Söguleg fjárhagsáætlun, en vandi fylgir vegsemd hverri

radhus2Nú fyrr í kvöld fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2008.  Óhætt er að fullyrða að aldrei í sögu sveitarfélagsins hefur slík áætlun verið lögð fram.  Það er alveg ljóst að slagkraftur samfélagsins til framtíðar er mikill.  Það er líka ljóst að vandi fylgir vegsemd hverri.

Niðurstöður fjárhagsáætlunar samstæðu sýna rekstrarhagnað að upphæð 472.368.000 í stað 203.199.000 kr. halla árið 2007 en jákvætt veltufé frá rekstri er áætlað 761.244.000 í stað 22.618.000 kr. á yfirstandandi ári.  Gert er ráð fyrir að afborganir lána nemi 223.000.000 og engin ný lán eru nú áætluð í stað 331.184.000 kr. í seinustu áætlun.  Hér að öllum líkum um sögulega sérstæðan viðburð að ræða því mér er til efs að frá stofnun sveitarfélagsins hafi verið lögð fram fjárhagsáætlun þar sem ekki er gert ráð fyrir lántöku.

Það er því ljóst að staða Vestmannaeyjabæjar er rekstrarlega sterkari en áður hefur verið.  Það þarf hinsvegar sterk bein til að halda aftur af þenslu þegar þannig árar og mikilvægt að bæjarfulltrúar séu þess minnugir að fjármagn það sem snúið hefur rekstri úr tapi í hagnað hefur orðið til með þrautseigju og elju íbúa í gegnum áratugi og jafnvel ár hundruð.  Með það í huga ber okkur að haga rekstri og framkvæmdum í sveitarfélaginu þannig að eignarsala sú sem við höfum ráðist í snúi rekstri við til langstíma og gullgæsinni verði ekki slátrað.  Það er líka ástæða til að minna á að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins eru enn verulega íþyngjandi og valda ugg.  Sem dæmi má nefna að heildar söluhagnaður af Hitaveitu Suðurnesja og af fasteignum þeim sem seldar voru til Fasteignar hf. duga ekki fyrir skuldum og skuldbindingum.

Áfram þarf því að gæta aðhalds í rekstri og umgangast fjármuni með það í huga að við erum að sýsla með eignir íbúa Vestmannaeyjabæjar.  Ákvarðanir verður að taka með heildar hagsmuni íbúa að leiðarljósi en ekki skammtíma kröfur háværra þrýstihópa.  Seinustu árin hafa bæjarstjórar og bæjarfulltrúar réttilega barmað sér yfir erfiðum rekstri en öllum er ljóst að nú slær við annan tón og er það tónn bjartsýni á meðan minnt er á að vandi fylgir vegsemd hverri.  Hafi fyrir ári verið ástæða til að vera með annan fótinn á þenslu bremsunni verðum við nú að setja báða fæturna á þann petala. Í seinustu áætlun kynntum við nýyrðið “mannúðleg rekstrargildi” og stefna okkar er að vinna áfram út frá slíkum forsendum, enda er stjórnun sveitarfélags líkari stjórnun fjölskyldu en fyrirtækis.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður Elliði.

 

Það er gaman að lesa að þú og þínir séu búnir að rétta úr kúti Vestmanneyjabæjar, en miður þykir mér um báglega skrifaðan textann. Þú ættir ef til vill að nota eitthvað af peningunum í prófarkarlesara? Hroðvirknislega unnar málsgreinar stinga í augu, og gera lesandanum erfitt um vik að átta sig á innihaldinu.

Varast ber að sundra samansettum orðum.

Dæmi:

Ár hundruð > árhundruð

Heildar hagsmuni  >heildarhagsmuni

Þenslu bremsunni > þenslubremsunni

 

Svo finnst mér þú að ósekju mættir stytta setningarnar, þær eru alltof langar og óþjálar.

 

Annars þykir mér vænt um að mannúðleg rekstrargildi liggi þér um hjartað. Mannúðleg rekstrargildi eru ekki nýyrði, heldur tvö orð, en þú ert kannski að henta gaman af framsóknarmönnum þegar þú heldur því fram. (http://framsoknarbladid.blog.is/blog/framsoknarbladid/entry/107647/ )  Ef svo er, þá er þætti mér sem lesanda vænt um að þú útskýrðir það betur fyrir mér.

 

Annað sem mig langar til að tyggja aðeins ofaní þig, það eru myndlíkingarnar. Mér finnst þær klaufalegar:

Dæmi :

 

slagkraftur samfélagsins til framtíðar er mikill.

 

Ég skil svosem hvað þú ert að fara. Þú átt við að Vestmanneyjabær hafi aldrei áður verið jafn fjárhagslega vel búinn að takast við þau vandamál sem kunna að koma upp í framtíðinni, en fyrst las ég þetta svona:

 

“Vestmannaeyjabær er hamar, við ætlum að nota hann til að berja á framtíðinni.”

 

Þá hugsaði ég með mér. Síst vantar okkur meira fólk sem ætlar að berja á framtíðinni, nóg er nú til af því,  spurning hvort framtíðin þori nokkuð að láta sjá sig?

 

Svo fannst mér þetta með gullgæsina svolítið skrítið. Myndlíkingin gengur ekki upp, hún haltrar. Fyrst varð datt mér í hug að þú ættir við hitaveituhlutinn, en þið eruð búnir að selja hann. Sú gæs er kominn í ofninn og ilmurinn úr eldhúsinu er nokkuð lokkandi. Svo áttaði ég mig á samhenginu. Hitaveituhluturinn er náttúrulega gullegg, en hvaða gæs verpir slíkum eggjum og hvar er hún búinn að fela sig? (Ég held reyndar að þetta hafi veri gullfiskur, og að hann sé farinn eitthvað annað ásamt lundanum, en það er önnur saga.)

 

Ég vona að þú takir ekki illa upp, að þú íhugir þessa punkta, og finnir eitthvað gagn af þeim. Gangi þér vel að stýra bæjarfjölskyldunni.

Kær kveðja, Magnús J Guðmundsson
 

PS  er hægt að nálgast tölurnar einhversstaðar á vefnum? Ég hef nefnilega alltaf gaman af gægjast í excelskjöl.  

Magnús Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 14:09

2 Smámynd: Elliði Vignisson

Takk fyrir þessar ábendingar minn gamli skólabróðir. Mér til málsbóta þá eru þetta punktar úr skrifaði ræðu (framsögu) sem ég henti inn á netið.  Sannarlega má margt betur fara og ég mun hafa það hugfast.

Elliði Vignisson, 14.12.2007 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband