Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.3.2009 | 01:07
Bann við strípistöðum sótt til Vestmannaeyja, verður Gulli Grettis Umhverfisráðherra?
Eitt af þeim brýnu úrlausnarmálum sem núverandi ríkisttjórn hefur tekist á við er að boða bann við rekstri strípistaða. Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar telur líklegt að hægt verði að banna slíka staði með lögum nú fyrir þinglok. Í fréttum hefur komið fram að Ísland verði þar með fyrsta landið í heiminum til að banna slíkan rekstur.
Þegar ríkisstjórnin var mynduð voru allir aðilar skýrir á því að tilgangur minnihlutastjórnarinnar væri að slá skjaldborg um heimilin og atvinnulífið.
Á bloggsíðu sinni um daginn sagði Sigmundur Davíð formaður framsóknarflokksins: Áhersla var lögð á þröngt umboð stjórnarinnar sem var eingöngu mynduð um að ljúka afmörkuðum verkefnum sem ekki máttu bíða þær vikur sem óhjákvæmilega þyrftu að líða fram að kosningum. Síðar í sama pistli segir hann svo Tugþúsundir Íslendinga eru nú fullir örvæntingar vegna fjárhagsstöðu sinnar og eigið fé íslenskra fyrirtækja er ýmist á þrotum eða við það að klárast.
Bannið við rekstri strípistaða er sjálfsagt sett fram í samræmi við þenna tilgang ríkisstjórnarinnar. Vafalaust er von á fleiri slíkum aðgerðum sem skráðar verða í hagfræðibækur framtíðarinnar.
Önnur möguleg skýring á þessari tímamóta ákvörðun ríkisstjórnarinnar er sú að hún leiti nú í smiðju bæjarstórnar Vestmannaeyja eftir aðgerðum. Hér í Vestmannaeyjum hefur nefnilega slíkur rekstur verið bannaður síðan 18. júní 2001. Þá samþykkti bæjarráð nefnilega svohljóðandi tillögu:
"Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að í endurskoðuðu aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar verði nektardansstaðir ekki leyfðir og/eða svipuð starfsemi."
Núverandi ríkisstjórn getur sannarlega lært margt fleira af okkur Eyjamönnum en bönn við rekstri strípistaða. Það væri ef til vill hægt að spara stórfé með því að fella niður störf þessarar minnihlutastjórnar og stýra landinu héðan frá Eyjum. Það er bara spurning hvernig við myndum deila út ráðuneytum milli meiri- og minnihluta. Geri reyndar ráð fyrir því að Gulli Grettis yrði umhverfisráðherra. Allt annað er óráðið. Ég er þó opinn fyrir tilllögum.
19.3.2009 | 00:22
Hag- og siðfræðileg greining á stöðunni: "Helvítis fokking fokk"
Ísland á í erfiðum málum. Efnahagurinn er erfiðari en áður hefur verið. Sennilegt er að staða Íslands sé með því sem verst gerist í hinum vestræna heimi. Þjóðin situr ringluð og botnar hvorki upp né niður í stöðunni. Gengisvísitalan hangir í 200, stýrivextir eru 18% og vísitala neysluverðs hefur hækkað um 17,6% á 12 mánuðum. Best hefur ástandinu verið lýst með orðunum Helvítis fokking fokk. (Myndina hér til hliðar tók ég niður við Básaskersbryggju um kvöldmataleytið. Það var eitthvað við stellinguna á skarfinum sem minnti mig á línurit yfir hagkerfi landsins).
Stjónmálamönnum er ákveðin vorkunn. Þeir eru hluti af þjóðinni og sama hvar í flokki þeir eru þá höfðu þeir hreinlega ekki hugmynd um það sem í vændum var. Að halda öðru fram er moðreykur. Frasar eins og þetta gerðist á ykkar vakt ná auðveldlega eyrum fólks en flestir vita sem er að þingmenn, ráðherrar, embættismenn og aðrir eru náttúrulega allir á sömu vaktinni. Hver vakt varir að jafnaði í fjögur ár og þá er þeim sem eru þreyttir skipt út. Hinir halda áfram. Fáránleiki þessa frasa er alger.
Krafa fólksins er að það fái eitthvað sem deyfir sársaukann. Færið okkur lausnir, Reddið okkur. Þingmenn og frambjóðendur leita logandi ljósi að einhverju sem hægt er að segja og friðað getur lýðinn. Lögmálið um framboð og eftirspurn virkar hér öfugt því eftir því sem eftirspurnin eftir reddingum eykst þá verður verðgildi lausnanna minni.
Auðvitað eru allar tilraunir til reddinga góðra gjalda verðar og allt er betra en ekkert ef tilgangurinn er sá að friða fólkið. Framsóknarflokkurinn hefur gengið lengst og lagt það til að 20% af skuldum verði afskrifaðar. Bjarni Benediktson, Tryggvi Herberts og fleiri sjálfstæðismenn hafa gælt við þessa tillögu og viljað að henni sé gefinn eðilegur gaumur sem einu tillögunni sem fram er komin. Þeim báðum og flestum öðrum er ljóst að auðvitað hverfa skuldir ekki. Frasinn There ain't no such thing as a free lunch á hér jafn vel við og áður.
Hið sanna er að það er engin redding. Staðan er Helvítis fokking fokk. Við gætum hrúgað öllum okkar helstu spekingum inn í lokað rými og haft þá innilokaða þar til þeir kæmu með reddingu. Þrátt fyrir það myndi engin redding koma út úr því.
Það besta sem stjórnmálamenn gera núna er að segja hlutina eins og þeir eru. Næstu 2 ár verða hroðalega erfið. Síðan koma 3 til 5 erfið ár og svo fer að rætast úr. Þrátt fyrir að við sjáum þá eitthvað fram úr vandanum þá sitjum við og a.m.k. næsta kynslóð eftir með himinháar skuldir sem skerða munu lífsgæðin miðað við það sem annars hefði orðið. Til að flýta okkur í gegnum erfiðasta hjallann verðum við að lifa á landsins gæðum. Veiða fisk og vinna. Styðja við íslenskan landbúnað og virkja orku. Efla sprotastarf í framleiðslugreinum og blása undir vængi íslensks iðnaðar. Við verðum sem sagt að flytja meira út en við flytjum inn. Þannig styrkist krónan og þannig verður til fé til að mæta þeim skaða sem við urðum fyrir. Það er engin ,,patent" lausn. Við erum með opið sár og í stað þess að setja plástur sem ekki stöðvar blæðinguna verðum við að rimpa sárið saman með nál og tvinna. Það verður sárt en það er engin önnur leið.
Hin hliðin á þessum sama peningi er að draga úr umsvifum ríkisins. Endurskoða þarf allt regluverk sem kallar á dýrt skrifræði og óhagkvæma þjónustu. Ganga þarf hart fram í öllu sem ekki er þörf á og vænlegt að byrja á utanríkisráðuneytinu. Okkur öllum er einnig ljóst að árangur næst ekki nema tekist verði á við kostnaðinn af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytunum. Eðlilegast er að mest verði skorið niður þar sem mest hefur verið aukið seinustu ár.
Til fróðleiks set ég neðangreinda mynd af ríkisútgjöldum hér á vefinn minn. Hún sýnir að ríkisstjórnir hafa misst öll tök á ríkisútgjöldum og er meðalhækkun um 16%. Það gerist á sama tíma og tekjufall verður. Helvítis fokking fokk
17.3.2009 | 22:21
Sigrar og særindi á Suðurlandi
Prófkjör eru oft tími mikilla særinda um leið og þau eru tími persónulegra sigra. Prófkjör okkar sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi eru engin undantekning. Sigurvegarar þessa prófkjörs eru án efa þær Íris Róbertsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Báðar eru þær að bjóða sig fram í fyrsta skipti í suðurkjördæmi og báðar ná þær þeim sætum sem þær stefndu að. Í raun má einnig segja að Unnur Brá vinni sigur með því að skjóta tveimur sitjandi þingmönnum ref fyrir rass og Árni Johnsen með því að hljóta góða kosningu í næst efsta sætið við erfiðar aðstæður. Vonbrigði hafa á sama hátt verið mest hjá sitjandi þingmönnum þeim Kjartani og Björk.
Í raun eru að verða mikil vatnaskil í framboðsmálum sjálfstæðismanna á suðurlandi því ekki einungis raðast ungar konur í 3 af efstu 4 sætunum heldur verður listi okkar nú leiddur af konu í fyrsta skipti. Sannarlega sigurstranglegur listi.
Að afloknu prófkjöri og góðum persónulegum sigri valdi félagi minn Árni Johnsen svo að senda mér og fleirum tóninn í kvöldfréttum RÚV á sunnudaginn þar sem hann var ósáttur við stuðning okkar við Ragnheiði Elínu. Ekki veit ég hversu hyggilegt það var fyrir frambjóðandann og sennilegt er að einhverjum hafi mislíkað orð hans verulega. Ekki má gleyma því að þetta sama fólk er að fara að taka þátt í mikilli sjálfboðavinnu við að tryggja Árna og fleirum kjör á þing. Sjálfur bæði skil ég og virði óánægju Árna og fátt er fjær mér en að að missa svefn yfir orðum hans eða gjörðum. Í raun er auðvelt að setja sig í spor hans og skilja vonbrigðin. Auglýsingin orkaði tvímælis, það var vitað fyrir. Sjálfur mun ég aldrei styðja neinn í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi nema þar sé um klárt ráðherraefni að ræða. Það er ákvörðun sem ég tók fyrir áratugum. Það er mín sannfæring og henni mun ég fylgja. Aðrir verða svo bara annaðhvort að vera sáttir eða ósáttir.
Við Eyjamenn sem studdum Ragnheiði Elínu opinberlega sendum frá okkur eftirfarandi yfilýsingu:
Prófkjör eru gjarnan tími átaka og særinda. Þegar margir keppa að sama marki er viðbúið að einhverjir nái ekki sínum persónulegu markmiðum. Að jafnaði taka stjórnmálamenn því af reisn.
Nú að afloknu prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hefur Árni Johnsen félagi okkar til margra ára valið að líta á sjálfan sig sem fórnarlamb. Ástæðan er sú að við undirrituð ásamt 15 öðrum sjálfstæðismönnum víðsvegar úr kjördæminu studdum Ragnheiði Elínu opinberlega. Stuðninginn við Ragnheiði Elínu sem hlaut 3217 af tæplega 4000 atkvæðum í prófkjörinu telur þingmaðurinn afar "ósmekklegan" og "okkur til vansa". Þá lítur hann á stuðninginn sem "aðför að sjálfum sér" og "lítillækun við aðra frambjóðendur".
Árni Johnsen hefur að okkar mati fulla ástæðu til að bera höfuðið hátt eftir þetta prófkjör og þarf ekki að setja sjálfan sig í stöðu fórnarlambs. Árangur hans í prófkjörinu var glæsilegur og af því erum við stolt. Eftir tímabundna fjarveru frá þingstörfum hefur hann nú í tvígang á skömmum tíma endurnýjað umboð sitt frá kjósendum og flokksbundnum sjálfstæðismönnum. Hann hefur fyrir löngu bæði sýnt það og sannað að hann er forkur til vinnu í þeim málum sem hann velur að beita sér fyrir. Hann hnýtir sínar reimar öðrum hnútum en samferðamenn og ljær þar með þingstörfum meira líf en annars væri. Kraftar hans eru best nýttir í störfum fyrir samfélagið.
Ástæða þess að við völdum að styðja Ragnheiði Elínu til forystu í Suðurkjördæmi er einfaldlega sú að við töldum okkur skylt að hlusta eftir kröfum samfélagsins um endurnýjun í forystusveit sjálfstæðismanna. Við vissum sem var að í henni fer einstaklingur með mikla leiðtogahæfileika og klárt ráðherraefni. Slíkt er afar mikilvægt fyrir hagsmuni kjördæmisins og þar með fyrir Vestmannaeyjar. Við þekkjum Ragnheiði Elínu vel úr starfi okkar bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir Vestmannaeyjabæ og hefur hún ítrekað veitt okkar málum brautargengi á þeim forsendum sem við höfum óskað eftir. Stuðningur okkar við hana var á engan hátt neikvæð í garð annarra frambjóðenda og þá allra síst þeirra þriggja Eyjamanna, Árna, Írisar og Gríms, sem buðu sig fram og áttu allan okkar stuðning að öðru leyti.
Við óskum Ragnheiði Elínu, Árna Johnsen, Unni Brá og Írisi hjartanlega til hamingju með framúrskarandi árangur. Þá óskum við Grími Gíslasyni einnig til hamingju með góðan árangur því þrátt fyrir að hann hafi ekki náð þeim árangri sem við vildum þá vantaði þar einungis lítið uppá.
Sjálfstæðismanna bíður nú það verkefni að stilla saman strengi sína fyrir komandi landsfund og þingkosningar. Þar munum við ekki láta okkar eftir liggja.
Með vinsemd og virðingu
Elliði Vignisson, sjálfstæðismaður og bæjarstjóri
Páley Borgþórsdóttir, sjálfstæðismaður og formaður bæjarráðs
Sindri Ólafsson, sjálfstæðismaður og formaður Eyverja
Helgi Ólafsson, sjálfstæðismaður og formaður KUSS
9.3.2009 | 20:59
Tekutap upp á 5 milljarða í Vestmannaeyjum, samsvarar 144 milljarða tekjutapi í Reykjavík.
Loðnubresturinn er mikið áfall fyrir okkur Eyjamenn. Ef svo fer sem horfir missa margar fjölskyldur stóran hluta af árstekjum sínum við aflabrestinn. Í mörgum tilfellum er þar um að ræða fólk sem ekki er tekjuhátt fyrir eins og fiskverkafólk.
Auðvitað er erfitt að meta hversu þungt högg þetta er fyrir okkur, mælt í krónum og aurum. Ein leið er að reikna útflutningsverðmæti þessara afurða en það er þó langt því frá að vera heildarmyndin fyrir samfélagið hér. Hér merkir góð vertíð uppgrip fyrir alla íbúa í Vestmannaeyjum.
Í tilraun til að meta tapið komumst við að því að sennilegt væri að miðlungsgóð vertíð hefði gefið um fimm miljarða tekjur inn í samfélagið. Í Vestmannaeyjum eru 4100 íbúar og því er tekjufallið rúmlega 1,2 milljón á íbúa. Samsvarandi tekjufall í Reykjavík, þar sem íbúar eru 119.848 væru tæpir 144 milljarðar. Ekki þarf að efast um að slíkt tekjufall hefði kallað á mikil viðbrögð af hálfu ríkisins.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart okkur Eyjamönnum er hinsvegar að hefta útflutning á ferskum fiski. Slíkt merkir að sjómenn verða af miklum tekjum og útgerðir hér eru beittar þvingunum til að gera út á máta sem ekki skilar hámarks arðsemi. Ekkert er hugsað út í það að eftirspurnin á mörkuðum erlendis er gjarnan eftir ferskum fiski en ekki frosnum.
Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um loðnubrestinn:
Loðnubresturinn þýðir fimm milljarða króna tap fyrir hagkerfi Vestmannaeyja. Það kemur ofan á allt annað," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hafrannsóknastofnunin og útgerðarmenn hafa afskrifað loðnuvertíð í ár. Aflabresturinn er fjárhagslegt áfall fyrir fjölmargar fjölskyldur og sveitarfélög á landsbyggðinni, en ellefu sjávarbyggðir annast veiði og vinnslu á loðnu.
Það vill gjarnan gleymast að tekjur sem koma inn fara til fólksins sem starfar í greininni. Þetta er því mikið högg fyrir fjölskyldurnar hér í Eyjum og víðar í sjávarbyggðunum. Það er ekki óalgengt að heimilisfaðirinn sé úti á sjó, konan í vinnslunni og börnin sem komin eru með aldur til þess vinni með skóla. Þetta getur því verið ansi þungt högg fyrir marga og ljóst að fólk verður af stórum hluta af sínum árstekjum við aflabrest eins og þennan," segir Elliði.
Útflutningsverðmæti loðnuafurða á síðustu vertíð nam um 1,8 milljörðum hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og 1,4 milljörðum króna hjá Vinnslustöðinni í Eyjum. Í sjávarplássi græða allir þegar vel veiðist, útgerðarmenn sem allir aðrir. Tapið fyrir bæjarsjóð vegna loðnunnar er sennilega á milli 350 og 400 milljónir í útsvarstekjum eingöngu. Þessar tekjur eru svo aftur notaðar til að veita grunnþjónustu, sem þarf þá að selja á hærra verði eða draga úr."
Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að skipulegri leit að loðnu hafi verið hætt, þó að stofnunin bregðist við fréttum ef þær berast. Það sé hins vegar ljóst að líkur á loðnuvertíð séu orðnar að engu, þó að ennþá eigi eftir að afskrifa þann möguleika að vestanganga láti á sér kræla. En í raun vita allir að líkurnar á að eitthvað gerist eru í raun engar í dag."
Loðnan er byrjuð að hrygna og Þorsteinn segir að það magn loðnu sem búið sé að mæla eigi að geta gefið ágætan árgang árið 2012. Það séu í raun góðu fréttirnar á móti þeim vonbrigðum sem margir verða fyrir vegna aflabrestsins nú.
Útflutningsverðmæti loðnuafurða hefur verið á bilinu sex til tíu milljarðar á síðustu árum, en 12,5 milljarðar að meðaltali frá 1996. Í fyrra var kvótinn 157 þúsund tonn en aðeins veiddust 15 þúsund tonn í ár. Um rannsóknakvóta var að ræða sem þó mun skila um milljarði.
Fréttablaðið greindi frá.
7.3.2009 | 22:00
Endurbyggjum réttlátt og traust samfélag
Næsti gestapenni sem hér skrifar er Grímur Gíslason sem býður sig fram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Grímur er sex barna faðir frá Vestmannaeyjum. Hann er 48 ára og hefur verið búsettur á Selfossi undanfarin ár. Grímur var einn af stofnendum Hrekkjalómafélagsins í Eyjum, lundaveiðimaður í Álsey og stuðningsmaður ÍBV. Hann hefur starfað sem sjómaður, kennari, blaðamaður, verkefnastjóri í skipasmíðum og síðustu árin hefur hann verið framkvæmdastjóri Atlas hf. Þá hefur Grímur m.a. starfað að sveitarstjórnarmálum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vetvangi. Jafnframt hefur hann gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr nú í miðstjórn flokksins.
Endurbyggjum réttlátt og traust samfélag
Á grundvelli ábyrgs frelsis einstaklingsins
Mikil krafa er um endurnýjum í forustusveit á framboðslistum fyrir komandi kosningar. Þess er krafist að nýtt og kraftmikið fólk verði kallað til starfa. Venjulegt jarðtengt og vinnusamt fólk sem þekkir þarfir þjóðarinnar og veit og skilur á hverju þessi þjóð byggir afkomu sína.
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til að verða við þessu kalli. Ég tel að sú reynsla sem ég hef aflað mér á undanförnum árum og þá ekki síst reynsla síðustu ára af rekstri fyrirtækis sé góður undirbúningur til að takast á við þau fjölmörgu og erfiðu verkefni sem bíða.
Brennandi áhugi á málefnum Vestmannaeyja
Eyjamenn þekkja skoðanir mína og vita að ég hef á undanförnum árum haft ódrepandi áhuga á málefnum Vestmannaeyja og brýnum hagsmunamálum Eyjamanna. Sá áhugi er engu minni á dag en áður og ég er tilbúinn til að vinna með Eyjamönnum og fyrir þá að öllum þeim málum sem til heilla horfa fyrir Eyjamenn. Það verður varnarbarátta en það er mikilvægt að horfast í augu við staðreyndir í þeim efnum og berjast með kjafti og klóm fyrir því sem er og nýta öll færi sem gefast til uppbyggingar og eflingar atvinnu og þjónustu í Eyjum. Það eru fjölmörg sóknarfæri handan við hornið sem við þurfum að nýta okkur.
Það sem ekki drepur mann - það herðir mann
Það eru erfiðir tímar framundan. Það mun þurfa að taka á og það þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Það mun því koma sér vel í þeim slag sem framundan er að þekkja að skin og skúrir skiptast á í lífinu. Vita að lífið er ekki alltaf dans á rósum. Stundum er nauðsynlegt að geta staðið fast í fætur þegar ólögin ganga yfir og það er líka rétt að hafa í huga að það sem ekki drepur mann það herðir mann og leggst inn á reynslubankann.
Þess vegna held að það skipti gríðarlega miklu að velja til starfa fólk með mikla og fjölbreytta reynslu. Fólk sem hefur þurft að taka á til að koma sér áfram í lífinu en hefur ekki alltaf verið vafið í bómull. Fólk sem hefur bæði siglt í meðbyr og mótbyr. Fólk sem hefur skilning á kjörum og þörfum almennings í landinu. Fólk sem hefur skilnig á þörfum atvinnulífs í landinu. Fólk með reynslu og þor, því að það þarf reynslu til að taka erfiðar ákvarðanir og það þarf einnig þor til að standa við þær.
Blómlegt atvinnulíf er forsenda hagsældar heimilanna
Mörg verkefni bíða en mikilvægustu og mest aðkallandi verkefnin eru að tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Það þarf strax að taka á skuldastöðu heimilanna og koma með raunhæfar lausnir í þeim efnum. Vextir verða að lækka mjög hratt og bankastarfsemi að komast í eðlilegt horf, enda er það grundvöllur þess að hjól atvinnulífsins geti snúist. Nú eins og alltaf áður fara hagur atvinnulífs og heimila saman því blómlegt atvinnulíf er forsenda hagsældar heimilanna.
Gjaldeyrishöftum verður að létta eins fljótt og mögulegt er og byggja þarf upp ímynd Íslands og vekja traust á íslensku efnahagslífi að nýju.
Það þarf að verja grunnstoðir þjóðfélagsins, heilbrigðisþjónustu, samgöngur, löggæslu og fleira. Það mun verða hér varnarbarátta í fyrstu en sú varnarbarátta mun skila tækifærum til sóknar á ný því næg eru tækifærin ef rétt er haldið á spilum.
Nýta þarf náttúruauðlindir á skynsaman hátt
Efla þarf grunnatvinnuvegina og nýta auðlindir okkar, hvort sem er til lands eða sjávar, á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Við verðum að nýta þau tækifæri sem við höfum til orkuframleiðslu og hlúa að sprotafyrirtækjum. Við verðum að nýta öll tækifæri sem við höfum til framleiðslu og tekjuöflunar enda er það forsenda uppbyggingar hér á næstu árum.
Áætlun um hvernig leiða á þjóðina til nýrrar sóknar
Sjálfstæðisflokkurinn þarf hann að horfast í augu við fortíðina til að geta sett stefnu til framtíðar. Sjálfstæðismenn verða að fara í naflaskoðun, horfast í augu við það sem gert hefur verið á liðnum árum, kryfja það og meta til að sjá hvað var ranglega gert og hvað var vel gert. Viðurkenna það sem mistókst. Viðurkenna mistök sem gerð voru, læra af því og setja í reynslubankann til að byggja upp til framtíðar.
Setja á upp nákvæma og tímasetta áætlun um endurreisn þannig að fyrir liggi hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hyggst bregðast við stöðunni og leiða þjóðina til nýrrar sóknar.
Óábyrg meðferð frelsinsins
Það er rangt að halda því fram að efnahagshrun hafi orðið hér á landi vegna grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Það vandamál hefur ekkert með þá stefnu að gera. Grunnstefna Sjálfstæðisflokksins, um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna, er jafn traust og gild og hún hefur verið í 80 ár. Sú stefna hefur leitt þjóðina til góðs gegnum árin en rétt er að hafa í huga öllu frelsi fylgir ábyrgð og frelsi getur aldrei orðið ótakmarkað. Það þarf alltaf að vera innan eðlilegs ramma almennra laga og regla í þjóðfélaginu. Þann ramma þarf að endurbæta og tryggja þannig að aldrei framar verði það mögulegt að óábyrg meðferð frelsisins geti orði til þess að setja skuldaklafa á íslenska þjóð.
Það er verkefni Sjálfstæðisflokksins að hafa forystu í þeim efnum.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfa til baka. Hann þarf að rækta betur grunngildi sín. Rækta betur sambandið við grasrótina í flokknum. Fólk úr öllum stéttum og öllum þjóðfélagsstigum hefur fundið skoðunum sínum og hugsjónum samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna hefur hann verið þessa mikla fjöldahreyfing í 80 ár. Sjálfstæðisflokkurinn á að rækta sambandið við þetta fólk og hlusta betur á þessar raddir þess og tryggja þannig að áfram, um ókomin ár, verði hann flokkur allra stétta. Fjöldahreyfing fólks sem aðhyllist lýðræði og frelsi einstaklingsins.
Ég er tilbúinn að takast á við verkefnin sem bíða
Ég er tilbúinn að taka þátt í að gera upp fortíðina, horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið, viðurkenna þau og læra af þeim. Ég er tilbúinn að takast á við þau brýnu úrlausnarefni sem bíða. Ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri varnarbaráttu sem framundan er á næstu mánuðum og ég er tilbúinn til að taka þátt í því að sækja fram á veg og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem við höfum til sóknar. Endurbyggja réttlátt og traust samfélag á grunni lýðræðis og ábyrgs frelsins allra til orðs og athafna.
Þess vegna sækist ég eftir stuðningi kjósenda í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Grímur Gíslason
Greinarhöfundur sækist eftir 3ja sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins
6.3.2009 | 15:43
Sjávarútvegurinn aftur ,,inni"
Næsti gestapenni sem ríður á vaðið er Íris Róbertsdóttir grunnskólakennari og frambjóðandi til 4. sætis í prófkjöri Sjálfstæðismanna. Íris Róbertsdóttir er 37 ára gömul frá Vestmannaeyjum. Hún er dóttir hjónanna Róberts Sigurmundssonar og Svanhildar Gísladóttur. Þau eiga fimm börn, og er Íris sú elsta í röðinni. Íris er gift Eysteini Gunnarssyni sjómanni og eiga þau tvö börn, Róbert Aron níu ára og Júníu sem er tveggja ára. Að loknu stúdentsprófi stundaði Íris nám við Kennaraháskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2004. Íris hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2006. Hún starfar í Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem hún kennir nú 2. bekk.
Sjávarútvegurinn aftur inniÍris hefur í gegnum tíðina verið virk í hinum ýmsu félagsmálum. Í dag er Íris formaður Sjálfstæðisfélags Vestmannaeyja, í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum og kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún situr í Menningarráði Suðurlands og Skólanefnd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.
Sjávarútvegurinn er aftur "inni" en ekki "úti" eins og krakkarnir segja. Meðan hæst stóð á stönginni í pappírstilflutningum í bönkunum í Reykjavík þótti sjávarútvegurinn frekar hallærisleg og gamaldags atvinnugrein. Ungt fólk hafði ekki áhuga á menntun á því sviði, viðskiptafræðin og MBA-námið heillaði. Útrásarvíkingarnir og fjölmiðlarnir þeirra, margir stjórnmálamenn og sjálfur forseti lýðveldisins töldu þjóðinni trú um að framtíð hennar fælist í því að flytja peninga og pappíra fram og aftur um heiminn.
Íslendingar hefðu af snilld sinni fundið upp nýtt "viðskiptamódel" sem engum hefði dottið í hug áður: fá bara lán á lán ofan og borga þau aldrei nema með öðrum lánum. Raunveruleg verðmætasköpun í hefðbundnum skilningi þyrfti ekki að eiga sér stað. Hámarki náði þessi hrunadans vitleysunnar þegar útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt fyrirtæki sem aldrei hafði flutt neitt út nema peninga!
En nú er allt breytt. Einkaþotugnýrinn á Reykjavíkurflugvelli er þagnaður, - Auðlindin er byrjuð aftur í útvarpinu og fréttir af viðskiptum dagsins í Kauphöllinni eru hættar í sjónvarpinu. Og sjávarútvegurinn er ekkert svo hallærislegur lengur. Þjóðin er sem sagt að enduruppgötva það að fiskveiðar - og vinnsla og sala fiskafurða - hafa alltaf verið og verða í fyrirsjáanlegri framtíð ein af forsendum velmegunar á Íslandi. Sjávarútvegurinn verður ein af þeim meginstoðum sem við stöndum á við endurreisn íslensks efnahagslífs.
En þá þarf líka viðmót stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein að vera í einhverju samræmi við mikilvægi hennar. Það gengur ekki að þeir sem stunda þennan atvinnurekstur búi í stöðugri óvissu um þær lagalegu forsendur sem hann hvílir á. Það dregur úr áhuga manna á að fjárfesta í sjávarútvegi og fjármagnið leitar þá einfaldlega í aðrar atvinnugreinar, sem búa við öruggari aðstæður. Það er líka óviðunandi að á þennan rekstur skuli lagðir jafn íþyngjandi sértækir skattar og raun ber vitni. Það lætur nærri að út úr Suðurkjördæmi renni um 1,1 milljarður króna árlega af þessum sökum. Þeim peningum væri betur varið í kjördæminu sjálfu.
Það er líka umhugsunarefni fyrir stjórnvöld hvernig staðið er að ákvörðunum um leyfilegan afla, - eins og brennur ekki hvað síst á okkur Vestmannaeyingum þessa dagana varðandi loðnuna. Það lætur nærri að tekjur fyrirtækja í Vestmannaeyjum af loðnuvertíðinni í fyrra hafi verið um 4,4 milljarðar króna. Það sjá allir í hendi sér að tekjur af þessu tagi hafa gríðarleg áhrif í ekki stærra bæjarfélagi. Sambærileg upphæð hlutfallslega væri t.d. fyrir Reykjavík 127 milljarðar króna! Ætli stjórnvöld myndu ekki hugsa sig þrisvar um áður en þau tækju ákvarðanir sem leiddu til þess að Reykvíkingar yrðu af þvílíkum tekjum? Það er engum hagur af því að fiskistofnar séu ofveiddir, - allra síst þeim sem eiga allt sitt undir því að veiðarnar séu sjálfbærar og stofnarnir endurnýi sig. Það eru þó ýmsir þeirra skoðunar - líka meðal fiskifræðinga - að það sé engin óheyrileg eða óverjandi áhætta tekin með því núna að leyfa veiðar á 30-40 þúsund tonnum. Og þá á auðvitað að sækja þann afla á þeim tíma sem hráefnið er verðmætast og yfir höfuð veiðanlegt.
Þrátt fyrir óvissuna með loðnuveiðar á þessari vertíð verður að teljast frekar bjart yfir íslenskum sjávarútvegi. Hann er kominn "inn" aftur og mun gegna lykilhlutverki í framtíðaruppbyggingu efnahagslífsins - bæði í Suðurkjördæmi og landinu öllu.
Íris Róbertsdóttir
Frambjóðandi í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Í gær setti ég inn færslu um Gísla Gíslason. Ég fylgi þeirri færslu nú eftir með að glugga frekar í viðtal við hann í ritinu Frjáls Verslun frá 1972.
Gísli Gíslason var ætíð maður kjarnyrtur og án vafa framsýnn. Í viðtali því sem ég hóf umfjöllun um í gær (sjá umfjöllun hér neðar) var hann m.a. spurður um hver hann teldi að væru helstu framfaramál Vestmannaeyinga. Svar hans var á þessa lund:
,,Hafnarmál ber einna hæst, og segja má að þau séu jafnan eitt helsta stórmál okkar í Eyjum því að stöðugt fara fram endurbætur á hafnaraðstöðunni. Veitumálin hafa líka verið afar þýðingarmikil og stórmerkt spor stigið í þeim með lagningu leiðslunnar úr landi.
Gísli ítrekar það síðan að allt sem snýr að fiskveiðum og vinnslu sé og verði helsta hagsmunamál Eyjamanna. Fiskiðnaðurinn í Vestmannaeyjum ,,gefur af sér hvorki meira né minna en 15 til 18% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Eins og þegar hefur komið fram er þetta viðtal frá 1972. Hér er því athyglisvert að velta fyrir sér hversu stórt hlutfall af gjaldeyristekjum þjóðarinnar verður til í Vestmannaeyjum. Því ætla ég að reyna svara í næstu færslu.
Síðar í viðtalinu er Gísli spurður út í skipulagsmál. Gaman er að sjá þá bjartsýni og trú á bæjarfélagið sem hann hefur alið með sér. Hann svarar: ,,Hvað skipulagið snertir er rétt að geta þess að samkvæmt mannfjöldaspám verða Vestmannaeyingar um 10.000 árið 1980. Aðeins hafa nú mannfjöldaspár Eyjamanna verið ofmetnar því að árið 1980 bjuggu hér 4727 íbúar. Svo er ég sakaður um að vera of bjartsýnn.
Spurður um samgöngumál segir Gísli: ,,Skipaútgerð ríkisins hefur haft Herjólf í förum til Vestmannaeyja og í fyrrasumar var hann látinn sigla daglega milli Þorlákshafnar og Eyja að undirlagi Ingólfs Jónssonar [ innsk. Sjálfstæðismaður og alþm. suðurl frá 1959 til 1978], þáverandi samgönguráðherra. En skipaútgerðin hefur Herjólf á sínum snærum og getur ráðið áætlun hans. Þar verður ekki alltaf litið á hagsmuni Vestmannaeyinga fyrst og fremst. Því er það að við Vestmannaeyingar höfum hug á að kaupa okkar eigið skip til að sigla milli lands og Eyja. Samkvæmt athugunum, sem gerðar hafa verið, er flugfært 260 daga á ári milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, en sjóleiðin til Þorlákshafnar er fær 300 daga úr árinu. Í svona siglingar þarf gott skipt og nú er í athugun, hvort heppilegt sé að festa kaup á ferju, sem notuð hefur verið í Danmörku og kosta myndi 20 milljónir auk álíka upphæðar, er fara myndi í ýmsar lagfæringar. Vera má, að hyggilegra sé að láta smíða skip sérstaklega í þessu augnamiði. En hvað sem því líður er það höfuðhagsmunamál Vestmannaeyinga að eignast skip hið fyrsta."
Í raun rak mig í rogastans við þennan lestur. Árið 1972 var verið að meta kosti þess og galla að fá notað skip frá Danmörku, enn erum við að meta þennan sama kost. Árið 1972 vildi Gísli Gíslason að Eyjamenn ættu sjálfir og rækju skip milli lands og Eyja. Í fyrra reyndum við hjá Vestmannaeyjabæ ásamt VSV að semja við ríkið um að heimamenn ættu og rækju skip í þessum siglingum. Árið 1972 voru samgöngur höfuðáhyggjur Eyjamanna. Nú árið 2009 er svo enn.
Það er magnað að grúska í þetta viðtal við þennan merka mann. Í viðtalinu kemur hann fyrst og fremst að þrennu: Þörfinni fyrir bættar samgöngur og nýtt skip, mikilvægi lagningar á vatnslögn milli lands og Eyja og mikilvægi uppbyggingar á Vestmannaeyjahöfn. Í dag fór stór hluti af minni vinnu í: Frágang á samningi um vatnslögn milli lands og Eyja, undirbúning fyrir störf í stýrihóp sem fjallar um bættar samgöngur og þörfina fyrir nýtt skip og fund vegna uppbyggingar á Vestmannaeyjahöfn (skipalyfta og stórskipahöfn). Skyldi þessum verkefnum einhvern tímann ljúka?
Eftir Gísla liggja mörg þarfa verk hér í Vestmannaeyjum. Þá eru afkomendur hans allir hinir prýðilegustu arftakar Gísla og hafa haldið merkjum hans á lofti. Allir þessir afkomendur (í það minnsta þeir sem ég þekki) eiga það sameiginlegt að vera mikið Eyjafólk og vera samfélagslega þenkjandi.
Ég vil í lok þessarar færslu þakka Bibba Valla fyrir hans endurgjöf á færsluna í gær og hvetja fólk til að lesa þau skemmtilegu skrif. Gaman væri að fá sögur af Gísla Gíslasyni hér í athugasemdakerfið svo fremi sem þær sýni látnum syni Eyjanna tilhlýðanlega virðingu.
3.3.2009 | 15:34
Merkilegur maður, enda alinn upp í "hinum sanna þjóðaranda þar ytra"
Í gærkvöldi gluggaði ég í tímaritið Frjáls Verzlun 5. tbl frá 1972. Það sem helst vakti athygli mína var viðtal við Gísla Gíslason forstjóra í Vestmannaeyjum og stjórnarformann Hafskips. Viðtalið er allt hið áhugaverðasta og athyglisvert hversu mikil samhljómur er á milli þess tíma sem viðtalið var tekið og dagsins í dag, þótt 37 ár skilji þarna á milli.
Gísli Gíslason var fæddur Vestmannaeyingur og ólst því upp í hinum sanna þjóðaranda þar ytra eins og segir í blaðinu. Hann var faðir Haralds Gíslasonar (Halla Gísla stjórnarmanns í Vinnslustöð Vestmannaeyja) og þar með afi Rutar Haraldsdóttur sem er Framkvæmdarstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Vestmannaeyjabæjar og fyrsta konan til að gegna starfi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum (gegnir því fjarveru minni). Þar fetaði hún í spor afa síns sem var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum 1961 til 1962.
Gísli var fæddur árið 1917 og hóf afskipti af verslun og viðskiptum í Vestmannaeyjum aðeins tólf ára gamall. Þá seldi hann gotterí í kvikmyndahúsi hér í bæ. Fyrsta árið var hann í vinnu hjá öðrum en tók svo sjálfur við rekstrinum. 13 ára fór hann sjálfur til fundar við umboðsmenn sælgætisverksmiðja og gerði innkaup á hagstæðu verði. Þegar Gísli var við nám í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja stofnaði hann ásamt félaga sínum, sérstakt bíó fyrir börn sem rekið var í leiguhúsnæði og átti miklum vinsældum að fagna.
Tónninn var því snemma gefinn og átti hann eftir að endast út ævi Gísla. Hann útskrifaðist úr Verslunarskólanum 1936 og stofnaði í kjölfarið heildverslun sem hann rak samhliða störfum við Útvegsbanka Íslands í Vestmannaeyjum. Stakkaskipti urðu í rekstri heildsölunnar í stríðsbyrjun, 1939, þegar Gísli stofnaði til viðskiptasambanda í Bandaríkjunum.
Gísli hóf afskipti af pólitík í Eyjum árið 1933 og var þátttakandi í stjórnmálum æ síðan. Hann var settur bæjarstjóri 1961 til 1962 í fjarveru Guðlaugs Gíslasonar bæjarstjóra sem þá var kominn á þing.
Ég ætla að enda þennan pistil á því að vitna beint í upphaf viðtalsins við Gísla:
,,Þó að sumum finnist það kannski furðulegt er staðreyndin sú, að mörgum gömlum Vestmannaeyingum er það ofarlega í muna, að Eyjarnar verði sem sjálfstæðastar í öllum sínum málum segi sig jafnvel úr lögum við Ísland. Þeir benda á hversu drjúgar gjaldeyristekjur Vestmannaeyjar hafi, og hve traust efnahagslíf fyrir ekki stærri stað mætti á þeim byggja. Við verðum að treysta á eigið frumkvæði í vissum efnum og sjá okkur sjálfir farborða, því að aðrir gera það ekki jafnvel. Þetta á alveg sérstaklega við um samgöngumálin sem enn eru í mesta ólestri. Varanleg lausn þeirra mun ekki fást fyrr en Vestmannaeyingar eignast skip til ferða milli Eyja og Reykjavíkur eða Þorlákshafnar og annast sjálfir útgerð þessa."
Á morgun ætla ég að skrifa meira um þennan merka mann og segja til dæmis frá því hver hann taldi helstu framfaramál Vestmannaeyinga, mannfjöldaspám og helsta flöskuhálsi í byggðaþróun þessa tíma, samgöngumálum.
1.3.2009 | 23:35
Ich bin ein Eyjamaður
Ég lenti á nokkuð skemmtilegu spjalli við gamlan bekkjafélaga núna um helgina. Eins og ætið var farið í ferðalag eftir braut minninganna í spjallinu. Það rifjaðist upp fyrir okkur í þessu spjalli að þegar við vorum 16 ára stefndum við báðir að því að eiga heima í Eyjum alla ævi. Hann fór svo í framhaldsskóla í Reykjavík en ég í framhaldsskóla hér í Vestmannaeyjum. Leiðir okkar lágu svo aftur saman í háskóla og enn stefndum við báðir að búsetu í Eyjum. Núna bý ég hér í Eyjum en hann stefnir að því, þótt sennilega verði það ekki næsta áratuginn. Spjall okkar leiddi svo út í hina klassísku umræðu um hvað það sé að vera Eyjamaður. Eru það bæði Eyjamenn sem flytja til Vestmannaeyja og þeir sem flytja frá Vestmannaeyjum?
Mín skoðun er sú að það að segja Ég er Eyjamaður sé svipað og þegar John F. Kennedy sagði Ich bin ein Berliner í Berlín árið 1963. Auðvitað var Kennedy ekki Berlínarbúi, var ekki fæddur þar og hefur áreiðanlega aldri greitt þangað útsvar, verslað þar í matinn, greitt þar fasteignagjöld eða nokkuð annað. Með því að segja þetta í ræðu sinni var hann að vísa til þess að hann skildi ástandið í Berlín og vildi leggja sín lóð á vogaskálarnar til að bæta það og hvetja þá sem þar voru búsettir til dáða. Hefði Kennedy verið staddur í Vestmannaeyjum hefði hann sagt Ich bin ein Eyjamaður
Sem borinn og barnfæddur Eyjamaður þykir mér afskaplega vænt um hversu margir vilja kalla sig Eyjamenn. Í gegnum starf mitt þekki ég líka þá gríðarlegu auðlind sem við búsettir Eyjamenn eigum í brottfluttum Eyjamönnum. Þetta eru öflugir erindrekar og sendiherrar. Fólk sem ætíð ver málstað okkar og heldur merkjum okkar á lofti. Ég tek því þess vegna fagnandi að fólk segi Ég er Eyjamaður.
Við búsettu Eyjamennirnir eigum að gera vel við þessa erindreka. Við eigum að fagna því hversu dugleg þau eru við að rækta samband við okkur. Heimsækja okkur á hátíðisdögum eins og þjóðhátíð, þrettánda og goslokahátíð. Halda hér ættamót, stórafmæli og fleira. Rækta sambandið við sín úteyjafélög, fjárfesta hér í orlofsíbúðum og eru okkur til halds traust í blíðu og stríðu.
Að kalla sig Eyjamann merkir fyrir mér að viðkomandi vilji Vestmannaeyjum allt hið besta og sé tilbúinn til að vinna að áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Ég er stoltur af Vestmannaeyjum og veit að við Eyjamenn -sama hvar við erum fædd og hvar við eigum næturstað- ætlum að standa saman vörð um hagsmuni Vestmannaeyja á erfiðum tímum og nota þau tækifæri sem við eigum núna til vaxtar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2009 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2009 | 01:28
Hannes Hafstein - hentugur leiðtogi árið 2009?
Á tímum sem nú þegar gríðarlegir erfiðleikar blasa við Íslendingum er ekki laust við að hugurinn reiki og maður leiti samsvörunar í erfiðleikum fyrri tíma. Þjóðin hefur frá landnámi enda staðið frammi fyrir ýmsum erfiðleikum sem voru ólíkt meiri en þeir efnahagslegu erfiðleikar sem nú er við að etja. Stundum geri ég það að leik mínum að máta horfna stjórnmálaleiðtoga við ástandið í dag og velta því fyrir mér hvernig þeir tækjust á við erfiðleika samtímans. Einhverjir kunna að halda að nú hafi leiðtogaskortur Sjálfstæðismanna náð nýjum hæðum þegar maður er farinn að leita aftur um rúm hundrað ár að hentugum kandídötum. Það er nú misskilningur, allt geri ég mér þetta til gamans og til að ýta mér í smá grúsk.
Marga á ég mér eftirlætis stjórnmálamennina og ef fast væri að mér gengið myndi ég sennilega nefna Ólaf Thors sem mitt mesta eftirlæti, uppáhalds. Mér til leiks ætla ég hinsvegar ekki að máta hann í þetta skiptið. Í núverandi umhverfi þar sem krafan er siðbót og traust á gæðum landsins get ég nefnilega ekki setið á mér að velta fyrir mér heimastjórnarmönnunum og þá sérstaklega því viðmóti sem þeir tóku upp úr raunsæisstefnunni. Ég velti því fyrir mér hvort raunsæismaðurinn, kvenfrelsispostulinn og einn af fyrstu boðberum einstaklingshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hafstein væri ekki hentugur í núverandi umhverfi.
Hannes Hafstein var einn af Verðandimönnum og tilheyrir að mörgu leyti raunsæisstefnunni. Meginmarkmið raunsæismanna var að lækna mein samfélagsins og gerðu þeir gjarnan smælingjann og stöðu hans að yrkisefni sínu og deildu á spillingu og framkomu yfirstéttarinnar í garð þeirra sem máttu sín minna. Vera má að einhverjum þyki það djarft að tengja þessar raunsæishugmyndir um stöðu smælingja við einstaklingshyggjuna og í raun stefnu Sjálfstæðisflokksins í dag.
Hvað slíkt varðar er rétt að minna á stefnu Sjálfstæðisflokksins eins og hún er skrifuð:
að vinna að varðveislu hins íslenska lýðveldis, sjálfstæðis og fullveldis og hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna og hins vegar að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslynda framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis og séreignar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Lykilatriðið í þessu er náttúrulega "með hagsmuni allra stétta fyrir augum". Stétt með stétt.
Sannarlega var Hannes Hafsteinn í miklu slagtogi við vinstri öfl á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Hæst ber þar sjálfsagt vinátta hans við sjálfan Georg Brandes. Á hitt þarf einnig að líta að "vinstri" og "hægri" voru ekki enn komin í þann farveg sem þau seinna áttu eftir að komast í. Sú pólitík sem Hannes helst stóð fyrir fellur því miður oft í skuggann af stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar á þessum tíma, heimastjórninni. Deilur hans og átök við "valtýskuna" og forsvarsmann hennar Valtý Guðmundsson yfirskyggja helstu áherslumál Hannesar í uppbyggingu þjóðlífsins. Í raun voru Hannes og Valtýr í flestu sammála. Þeir voru báðir ákafir framfaramenn, vildu iðnvæða Ísland, færa erlent fjármagn inn í landið, græða það upp, koma á járnbrautum, síma og svo framvegis.
Einstaklingshyggjan var útgangspunktur í stjórnmálalegri afstöðu Hannesar Hafstein. Hann taldi einstaklinginn og frelsi hans til orðs og æðis eitt hið veigamesta. Sannarlega viðhorf sem þörf er á nú rétt eins og 1904 þegar Hannes varð ráðherra fyrstur Íslendinga. Þjóðin var að mati Hannesar afleidd mynd af einstaklingnum, fölsk holdgerving þeirra. Þetta viðhorf kemur bersýnilega í ljós í þessum skrifum Hannesar;
,,Fósturland og þjóðerni er ekki sérstök guðleg gjöf því hver sem fæðist í heiminn verður að fæðast í einhverju landi og það land sem hann af hendingu fæðist í er að jafnaði hans fósturland og af því fær hann sjálfkrafa eða nauðugur þann stimpil sem kallast þjóðerni og sem bindur hann alla æfi með ýmsum böndum við fósturlandið.
Ég skal fúslega viðurkenna að það er ekki eingöngu pólitík Hannesar sem ég held að ætti að mörgu leiti við í dag heldur einnig lífsafstaða hans eins og hún birtist í ljóðum hans. Því þótt sjá megi helstu einkenni raunsæisstefnunnar í skáldskap Hannesar þá einkennast ljóð hans þó miklu meira af krafti, bjartsýni og dirfsku. Þessum sömu einkennum og nú er kallað eftir.
Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna,
farsæld og mannúð, vek oss endurborna!
Strjúk oss af augum nótt og harm þess horfna,
hniginnar aldar tárin láttu þorna.
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðumoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
það: að elska, byggja og treysta á landið.