Efla á háskólastarfsemi í Vestmannaeyjum

P1000431Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja (Setrið) var opnað í október 1994 og var það með fyrstu Rannsókna- og fræðasetrunum sem stofnuð voru og hefur síðan verið fyrirmynd slíkra setra á landsbyggðinni.  Hlutverk setursins hefur verið að sinna rannsóknum og þróun á sviði sjávarútvegs, náttúru Vestmannaeyja og Suðurlands í samvinnu við atvinnulífið í Eyjum, stuðla að samvinnu við sérfræðinga og nemendur sem vinna að verkefnum tengdum Vestmannaeyjum og Suðurlandi.

Vilji er nú til að þegar verði blásið til nýrrar sóknar hvað háskólastarf varðar í Vestmannaeyjum.  Í þeim tilgangi hefur verið skipaður starfshópur til að fjalla um og koma með tillögur um framtíðarskipulag háskóla- og rannsóknastofnana í Vestmannaeyjum.  Hann skipa Páll Marvin Jónsson, Rögnvaldur Ólafsson, Guðrún Marteinsdóttir, Arnar Sigurmundsson, Þorsteinn Ingi Sigfússon og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson.

Fyrsti fundur þessa starfshóps fór fram í gær mánudaginn 20. mars og var sá fundur haldinn í aðalbyggingu HÍ.  Stefnt er að því að stórefla háskólastarf í Vestmannaeyjum.  Sérstaklega er horft til þess að myndað verði öflugt kjölfestustarf í Rannsókna- og fræðasetrinu sem laðar til sín fræðimenn og nemendur í gegnum sérþekkingu og sérhæfða rannsóknaraðstöðu tengda náttúru-, menningu- og atvinnulífi Eyjanna.  Þannig er ætlunin að efla setrið sem lifandi vettvang sem myndar regnhlíf um fræðastarf í Vestmannaeyjum.

Miklar blikur eru nú á lofti sem vafalaust koma til með að verða byr undir vængi þessa starfs svo sem bygging á menningarhúsi í Vestmannaeyjum, stofnun trjárætaseturs, stofnun Surtseyjarstofu, aukin þátttaka atvinnulífisins í rannsóknastarfi og fleira.

Sjálfur efast ég ekki um að árangur mun nást á þessu sviði.  Uppbygging á háskólasamfélagi og aukin þekking og/eða menntun í heimabyggð er talin vera ein meginforsenda jákvæðrar byggðarþróunar á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að Vestmannaeyjar taki virkan þátt í þessari þróun og marki sér nýja framtíðarsýn í þessum málum, með aðkomu ríkisins og hinum fjölmörgu háskóla- og rannsóknastofnunum sem gera sér grein fyrir mikilvægi starfsemi sinnar í Vestmannaeyjum.

Það var ánægjulegt að Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands skyldi sjá sér fært að koma til fyrsta fundar starfshópsins en í samtölum mínum við hana hefur komið fram einlægur vilji hennar til að efla Háskólastarf í Vestmannaeyjum.  Ekki spillir fyrir að Kristín á ættir að rekja til Vestmannaeyja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband