Endurbyggjum réttlátt og traust samfélag

grimurNæsti gestapenni sem hér skrifar er Grímur Gíslason sem býður sig fram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi.  Grímur er sex barna faðir frá Vestmannaeyjum.  Hann er 48 ára og hefur verið búsettur á Selfossi undanfarin ár. Grímur var einn af stofnendum Hrekkjalómafélagsins í Eyjum, lundaveiðimaður í Álsey og stuðningsmaður ÍBV.  Hann hefur starfað sem sjómaður, kennari, blaðamaður, verkefnastjóri í skipasmíðum og síðustu árin hefur hann verið framkvæmdastjóri Atlas hf. Þá hefur Grímur m.a. starfað að sveitarstjórnarmálum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vetvangi.  Jafnframt hefur hann gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr nú í miðstjórn flokksins.

Endurbyggjum réttlátt og traust samfélag
Á grundvelli ábyrgs frelsis einstaklingsins

Mikil krafa er um endurnýjum í forustusveit á framboðslistum fyrir komandi kosningar. Þess er krafist að nýtt og kraftmikið fólk verði kallað til starfa. Venjulegt jarðtengt og vinnusamt fólk sem þekkir þarfir þjóðarinnar og veit og skilur á hverju þessi þjóð byggir afkomu sína.
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til að verða við þessu kalli. Ég tel að sú reynsla sem ég hef aflað mér á undanförnum árum og þá ekki síst reynsla síðustu ára af rekstri fyrirtækis sé góður undirbúningur til að takast á við þau fjölmörgu og erfiðu verkefni sem bíða.

Brennandi áhugi á málefnum Vestmannaeyja
Eyjamenn þekkja skoðanir mína og vita að ég hef  á undanförnum árum haft ódrepandi áhuga á málefnum Vestmannaeyja og brýnum hagsmunamálum Eyjamanna. Sá áhugi er engu minni á dag en áður og ég er tilbúinn til að vinna með Eyjamönnum og fyrir þá að öllum þeim málum sem til heilla horfa fyrir Eyjamenn. Það verður varnarbarátta en það er mikilvægt að horfast í augu við staðreyndir í þeim efnum og berjast með kjafti og klóm fyrir því sem er og nýta öll færi sem gefast til uppbyggingar og eflingar atvinnu og þjónustu í Eyjum. Það eru fjölmörg sóknarfæri handan við hornið sem við þurfum að nýta okkur.

Það sem ekki drepur mann  - það herðir mann
Það eru erfiðir tímar framundan. Það mun þurfa að taka á og það þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Það mun því koma sér vel í þeim slag sem framundan er að þekkja að skin og skúrir skiptast á í lífinu. Vita að lífið er ekki alltaf dans á rósum. Stundum er nauðsynlegt að geta staðið fast í fætur þegar ólögin ganga yfir og það er líka rétt að hafa í huga að það sem ekki drepur mann það herðir mann og leggst inn á reynslubankann.
Þess vegna held að það skipti gríðarlega miklu að velja til starfa fólk með mikla og fjölbreytta reynslu. Fólk sem hefur þurft að taka á til að koma sér áfram í lífinu en hefur ekki alltaf verið vafið í bómull. Fólk sem hefur bæði siglt í meðbyr og mótbyr. Fólk sem hefur skilning á kjörum og þörfum almennings í landinu. Fólk sem hefur skilnig á þörfum atvinnulífs í landinu. Fólk með reynslu og þor, því að það þarf reynslu til að taka erfiðar ákvarðanir og það þarf  einnig þor til að standa við þær.

Blómlegt atvinnulíf er forsenda hagsældar heimilanna
Mörg verkefni bíða en mikilvægustu og mest aðkallandi verkefnin eru að tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Það þarf  strax að taka á skuldastöðu heimilanna og koma með raunhæfar lausnir í þeim efnum. Vextir verða að lækka mjög hratt og bankastarfsemi að komast í eðlilegt horf, enda er það grundvöllur þess að hjól atvinnulífsins geti snúist. Nú eins og alltaf áður fara hagur atvinnulífs og heimila saman því blómlegt atvinnulíf er forsenda hagsældar heimilanna.
Gjaldeyrishöftum verður að létta eins fljótt og mögulegt er og byggja þarf upp ímynd Íslands og vekja traust á íslensku efnahagslífi að nýju.
Það þarf að verja grunnstoðir þjóðfélagsins, heilbrigðisþjónustu, samgöngur, löggæslu og fleira. Það mun verða hér varnarbarátta í fyrstu en sú varnarbarátta mun skila tækifærum til sóknar á ný því næg eru tækifærin ef rétt er haldið á spilum.

Nýta þarf náttúruauðlindir á skynsaman hátt
Efla þarf grunnatvinnuvegina og nýta auðlindir okkar, hvort sem er til lands eða sjávar, á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Við verðum að nýta þau tækifæri sem við höfum til orkuframleiðslu og hlúa að sprotafyrirtækjum. Við verðum að nýta öll tækifæri sem við höfum til framleiðslu og tekjuöflunar enda er það forsenda uppbyggingar hér á næstu árum.

Áætlun um hvernig leiða á þjóðina til nýrrar sóknar
Sjálfstæðisflokkurinn þarf hann að horfast í augu við fortíðina til að geta sett stefnu til framtíðar. Sjálfstæðismenn verða að fara í naflaskoðun, horfast í augu við það sem gert hefur verið á liðnum árum, kryfja það og meta til að sjá hvað var ranglega gert og hvað var vel gert. Viðurkenna það sem mistókst. Viðurkenna mistök sem gerð voru, læra af því og setja í reynslubankann til að byggja upp til framtíðar.
Setja á upp nákvæma og tímasetta áætlun um endurreisn þannig að fyrir liggi hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hyggst bregðast við stöðunni og leiða þjóðina til nýrrar sóknar.

Óábyrg meðferð frelsinsins
Það er rangt að halda því fram að efnahagshrun hafi orðið hér á landi vegna grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Það vandamál hefur ekkert með þá stefnu að gera. Grunnstefna Sjálfstæðisflokksins, um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna, er jafn traust og gild og hún hefur verið í 80 ár. Sú stefna hefur leitt þjóðina til góðs gegnum árin en rétt er að hafa í huga öllu frelsi fylgir ábyrgð og frelsi getur aldrei orðið ótakmarkað. Það þarf alltaf að vera innan eðlilegs ramma almennra laga og regla í þjóðfélaginu. Þann ramma þarf að endurbæta og tryggja þannig að aldrei framar verði það mögulegt að óábyrg meðferð frelsisins geti orði til þess að setja skuldaklafa á íslenska þjóð.
Það er verkefni Sjálfstæðisflokksins að hafa forystu í þeim efnum.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfa til baka. Hann þarf að rækta betur grunngildi sín. Rækta betur sambandið við grasrótina í flokknum. Fólk úr öllum stéttum og öllum þjóðfélagsstigum hefur fundið skoðunum sínum og hugsjónum samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þess  vegna hefur hann verið þessa mikla fjöldahreyfing í 80 ár. Sjálfstæðisflokkurinn á að rækta sambandið við þetta fólk og hlusta betur á þessar raddir þess og tryggja þannig að áfram, um ókomin ár, verði hann flokkur allra stétta. Fjöldahreyfing fólks sem aðhyllist lýðræði og frelsi einstaklingsins.

Ég er tilbúinn að takast á við verkefnin sem bíða
Ég er tilbúinn að taka þátt í að gera upp fortíðina, horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið, viðurkenna þau og læra af þeim. Ég er tilbúinn að takast á við þau brýnu úrlausnarefni sem bíða. Ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri varnarbaráttu sem framundan er á næstu mánuðum og ég er tilbúinn til að taka þátt í því að sækja fram á veg og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem við höfum til sóknar. Endurbyggja réttlátt og traust samfélag á grunni lýðræðis og ábyrgs frelsins allra til orðs og athafna.
Þess vegna sækist ég eftir stuðningi kjósenda í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Grímur Gíslason
Greinarhöfundur sækist eftir 3ja sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband