Eyjamenn vona það besta en búa sig undir það versta

SV300513Nú fyrir stundu lauk fundi hagsmunaaðila í sjávarútvegi hér í Vestmannaeyjum.  Á fundinn sem útvegsbændafélag Vestmannaeyja boðaði til voru boðaðir fulltrúar fiskvinnslufólks, sjómanna, vélstjóra, skipstjóra og stýrimanna, útgerðarmanna og Vestmannaeyjabæjar. Upphaflega var von á sjávarútvegsráðherra en hann varð að boða fjarveru þar sem ófært var til Eyja.

Fundurinn fór vel fram og einhugur var alger.  Sjómenn lýstu því að þeir teldu meiri loðnu nú við suðurströndina en undanfarin 3 ár.  Þá lýstu margir yfir áhyggjum af þeirri gjá sem er milli mælinga Hafrannsóknastofnunar sem nánast fer með ákvörðunarvald í málinu og sjómanna.  Fundurinn var sammála því að hluti vandans stafaði af því að starfsmenn Hafró eru almennt búsettir í Reykjavík, bæði í fjarlægð frá miðunum og þeirri þekkingu sem er að finna í sjávarbyggðum.  Þannig liggja hafrannsóknarbátarnir nú bundnir við bryggju í Reykjavík á meðan sjómenn mæla loðnu um allan sjó.  Eðlilega vaknar sú spurning hjá hagsmunaaðilum, sem tapa tugum milljóna á hverjum degi, hvort starfsmenn sætu heima hjá sér ef þeir væru búsettir í Vestmannaeyjum og rannsóknabátarnir væru gerðir út héðan.

Allir voru fundarmenn á því að enn væri góð von til að veiðar yrðu heimilaðar á ný innan fárra daga, jafnvel þótt varlega yrði farið til að byrja með.  Eyjamenn vona því það besta en búa sig undir það versta eins og meðfylgjandi ályktun ber með sér:

Vestmannaeyjum 23. febrúar 2008
Í dag funduðu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar fiskvinnslufólks, sjómanna, vélstjóra, skipstjóra og stýrimanna, útgerðarmanna og Vestmannaeyjabæjar.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun einróma:

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum taka heilshugar undir ályktun Bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að: ríkið láti tafarlaust af íþyngjandi álögum á sjávarútveginn, látið verði af handaflsaðgerðum í tilflutningi aflaheimilda, opinber umræða verði ábyrgari, fræðasviðið sjávarútvegs verði styrkt, hafnaraðstaða verði stórbætt og hvalveiðar hafnar með auknum þunga. Meginn þorri fjölskylda í Vestmannaeyjum á viðurværi sitt undir rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og vill fundurinn að mótvægisaðgerðir taki mið af því.

Fundurinn tekur einnig einnróma undir ályktun VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna og skorar á stjórnvöld að koma til móts við þá sjómenn sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna nýlegra stjórnvaldsaðgerða. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hvetja því ríkisstjórn til að hækka sjómannafrádrátt og greiða sjómönnum laun til að stunda öryggisfræðslu og sækja öryggisnámskeið í heimabyggð. Slys til sjós eru allt of algeng og löngu tímabært að lyfta grettistaki í þeim efnum.

Fundurinn hvetur ríkisstjórn til að bæta fiskvinnslufólki tekjutap og huga sérstaklega að kjörum fiskvinnufólks sem verður fyrir mikilli skerðingu ef aflabrestur verður sá sem nú stefnir í. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum hvetja stjórnvöld til að fjárfesta í starfs- og endurmenntun starfsfólks í fiskvinnslu og gera þeim jafnframt kleift að stunda slíkt nám á dagvinnutíma þegar hráefni er ekki til staðar og það haldi dagvinnulaunum á meðan á námskeiðum stendur. Þannig verður best brugðist við breyttum aðstæðum og horft framtíðar á tímum mikilla tæknibreytinga og samdráttar í fiskafla.

Þá telur fundurinn það afar mikilvægt að tekin verði upp sú leið að gefa út jafnstöðukvóta (lágmarkskvóti sem ætíð fær að standa) til að skapa veiðum og vinnslu kjölfestu. Sjávarútvegur er ekki frábrugðin öðrum viðskiptum hvað varðar þörfina fyrir stöðugleika. Áhrif veiða í hlutföllum við áhrif náttúrunnar, svo sem át hvala og fugla, eru ekki slík að óttast þurfi slíka lágmarksveiði. Þetta myndi hinsvegar bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja og stórauka launaöryggi launþega á landsbyggðinni.

Að lokum krefst fundurinn þess að fulltrúar þeirra sem fara með ákvörðunarvaldið hvað veiðar varðar fari tafarlaust á miðin til að sinna rannsóknum. Vinnubrögð og rannsóknir þær sem eru forsendur ákvörðunartöku um veiðistopp á loðnu eru að mati fundarins afar gagnrýnisverð og mikið bil milli mats Hafrannsóknastofnunar og mats sjómanna sem hafa saman árhundruða reynslu af loðnuveiðum. Fjölskyldur og fyrirtæki í Vestmannaeyjum tapa tugum milljóna á hverjum degi sem veiðistopp er í gildi og það lágmarkskrafa að fulltrúar ákvörðunarvaldsins vandi til vinnu og setji vöktun í forgang.

Fundurinn telur að í engu megi hvika frá ofangreindum punktum ef sjávarútvegurinn á að þola þær þrengingar sem nú blasa við. Alþingi og ríkisstjórn þarf því tafarlaust að sýna festu í störfum sínum. Lýðskrum og vingulsháttur verður að víkja fyrir aðgerðum sem styrkja sjávarútveginn.
Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum
 

 


Ályktun um mótvægisaðgerðir sem gagnast sjávarútvegsfyrirtækjum og sjávarbyggðum.

IMG_3112Í kvöld fundaði bæjarstjórn Vestmannaeyja.  Eðli málsins samkvæmt var ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að stöðva loðnuveiðar fyrirferðamest í umræðunni.  Eins og endranær bar bæjarsjórn gæfu til að standa saman í ályktun enda um mikið hagsmunamál að ræða. 

Ályktunin var svohljóðandi:

Ályktun um mótvægisaðgerðir sem gagnast sjávarútvegsfyrirtækjum og sjávarbyggðum.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu mála í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum.  Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að stöðva loðnuveiðar á hádegi í dag mun þýða 3,8 milljarða tap fyrir sjávarútveginn í Vestmannaeyjum og bætist ofan á 3,6 milljarða tap vegna niðurskurðar á þorskkvóta. 

Vestmannaeyjabær hefur þegar lagt fram ítarlegar tillögur um mótvægisaðgerðir sem stutt getur samfélagið í Eyjum almennt. Bæjarstjórn hvetur ríkisstjórn til að ganga lengra í þá átt sem þá var mörkuð.

Eftir stendur að ef fram fer sem horfir blasir við að sjávarútvegsfyrirtæki verða fyrir slíkum skaða af völdum ákvörðunar um að stöðva loðnuveiðar að aðgerða er þörf gagnvart rekstrarumhverfi þeirra ef ekki á illa að fara.  Í ljósi alvarleika málins leggur Vestmannaeyjabær því þunga áherslu á að ríkisvaldið grípi til eftirfarandi aðgerða tafarlaust:

1. Sjávarútvegur verði styrktur með því að aflétta íþyngjandi álögum.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur eindregið til þess að íþyngjandi álögum á sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni verði aflétt. Horft verði til þess fordæmis, sem sett hefur verið með samningum við álfyrirtæki bæði hvað varðar skattalegt umhverfi og afslátt af raforku. Enn fremur þarf tafarlaust að afnema veiðgjald, lækka tryggingagjald, lækka raforkuverð til fiskvinnslu, lækka opinber eftirlitsgjöld og síðast en ekki síst að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni.   Sjávarútvegur er undirstaða flestra byggðarlaga á landsbyggðinni. Hingað til hefur vægi krafna um ríkisþátttöku í atvinnustarfsemi á landsbyggðinni verið svo mikið að henni hefur verið svarað með atvinnustarfsemi sem að mati margra ógnar stöðugleika efnahagslífsins, vaxtarmöguleikum sprotafyrirtækja, alþjóðlegri ímynd Íslands og síðast en ekki síst sjálfri náttúrunni.  Vestmannaeyjabær er fylgjandi ábyrgri nýtingu allra auðlinda en telur að forgangsverkefni eigi að vera að skoða hvort hægt sé að slaka á opinberum álögum í þeirri atvinnugrein sem allir eru sammála um að eigi ákaflega vel heima í íslensku dreifbýli, fiskveiðum og vinnslu.

2. Látið verði með öllu af handaflsaðgerðum í sjávarútvegi.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur eindregið til þess að með öllu verði látið af þeirri löngu úreltu leið að flytja atvinnutækifæri með handafli á milli byggðarlaga á landsbyggðinni. Á hverju ári eru verðmæti upp á milljarða flutt á milli byggðarlaga, frá atvinnusvæðum og fyrirtækjum þar sem arðbært er að gera út. Byggðarlögin sem verst hafa farið út úr þróun seinustu ára þurfa mikla og markvissa aðstoð.  Ástæða er til að hafa sérstakar áhyggjur af stöðu mála á Vestfjörðum og styður Vestmannaeyjabær ábendingar Vestfirðinga í flestu.  Hinsvegar er algerlega ljóst að þá aðstoð þarf að sækja annað en til Vestmannaeyja.  Það kann ekki góðri lukku að stýra að flytja verðmæti með handafli á milli tveggja svæða sem bæði eiga í svipuðum erfiðleikum.

3. Opinber umræða um sjávarútveg verði af meiri ábyrgð en hingað til
Þingmenn sýni alvarlegri stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarútvegssamfélaga tilhlýðanlega virðingu og leggi ekki upp með umræðu sem skaðar sjávarútveginn og samfélög sem byggja afkomu sína á honum.  Sjávarútvegur, eins og önnur svið viðskiptalífsins, þarf að geta treyst því að rekstrarumhverfið sé stöðugt en ekki háð duttlungum stjórnmálamanna. Vestmannaeyjabær er öflugasta sjávarbyggð á landsbyggðinni.  Það er einörð skoðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að friður þurfi að vera um fiskveiðistjórnunarkerfi það sem unnið er eftir þótt eðlilegt sé að það sé ávallt til endurskoðunar.

4. Fræðasvið sjávarútvegs verði styrkt og hafrannsóknir efldar
Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur eindregið til þess að hafrannsóknir og auðlindafræði verði efld stórlega í sjávarbyggðunum.  Staðreyndin er sú að Íslendingar hafa ekki lagt nægilega mikið upp úr uppbyggingu á rannsókna- og fræðasviði sjávarútvegs. Vilji Íslendingar halda forystu sinni sem sjávarútvegsþjóð þarf að leggja stóraukna áherslu á hafrannsóknir og það fræðasvið sem tengist sjávarútvegi. Engir staðir eru betur til þess fallnir til að sinna slíkri uppbyggingu en þau byggðarlög sem lifa á veiðum og vinnslu.  Nálægðin við atvinnugreinina skiptir sköpum enda það alkunna að fiskifræði sjómanna er vanmetin.

5.  Hafnaraðstaða byggð upp
Vestmannaeyjabær hvetur til þess að rekstrarumhverfi sjávarútvegs verði bætt með aukinni áherslu á uppbyggingu hafnaraðstöðu.  Hafnirnar eru lífæð sjávarbyggðanna.  Uppbygging þeirra er beinn stuðningur við undirstöðu atvinnugreina.  Gera þarf öflugum sjávarútvegsbyggðum kleift að þjónusta fiskveiðaflotann af sóma og auka þar með arðsemi sjávarútvegs.

6. Hvalveiðar verði hafnar af auknum þunga.
Rannsóknastofnanir telja að hvalastofninn éti 1 til 2 milljónir tonna af loðnu á ári og því segir það sig sjálft að veiða þarf hval í samræmi við ástand loðnustofnsins ef ekki á illa að fara.  Íslendingar eru frjáls og fullvalda þjóð og eiga að haga nýtingu nytjastofna í samræmi við eigið gildismat en ekki hræðsluáróður annarra þjóða.

Vestmannaeyjabær telur að í engu megi hvika frá ofangreindum punktum ef sjávarútvegurinn á að þola þær þrengingar sem nú blasa við.  Alþingi og ríkisstjórn þarf því tafarlaust að sýna festu í störfum sínum.  Lýðskrum og vingulsháttur verður að víkja fyrir aðgerðum sem styrkja sjávarútveginn.


Sjálfstæðar Vestmannaeyjar?

radhus3í dag hringdi í mig fréttakona með vangaveltur um sjálfstæði Kosovo og hvort við Eyjamenn myndum ekki í framhaldinu íhuga að krefjast sjálfstæðis frá Íslandi.  Ég átti ágætis rabb við fréttakonuna og sagði henni sem var að þessari hugmynd hefði öðruhverju skotið upp hér í Vestmannaeyjum og er þess skemmst að minnast þegar Bragi Ólafsson þá verandi bæjarfulltrúi vildi skoða þetta af fullri alvöru.  Maður skyldi að minnsta kosti aldrei segja aldrei.

Fréttin sem síðan var birt var eðlilega í hálfkæringi enda viðtalið það einnig.  Fréttin var svohljóðandi:

Sjálfstæðar Vestmannaeyjar

Von hefur kviknað í brjóstum þegna margra smáríkja í kjölfar þess að Kosovo lýsti einhliða yfir sjálfstæði í gær. Ríkisstjórnir Rúmeníu, Spánar, Indlands, Rússlands og Kína eru meðal þeirra sem skjálfa nú á beinunum yfir því að íbúar Transnistríu, Baskalands, Nagalands og hinna og þessa -stana taki sig til og feti í fótspor Kosovo.

En Ísland?

„Jú, það er aldrei að vita nema við hugleiðum þetta," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. „Við erum tekjuhátt samfélag og sjálfum okkur nóg með flest. Menn hafa jafnvel velt fyrir sér „hostile takeover" á fastalandinu," segir Elliði og hlær.

Hann bætir við að að öllu gamni slepptu hafi hugmyndir um sjálfstæði eyjanna skotið upp kollinum öðru hvoru. Þær hafi til að mynda verið ræddar af fullri alvöru innan stjórnkerfis Vestmannaeyja fyrir 10-15 árum síðan. Vestmannaeyjar gætu þá haft svipaða stöðu gagnvart Íslandi og Isle of Wight hefur gagnvart Bretlandi.

Elliði segir þær hugmyndir í sjálfu sér ekki svo galnar. „Vestmannaeyjar eru mjög tekjuhátt bæjarfélag og atvinnulífið stendur hér feiknarsterkum fótum. Okkur svíður skattlagning á ýmsum sviðum eins og til að mynda með veiðigjaldinu," segir Elliði. „Þetta eru allt vangaveltur sem eru þess virði að skoða." segir hann og bætir við að þetta sé þó í bili ekki til neinnar formlegrar umfjöllunar annars staðar en á kaffistofum bæjarins.

Þetta er skemmtileg pæling svo mikið er víst.  Svo erum við eina bæjarfélagið sem á sinn eigin opinbera þjóðsöng sem heitir "Sumarmorgun á Heimaey".  Textinn er eftir Sigurbjörn Sveinsson og lag eftir Brynjólf Sigfússon. 

 


Fjarvinnsluver opnað í Vestmannaeyjum

IMG_1222Í gær undirritaði ég samning við Þjóðskjalasafnið um opnun útibús safnsins hér í Vestmannaeyjum.  Samkvæmt honum verða íslensk manntöl tölvuskráð hér í Eyjum og gerð aðgengileg almenningi. Útibúið hér er hið fyrsta af þremur sem opnuð verða á næstu vikum þar sem manntöl verða skráð rafrænt.

Við fjarvinnsluverið hér í Eyjum vinna nú sex starfsmenn í hálfu starfi. Verkefnið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta en alls verða veittar um 240 milljónir króna í verkefnið til ársloka 2009. Fénu er skipt í tvennt, 60% fara í skjalaskráningu og umpökkun en 40% í skráningu manntala.

Stefnt er að því að tíu manntöl frá 19. og 20. öld verði slegin inn og gerð aðgengileg á vefnum en alls verða til um 22 ársverk á landsbyggðinni vegna skráningarinnar. Allt ný störf.

Ólafur Ásgeirssonar, þjóðskjalavörður, hélt stutta tölu í tilefni af opnun útibúsins hér.  Í máli hans kom m.a. fram að eitt helsta verkefni safnsins sé að tölvusetja íslensk manntöl og veita aðgang að þeim á netinu.

Ólafur sagði ennfremur að manntölin nýttust mörgum fræðigreinum, sagnfræði, félagsfræði, landafræði, ættfræði og mannanafnafræði svo dæmi séu tekin og því mikilvægt að koma manntölunum í aðgengilegt form.

Við hjá Vestmannaeyjabæ lítum á þetta verkefni sem tækifæri til að þróa hjá okkur þekkingu og hæfileika til að sinna hverskonar bakvinnslu.  Ég tel það engum vafa undirorpið að mikla hagræðingu megi finna víða í ríkisrekstri með því að flytja störf úr dýrum fasteignum þar sem starfsmannavelta er mikil yfir til okkar sem getum boðið hagkvæmt húsnæði auk hæfs og stöðugs starfsfólks.


Kirkjan og kvótakerfið

 

20030110142101Ég fletti áðan Fréttablaðinu.  Í því ágæta blaði rakst ég á afar merkilegt viðtal við Séra Þórhall Heimisson, prest í Hafnarfirði.  Þar lýsir hann þeirri skoðun sinni að þjóðkirkjan mætti vel hafa til þess forystu að kvótakerfið verði endurskoðað.  Merkileg afstaða.

Með þessu er presturinn ágæti að svara kalli Grétars Mars Jónssonar þingmanns frjálslyndra sem skilur ekkert í því að kirkjan beiti sér ekki fyrir afnámi kvótakerfisins.

Sannast sagna féll þetta mér illa í geð og þá sérstaklega þegar séra Þórhallur Heimisson tekur sér í orð niðrandi orð um þá sem bera atvinnulíf okkar Eyjamanna á herðum sér með orðaleppum eins og “kvótakóngar”.  Svo finnst mér það einnig lágmarks krafa að opinberir starfsmenn  kynni sér málin áður en ráðist er til atlögu gegn atvinnulífinu í Eyjum með biblíuna að vopni.  Af orðum sérans má nefnilega skilja að hann telji að endurskoða þurfi kerfið “með hag hinna dreifðu byggða í huga, þeirra byggða sem kirkjan vill þjóna”.  Það er eins og þessi ágætis maður átti sig ekki á að hér í Eyjum hefur fækkað um 10% á 17 árum þótt staða okkar í sjávarútvegi hafi styrkst.  Það þarf því fyrirbænir um annað og meira en breytingar á kvótakerfinu.

Mín persónulega skoðun er sú að kirkjan eigi ekki að blanda sér efnislega eða tæknilega í umræðu um kvótakerfið eða önnur pólitísk málefni.  Ég er kristinn maður og skráður í þjóðkirkjuna.  Hingað til hef ég ekki séð eftir framlagi ríkisins fyrir mína hönd í það góða starf sem í þjóðkirkjunni er alla jafnan unnið.  Þarna er hinsvegar einn af þjónum kirkjunnar að boða pólitísk og tæknileg afskipti af atvinnulífinu í Vestamannaeyjum og víðar.  Það þykir mér vont.  Nógu erfitt er að hafa þingmenn talandi út og suður til að skapa óvissu í atvinnugreininni.  Þótt prestar fari nú ekki að bætast við. 

Biblían er að mínu mati hafin langt yfir það að orð hennar og boðskapur séu túlkaður í pólitísku argaþrasi.  Engu að síður velti ég því fyrir mér hvort séra Þórhallur hafi nýlega lesið Matteusarguðspjal þar sem m.a. segir:

“Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar.  Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.  Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.   Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.   Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.   Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.  Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.  Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar.  Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.”

Hver skildi afstaða sóknarnefndar í Vestmannaeyjum og sóknarprestana hér vera?


Broslegur spuni og merkilegt innlegg

SV204242Sjálfstæðisflokkurinn hefur legið undir miklum ámælum seinustu tvo mánuði.  Hæst hefur þar borið gagnrýni á borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna í Reykjavík.  Óþarft er að draga fjöður yfir að þróun mála þar hefur ekki verið með þeim hætti sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins ætlast til af sínu góða fólki.  Eins og kunnugt er myndaðist gjá milli borgarfulltrúa og borgarstjóra í aðdraganda REI-málsins.  Sannarlega fór borgarstjórinn fram úr sér og enn hefur hann ekki bitið úr nálinni með þau mistök.  Hinir sex fulltrúarnir hafa hinsvegar sýnt heilindi í erfiðri stöðu um það verður vart efast. 

Borgarstjórinn tók ákvarðanir sem hinum sex fulltrúunum hugnaðist ekki.  Þau öxluðu ábyrgð í takt við sannfæringu sína og í kjölfarið var nýr meirihluti myndaður.

Furðuleg gagnrýni á flokksforystuna
Eitt af því sem mér hefur fundist merkilegt í þessari umræðu allri er gagnrýni á flokksforystuna og þá sérstaklega á formanninn Geir H. Haarde.  Margir hafa þannig talað um að formaðurinn hefði átt að grípa inn í ferilinn og sýna “pólitíska forystu” í þessu máli.  Inn í umræðuna hefur svo blandast deila í þingflokknum um ákveðin mál sem skiptar skoðanir eru um.  Það broslega í þessu öllu er að það er ekki langt síðan þessi sömu aðilar gagnrýndu nefnilega  fyrrverandi formann fyrir að “berja” niður allar deilur og leyfa ekki málefnaleg átök í flokknum. 

Þessi spuni er hjákátlegur og ég gef ekkert fyrir hann.  Borgarstjórnarflokkurinn er einfaldlega að ganga í gegnum prófraun.  Mín spá er sú að okkar góða fólk þar standi ágjöfina af sér enda mikilvægt fyrir borgina að lenda ekki í viðjum R-listans næstu árin.

Nú gagnrýna andstæðingar sjálfstæðismanna að formaðurinn skuli ekki sýna gerræðisleg vinnubrögð.
Það þarf líka að líta til þess að hendur formannsins eru eðlilega bundnar hvað varðar afskipti hans af málefnum borgarfulltrúa, jafnvel þótt hann vildi hafa áhrif á gang mála.  Hvorki flokksforystan né þingflokkurinn ráða nokkru um málefni okkar sveitarstjórnamanna svo einfalt er það.  Við sækjum umboð okkar til kjósenda en ekki til flokksins.  Svo mikið er víst að við hér í Vestmannaeyjum myndum aldrei kæra okkur við afskipti Valhallar eða flokksforystunnar af okkar málum.  Ef sú staða kæmi upp að ég sem bæjarstjóri tæki ákvörðun í andstöðu við hina bæjarfulltrúana hér í Eyjum þá þætti okkur fáránlegt að Geir H. Haarde myndi blanda sér í slík mál nema þá bara til að eiga milligöngu og til að bera klæði á vopnin.  Ef hann, eða einhver annar úr flokksforystunni, færi hinsvegar að beita einhverju meintu miðstýrðu valdi þá þætti mér líklegt að þátttöku minni í málefnum Sjálfstæðisflokksins yrðu þar með lokið.  Slík gerræðisleg vinnubrögð eiga ekki heima í nútíma stjórnmálum og gagnrýni af þessu tagi segir ef til vill mest til um stöðu þeirra flokka sem mest um þetta gapa.

Jakbosþáttur Frímanns
Innslag Jakobs Frímanns Magnússonar, þess eðalkrata, er líka afar athyglisvert.  Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar hann um REI málið í kjölfar skýrslu þeirrar sem loks hefur litið dagsins ljós.  Niðurstaða skýrslunnar er: “Svigrúm borgarstjóra til stærri ákvarðana ber að skýra og kaupréttarsamningar starfsmanna sameinaðs orkuútrásarfyrirtækis REI og Geysis Green kunna að vera umdeilanlegir.”  Um þetta deila fáir.

Það sem hinsvegar fáir hafa áttað sig á, en fram kemur í grein Jakobs Frímanns, er að kostnaðurinn við það að Tjarnarkvartettinn (Jakob Frímann fjallar reyndar eingöngu um ábyrgð Vinstri Grænna) blés þetta mál allt saman upp eru litlar tíuþúsund milljónir.  Verðmæti sem borgarbúa þurfa nú að horfa á eftir.

Í sinni ágætu grein bendir Jakob einmitt á að með því að ganga til liðs við einkaframtakið hafi átt að meta óáþreifanleg verðmæti Orkuveitunnar, fyrst og fremst þekkingu, á 10 milljarða.  Vinstri menn hrópuðu að mati Jakobs Frímanns Úlfur, Úlfur þar til samningar voru slegnir af og einkaaðilar hraktir frá tækifærunum.

Mér finnst þetta er athyglisvert innlegg í umræðuna og ástæða til að velta því fyrir sér hvernig mál hefðu þróast ef farið hefði verið að því sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu á fyrstu stigum þessa máls á þeim tíma sem Björn Ingi valdi að mynda nýjan meirihluta og fela vinstrimönnum að móta samstarf við einkaaðila um útrás.

Jakokb Frímann spyr: “En var hagsmunum okkar Reykvíkinga best borgið með því að láta VG hrópa málið af dagskrá eða að fela þeim [stalíninstunum í Vinstri Grænum eins og hann kallar þá í greininni] að semja viðskiptamódel orkuútrásarinnar?

Svari nú hver fyrir sig.


Olíufélögin sköðuðu Vestmannaeyjar verulega, skylda okkar að gæta hagsmuna sveitarfélagsins.

SV204220Nú liggur það fyrir að Hæstiréttur hefur dæmt olíufélögin þrjú, Ker, Skeljung og Olís til að greiða Reykjavíkurborg tæpar 73 milljónir króna í bætur vegna tjóns sem borgin varð fyrir vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. 

Eins og áður hefur komið fram teljum við hjá Vestmannaeyjabæ einsýnt að olíufélögin hafi með samráði valdið sveitarfélaginu verulegum fjárskaða með ólögmætu samráði við gerð tilboða vegna útboðs okkar þann 14. apríl 1997 vegna eldsneytiskaupa Bæjarveitna, Áhaldahúss og Hafnarsjóðs.  Við þetta bætist að verðsamráðið hefur valdið  íbúum bæjarins og fyrirtækjum, einkum sjávarútvegsfyrirtækjum verulegu  tjóni.

Búast má við því að krafa Vestmannaeyjabæjar á hendur olíufélögunum nemi allt að 30 milljónum króna sem er sá afsláttur sem reikna má með að Vestmannaeyjabær hefði fengið af keyptu eldsneyti frá maí 1997 til loka árs 2001 ef ekki hefði verið um samráð að ræða.

Stefna okkar byggir á því að í gildi hafi verið samkomulag milli olíufélagana um að skipta á milli sín framlegð vegna viðskipta Vestmannaeyjabæjar og eins af olíufélögunum.  Gögn benda til að samkomulagið hafi verið í gildi frá 1997 til 2001.

Ég tel það því algera skyldu okkar að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í hvívetna í þessu máli og því hef ég falið lögmanni okkar að birta olíufélögunum stefnu vegna þessa máls nú um hádegið í dag.


Umræðan er rætin, óvægin og hreint viðurstyggileg

596221_logo_blatt_minnaUmræðan um borgarstjórnarmál hafa tröllriðið þjóðfélagsumræðunni seinustu daga.  Ég verð að viðurkenna að sjaldan hefur mér fundist umræða jafn rætin, óvægin og hreint viðurstyggileg.   Svo illvíg er umræðan að ástandaði hér í Vestmannaeyjum, sem þó skaðið samfélagið mikið, var eins og vorsöngur lóunnar samanborið við þetta.  Tjarnarkvartettinn sálugi hefur magnað upp moldviðri sem staðið hefur í tvær áttir. 

Annarsvegar ræða vinstri menn um að sjálfstæðisflokkurinn hafi platað kjörinn fulltrúa F-lista og brotið gróflega gegn fráfarandi meirihluta með því að mynda með honum meirihluta.  Hinsvegar er einskis svifist til að dylgja um vanhæfi Ólafs F til að gegna störfum borgarstjóra.

Fyrri vindátt moldviðrisins er hefðbundin pólitík.  Fátt er þar nú sagt sem ekki var líka sagt þegar Reykjavíkurlistinn undir formerkjum Tjarnarkvartettsins glotti út í annað eftir að þeir sömdu við Björn Inga fyrir liðlega 100 dögum.  Brigslanir um óheilindi og valdþorsta eru ráðandi.  Auðvitað er það fáránlegt að fordæma stjórnmálaflokk fyrir það að sækjast eftir stöðu til koma málefnum sínum fram.  Málefnasamningur flokkanna sýnir svo ekki verður um villst að stutt er á milli þeirra hvað höfuðáherslur varðar.

Ólafur F. hefur lýst því yfir að hann hafi ekki verið að finna málefnum sínum farveg innan Tjarnarkvartettsins og í raun er það ekki að undra enda fór lítið fyrir málefnum á þeim bænum.  Ekki einu sinni var þar að finna málefnasamning og þess í stað vísað til framsögu borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar.  Sjálfstæðisflokkurinn var rétt að hefja sína vegferð þegar Björn Ingi stökk frá verkinu.  Eðlilega stökkva báðir flokkar á tækifærið til að komast í þá stöðu til að framfylgja sínum málefnum þegar það gefst.  Það er jafn eðlilegt og þegar fráfarandi meirihluti gagnrýnir gjörninginn.  Allt hluti af pólitík.  Ef til vill ekki falleg hugsjónapólitík heldur praktísk dægurmálapólitík – hjá báðum aðilum.

Hin moldvirðisvindáttin er hinsvegar viðurstyggilegri.  Hún er meiðandi, særandi og á ekkert skilið við almennings hagsmuni.  Þeir sem staðið hafa þar í fylkingabrjósti ættu að skammast sín.  Hér er ég að sjálfsögðu að tala um framkomu Tjarnarkvartettsins og fylgismanna gagnvart Ólafi F.  Látið hefur verið í veðri vaka að maðurinn sé alvarlega veikur (oftar en ekki er íjað að þessu án þess að segja of mikið beint) og er hann þó sá eini í borgarstjórn með vottorð upp á vasann um það að hann sé fær til að sinna þessum störfum.  Ungliðahreyfingarnar voru æstar upp til að mæta á palla borgarstjórnar til þess eins að veitast að Ólafi og engu duldist þau áhrif sem slíkt hafði.  Ólafi var greinilega brugðið en það hefur ekkert að gera með veikindi hans.  Sett þú þig í hans spor.  Hvernig hefði þér liðið?

Ólafur sjálfur hefur eðlilega ekki viljað ræða veikindi sín í smáatriðum, og lái honum það hver sem vill.  Þó hefur hann játað því að veikindi hans séu tengd geðbrigðum.  Þar með er hann í hluta tugþúsunda annarra Íslendinga sem einhvern tímann glíma við þess háttar erfiðleika. Ég fullyrði að í dag eru bæði þingmenn, dómarar, kennarar, læknar og fleiri í nákvæmlega sömu stöðu og Ólafur hvað þetta varðar.  Með sögu um vanda tengdan geðbrigðum.  Mega þeir eiga von á sömu meðferð frá fjölmiðlum, borgarfulltrúum Tjarnarkvartettsins, ungliðahreyfingum, Spaugstofunni og öðrum ef þeir verða uppvísir af því að hafa átt við vanda tengdum geðbrigðum að stríða?  Hvar er svo öryrkjabandalagið þegar umræðan um veikindi eru svona?

Ég helgaði stórum hluta ævi minnar í að læra um geðbrigði og geðræna sjúkdóma og hef sinnt meðferð við slíkum erfiðleikum.  Sannast sagna þá ofbjóða mér fordómar þeir sem hafa berað sig í þessari umræðu. 

Staðan nú er einföld.  Sjálfstæðisflokkur og hluti af F-lista hafa gert með sér bandalag um stjórnun borgarinnar.  Bandaleg þetta byggir á málefnasamningi sem sannarlega er unnið eftir.  Borgarfulltrúar Tjarnarkvartettsins verða að gleypa stolt sitt og sinna störfum í minnihluta af vandvirkni.  Hagsmunir kjósenda eru að umræðunni verði beint að málefnum ekki mönnum.  Er til of mikils mælt þegar farið er fram á það?


Ég fagna nýjum meirihluta í borginni, en reynsla okkar Eyjamanna af svona veikum meirihluta er ekki góð


DSC02947_JPG[1]Hin pólitíska atburðarrás hefur verið fróðleg í dag.  Nýr meirihluti myndaður og enn einn borgarstjórinn hefur nú verið munstraður og næst verður það Ólafur F. Magnússon sem gegnir því embætti.  Ef mark er takandi á því sem Margrét Sverrisdóttir sagði í kvöldfréttum þá styður hún Ólaf ekki í þessum ákvörðunum og því er kominn upp staða sem við Eyjamenn þekkjum ekki af góðu, meirihlutinn stendur og fellur með einum einstakling, forfallist hann þá er meirihlutinn ekki starfhæfur.  Þetta er nákvæmlega sama staða og þegar Andrés Sigmundsson sem sat á B lista sleit samstarfi við okkur sjálfstæðismenn og myndaði nýjan meirihluta með Lúðvík Bergvinssyni og hans fólki í V- listanum (Samfylkingunni).

Þar með vorum við kominn í minnihluta.  Í þekkti því leiðinlega vel þær ábendingar sem á lofti hafa verið í kvöld um að nú megi Ólafur ekki forfallast á fundi og þá sé minni hlutinn falinn þegar Margrét Sverrisdóttir kemur inn sem varamaður. 

Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort Ólafur geti ekki skipað einhvern annan en Margréti sem varamann fyrir sig í Borgarráð þegar hann verður formaður þar.  Svo er þó ekki. 

Í 24. gr. sveitarstjórnarlaga stendur:

„Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.
Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.
Nú næst ekki samkomulag milli stjórnmálaflokka eða samtaka sem standa að sameiginlegum lista, og skulu þá þeir varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður sá sem um er að ræða, taka sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn úr hópi varamanna slíks lista í sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalfulltrúinn sem í hlut á var þegar kosning fór fram taka varamenn listans sæti samkvæmt venjulegum reglum.
Þegar aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir má ákveða að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Tekur þá varamaður hans sæti samkvæmt framangreindum reglum.“

Til að átta sig á forsendum þarf einnig að taka tillit til þess að við setningu gildandi sveitarstjórnarlaga var fellt brott ákvæði í eldri sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, um að aðalmaður í sveitarstjórn sem forfallaðist um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum gæti sjálfur valið þann varamann sem taka skyldi sæti í hans stað. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 45/1998 kemur eftirfarandi fram um þessa breytingu:

„Lagt er til að fellt verði brott ákvæði 3. málsl. 4. mgr. 35. gr. gildandi laga um að ef aðalmaður forfallast um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum geti hann valið sjálfur þann varamann sem taka skal sæti hans á meðan. Gert er því ráð fyrir að varamenn taki ætíð sæti eftir þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Samsvarar sú regla ákvæði 130. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, sbr. 115. gr. sömu laga, um hvernig varamenn taka þingsæti. Verður því um að ræða eina skýra reglu um hvernig varamenn taka sæti í sveitarstjórn.“

Í ljósi framangreinds er ljóst að skýra verður ákvæði 1. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga samkvæmt orðanna hljóðan, en samkvæmt ákvæðinu taka varamenn almennt sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalmaður forfallast varanlega eða um stundarsakir.

Áhugamenn um pólitík hafa gaman af því að velta því fyrir sér hvað myndi gerat ef Ólafur myndi forfallast á fund borgarstjórnar.  Einhverjir halda því blákalt fram að þar með sé meirihlutinn falinn en auðvitað er ekki svo.  Þótt aðstaðan sé vissulega pínleg þá myndu ábyrgir stjórnmálamenn ekki fórna hagsmunum kjósenda með því að vinna skemmdarverk þótt þeir hefðu til þess pólitískt vægi á einum fundi. 

Sem pólitískurpúki myndi maður ef til vill freistast til þess að samþykkja eitthvað smávægilegt sem væri sitjandi meirihluta vanþókknanlegt.  Til dæmis sæi maður fyrir sér að minni hlutinn í borgarstjórn myndi samþykkja að láta gera skoðunarkönnun meðal íbúa í hverfunum umhverfis flugvöllinn um það hvort flytja ætti völinn úr Vatsmýrinni.  Sakleysileg tillaga sem pirrar en skaðar ekki.

Sannast sagna þá hef ég nettar áhyggjur af flokkssystkinum mínum í borginni.  Við sáum hvernig fór fyrir V listanum (Samfylkingunni) hér í Eyjum þegar þeir reyndu þennan leik.  Veikur meirihluti sem byggði á stuðningi manns sem stóð einangraður innan framboðslistans.  Sá meirihluti féll.  Límið sem gæti haldið þessu öllu saman er vissan um að í algert óefni er komið ef þriðji meirihlutinn fellur.

Svo er nú ekki laust við að manni finnist Samfylkingin vera í veikri stöðu til að gagnrýna það að myndaður sé meirhluti sem stendur og fellur með einum manni.  Það var jú þingflokksformaður þeirra sem tók þessa sömu ákvörðun hér í Eyjum.


Staðan á viðskiptalífinu og áhrifin hér í Eyjum

SV300050Eins og svo margir reyni ég að fylgjast með markaðsfréttum.  Ég les Vísbendingu og Viðskiptablaðið, horfi á Markaðinn á stöð 2 og hlusta á raddir sérfræðinga – sjálfskipaðra sem annarra.  Ætíð þegar ég fæ fréttir af þessu tagi hugsa ég með mér “og hverju skiptir þetta fyrir Vestmannaeyjar”.  Auðvitað er ég ekki sérfræðingur á þessu sviði  en það breytir ekki því að það er nokkuð gaman fyrir okkur leikmenn að fabúlera um stöðuna, hvað mun breytast og hver áhrifin munu verða hér í Eyjum.

Seinustu vikur hefur umræða um viðskiptalíf almennt verið frekar neikvæð enda gengi hlutabréfa fallið og krónan veikst.  Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% í janúar frá fyrri mánuði en uppfærðar spár markaðsaðila voru á bilinu 0 - 0,2% og er því niðurstaðan nokkuð yfir væntingum.  Eins og ætíð á þessum tíma vógu vetrarútsölur mest til lækkunar vísitölunnar.  Enn og aftur eru það húsnæðisliðurinn og matar- og drykkjarvara sem hafa mest áhrif til hækkunar.  Verðbólga síðustu 12 mánaða og fyrir árið 2007 í heild reynist því vera 5,9% en án húsnæðis mælist hún 2,4% fyrir sama tímabil.  Ef litið er fram hjá skattalækkunum í mars á síðasta ári nemur ársverðbólgan 7,8% sem er langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.  Það er því alveg ljóst að blikur eru á lofti.
 
Þeir aðilar sem mest fjalla um stöðuna, greina hana og meta, eru almennt á því að 12 mánaða verðbólgan muni haldast há á fyrstu mánuðum ársins áður en hún fer að lækka.  Af því má svo draga þá ályktun að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum háum þangað til að sterkar vísbendingar fara að berast um að hagkerfið sé að kólna.  Í augnablikinu er atvinnuleysi enn í lágmarki en það mældist 0,8% fjórða mánuðinn í röð skv. tölum Vinnumálastofnunar og neyslugleði almennings náði nýjum hæðum í desember ef marka má tölur um kortaveltu í mánuðinum.  Enn eru því engar forsendur fyrir lækkun stýrivaxta þrátt fyrir háværar raddir þar um. 

Annar þáttur sem hamlar Seðlabankann í að hefja vaxtalækkanir er þróun krónunnar en síðustu daga hefur hún veikst talsvert þrátt fyrir blómlega jöklabréfaútgáfu.  Seinast þegar ég athugaði (fyrir 5 mín.) stóð dollarinn í 65.03 krónum og gengisvísitalan stóð í 125,3.

Seðlabankinn stendur því frammi fyrir annarsvegar þrýsting hvað varðar lækkun stýrivaxta og hinsvegar mögulegum neikvæðum afleiðingum slíkrar ákvörðunar.  Ef bankinn lækkar vexti nú er hætt við að krónan veikist enn frekar sem mun auka verðbólguþrýsting til muna og því er staðan allt annað en einföld þegar kemur að ákvarðanatöku bankans í þessum efnum.

Eins og alltaf þá spyr maður sig hvað bera þessar blikur í för með sér fyrir Vestmannaeyjar?  Ég hef sem sagt á skoðun að á Íslandi séu í dag tvö hagkerfi.  Annarsvegar eru það vaxtarsvæðin og hinsvegar þau svæði sem eru efnahagslega kaldari.  Umfjöllunin er nánast undantekningalaust um hagkerfi vaxtarsvæðanna og fáir (mér vitanlega) deila þeirri skoðun með mér hagkerfin séu í raun sundurgreinanleg og að ósennilegt sé að hagsmunir þessara tveggja kerfa fari endilega saman. Án þess að ég ætli að fara í nákvæma greiningu eða útlistun þá má með rökum halda því fram að kólnun hagkerfisins sé almennt jákvæð fyrir landsbyggðina.  Þenslan hefur jú verið á suðvesturhorninu (og á stóriðjusvæðunum).  Hún (þenslan) hefur svo kallað á samkeppni um fólk sem byggðarlög utan þessara svæða, eins og Vestmannaeyjar, hafa ekki ráðið við.  Fólkið hefur því eðlilega flutt sig á vaxtarsvæðin þar sem tækifæri þessa tíma hafa verið.  Ef fram fer sem horfir mun kreppa að á hagvaxtarsvæðunum og hagvöxtur þar dragast saman.  Mest mun hann dragast saman þar sem þenslan hefur verið mest og jafnvægið milli landsbyggðar (efnahagslega kaldari svæði) og suðvesturhornsins (hagvaxtarsvæðið) mun minnka.  Samkeppnin um fólkið verður því jafnari og ef til vill munum við standa betur en áður hefur verið.

Ég spái því líka að minni trú fjárfesta almennt á fjármálastarfsemi, fasteignir og fleira muni gera það að verkum að fjármagn leiti á ný inn í frumgreinarnar og þá sérstaklega sjávarútveginn.  Ávöxtunarkrafa mun ef til vill verða lægri en áhættan um leið minni.  Sem sagt nokkuð ákjósanlegt fyrir sjávarútvegsfyrirtæki eins og eru hér í Eyjum.  Ef/þegar gengi íslensku krónunnar svo lækkar þá mun það enn frekar styðja útflutningsgreinarnar og þá sérstaklega sjávarútveginn.

Við þetta bætist að fólk leggur sífellt aukna kröfu á fjölskylduvænt umhverfi og ég er því eins og fyrr bjartsýnn á vænkandi hag okkar Eyjamanna hvað þetta og svo margt annað varðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband