. Sjálfsmynd er því ekki bundin við ákveðin tíma heldur nær hún til reynslu einstaklings af sjálfum sér, væntinga hans til framtíðarinar og núverandi upplifun hans.

Ljóst er að maðurinn fæðist ekki með fastmótaða sjálfsmynd heldur er hún fyrst og fremst lærð.  Reynsla einstaklingins hefur áhrif á og mótar skoðanir hans um sjálfan sig. Viðbrögð annarra við honum, mat hans á eigin viðbrögðum, ríkjandi samfélags gildi og fleira leggja allt sitt af mörkum til uppbyggingar sjálfsmyndarinnar.  Við þetta bætist svo að allir eiga sér einhverskonar fyrirmyndar sjálf sem segir til um hvernig einstaklingurinn vill vera burt séð frá því hvernig einstaklingurinn er í raun og veru. 

Mikilvægur áhrifaþáttur í mótun sjálfsmyndar er samanburður við aðra.  Við metum útlit og sálfræðilega þætti annarra og okkar sjálfra og komumst þannig að því hver staða okkar og geta er.  Fjölmiðlar og ríkjandi menningargildi og ímyndir spila stórt hlutverk hvað þetta varðar.  Fyrirmyndirnar birtast okkur á síðum dagblaða, í tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og víðar sem fullkomnir einstaklingar og gefa sterkt tilefni til samaburðar.  Því miður er ljóminn í kringum slíkar fyrirmyndir öfgakenndur og samaburður við þær vart til þess fallinn að efla mynd einstaklings af sjálfum sér.

Eins og gefur að skilja er sjálfsmyndin í örastri þróun framan af ævinni og fram á fullorðinsár.  Við göngum í gegnum daglegt líf, tökumst á við áskoranir eða hliðrum okkur hjá þeim.  Við vinnum sigra og bíðum skipbrot, upplifum traust og vantraust, erum elskuð eða svikin og svo framvegis, og allt skráist í sjálfsmyndina.  Smátt og smátt byggist upp til tölulega heildstæð sjálfsmynd sem eftir sem áður er ætíð í endurskoðun. 

Vandinn við sjálfsmyndina er þó sá að í of mörgum tilfellum verður útkoman neikvæð og sjálfsmatið lágt. Í öllum tilfellum er þá um að ræða að fólk metur eigin frammistöðu og árangur á óraunhæfan hátt. Einstaklingar með lágt sjálfsmat eru líklegir til að gera lítið úr góðum árangri og mikið úr mistökum sínum. Þeir eru líklegir til að setja sér markmið sem eru óraunhæf og því ólíklegt að þau náist.  Til að mynda er hætt við því að einstaklingur með lágt sjálfsmat taki ekki mark á hrósi en mikli hinsvegar gagnrýni fyrir sér að samaskapi.  Þessum einstaklingum hættir til að upplifa mikið bil milli fyrirmyndarsjálfsins, þess hvernig þeir vildu að þeir væru og sjálfsins, hugmyndar þeirra um sjálfan sig og eru því óáægður með sjálfan sig.  Þeim líður illa. 

Umhverfið og hugsanir eru óþrjótandi uppspretta harðrar sjálfsgagnrýni og óþægilegra kennda.  Hin neikvæða sjálfsmynd verður allt umlykjandi og vefur neikvæð formerki á flest í umhverfi einstaklingsins.  Þannig festist hann í vítahring þar sem hið lága sjálfsmat verður til þess að lítið er gert úr góðum árangri en mistökin mikluð, sem aftur leiðir til enn lægra sjálfsmats.  Í sumum tilvikum hlýst af þessu alger örvilnun og þar með sjúkdómar á borð við þunglyndi og kvíða.

Sjálfur hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstoða fólk sem glímt hefur við þessa kvilla.  Sú reynsla hefur kennt mér að besta gjöf sem uppalendur geta gefið börnum sínum er heilbrigð og jákvæð sjálfsmynd.  Þá hef ég einnig orðið staðfastur í þeirri trú (í raun í þeirri vissu) að allir geta eflt sjálfsmynd sína og mest þeir sem hafa lökustu sjálfsmyndina.


Sértækar álögur á sjávarútveginn skaða landsbyggðina

IMG_1086Í Morgunblaðinu í dag er að finna grein eftir mig.  Ég hef fengið meiri og betri viðbrögð við þessum skrifum en ég átti von á.  Fjölmargir hafa haft samband og sagst sammála því sem þarna kemur fram.  Reyndar er rétt að taka einnig fram að tveir aðilar hafa sett sig í samband við mig og sagt að  vissulega væru þetta óðlilegar álögur á sjávarbyggðir en nær væri berjast fyrir einhverju öðru svo sem réttindum sjómanna, annarri aðferðafræði Hafró og fleira.  Við þá báða hafi ég uppi orð Megasar þegar hann sagði "svo skal böl bæta að benda á annað verra".  Slíkt er í mínum huga ekki góð aðferðarfræði. (á myndinni hér til hliðar er sonur minn að dorga niðri á bryggju hér í Eyjum.  Hann veiddi 3 ufsa en borgaði ekki veiðgjald af aflanum).

Greinin er svona:

Sértækar álögur á sjávarútveginn skaða landsbyggðina
Í kjölfarið á 30% niðurskurði á þorskkvóta hafa umræður um stjórn fiskveiða á ný orðið fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni.  Reyndar hefur umræða um gengi fjármálageirans á seinustu misserum orðið til þess að slá því ryki í augu fjölmargra að sjávarútvegur hafi orðið lítið vægi í hagkerfi Íslendinga.  Staðreyndin er engu að síður sú að sjávarútvegur er ein helsta stoð íslensks hagkerfis.

Álögur á sjávarútveginn eru álögur á landsbyggðina
Rétt eins og með aðra anga íslensks hagkerfis er hagkerfi sjávarútvegsins frekar staðbundið.  Veiðar og vinnsla eru fyrst og fremst stunduð utan höfuðborgarsvæðisins og með rökum má halda því fram að álögur á sjávarútveginn séu álögur á landsbyggðina, rétt eins og álögur á vinnslu jarðvarma væru álögur á byggðarlög á suðvestur horninu og álögur á fjármálamarkaðinn væru öðru fremur álögur á fyrirtæki í Reykjavík.  Þannig er það marg ítrekuð afstaða bæjarstjórnar Vestmannaeyja að hið svokallaða veiðileyfagjald mismuni byggðum landsins.  Sá landshluti sem fer hvað mest hall oka í ofursköttun sjávarútvegsins er Suðurkjördæmi og þá ekki síst Vestmannaeyjabær, sem er stærsta verstöð á landsbyggðinni og byggir afkomu sína alfarið á sjávarútvegi.

Suðurkjördæmi er sterkt útgerðarsvæði
Skyldi einhver efast um að veiðileyfagjaldið sé sértækur skattur á landsbyggðina er fróðlegt að bera saman þorskígildi í Suðurkjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu.  Rauntölur fyrir árið 2006 sýna að hlutdeild höfuðborgarsvæðisins er í dag rétt rúm 15% meðan Suðurkjördæmi er með rúmlega 30% hlutdeild.  Seinustu ár hefur þessi munur verið að aukast.  Tölur þessar verða enn meira sláandi þegar til þess er litið að á kjörskrá í Suðurkjördæmi voru við síðustu alþingiskosningar 30,6 þúsund en á höfuðborgarsvæðinu að Akranesi frátöldu 141,5 þúsund.  Það verður því vart í efa dregið að álögur á sjávarútveginn bitna sértækt á landsmönnum.

Mikilvægt að sjávarútvegur sé einnig ræddur út frá praktískum sjónarmiðum
Helstu rökin fyrir veiðileyfagjaldinu hafa í gegnum tíðina verið þau að hér sé um hugmyndafræðilegan gjörning að ræða þar sem gjald er innheimt af þeim sem nýta sameign þjóðarinnar.  Í sannleika sagt er lítið innihald í slíkri málfærslu og það afar mikilvægt að sjávarútvegur sé ræddur út frá praktískum sjónarmiðum en ekki eingöngu hugmyndafræðilegum.  Staðreyndin er sú að auðlindagjald er verulega íþyngjandi fyrir sjávarbyggðirnar.  Til að setja málið í samhengi má til dæmis benda á að hefði auðlindaskattur verið lagður á á árabilinu 1991 til 2007 má ætla að hann hefði numið allt að 7 milljörðum (sjö þúsund milljónum) bara fyrir Suðurkjördæmi sem greiðir hæsta hlutfall allra kjördæma af veiðigjaldinu eða um og yfir 30%.

35% íbúa landsins greiða 85% skattsins
Stærsta verstöð á landsbyggðinni er Vestmannaeyjar.  Ýmislegt hefur orðið til þess að sjávarútvegur þar hefur styrkst og ræður þar af sjálfsögðu mestu nálægð við gjöful fiskimið, öflug útflutningshöfn og farsælir sjómenn og útgerðarmenn.  Engu að síður hafa Vestmannaeyjar átt undir högg að sækja þótt nú hilli undir bjartari tíð með bættum samgöngum.  Það kemur því vart nokkrum á óvart að Eyjamenn eins og aðrir íbúar í sjávarbyggðum finna fyrir þeim þyrni í síðu, sem felst í því að árlega má áælta Eyjamenn greiði um 100 milljónir  á ári í sértækan skatt fyrir það eitt að stunda sjávarútveg en ekki til dæmis álbræðslu, verðbréfamiðlun eða landbúnað.  Veruleikinn er sá að 35% íbúa landsins (landsbyggðin) greiðir 85% skattsins.  Vandi er að sjá hvernig þingmenn, og þá ekki síst þingmenn Suðurlands, geta sætt sig við slíkar sértækar álögur á kjósendur sína.

Orkuveita Reykjavíkur myndi greiða 810 milljónir og Landvirkjun 1400 milljónir
Athyglivert er að velta sértækum skatti fyrir sér í öðru samhengi því fáir efast um að orka landsins sé þjóðareign.  Ef gluggað er í ársreikninga Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2006 kemur í ljós að framlegð þess fyrirtækis eru rúmir 8,5 milljarðar.  9,5% auðlindagjald á þessa sameign þjóðarinnar væru því rúmar 810 milljónir fyrir það árið.  Með sömu aðferðafræði má sjá að Landsvirkjun myndi þurfa að greða 1400 milljónir.  Fullyrða má að hljóð heyrðist úr suðvesturhorni ef slíkum sértækum skatti yrði komið á.

Farsælast er að aflétta þessum sértæka skatti
Þessa dagana eru útvegsmenn um allt land að leita leiða til þess að mæta niðurskurði á aflamarki í þorski.  Þessar leiðir koma niður á starfsemi fyrirtækjanna og þeim sem hafa viðurværi sitt af því að þjónusta þá sem starfa í sjávarútvegi, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga.  Auðlindagjald er landsbyggðaskattur sem leggst þyngst á þau svæði landsins sem fyrir voru efnahagslega köldust.  Þessi sömu byggðarlög tóku á sig herkostnað af hagræðingu  og þurfa nú að taka á sig mestu skerðingu sem um getur í sögu sjávarútvegs.  Það er einkennileg hagfræði að ríkið telji sig best til þess fallið á slíkum tímum að innheimta sértækan skatt á fyrirtæki á landsbyggðinni og skila svo litlum hluta af því til baka undir merkimiða mótvægisaðgerða, byggðarstyrks eða annarra umdeildra aðgerða.  Farsælast er að aflétta þessum sértæka skatti.

Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum


Vosbúð: Hugmynd ungmenna verður að veruleika.

Vosbud_ellidiÍ gær opnaði Vosbúð, kaffi- og menningarhús ungmenna í Vestmannaeyjum.  Með þessu er að rætast langþráður draumur ungmenna hér í Eyjum þar sem aðstöðuleysi þeirra hefur verið algert seinustu ár.  Aðstaðan í Vosbúð er til fyrirmyndar og ljóst að vandað hefur verið til verka í hvívetna.  Umgjörðin öll er björt og falleg, stórir gluggar þannig að starfsemin verður áberandi fyrir þá sem eru á “rúntinum”.  Í Vosbúð má svo finna risa flatskjá, þráðlaust net, Playstation 3 tölvu, fótboltaspil og billiardborð og fleira. (á myndinni hér til hliðar er ég að taka sigurskotið í Billiard þegar ég vann Jens Kristinn með miklum glæsibrag við opnun Vosbúðar).

Auðvitað veldur svo hver á heldur og nú reynir á ungmennin sjálf að sýna aðstöðunni virðingu og nýta hana vel. 

Ástæða er til að fagna þessum áfanga sérstaklega enda er það ljóst að aðbúnaður ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára ræður miklu um val þeirra um framtíðarbúsetu. 

Í aðdraganda kosninga í fyrra vor fórum við þá leið að stefna til okkar hundruðum Eyjamanna til að stilla strengi okkar og vinna að sameiginlegri stefnuskrá.  Í þeirri vinnu kom fram einbeittur vilji ungmenna til að aðstaða þeirra til tómstundaiðkunar yrði bætt verulega.  Af sjálfsögðu var því vel tekið og í stefnuskrá okkar fyrir kosningar stóð: “Við ætlum að efla aðstöðu fólks á aldrinum 16 – 20 ára til tómstundaiðkunar.  Í því samhengi viljum við líta til menningar- og upplýsingarmiðstöðvar fyrir ungt fólk.”  Það er alltaf ánægjulegt þegar hægt er að standa við stór orð.  Sömuleiðis er það ánægjulegt þegar hugmyndir ungs fólks ná fram að ganga.


Eru sumar auðlindir sameiginlegar? (gestapenni)

H073Stundum þegar mikið brennur á mér eða mig vantar álit hjá manni með vit og þekkingu þá leita ég til vinar míns og kollega á Ísfirði, Halldórs Halldórssonar.  Bæði er þar að finna vandaðan og góðan mann með mikla þekkingu á málefnum sveitarstjórna og mann sem stýrir samfélagi sem ég finn mikla samsvörun í og viðfangsefnin því áþekk.  Nú fyrir stuttu átti ég gott spjall við Halldór.  Eitt af því sem við ræddum var auðlindagjaldið svo kallaða en Vestfirðirnir eru að borga um 42 milljónir á ári í sérstök gjöld fyrir það eitt að veiða fisk í stað þess að höndla með verðbréf, vinna orku, eða eitthvað annað.  Halldór benti mér á grein sem hann skrifaði fyrir nokkru og heitir “Eru sumar auðlindir sameiginlegar?”.  Ég fékk hans samþykki fyrir því að munstra hann sem gestapenna hér síðunni.

Eru sumar auðlindir sameiginlegar?
haddiNú fer fram umræða um jöfnun flutningskostnaðar á landinu vegna breyttra orkulaga og líklegrar niðurstöðu svokallaðrar 19 manna nefndar. Hafa forstjórar orkufyrirtækja á suðvesturhorninu sem og borgarráð látið falla varnaðarorð vegna þessa. Fullyrt er að raforkukostnaður muni hækka á höfuðborgarsvæðinu um 20% og að það svæði muni líða mikið fyrir þessar breytingar.

Ekki hefur undirritaður upplýsingar um hversu mikið kostnaður mun aukast við breytinguna en veltir jafnframt fyrir sér hvort ekkert kostaði að dreifa rafmagni á svæðinu fyrir lagabreytingu. Getur verið að það gleymist í umræðunni?

Sameiginlegar auðlindir.
Talað er um fiskimiðin sem sameiginlegar auðlindir og að greiða skuli sérstakan skatt til landsmanna af fiskveiðum. Fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins greiða stærstan hluta af þeim skatti sem rennur í sameiginlegan sjóð landsmanna sem ráðstafað er í Reykjavík. Þá eru flest opinber störf tengd sjávarútveginum í Reykjavík sem nýtur þess í ýmsum tekjustofnum.

Orkuauðlindirnar eru sameiginlegar auðlindir. Við vitum að höfuðborgarbúar dæla ekki allri orkunni undan fótum sér heldur er hún líka sótt út fyrir svæðið úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Að því gefnu er auðvitað eðlilegt að landsmenn njóti að mestu sambærilegs raforkuverðs. Það er reyndar ekki svo heldur nokkuð misjafnt og víða eru þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni sem greiða niður kostnað við dreifikerfi á viðkomandi svæði. Á flestum stöðum er að auki hærra orkuverð en á höfuðborgarsvæðinu þó munurinn hafi minnkað á undanförnum árum.

Viðhorf.
Viðbrögðin við hugmyndum um jöfnun flutningskostnaðar á orku rifja upp viðhorf of margra embættismanna í stjórnkerfinu gagnvart því að störf á vegum hins opinbera eigi samkvæmt byggðaáætlun að fara út á land. Margir þessara embættismanna setja í handbremsu og bakkgír til öryggis gegn svona hugmyndum (stefnu ríkisstjórnar) og vinna að öfugri þróun í mörgum tilfellum.

Skv. skýrslu Verslunarráðs, minni ríkisumsvif margfalda tækifærin, fjölgaði opinberum störfum um 1.300 á árunum 2000-2002. Þó það eigi ekki að vera markmið að fjölga opinberum störfum hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og því er ekki tilviljun að svæðið sé jafnöflugt og raun ber vitni. Þessi störf eru viðbót við þau þúsundir sem fyrir eru. Á sama tímabili hefur opinberum störfum í mínu bæjarfélagi fækkað þrátt fyrir fyrrgreinda stefnu um að færa opinber störf út á land í kjarnastaði á landsbyggðinni.

Þarna skiptir hugarfarið öllu máli því mín tilfinning er sú að fyrir hvert starf sem við í kjarnabyggðunum leggjum til að fari þangað, séu tugir embættismanna fyrir sunnan sem berjast gegn því með öllum ráðum. Við höfum auðvitað lítið í þá að segja því þeim fjölgar jafnt og þétt og vex ásmegin þegar þróunin er í þveröfuga átt hjá okkur.


Handafls aðgerðir í sjávarútvegi kosta íbúa Suðurkjördæmis eitt þúsund og eitt hundrað milljónir

100_1935Alþingismenn í suðurkjördæmi eru gott og vinnusamt fólk.  Meðal þeirra verka sem þeirra bíða er að ráðast til atlögu við þá miklu mismunun sem við er að glíma innan sjávarútvegsins.  Suðurland fer illa út úr ofurskattlagningu á sjávarútveginn og við því þarf að bregðast.  Niðurskurður á þorskkvóta hefur gert þetta að enn þarfara verkefni en áður.

Handaflsaðgerðir í sjávarútvegi kosta íbúa Suðurkjördæmis eitt þúsund og eitt hundrað milljónir
Það er grundvallaratriði að þeir sem starfa í sjávarútvegi geti treyst á að allir sitji við sama borð.  Krafan er einfaldlega sú að starfseminni séu settar almennar reglur sem allir geta treyst að standi til langframa.  Því miður er staðan sú að íbúar í Suðurkjördæmi leggja í dag rúmlega 1,1 milljarð (rúmlega eitt þúsund og eitt hundrað milljónir) til vegna svokallaðra potta og línumismununar.

Eyjamenn eru ósáttir við veiðileyfagjaldið
Bæjarstjórn Vestmannaeyja er ekki hvað síst ósátt við veiðileyfagjaldið og telur það mismuna byggðum landsins.  Margítrekað hefur verið rætt við “stóru krakkana” í pólitíkinni þ.e.a.s. þingmenn og ráðherra um hæpnar forsendur þessa landsbyggðaskatts.  Því miður fer umræða um veiðileyfagjaldið oftast út í umræðu um hugmyndafræði þar sem menn detta í einhvern Morfís gír og kappkosta að ræða þjóðarauðlind, sameign þjóðarinnar, byggðastefnu, byggðarröskun og fleira.  Alla jafnan er um leið settur upp spekingssvipur þeirra sem upplýstir eru en að umræðum loknum er vandinn enn til staðar.  Lítið hefur því miður borið á skilningi á þeim vanda sem það veldur byggðalagi að stóla á atvinuveg sem er skattlagður umfram aðra atvinnuvegi. 

Mikil staðreyndahagfræði en lítið af stefnuhagfræði
Ég er lítt lesin í hagfræði, það viðurkenni ég fúslega.  Ein og ein grein og bók um hagfræði kemst þó í gegnum þá síu sem takmarkaður tími setur mér hvað lestur varðar.  Nú nýlega las ég um muninn á staðreyndahagfræði  og stefnuhagfræði.  Í grófum dráttum má lýsa þessu sem svo að staðreyndahagfræði lýsir því sem verið hefur og greinir hvers vegna staðan í dag er eins og hún er, var eða verður.  Stefnuhagfræðin fjallar hinsvegar um vænlegar leiðir til að bæta árangur í efnahagslífinu.  Óneitanlega saknar maður þess að stjórnmálamenn og embættismenn fjalli ekki meira um stefnuhagfræði sjávarútvegs og sjávarútvegsbyggða eins og hér í Vestmannaeyjum.

Eyjamenn greiða 110 milljónir ári í veiðileyfagjald
Það er einfaldlega skaðlegt fyrir landsbyggðina og þá ekki síst íbúa á Suðurlandi að umræðan skuli ætíð þurfa að falla í Morfísfarveginn.  Hvað sem allri hugmyndafærði líður þá er staðreyndin sú að við Eyjamenn eru að greiða um 110 milljónir á ári í veiðileyfagjald (og þá er eftir byggðarkvóti, línuívilnun, rangir slægingarstuðlar, bætur vegna skel og rækju og fl.).  Ef þessir peningar yrðu eftir hjá bæjarfélaginu (eðlilegast væri að sleppa þessari gjaldtöku en það væri þó ill skárra) myndi þetta duga fyrir nýjum stórum leikskóla annað hvert ár, á 5 árum væri hægt að byggja nýja skipalyftu, hægt væri að hafa allt íþrótta- og æskulýðsstarf gjaldfrjálst, og þannig mætti áfram telja.  Þetta er vandi sem þarf að ræða á praktískum nótum en ekki hugmyndafræðilegum.  Ef við værum að sinna álbræðslu, verðbréfamiðlun eða orkuvinnslu þá yrðu þessar 110 milljónir eftir hér í Eyjum, en þar sem við vinnum við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar þá erum við (og aðrir sjávarútvegsbæir) skattlögð umfram aðra íbúa þessa lands. Staðreyndin er sú að 35% íbúa landsins (landsbyggðin) greiðir 85% skattsins.

Undarleg hagfræði
Enn og aftur minni ég á hversu lítt ég er lesin í hagfræði.  Viljinn til að læra er hinsvegar til staðar og þætti mér vænt um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér gæði þeirrar hagfræði sem um þessar mundir er stunduð og felst í því að ofurskattleggja sjávarbyggðir um allt land en afhenta þeim svo lítinn hluta af þessum sköttum í formi mótvægisaðgerða, byggðastyrks eða einhvers annars vegna efnahagslegra erfiðleika í þessari sömu grein.

Létta á álögum á sjávarútveginn og þar með á landsbyggðina
Staðreyndin er sú að auðlindagjald er landsbyggðaskattur sem leggst þyngst á efnahagslega  köldustu svæði landsins.  Ríkið á að styðja við bakið á þessum samfélögum með því að létta álögum á atvinnugreinar þessara svæða, þótt ekki væri nema til jafns á við það sem annarstaðar er.

 

 


Breytt skipan vélstjórnarnáms

IMG_1578bÁ þriðjudaginn funduðum við í skólanefnd Framhaldsskóla Vestmannaeyja.  Ég er nú kominn í nýtt hlutverk hjá FÍV og nú sem formaður skólanefndar.  Ferillinn í FÍV heldur því áfram.  Ég byrjaði hann sem nemandi, síðan kom ég þangað í starfsnám þegar ég lærði til kennara, að loknu mastersnámi í sálfræði fór ég í 50% stöðu sem afleysingakennari, réði mig svo í fulla vinnu sem kennari í 9 ár, eftir að ég varð bæjarstjóri fór ég svo inn í skólanefnd og nú er ég orðinn formaður skólanefndar.  Það kemur því vart á óvart að ég hef miklar mætur á þessari stofnun.  Í mínum huga er hún einn af máttarstólpum samfélags okkar.  Þá hef ég einnig þá bjargföstu trú að á næstu misserum komi til með að skapast mikil tækifæri til sóknar fyrir skólann, bæði með meiri þjónustu hér innanbæjar og með því að bjóða upp á þjónustu á suðurlandi, frá Hvolsvelli út að Klaustri.

Eitt af því sem við fjölluðum um voru tillögur að breyttri skipan vélstjórnarnáms sem nú liggja fyrir hjá menntamálaráðuneytinu.  Um leið breytast reglur og viðmið varðandi atvinnuréttindi vélstjóra. Í dag eru lægstu réttindin, vélavarðarréttindi eða 375 kW, en þau fást eftir eina önn í skóla (19 einingar). Annað stigið er nú 750 kW og fæst eftir tveggja ára nám (85 einingar) og í öllum tilfellum þarf starfstíma á sjó eftir því sem reglur segja til um, ásamt slysavarnarskóla sjómanna. Gert er ráð fyrir að breytingin taki til þeirra sem innrita sig eftir áramót.

Nýja fyrirkomulagið gerir ráð fyrir því að fyrstu réttindi fáist eftir eitt ár í skóla (38 einingar) og veita þau 750 kW réttindi eftir tilskilinn siglingatíma, en þó ekki fyrr en við 18 ára aldur. Annað stigið verður 3 ár (126 einingar) og kemur til með að gefa 1500 kW réttindi.

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hefur því ákveðið að bjóða þeim sem það vilja, að taka vélavarðarnámið sem nú er verið að leggja niður og er það nokkuð örugglega síðasta tækifærið til að ná sér í réttindi á einni önn, réttindi sem gilda til dæmis á trillur og minni báta. Þeir sem vilja nýta tækifærið þurfa að skrá sig fyrir 1. desember, á skrifstofu skólans eða hjá Gísla Eiríkssyni brautarstjóra vélstjórnarbrautar.

Ástæða er fyrir áhugasama að hafa hraðar hendur og skrá sig í námið.  Hægt er að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 488-1070.


Betra skip

X-BOWÁ dauða mínum átti ég frekar von en að ég yrði áhugamaður um hönnun á skipum og ferjum. Svo er nú hinsvegar komið að ég hef orðið nokkuð gaman af þessum skipa pælingum.  Auðvitað er ég eins langt frá því og hægt er að vera sérfræðingur á því sviði, reyndar þekki ég lítið til annars en að vera sjóveikur farþegi.  Hinsvegar er ég svo lánsamur að hafa gott aðgegni að þeim sem hafa sérfræðiþekkinguna, bæði í mínum vinahópi, fjölskyldu og innan Siglingastofnunar. 

Eitt af því sem hvað mest hefur verið rætt við hönnun á nýjum Herjólfi sem sigla á í Land-Eyjahöfn er að það fari sem allra best með farþega.  Sigling er margra mati ekki þægilegur ferðamáti og það háir okkur Eyjamönnum þegar gestir okkar (eða við sjálf) verðum sjóveik.  Sjóveiki er "náttúruleg viðbrögð heilbrigðs líkama við óeðlilegum aðstæðum".  Þótt ýmis húsráð séu góðra gjalda verð svo sem að binda trefil fast um magann á sér, taka inn Pektólín, vera með segularmband og fleira þá stendur þetta og fellur með því að draga úr þessum óeðlilegu aðstæðum (veltunni og stampinu).

Í þeim tilgangi að bæta líðan farþega og auka öryggi sjófarenda hafa Norðmenn farið þá leið að hanna nýtt stefni á skip sem sigla við erfiðar aðstæður, svo kallað X-BOW stefni.

Hönnun þessi hefur fært viðkomandi hönnuði (Øyvind Karnsvag) og fyrirtækinu (Ulstein) fjölmargar viðurkenningar og er þess skemmst að minnast þegar skipið (The Bourbon Orca) var tilnefnt skip ársins.  Ekki einungis þykir það fara langtum betur með áhöfn, farm og farþega heldur brennir það minni olíu og nær meiri hraða en skip með hefðbundið stefni.

shipbuildersReyndar er hér ekki verið að finna upp hjólið því hugmynd þessi er dregin af stefni á Kvalsund knerrinu sem fannst í uppgreftri í Sunnmörre í Noregi.  Merkilegt hvað víkingarnir hafa snemma verið komnir með lag á því að hanna skip til siglinga á erfiðum leiðum en talið er að skipið hafi verið smíðað um árið 900.

Myndbandið sem er "linkað" hér fyrir neðan sýnir þegar slíkt skip siglir fram úr sambærilegu skipi með hefðbundið stefni.  Athyglisvert er að grænaskipið með X-BOW stefnið er að sigla á 13 mílna hraða en það rauða er að sigla á 8 mílna hraða.  Mér sem leikmanni sýnist ekki fara á milli mála hvað X-BOW skipið fer betur í ölduna, jafnvel þótt það sé á svona mikið meiri hraða (það er í raun að sigla framúr).  Gaman væri að vita hvað þeim sem þekkja til þykir um þetta.

Sjá: Ulstein X-bow

ps. Vegna reynslu af umfjöllun um nýjan Herjólf sem sigla á í Land-Eyjahöfn er rétt að taka skýrt fram að þetta skip sem hér er sýnt er ekki væntanleg ferja. 


"...hann er spilltur, frekur og hreinlega minniháttar á andlega sviðinu"

IMG_2971Sonur minn var í dag að dunda sér við tölvuna eins og svo oft.  Í leik sínum "gogglaði" hann nöfn fjölskyldumeðlima.  Ein af greinunum sem hann rakst á um "kallinn hann pabba" var þessi umfjöllun af spjallsíðu þar sem verið var að ræða málefni flugsamgagna milli lands og Eyja: (Myndin hér til hliðar er af lífæð Vestmannaeyja, höfninni, en hefur ekkert að gera með þessa bloggfærslu.  Myndina tók ég núna í haust)

"Mér er ekki í nöp við Vestmannaeyinga frekar en aðra landsmenn. Ég hef aldrei talað niður til Vestmannaeyinga sem einhverskonar heild, hvorki nú né áður. Margir hafa kastað sér fram á ritvöllinn og kallað þá frekjuhunda og vitleysinga en það hef ég ekki gert.

Hinsvegar hef ég ekki farið leynt með fyrirlitningu mína á Elliða Vignissyni, eða Bulliða bæjarstjóra eins og "Fernandos" uppnefndi hann og ekki að ósekju. Ef við lítum nú til baka og skoðum hans afrek rétt sem snöggvast:

Hann eyddi hálfu ári í að rífa kjaft í fjölmiðlum vegna þess að vinur hans, flokksfélagi og framkvæmdastjóri Flugfélags Vestmannaeyja klúðraði sjúkraflugsútboðinu með græðgi.

Nú síðast heimtaði hann að sjúkraflugssamningi þeim er Landsflug hefur við heilbrigðis og tryggingaráðuneytið verði sagt upp tafarlaust í ljósi niðurstaðna skýrslu sem vinnuhópur gerði á vegum ráðuneytisinns. Í þeirri skýrslu er sýnt fram á þrjú frávik frá hámarks útkallstíma í fyrsta stigs útköllum. Í einu tilfellinu þótti heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hafa gefið mjög óljósar upplýsingar um stig útkallsinns, í öðru tilfellinu fór Landsflug fimm mínútur yfir hámarkstíma og í því þriðja var ekki haft samband við Landsflug þegar útkallið kom, heldur haft beint samband við Landhelgisgæsluna þannig að ekki verður úr því skorið héðan af hvort að Landsflug hefðu getað staðist útkallstímann.

Einnig kemur fram hörð gagnrýni á vinnubrögð heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyjabæjar varðandi slök vinnubrögð við útköll og einnig er það gagnrýnt, bæði á umræddu tímabili sem og því tímabili er Flugfélag Vestmannaeyja sinnti þessu flugi, að læknar voru ekki sendir með í fyrsta stigs útköll í mörgum tilfellum.

Þessi skýrsla fjallaði um tímabilið frá 1. jan og fram í júní. Síðan þá hlýtur allt að hafa staðist eins og stafur á bók hjá Landsflugi varðandi þetta sjúkraflug því annars hefðum við heldur betur heyrt af því frá Elliða! Engu að síður þá heimtar hann nú að samningnum verði tafarlaust sagt upp. Án nokkurs efa til þess að vinur hans hjá Flugfélagi Vestmannaeyja geti tekið við á ný!

Í sambandi við áætlunarflug til Vestmannaeyja þá hefur Elliði látið það frá sér fara í vitna viðurvist að hann muni allt til þess vinna að Vestmannaeyingar ferðist ekki með Landsflugi. Hann fór mikinn í fjölmiðlum um hversu ómögulegt það væri að fljúga þangað á 19 sæta vélum, alveg þangað til það stefndi í að Flugfélag Vestmannaeyja tæki við þessum sömu vélum til þess að sinna þessu flugi. Þá skyndilega steinþagnaði hann sem og aðrir meðreiðarsveinar hans og orrustupennar.

Þegar Landsflug svo hætti að fljúga til Vestmannaeyja lét Elliði prenta "Flugfélag Íslands" á ennið á sér, heimtaði 36 sæta vél með jafnþrýstibúnaði, bullaði slík ósköp um kosti þesskonar vélar, meðal annars með heimskulegum og amatörslegum fullyrðingum um að vél með jafnþrýstibúnaði gæti svindlað á náttúrulögmálunum.

Ég segi það enn og aftur, ég hef ekkert á móti því fólki sem býr í Vestmannaeyjum, á ættir sínar þangað að rekja, tengist eða hefur á einhvern hátt tengst þessu bæjarfélagi. Persónulega hef ég ekkert á móti ríkisstyrk á eyjar. Hinsvegar verður að nota almenna og heilbrigða skynsemi þegar kemur að því að setja kröfur um slíkt útboð.

Þar sem Elliði hefur margsinnis sýnt fram á það að hann er ekki búinn því nauðsynlega elementi sem heilbrigð skynsemi er, þar sem hann hefur sýnt framá verstu tegund fyrirgreiðslu pólitíkur sem ég hef séð síðan Framsóknarflokkurinn var stærsti flokkur landsinns, þar sem hann , þá vil ég meina að það yrði Vestmannaeyjum til mikilla heilla að sjá á bak honum úr embætti!"

Á öðrum stað á sömu síðu stendur:

"...og eins það að bæjarstjóri vestmannaeyja sat á fundi með framkvæmdarstjóra Landsflugs fyrr í sumar og sagði að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að eyjamenn myndu ekki fljúga með Landsflugi eftir 1 sept.

Ég get vottað að þetta er satt. Sá aðili sem er búinn að eyðileggja allt flug mill Vey - Rvk er Elliði Vignisson

Hvet alla til að skoða myndina sem Sigmund skopteiknari hjá Morgunblaðinu teiknaði af Elliða um daginn, þar sem Elliði var að leika sér í sankassa, og spurt var hvenær hann ætlaði að þroskast."

Syni mínum fannst þetta vægast sagt mjög kómískt og fór með langan fyrirlestur um siðfræði netnotkunar sem hann fékk víst þegar hann var í tölvukennslu í fyrra, þá níu ára gamall. 

Ég er sammála honum hvað skemmtigildi þessarar lesningar varðar, en það er ef til vill ekki að marka mig þar sem ég er "minniháttar á andlega sviðnu" ;)


Millilandaflugvöllur við Vestmannaeyjar

 

 IMG_1598

Ég er þess fullviss að í framtíðinni verður millilandaflugvöllur á Suðurlandi og þá ef til vill á Bakka, rétt við höfnina okkar sem þar mun rísa innan skamms.  Þegar af því verður mun þetta (myndin hér til hliðar) verða útsýnið út um flugstjórnarklefan þegar vélar lenda til suðurs.

Um seinustu helgi átti ég sæti í samgöngunefnd SASS.  Ýmislegt var þar skeggrætt og eitt af því var millilandaflugvöllur á suðuarlandi og fór svo að eftirfarandi var samþykkt:

"Samgöngunefnd hvetur til þess að hafin verði undirbúningur að gerð alþjóðarflugvellar á Suðurlandi.  Slíkur flugvöllur mun þjóna hlutverki varaflugvallar fyrir alþjóðlegaflugvöllinn á Reykjanesi um leið og þar væri rekin lággjaldarflugvöllur að erlendri fyrirmynd.  Aðstæður á suðurlandi er kjörnar í ljósi nálægðar við öflugustu ferðaþjónustusvæði á landinu."

Gaman er að velta því fyrir sér hvaða áhrif slíkur völlur myndi hafa fyrir austursvæðið og Vestmannaeyjar ef slíkur völlur yrði staðsettur á Bakkaflugvelli.  Aðstæður þar eru einstaklega góðar, ekkert fjalllendi, og sléttlendi slíkt að lagning brauta er ódýr og ótakmörkuð.  Samgöngur milli lands og Eyja koma í framtíðinni til með að verða milli Vestmannaeyja og hafnar í Landeyjum (Land-Eyjahöfn).  Þetta myndi merkja að öflugasta útflutningshöfn á landinu (hér í Eyjum) væri í seilingarfjarlægð frá millilandaflugvelli, það eitt og sér skapar gríðarleg tækifæri. 

Þá myndi þetta einnig merkja gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu bæði hér í Eyjum og á Suðurlandi.  Þetta er mál sem ánægjulegt verður að fylgja eftir, hér heima sem og innan SASS.  Meira um þetta síðar.


Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin skiluðu inn sameiginlegri þátttökutilkynningu í forvali

Vestmannaeyjar 031Á fimmtudaginn fól bæjarráð mér að að kanna forsendur þátttöku í forvali og taka þátt í því væri slíkt mögulegt.  Í gær skiluðu Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin svo sameiginlegri þátttöku tilkynningu inn til Ríkiskaupa. (Myndin hér til hliðar er af mér og Unni Brá Konráðsdóttur sveitarstjóra á Hvolsvelli.  Sveitarfélögin hyggjast stór efla samstarf sitt á næstu árum og þá ekki síst á sviði menntunar, menningar og ferðaþjónustu).

Föstudagurinn og helgin fór því í undirbúning en í samræmi við umræður á fundi bæjarráðs var sú leið valin að leita til þeirra aðila í Vestmannaeyjum sem mesta reynslu hafa af skiparekstri og niðurstaðan var sú að Vinnslustöðin og Vestmannaeyjabær tóku saman þátt í forvalinu.  Ýmsir aðrir aðilar hafa sýnt málinu áhuga og vilja athuga með forsendur þess að taka þátt á síðari stigum og þá ef til vill með þátttöku í stofnun hlutafélags um verkefnið.

Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin sendu frá sér svo hljóðandi fréttatilkynningu í morgun:

Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin hf. hafa komist að samkomulagi um þátttöku í forvali vegna útboðs á rekstri ferju, sem sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar (við Bakkafjöru).

 Aðilar eru sammála um að sú breyting sem felst í tíðum og öruggum 30 mínútna ferðum milli Vestmannaeyja og hafnar í Landeyjum beri með sér mikil sóknarfæri fyrir Vestmannaeyjar, bæði íbúa og atvinnulíf.  Þá er það einnig sannfæring beggja aðila að viðskiptaleg tækifæri kunni að felast í eignarhaldi og  rekstri ferjunnar og því sé mikilvægt fyrir heimamenn að kanna af fullri alvöru forsendur reksturs og eignarhalds á ferjunni með þátttöku í forvali fyrir útboð.

Þekking og reynsla þessara samstarfsaðila á skiparekstri, þjónustu og umsýslu er mikil.  Innrigerð og uppbygging Vestmannaeyjabæjar er sérhæfð til að veita almenningsþjónustu.  Þá var Vestmannaeyjabær einn aðal eigandi og rekstraraðili hlutafélagsins Herjólfs hf. frá árinu 1976 til 2001 sem sinnti siglingum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.  Vinnslustöðin hf. er stærsta fyrirtækið í Vestmannaeyjum og eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Vinnslustöðin er umsvifamikil í útgerð og landvinnslu og starfrækir bæði fiskvinnsluhús og fiskimjölsframleiðslu í Eyjum. Fyrirtækið gerir út 8 skip og báta.  Þekking starfsmanna á sviði skipareksturs er því yfirgripsmikil.  Þá er þekking Vinnslustöðvarinnar á íslensku sem erlendu viðskiptalífi mikil.  Innrigerð Vinnslustöðvarinnar er ekki hvað síst sérhæfð til skipareksturs og hefur fyrirtækið á sínum snærum skipaverkfræðinga, vélfræðinga, skipstjórnendur og allt annað er snýr að þjónustu við skipaflota fyrirtækisins og rekstur hans. 

Til frekari fróðleiks:
*Þátttaka í forvalinu fela ekki í sér aðrar skuldbindingar er þær að eiga möguleika á þátttöku í útboðinu sjálfu.
*Enn sem komið er hefur ekki verið unnið tilboð í rekstur og smíði Herjólfs, einungis er um forval að ræða fyrir útboðið.
*Tilboð í rekstur og smíði ferjunnar verður unnið ef Vestmannaeyjabær og VSV verða valdir til þátttöku í útboðinu sjálfu .
*3 – 5 aðilar verða valdir til að senda inn tilboð í rekstur og smíði Herjólfs.
*VSV og Vestmannaeyjabær ætla sér ekki að reka Herjólf, heldur verður stofnað sérstakt félag um reksturinn.
*Það félag mun síðar bjóða í rekstur og smíði Herjólfs
*Ekkert hefur verið ákveðið um eignarhald á hinu nýja félagi, en vafalaust verður fleiri aðilum boðið til samstarfs og þá sérstaklega horft til aðila innanbæjar.
*Eftir 3 – 5 mánuði verður ákveðið hvaða tilboði verður tekið og þá hefst raunveruleikinn.  Hvort VSV og Vestmannaeyjabær verða aðilar að þeim raunveruleika kemur í ljós á síðari stigum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband