Tekutap upp á 5 milljarða í Vestmannaeyjum, samsvarar 144 milljarða tekjutapi í Reykjavík.

SV300513Loðnubresturinn er mikið áfall fyrir okkur Eyjamenn. Ef svo fer sem horfir missa margar fjölskyldur stóran hluta af árstekjum sínum við aflabrestinn. Í mörgum tilfellum er þar um að ræða fólk sem ekki er tekjuhátt fyrir eins og fiskverkafólk. 

Auðvitað er erfitt að meta hversu þungt högg þetta er fyrir okkur, mælt í krónum og aurum.  Ein leið er að reikna útflutningsverðmæti þessara afurða en það er þó langt því frá að vera heildarmyndin fyrir samfélagið hér.  Hér merkir góð vertíð uppgrip fyrir alla íbúa í Vestmannaeyjum. 

Í tilraun til að meta tapið komumst við að því að sennilegt væri að miðlungsgóð vertíð hefði gefið um fimm miljarða tekjur inn í samfélagið. Í Vestmannaeyjum eru 4100 íbúar og því er tekjufallið rúmlega 1,2 milljón á íbúa.  Samsvarandi tekjufall í Reykjavík, þar sem íbúar eru 119.848 væru tæpir 144 milljarðar.  Ekki þarf að efast um að slíkt tekjufall hefði kallað á mikil viðbrögð af hálfu ríkisins.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart okkur Eyjamönnum er hinsvegar að hefta útflutning á ferskum fiski. Slíkt merkir að sjómenn verða af miklum tekjum og útgerðir hér eru beittar þvingunum til að gera út á máta sem ekki skilar hámarks arðsemi. Ekkert er hugsað út í það að eftirspurnin á mörkuðum erlendis er gjarnan eftir ferskum fiski en ekki frosnum. 

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um loðnubrestinn:

„Loðnubresturinn þýðir fimm milljarða króna tap fyrir hagkerfi Vestmannaeyja. Það kemur ofan á allt annað," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hafrannsóknastofnunin og útgerðarmenn hafa afskrifað loðnuvertíð í ár. Aflabresturinn er fjárhagslegt áfall fyrir fjölmargar fjölskyldur og sveitarfélög á landsbyggðinni, en ellefu sjávarbyggðir annast veiði og vinnslu á loðnu.

„Það vill gjarnan gleymast að tekjur sem koma inn fara til fólksins sem starfar í greininni. Þetta er því mikið högg fyrir fjölskyldurnar hér í Eyjum og víðar í sjávarbyggðunum. Það er ekki óalgengt að heimilisfaðirinn sé úti á sjó, konan í vinnslunni og börnin sem komin eru með aldur til þess vinni með skóla. Þetta getur því verið ansi þungt högg fyrir marga og ljóst að fólk verður af stórum hluta af sínum árstekjum við aflabrest eins og þennan," segir Elliði.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða á síðustu vertíð nam um 1,8 milljörðum hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og 1,4 milljörðum króna hjá Vinnslustöðinni í Eyjum. „Í sjávarplássi græða allir þegar vel veiðist, útgerðarmenn sem allir aðrir. Tapið fyrir bæjarsjóð vegna loðnunnar er sennilega á milli 350 og 400 milljónir í útsvarstekjum eingöngu. Þessar tekjur eru svo aftur notaðar til að veita grunnþjónustu, sem þarf þá að selja á hærra verði eða draga úr."

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að skipulegri leit að loðnu hafi verið hætt, þó að stofnunin bregðist við fréttum ef þær berast. Það sé hins vegar ljóst að líkur á loðnuvertíð séu orðnar að engu, þó að ennþá eigi eftir að afskrifa þann möguleika að vestanganga láti á sér kræla. „En í raun vita allir að líkurnar á að eitthvað gerist eru í raun engar í dag."
Loðnan er byrjuð að hrygna og Þorsteinn segir að það magn loðnu sem búið sé að mæla eigi að geta gefið ágætan árgang árið 2012. Það séu í raun góðu fréttirnar á móti þeim vonbrigðum sem margir verða fyrir vegna aflabrestsins nú.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða hefur verið á bilinu sex til tíu milljarðar á síðustu árum, en 12,5 milljarðar að meðaltali frá 1996. Í fyrra var kvótinn 157 þúsund tonn en aðeins veiddust 15 þúsund tonn í ár. Um rannsóknakvóta var að ræða sem þó mun skila um milljarði.

Fréttablaðið greindi frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband