Sjávarútvegurinn aftur ,,inni"

674a2c784c7f7b956d5cb86c8cd4941c_iris_robertsdottirNæsti gestapenni sem ríður á vaðið er Íris Róbertsdóttir grunnskólakennari og frambjóðandi til 4. sætis í prófkjöri Sjálfstæðismanna.  Íris Róbertsdóttir er 37 ára gömul frá Vestmannaeyjum. Hún er dóttir hjónanna Róberts Sigurmundssonar og Svanhildar Gísladóttur. Þau eiga fimm börn, og er Íris sú elsta í röðinni. Íris er gift Eysteini Gunnarssyni sjómanni og eiga þau tvö börn, Róbert Aron níu ára og Júníu sem er tveggja ára. Að loknu stúdentsprófi stundaði Íris nám við Kennaraháskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2004. Íris hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2006. Hún starfar í Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem hún kennir nú 2. bekk. 

Sjávarútvegurinn aftur „inni“

Íris hefur í gegnum tíðina verið virk í hinum ýmsu félagsmálum. Í dag er Íris formaður Sjálfstæðisfélags Vestmannaeyja, í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum og kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún situr í Menningarráði Suðurlands og Skólanefnd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.

Sjávarútvegurinn er aftur "inni" en ekki "úti" eins og krakkarnir segja. Meðan hæst stóð á stönginni í pappírstilflutningum í bönkunum í Reykjavík þótti sjávarútvegurinn frekar hallærisleg og gamaldags atvinnugrein. Ungt fólk hafði ekki áhuga á menntun á því sviði, viðskiptafræðin og MBA-námið heillaði. Útrásarvíkingarnir og fjölmiðlarnir þeirra, margir stjórnmálamenn og sjálfur forseti lýðveldisins töldu þjóðinni trú um að framtíð hennar fælist í því að flytja peninga og pappíra fram og aftur um heiminn.

Íslendingar hefðu af snilld sinni fundið upp nýtt "viðskiptamódel" sem engum hefði dottið í hug áður: fá bara lán á lán ofan og borga þau aldrei nema með öðrum lánum. Raunveruleg verðmætasköpun í hefðbundnum skilningi þyrfti ekki að eiga sér stað. Hámarki náði þessi hrunadans vitleysunnar þegar útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt fyrirtæki sem aldrei hafði flutt neitt út nema peninga!

En nú er allt breytt. Einkaþotugnýrinn á Reykjavíkurflugvelli er þagnaður, - Auðlindin er byrjuð aftur í útvarpinu og fréttir af viðskiptum dagsins í Kauphöllinni eru hættar í sjónvarpinu. Og sjávarútvegurinn er ekkert svo hallærislegur lengur. Þjóðin er sem sagt að enduruppgötva það að fiskveiðar - og vinnsla og sala fiskafurða - hafa alltaf verið og verða í fyrirsjáanlegri framtíð ein af forsendum velmegunar á Íslandi. Sjávarútvegurinn verður ein af þeim meginstoðum sem við stöndum á við endurreisn íslensks efnahagslífs.

En þá þarf líka viðmót stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein að vera í einhverju samræmi við mikilvægi hennar. Það gengur ekki að þeir sem stunda þennan atvinnurekstur búi í stöðugri óvissu um þær lagalegu forsendur sem hann hvílir á. Það dregur úr áhuga manna á að fjárfesta í sjávarútvegi og fjármagnið leitar þá einfaldlega í aðrar atvinnugreinar, sem búa við „öruggari“ aðstæður.  Það er líka óviðunandi að á þennan rekstur skuli lagðir jafn íþyngjandi sértækir skattar og raun ber vitni. Það lætur nærri að út úr Suðurkjördæmi renni um 1,1 milljarður króna árlega af þessum sökum. Þeim peningum væri betur varið í kjördæminu sjálfu.

Það er líka umhugsunarefni fyrir stjórnvöld hvernig staðið er að ákvörðunum um leyfilegan afla, - eins og brennur ekki hvað síst á okkur Vestmannaeyingum þessa dagana varðandi loðnuna. Það lætur nærri að tekjur fyrirtækja í Vestmannaeyjum af loðnuvertíðinni í fyrra hafi verið um 4,4 milljarðar króna.  Það sjá allir í hendi sér að tekjur af þessu tagi hafa gríðarleg áhrif í ekki stærra bæjarfélagi. Sambærileg upphæð hlutfallslega væri t.d. fyrir Reykjavík 127 milljarðar króna! Ætli stjórnvöld myndu ekki hugsa sig þrisvar um áður en þau tækju ákvarðanir sem leiddu til þess að Reykvíkingar yrðu af þvílíkum tekjum? Það er engum hagur af því að fiskistofnar séu ofveiddir, - allra síst þeim sem eiga allt sitt undir því að veiðarnar séu sjálfbærar og stofnarnir endurnýi sig. Það eru þó ýmsir þeirra skoðunar - líka meðal fiskifræðinga - að það sé engin óheyrileg eða óverjandi áhætta tekin með því núna að leyfa veiðar á 30-40 þúsund tonnum. Og þá á auðvitað að sækja þann afla á þeim tíma sem hráefnið er verðmætast og yfir höfuð veiðanlegt.

Þrátt fyrir óvissuna með loðnuveiðar á þessari vertíð verður að teljast frekar bjart yfir íslenskum sjávarútvegi. Hann er kominn "inn" aftur og mun gegna lykilhlutverki í framtíðaruppbyggingu efnahagslífsins - bæði í Suðurkjördæmi og landinu öllu.

Íris Róbertsdóttir
Frambjóðandi í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segjum að þú fáir brautargengi í prófkjöri og náir inn á þing, hvert er þitt viðmót gagnvart sjávarútvegninum?  Vilt þú að stjórnarskráin nái fram að ganga og kvótinn verði meðhöndlaður sem eign þjóðarinnar?  Held að með sértækum sköttum eigirðu við veiðileifagjaldið.  Það gjald var einungis sett á til að reyna að friða þjóðina, sem er að ég held í stórum dráttum á móti kvótakerfinu. 

Framlegð sjávarútvegs er mjög lítil í dag vegna fáránlegrar skuldasöfnunar og veðsetninga fyrirtækjana sem hafa farið offari í því að slá sér "eignarétt" á auðlindina okkar og taka gríðarlegar upphæðir útúr greininni.  

kaster (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 16:12

2 Smámynd: Einar Ben

Sæl Íris og Elliði.

Þetta "viðskiptamódel" sem íslendingar töldu sig hafa fundið upp er kannski ekki svo nýtt af nálinni, það svipar amk. frekar mikið til þess sem Charles Ponzi gerði í kringum 1930 og hefur síðan verið þekkt sem Ponzi Scheme.

Annað, ætlar sjálfstæðisflokkurinn að standa vörð um arðrán kvótakerfisins, eða eru d-listinn tilbúinn að skila stærstu auðlindinni aftur til þjóðarinnar?

kv.

Einar Ben, 7.3.2009 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband