Mikil uppbygging í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra

nokkvi_arnar_gautiSeinustu skrif mín fjölluðu um sjálfsmynd.  Nokkrir aðilar hafa sent mér netpóst þar sem þeir hafa meðal annars verið að velta fyrir sér hlutverki sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu sjálfsmyndar barna og unglinga.  Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. (myndin hér til hliðar er af Nökkva Dan og Arnari Gauta sem báðir eru í 6. flokki ÍBV.  Þeir eru eins og hinir peyjarnir duglegir í íþróttastarfi og það á án vafa eftir að hafa jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra).

Í mínum huga er það ljóst að hlutverk sveitarfélaga er að leggja línurnar í átt til heilbrigðs umhverfis sem eflir sjálfsmynd barna og unglinga.  Til þess að það megi verða þarf að standa vörð um heilbrigt og uppbyggjandi umhverfi sem er nægilega fjölbreytt til að gera öllum kleift að birta megundir sínar (sálfræði jargon sem merkir í raun að njóta hæfileika sinna) hverjar sem þær svo sem eru.

Vestmannaeyjabær kappkostar að veita fjölbreytta og vandaða þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra.  Slíkt er besta fjárfesting nokkurs sveitarfélags enda miðar þess háttar fjárfesting að því að efla sjálfsmynd barna og unglinga.  Núverandi bæjarstjórn er ein sú yngsta sem setið hefur í Vestmannaeyjum.  Að afstöðnum kosningum var staðan sú að allir bæjarfulltrúar meirihlutans voru 40 ára eða yngri og meðalaldur þeirra var einungis 37 ár.

Það þarf því vart að koma á óvart að höfuð áhersla hefur verið lögð á annarsvegar samgöngur og hinsvegar á uppbyggingu á þeirri þjónustu sem helst snertir börn og fjölskyldur þeirra.  Meðal þess sem gert hefur verið seinustu mánuði er að opna nýtt kaffi- og menningarhús fyrir ungt fólk (16 til 25 ára), flytja félagsmiðstöð unglinga í nýtt  húsnæði, leggja Hnefaleikafélagi Vestmannaeyja til nýtt og glæsilegt æfingahúsnæði, endurskipuleggja heilsdagsþjónustu grunnskólabarna og flytja slíka þjónustu í nýtt húsnæði, gerbreyta ferlimálum fatlaðra í Barnaskólanum og endurgera félagsaðstöðu unglinga í Barnaskólanum.

Á næstu mánuðum verður svo ráðist í að byggja nýtt útivistarsvæði við sundlaugina, setja nýtt gólf á íþróttasalinn, byggja knattspyrnuhús við Týsheimilið og þannig mætti áfram telja. 

Börn og ungmenni eru mikilvægasta fjárfesting sveitarfélagsins. Allar ákvarðanir sem breyta þjónustu við þau ber að ígrunda vandlega og taka með vegferð þeirra að leiðarljósi. Vestmannaeyjabær ætlar á næstu árum að samhæfa áherslur og renna styrkari stoðum undir allt skóla- og æskulýðsstarf í bæjarfélaginu svo börn og unglingar fái notið bestu uppeldisskilyrða og menntunar og þau mótist sem ánægðir, ábyrgir og virkir þjóðfélagsþegnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

GIGJA MIN

Helga Valdimarsdottir (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband