Kirkjan og kvótakerfið

 

20030110142101Ég fletti áðan Fréttablaðinu.  Í því ágæta blaði rakst ég á afar merkilegt viðtal við Séra Þórhall Heimisson, prest í Hafnarfirði.  Þar lýsir hann þeirri skoðun sinni að þjóðkirkjan mætti vel hafa til þess forystu að kvótakerfið verði endurskoðað.  Merkileg afstaða.

Með þessu er presturinn ágæti að svara kalli Grétars Mars Jónssonar þingmanns frjálslyndra sem skilur ekkert í því að kirkjan beiti sér ekki fyrir afnámi kvótakerfisins.

Sannast sagna féll þetta mér illa í geð og þá sérstaklega þegar séra Þórhallur Heimisson tekur sér í orð niðrandi orð um þá sem bera atvinnulíf okkar Eyjamanna á herðum sér með orðaleppum eins og “kvótakóngar”.  Svo finnst mér það einnig lágmarks krafa að opinberir starfsmenn  kynni sér málin áður en ráðist er til atlögu gegn atvinnulífinu í Eyjum með biblíuna að vopni.  Af orðum sérans má nefnilega skilja að hann telji að endurskoða þurfi kerfið “með hag hinna dreifðu byggða í huga, þeirra byggða sem kirkjan vill þjóna”.  Það er eins og þessi ágætis maður átti sig ekki á að hér í Eyjum hefur fækkað um 10% á 17 árum þótt staða okkar í sjávarútvegi hafi styrkst.  Það þarf því fyrirbænir um annað og meira en breytingar á kvótakerfinu.

Mín persónulega skoðun er sú að kirkjan eigi ekki að blanda sér efnislega eða tæknilega í umræðu um kvótakerfið eða önnur pólitísk málefni.  Ég er kristinn maður og skráður í þjóðkirkjuna.  Hingað til hef ég ekki séð eftir framlagi ríkisins fyrir mína hönd í það góða starf sem í þjóðkirkjunni er alla jafnan unnið.  Þarna er hinsvegar einn af þjónum kirkjunnar að boða pólitísk og tæknileg afskipti af atvinnulífinu í Vestamannaeyjum og víðar.  Það þykir mér vont.  Nógu erfitt er að hafa þingmenn talandi út og suður til að skapa óvissu í atvinnugreininni.  Þótt prestar fari nú ekki að bætast við. 

Biblían er að mínu mati hafin langt yfir það að orð hennar og boðskapur séu túlkaður í pólitísku argaþrasi.  Engu að síður velti ég því fyrir mér hvort séra Þórhallur hafi nýlega lesið Matteusarguðspjal þar sem m.a. segir:

“Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar.  Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.  Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.   Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.   Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.   Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.  Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.  Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar.  Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.”

Hver skildi afstaða sóknarnefndar í Vestmannaeyjum og sóknarprestana hér vera?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góða rökfærslu.

Þeir sem æpa hæst um "kvótakónga" hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að skrifa um, eru aðeins að slá ryki í augu fólks. Sorglegt að prestur skuli hafa slíkan málfutning uppi. Stéttarbróðir hans á Alþingi hefur oftar en einu sinni slegið um sig með álíka málflutning hvað varða smábátaútgerð. Þekkir ekki feril síns eign flokks (Samfylginging) sem hefur gegnið harðast fram í niðurskurði á aflaheimildum svo rekstur margra smærri útgerðar hefur lagst af eða orðið gjaldþrota. Komið verst niður á sjávarbyggðum víða um land. Djúpt á kristnum gildum hjá framangreindum kennimönnum sem telja sig ganga á Guðs vegum fyrir sjávarútveginn!?

Með kveðju,

Sigríður Laufey Einarsdóttir.

Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 14:42

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

En Elliði, hvað heldur þú að ykkur Eyjamönnum hefði fækkað mikið á s.l. 17 árum ef þið hefðuð misst nærri allan kvótann ykkar, eins og víða hefur gerst annarsstaðar?

Þórir Kjartansson, 12.2.2008 kl. 21:00

3 identicon

Þeir eru nú margir kvótagreifar hér í eyjum, nú er tildæmis verið að selja Gullbergið, samt hefur gengið mjög vel hjá þeim, einnig má nefna trilluna Binna í Gröf en hann var seldur á 300 milljónir. Ætla má að Gullbergið fari á um 2 og hálfan milljarð eða eitthvað í kringum það.

h (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 21:09

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Er ekki málið að ríkiskirkja er tímaskekkja?...kirkjusöfnuðir eiga að vera sjálfstæðir og geta sagt það sem þeir vilja...án okkar þvinguðu skattpeninga?

Ríkiskirkjan er ekki á vonarvöl með allar sínar jarðir og safnaðargjöld til að standa á eigin fótum? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.2.2008 kl. 21:19

5 Smámynd: Elliði Vignisson

Sæll Þórir (og þið hin)

Þetta er einmitt kjarni málsins.  Það þarf aðrar (a.m.k. fl.) skýringar en kvótakerfið til að skýra byggðaþróun á Íslandi seinustu 20 ár.   Það að spyrða umræðu um kvótakerfið við umræðu um búsetuþróun tefur fyrir allri vitrænni umræðu um bæði þessi mál.  Hið sanna er að það tvennt sem skiptir mestu fyrir okkur á "landsbyggðinni" eru samgöngur og menntun.  Það er bæði gamall og nýr veruleiki.  "Landsbyggðin" á nánast alls staðar í vök að verjast og brýnt að við stöndum saman. 

Staðan er einföld.  Ársverkum í hinum hefðbundna sjávarútvegi hefur fækkað og þeim á enn eftir að fækka verulega.  Eins mikið og ég að mörgu leyti sakna gömlu daganna þegar hér fylltist allt af verbúðarfólki og bryggjurnar iðuðu af lífi þá vil ég ógjarnan láta þá nostalgíu blinda mig.  Þessi breytti veruleiki varð ekki að okkar beiðni en við okkur blasir að vinna úr stöðunni.  Ólíkt því sem var þegar ég var að alast hér upp þá stefna hvorki börnin mín né vinir þeirra að því að vinna við fiskveiðar eða -vinnslu.  Þar með fækkar bæði störfunum og þeim sem vilja vinna þau. 

Við Eyjamenn erum stolt af því að vera sjávarútvegsbær.  Baráttan núna er um að fjölga afleiddum störfum í sjávrútvegi svo sem í rannsóknum, gæðaeftirliti, sölustörfum, markaðsmálum og fleira. Því miður hafa þessi afleiddu störf flest orðið til í Reykjavík.  Til að nefna dæmi þá starfa um 190 starfsmenn (ef ég man rétt) hjá Hafró.  Það er hinsvegar einungis 1,5 stöðugildi hér í Eyjum.

Sveitarfélög eins og hér í Eyjum þurfa því að finna sér aðrar og fleiri stoðir.  Að því þurfum við að vinna.

Elliði Vignisson, 12.2.2008 kl. 22:01

6 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Það þarf að passa sig á því að þessi starfsvefangur verði ekki hafinn yfir allt og alla.Það hlíttur að vera þannig að öllum er frjálst að tala um þetta mál þó ég skylji ekki alveg hvað þessi prestur er að fara en skrif Laufeyjar eru þó þannig að hún vill banna að það sé rætt um þetta,það er eins og þjófurinn hann er hræddur um umræðu um þýfið,af hverju hræðist fólk umræðu um sjávarútveg,ég tel að það sé farið þannig í umræðu um hann eins og fólk með silkihanska,það er allstaðar tiplað á tánum og af hverju hefur einhver eitthvað að fela.

Guðjón H Finnbogason, 12.2.2008 kl. 22:30

7 Smámynd: Þórir Kjartansson

Já, Elliði. Ég er lengi búinn að standa í atvinnurekstri og þú hittir naglann á höfuðuð þegar þú talar um að allir vilji frekar vinna við rannsóknir og eftirlit heldur en vera í sjálri frumframleiðslunni. Það er enda þannig með okkur sem langa reynslu höfum í þessu, að okkur finnst að umbúðirnar séu orðnar meiri en innihaldið. Það er að segja að það fjölgar stöðugt allskonar afleiddum störfum, sem oft á tíðum eiga engan rétt á sér og er í raun enginn grundvöllur fyrir ef grannt væri skoðað. En íslendingar nenna ekki lengur að vinna þessi verk og vilja auðvitað heldur sitja á skólabekk  öll sín bestu ár,  til þess að komast svo sína stuttu starfsæfi í ,,afleiddu störfin"   Ég held allavega að menn ættu að sjá sóma sinn í því að vera ekki að illskast út í pólverja og aðra, sem eru að draga okkur að landi í þeim efnum.  Og ef það er rétt hjá þér að það vinni 190 manns hjá Hafró, þá eru margir þar, sem ekki vinna fyrir kaupinu sínu.

Þórir Kjartansson, 12.2.2008 kl. 22:58

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Finnst þér Elliði að þjókirkja eigi ekki að skipta sér af mannréttindabrotum nema því aðeins að þau séu framin  erlendis?

Sigurður Þórðarson, 13.2.2008 kl. 01:02

9 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Blessaður og sæll Elliði. Þú segir í grein þinni að þér persónulega hugnist ekki, að kirkjan blandi sér í umræðu um kvótakerfið og önnur pólitísk mál. Nú hefi ég ekki lesið grein prestsins en hvað hefur þú fyrir þér í, að hann sé að túlka viðhorf kirkjunnar? Sam hefi ég álitið að þjónar guðs ættu í öllum tilfellum að berjast gegn óréttlæti á öllum sviðum. Það vita allir, að úthluta verðmætum til fárra útvaldra er ekki samkvæmt kenningu kristinnar og að auki, virðist manni að þeim sem trúað var fyrir verðmætum þeim sem guð hefur gefið okkur orðið á eins og manninum í dæmisögunni þinni, sem gróf pund sitt í jörðu. Og af hverju segi ég það, jú það er vitað þrátt fyrir að fáir þori að viðurkenna það, að í gegn um árin hefur átt sér stað gífurlegt brottkast á fiski og erum að  líða fyrir það í dag. Nei Elliði minn þú verður að sætta þig við það, að prestar hafi skoðanir á málum alveg eins og þú sem ert bæjarstjóri allra Vestmannaeyinga og hefur skoðanir á hinum ýmislegu málefnum líðandi stundar, sem oftar en ekki eru hápólitísk. Þú segist vera kristinn maður Elliði og í þjóðkirkjunni og vitnaðir í grein þinni í Biblíuna og að auki ert þú í Sjálfstæðisflokknum sem kennir sig við kapítalisma datt mér í hug að spyrja. Hefur þú orðið þess var, að kapítalistana í kringum þig klígi við altarissakramentinu fyrir þær sakir, að höfundur þess hafði einurð á að segja við auðvald samtíðar sinnar: Auðveldara er úlfaldanum að ganga gegnum nálaraugað en ríkum manni í guðsríki?  Að lokum þetta, megir þú ganga á guðs vegum Elliði minn.  Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 13.2.2008 kl. 10:25

10 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég ætla nú rétt að vona að sem flestir kirkjunnar menn leggist á sveifina og berjist gegn mannréttindabrotum, hvar sem þau er að finna. Rétt eins og stór og vaxandi meirihluti fólks hér á landi.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 13.2.2008 kl. 11:50

11 Smámynd: Fannar frá Rifi

Er hægt að taka mark á mannréttindarnefnd sem lýtur framhjá þjóðarmorðum í Súdan og kýs Súdan inn í nefndina? er það nú ekki frekar mikil vitleysa?

Hvernig var byggðarþróun á Íslandi á árunum 1900 til 1980?  var það kvótakerfið sem leiddi til fækkunar í hinum dreifðu byggðum landsins á þeim tíma?

Fannar frá Rifi, 13.2.2008 kl. 14:33

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það vita allir, Fannar að kvótakerfið er ekki eitt um það að stuðla að fólksflótta frá landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins. En það eru fáir svo vitlausir að viðurkenna ekki  að í seinni tíð er það einn  af stóru þáttunum í þessu. Auk þess sem sá þáttur  er gerður af mannavöldum, sem engum átti að dyljast hvaða afleiðingar hefði.  Og var þó ekki á bætandi.

Þórir Kjartansson, 13.2.2008 kl. 16:17

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það getur ekki verið gaman að þjóna tveim herrum, vera bæjarstjóri í sjávarplássi og flokksbundinn í kvótaflokk. En Elliði, þú ert ekki einn um það.  Þú segir bara eins og þjáningabræður  þínir í sömu stöðu:    "Sveitarfélög eins og hér í Eyjum þurfa því að finna sér aðrar og fleiri stoðir" Þetta kalla ég sjálfsbjargarviðleitni.   "Neyðin kennir nakinni konu að spinna".

Sigurður Þórðarson, 14.2.2008 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband