Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur

Untitled-1Eðlilega hefur umræða um samgöngur fengið mikinn byr hér í Vestmannaeyjum í kjölfarið á umfjöllun um samgönguáætlun.  Eins og flestum er vel kunnugt er í henni gert ráð fyrir rétt um 5 milljörðum í gerð hafnar í Bakkafjöru sem skal verða tilbúin fyrrihluta árs 2010.  Þá er og gert ráð fyrir því að ríkið geti gert samninga við einkaaðila um fjármögnun og eignarhald og rekstri ferju sem þjónustað getur á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Bakki – Vestmannaeyjar.

Ég er sannfærður um að jarðgöng til Eyja verða að veruleika
Ég er einn af þeim sem hef alið með mér þann draum að jarðgöng til Vestmannaeyja verði að veruleika.  Ég viðurkenni að ég hef sveiflast til og frá í þeirri trú að jarðgöng verði að veruleika og þá sérstaklega í upphafi umræðu þar að lútandi.  Nú er hinsvegar svo komið að ég er sannfærður um að jarðgöng til Vestmannaeyja verða að veruleika, ef ekki núna á næstu 10 árum þá á þar næsta áratug.

Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur
Ég fagna því  að nú eigi að ráðast í framkvæmdir vegna framtíðarsamganga við Vestmannaeyjar.  Á næstu árum verður meira fé varið til framkvæmda við samgöngur til Vestmannaeyja heldur en nokkurn tíma áður.  Með nokkurri vissu má fullyrða að hér verði um öflugustu lyftistöng að ræða sem beitt hefur verið frá því að vélbátaútgerð hófst í Vestmannaeyjum.  Það skiptir okkur Eyjamenn hins vegar verulega miklu að unnið verði hratt og örugglega að varanlegum samgöngubótum enda eru samgöngur það eina sem kemst nálægt því að vera patentlausn á byggðarvanda Vestmannaeyja.  Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur.  Á árinu 2006 fækkaði búsettum Eyjamönnum um 100.  Með sama áframhaldi verða einungis 3500 íbúar hér eftir 5 ár.

Meira um jarðgöng
Vegagerðin og Ægisdyr hafa sér bæði til halds og trausts ábyrga og viðurkennda sérfræðinga en engu að síður hafa aðilar véfengt fullyrðingar og niðurstöður hvors annars.  Það er mín skoðun að í því umhverfi sem umræða um jarðgöng er núna sé ekki hægt að komast að trúverðugum niðurstöðum um forsendur jarðganga milli lands og Eyja.  Það er því afar mikilvægt að niðurstaða fáist í umræðu um jarðgöng áður en ákvörðun um framtíðarsamgöngur verður tekin.

Bakkafjara getur orðið mikilvægur millileikur
Verði niðurstaðan hinsvegar sú að nú strax verði ráðist í gerð á ferjulægi í Bakkafjöru þá lít ég svo á að sú framkvæmd sé millileikur þar til ráðist verður í gerð jarðganga milli lands og Eyja.  Það vita allir að jarðgöng eru langbesti kosturinn að öllu leyti og þá ekki síst hvað rekstur varðar.  Þótt uppbygging mannvirkja sem gera siglingu milli Vestmannaeyja og Bakka mögulega sé stór framkvæmd sem gerbreytir samgöngum hér, þá hefur hún lítil áhrif á þörf okkar fyrir vegtengingu.  Slík 5 milljarða framkvæmd er ekki það fjárbindandi að það þurfi að hafa áhrif á ákvörðun um jarðgöng þegar að því kemur að kostnaður við gerð jarðganga milli lands og Eyja sé óumdeilanlega hagkvæmur.  Sjálfur er ég ekki með nokkra menntun eða reynslu á sviði jarðgangagerðar og ætla því ekki að hætta mér út í umræðu um það hver raunkostnaður í dag væri.

Þurfum við að óttast að höfnin í Bakkafjöru keppi við Vestmannaeyjahöfn?
Spurning þessi er fullkomlega eðlileg enda höfnin lífæð samfélagsins og flaggskip reksturs sveitarfélagsins.  Hins vegar er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að allar áætlanir ríkisins sem og sveitarfélaganna sem verða eigendur hafnarinnar hafa gert ráð fyrir að höfnin í Bakkafjöru verði opinbert hlutafélag (ohf) í meirihluta eigu Vestmannaeyjabæjar.  Bæjarstjórn Vestmannaeyja og sveitarstjórn Rangárþings hafa báðar samþykkt tillögur þar sem gert er ráð fyrir að stofnað verði opinbert hlutafélag um rekstur Bakkafjöruhafnar og  Vestmannaeyjabær verði eigandi 60% hlutafjár í félaginu og  Rangárþing eystra með 40% hlut.  Þetta merkir að framtíð hafnarinnar er fyrst og framst undir okkur komin og forræðið verður á höndum okkar heimamanna og þá af sjálfsögðu í farsælu samstarfi við okkar góðu nágranna í Rangárþingi eystra.

Er um að ræða áætlun um litla höfn og litla ferju?
Hugtökin stór og lítil eru nú einu sinni þannig að erfitt er að segja af eða á um hvað sé stórt og hvað sé lítið.  Þegar rætt er um samgöngur er einhvern vegin eðlilegra að ræða um flutningsgetu en stærð.  En gott og vel skoðum þetta með stærðina.  Hvað stærðina varðar þá er í dag gert ráð fyrir að ferjan sem sigla á þessari leið verði um 63 metra löng og 15/16 metra breið.  Til samanburðar má nefna núverandi Herjólf sem er með skráða lengd 67 metra og 16 metra breiður (sjá www.skip.is) .   Flutningsgetan segir hinsvegar meira en stærðin.  Flutningsgeta þess skip sem í dag er rætt um eru 50 bílar og 250 farþegar og er reiknað með að skipið sigli allt að 6 ferðir á dag skv. áætlun.  Til samanburðar skulum við aftur taka Herjólf sem tekur u.þ.b. 65 bíla og 500 farþega og siglir tvær ferðir á dag.  Þetta merkir að flutningsgeta hvað fólk varðar fer úr 1000 í 1500 á dag og fjöldi bíla fer úr 130 í 300 á dag.  Annað sem máli skiptir er að fólk er langtum minna háð brottfarar og komutíma þegar hægt er að velja um 6 ferðir á dag í stað tveggja.  Svo skiptir náttúrulega höfuðmáli að skipið er ekki nema rétt um hálftíma á leiðinni.  Ferðin verður því í allan stað þægilegri en sú sem við þekkjum í dag.  Mín von, sem fulltrúi sjóveikra, er sú að lítið verði um slíka veiki enda þekkjum við sem erum sjóveik það vel að slíkur kvilli gerir yfirleitt ekki vart við sig fyrr en eftir fyrsta hálftímann.  Að tala um litla ferju og litla höfn hefur því að mínu mati lítið innihald.

Verður oft ófært?
Hér erum við komin að mínu helsta áhyggjuefni.  Það sem ég óttast eru frátafir með skipinu.  Sjálfur þekki ég álíka mikið til hafnargerðar og til jarðganga, sem sagt lítið og verð því að stóla á mér reyndari og lærðari menn í þessum málum.  Ég veit það þó að ekkert samfélag má við því að samgöngur þangað falli ítrekað niður.  Ég teldi að frátafir sem verða mikið umfram það sem í dag er með Herjólfi séu óásættanlegar og leyfi mér að gera þá kröfu að frátafir á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Bakki verði sambærilegar við það sem er í dag á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn.  Sjálfur teldi ég það nokkuð ásættanlegt ef einungis verður ófært allan daginn í 1 – 2% af tímanum (3 – 7 dagar á ári) og hálfan daginn í 2 - 4% af tímanum.  Þá er það af sjálfsögðu skýlaus krafa að hin nýja ferja geti siglt til Þorlákshafnar, sé með velti ugga og vel fari um farþega á slíkri siglingu ef sú staða kemur upp að fært sé þangað en ekki á Bakka.  Um frátafir skulum við Eyjamenn ræða við fulltrúa Siglingastofnunar þegar þeir koma hingað á föstudaginn (nánar auglýst síðar).

Að lokum þetta
Mín skoðun er því sú að fyrr eða síðar verði jarðgöng milli lands og Eyja.  Enn er ekki loku fyrir það skotið að jarðgöng geti orðið að veruleika á næstu árum og mikilvægt að ekki verði tekin ákvörðun fyrir en sá kostur hefur verið skoðaður í kjölinn.  Verði hins vegar ráðist í framkvæmdir við gerð hafnar í Bakkafjöru þá verður það einungis millileikur þangað til að jarðgöng verða að veruleika.  Verði frátafir innan þolmarka (ca. 1 – 2%) kemur höfn í Bakkafjöru til með að gerbylta samgöngum milli lands og Eyja og auka hagsæld svæðisins beggja vegna við hafið, sýnu meira þó í Vestmannaeyjum.  Hér er um stórkostlegt sóknarfæri fyrir Vestmannaeyjar að ræða og það skiptir afar miklu að Eyjamenn láti það ekki eftir sér að tala niður þennan frábæra kost verði hann ákveðinn þótt sannarlega væru jarðgöng betri kostur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið ættuð að hætta þessu jarðgangarugli og einbeita ykkur að því að bæta ástandið eins og það er núna og sjá til þess að Bakkafjara verði tilbúin á réttum tíma. 

berg (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 13:14

2 identicon

Skil ekki alveg hvað þetta berg er að mala, hefði nú haldið að jarðgöng stórbættu ástandið. En það sem veldur mér enn meiri áhyggjum Elliði, er ef það er satt sem þú segir, ef Bakkaferjan á ekki að vera nema 15/16 metra breitt, sem sagt ca. 94 cm. Myndi það ekki bara brotna í smá öldugangi?

Helgi Ólafs (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 14:06

3 identicon

ÞESSI SAMGÖNGUMÁL HJÁ YKKUR ERU Í RUGLI HÉR Í EYJUM.  DRÍFIÐI BARA Í BAKKAFJÖRU OG SVO KOMA JARÐGÖNG SEINNA.

BJÖRN DIÐRIK (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 17:23

4 identicon

Málið er bara að þegar það verður farið út í þessa bakkafjöru þá verða aldrei göng. Svo er annað, ég hef aldrei heyrt svona dauft hljóð í Eyjamönnum eftir að þessi samgönguáætlun kom út. Það er vegna þess að það er ekki nema einn af hverjum tíu sem vilja ferjulægi á bakka. Þetta er bara eitthvað sem ætti að kjósa um  og sjá hvað Eyjamenn virkilega vilja, því það er það sem skiptir máli ekki hvað Sturla vill.

Haffi Halldórs. (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 19:57

5 identicon

Þessi umræða um að kjósa er eitthvað svo kjánaleg.  Það er ekki þannig að hægt sé að kjósa milli þessara tveggja kosta eins og þeir séu jafnir.  Annar kostar a.m.k. 25 - 30 milljarða en hinn 5 milljarða.  Málið er menn vita ekkert hvað göng kosta og hættan er sú að þið Eyjamenn verðið dregnir á asnaeyrunum út á einhver jarðgöng sem koma svo hvort sem er ekkert.

Það að halda því fram að jarðgöng komi ekki ef farið verður í þessa bakkafjöru er líka að halda því fram að það sé svo lítill munur á þessum tveimur kostum að það þurfi ekki lengur vegtengingu ef það verður ferjulægi þarna.  Ég held að það sé rétt sem bæjarstjórinn segir hér fyrir ofan að auðvitað koma jarðgöng það er bara spurning hvort það verður núna eða seinna.

Mér finnst lykilatriðið vera hvort Vestmanneyingar vilja bakkafjöru núna eða"bíða og sjá til" taktíkina sem alltof lengi er búið að spila.

Grétar (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 21:30

6 identicon

 

Hvernig væri að fara að gera eitthvað af viti.  Laga samgöngur núna með nýju skipi (eða fara næturferðir með þessum), lækka fargjöldin mikið og keyra svo á þetta dæmi með Bakkafjöru þannig að það verði tilbúið eftir 2 til 3 ár.  Jarðgöngin geta beðið mínvegna, ég vil að eitthvað gerist núna.

Sverrir (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 23:04

7 identicon

Það er allt í góðu með að kanna möguleika á jarðgöngum til að halda honum á lífi.  Bakkafjara er hinsvegar kostur sem við getum notað þangað til að jarðgöngin koma.  Það væri út í hött að ætla að bíða.

Kiddi J. (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 07:27

8 identicon

Þessi höfn í bakkafjöru á ekki eftir að kosta 5 milljarða, þetta er bara lágmarkskostnaður. Svo er ekki alveg búið að spá í hvað það kosti að reka þetta, menn eiga eftir að verða hissa þegar það kemur svona hvass vetur og það verður allt í rústi þarna. Þið sáuð hvernig Víkartindur var fljótur að fara í klessu.

Haffi Halldórs (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 12:31

9 identicon

Menn verða að skilja að allir helstu sérfræðingar á íslandi hafa haldið því fram að það sé erfitt og því dýrt að grafa göng milli lands og eyja.  Ætla eyjamenn undir forustu þessarar bæjarstjórnar að glutra frá sér möguleikanum á samgöngubótum með því að berja hausnum í steininn með þessi jarðgöng?  Ég hafði átt að kjósa frjálslynda.

Grétar (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 21:50

10 identicon

Hvernig er hægt að halda því fram að það sé alger óvissa um kostnað við jarðgöng og segja í sömu málsgrein að Bakkafjara sé ódýrasti möguleikinn.  Það er alveg sama óvissan um kostnað við Bakkafjöru eins og göngin.  Menn virðast vera fljótir að gleyma því að kostnaður við rekstur hafnamannvirkja er þónokkur og þar að auki þarf líka að gera ráð fyrir rekstri á ferju.  Hvað verður gert til að ná uppí kostnaðinn, nú stækka Bakkafjöruhöfn og fá möguleika á hafnargjöldum.  Þannig framkvæmd myndi mjög líklega bitna á Eyjamönnum.

Það er líka morgunljóst að ef Bakkafjara verður að veruleika þá munu líða margir áratugir áður við sjáum göng, ef það verður nokkurntíman.  Er einhver svo barnalegur að halda það, eftir að hafa eytt 5-6 milljörðum í Bakkafjöru, að íslensk stjórnvöld komi til með að vilja eyða túkalli í viðbót til hagsbóta fyrir Eyjamenn það sem eftir lifir af 21. öldinni.  Nei, það held ég ekki

Einar Örn (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 14:16

11 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sammála þér Einar Örn. 

Nafni minn Grétar sem hefur verið að tjá sig hér getur varla verið Eyjamaður.

Hvernig á ég að skilja að helstu sérfræðingar í Íslandi haldi því fram að það sé dýrt og erfitt að bora göngin milli lands og Eyja? Ég á ekki að skilja það og þessir helstu sérfræðingar sem nafni minn talar um skilja það sennilega jafn vel og ég á meðan ekki er farið í rannsóknir á hvort hægt sé að fara í þessar framkvæmdir og hvort það sé arðbært yfir höfuð.

  Ég þoli ekki að sjá þegar menn koma ekki undir fullu nafni og tala um "helstu sérfræðinga" og ætlast til þess að mark sé tekið á þeim. 

 Ég spyr, er arðbært að bíða með þessar framkvæmdir ef hægt er að grafa þessi göng og ef í ljós kemur að erlendir verktakar eru tilbúnir að taka þátt í fjármögnun og að klára verkið.

Ég segi að krafa Eyjamanna verður alltaf sú að fá göng milli lands og Eyja hvort sem það verður núna eða seinna en ódýrast er að klára verkið strax ef hægt er.

Þá sparast Bakkafjöruævintýrið og allur kostnaður í viðaldi og öðru sem sennilega  slefar í ca 15 milljarða á næstu 20 árum. 

Grétar Ómarsson, 25.2.2007 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband