Bréf til formanns samgöngunefndar alþingis

Fjölmiðlar hafa í dag fjallað um skýrslu VST um forsendur jarðganga milli lands og Eyja.  Það vakti reiði mína að lesa orð formanns samgöngunefndar alþingis þar sem hún dregur í efa heilbrigða skynsemi þeirra sem unnið hafa að þessu máli.  Sérstaklega er undarlegt að hún skuli velja slík orð í ljósi þess að hún hefur að öllum líkindum ekki enn fengið skýrsluna í hendurnar, ekki frekar en aðrir fulltrúar í samgöngunefnd alþingis.  Því hef ég skrifað henni neðangreint bréf.  Í ljósi þess að þessi orð hennar snúa að stórum hópi fólks ætla ég að birta bréfið hér og mun að sjálfsögðu einnig birta svör hennar þegar þau berast.

 ____________________________________________________________

Vestmannaeyjum 25. júlí 2007


Komdu sæl Steinunn Valdís

Ég óska hér með eftir nánari útskýringu á eftirfarandi orðum þínum sem birtast í Fréttablaðinu í dag:

„Þessar niðurstöður koma ekki
á óvart, þetta er það sem heilbrigð
skynsemi
hefur sagt fólki í gegnum
tíðina, að jarðgöng til Eyja séu
óraunhæfur kostur,“ segir Steinunn
Valdís Óskarsdóttir, formaður
samgöngunefndar Alþingis.

Átt þú við að ég og aðrir þeir sem hafa viljað kanna möguleika á gerð jarðganga milli lands og Eyja til fullnustu og beita við það viðurkenndum aðferðum vísindamanna höfum ekki haft til að bera “heilbrigða skynsemi”?  Ertu með þessu að segja að frambjóðendur allra framboða í suðurkjördæmi til alþingis, þar með talið þíns flokks, hafi ekki haft til að bera heilbrigða skynsemi?  Ertu með þessu að segja að núverandi og fyrrverandi samgönguráðherra hafi ekki haft til að bera heilbrigða skynsemi þegar þeir fóru þá leið að láta VST vinna úttekt á þessum möguleika?

Ég vísa slíku tali algerlega frá og fordæmi að formaður samgöngunefndar og þingmaður samfylkingar skuli beita slíku tali í umræðu um jafn mikilvægt málefni sem varðar hagsmuni heils byggðarlags.  Þá krefst ég þess einnig að þú biðjir opinberlega afsökunar á þessum orðum þínum enda þau meiðandi og skaðleg málefnalegri umræðu um samgöngur milli lands og Eyja.

Ég óska eftir því að þú, líkt og aðrir sem koma að ákvörðun um samgöngur, kynnir þér skýrslu VST og þær forsendur sem þar er unnið út frá og nálgist viðfangsefnið með mikilvægi þess í huga.  Það er von mín að þú sjáir þér í framtíðinni fært að sýna samgöngumálum og því fólki sem að þeim koma tilhlýðanlega virðingu.  Upphrópanir og gífuryrði eru ekki til þess fallin að bæta samgöngur, hvorki milli lands og Eyja né annars staðar.

Virðingarfyllst
Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þetta kalla ég að vera á tánum fyrir hönd okkar Eyjamanna. Frábært hjá þér Elliði,  bréfið  til hennar Valdísar.  Innilegt þakklæti og baráttukveðja til þín.                  
                                             

Þorkell Sigurjónsson, 25.7.2007 kl. 18:03

2 identicon

Eyjamenn eru gott fólk og höfðingjar heim að sækja en þeir eru líka algjörar frekjudollur!!!

 Þetta er 4000 manna bæjarfélag.  500 manna ferja siglir 2 á dag, Flugfélag Íslands flýgur 2 á dag, Flugfélag Vestmannaeyja flýgur á hálftíma fresti og nú skilst mér að nýtt flugfélag sé að fara að spreyta sig á samgöngum þarna á milli.

Því miður elsku karlinn minn..

Þið eruð að glata trúverðugleika ykkar með þessu endalausa væli.  Þið eruð landsbyggðarfólk á Íslandi...Wake up!:)

 Kær Kveðja

Suðurland 

Suðurland (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 22:30

3 identicon

Tek undir orð þín Elliði.  Það virkaði illa á mig þegar ég las Fréttablaðið í dag.  Ég er ekki Eyjamaður en kem öðru hverju til að heimsækja vini og kunningja.  Mín skoðun er sú að þessi orð hennar S.Valdísar séu lík því að sparka í liggjandi mann.  Fólk er búið að gæla við þetta lengi og daginn eftir að ljóst er að ekki verður af þessu kemur formaður samgöngunefndar og segir að fólk með heilbrigða skynsemi hefði mátt vita af þessu.  Algert taktleysi.  Hún á að biðja afsökunar.

Ari

Ari (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 22:54

4 identicon

kostir og gallar internetsins koma berlega í ljós hérna, fólk eins og "suðurland" sem pottþétt er 101 rotta af verstu gerð fær að tjá heimsku sína , en svona til að útskýra aðeins fyrir 101 rottunni, þá borgar landsbyggðarfólk á íslandi líka skatta, meira segja mjög mikla skatta eins og í tilviki eyjamanna og því á það, alveg eins og kaffihúsaliðið í 101, rétt á sínum samgöngum og samgöngubótum, nú er svo komið að Herjólfur er sprunginn og annar ekki flutningum, flugið er á góðri leið með að styrkjast en flug er dýr ferðamáti og auk þess annar ekki flutningsþörf til og frá eyjum, þannig að hver einasta manneskja sem hefur örlítið vit í kollinum og þekkir aðeins brot af samgönguvanda eyjamanna átta sig á því að núverandi samgönguástand gengur ekki til lengdar.

Samgöngugæjinn (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 16:22

5 identicon

Sæll Gæji

 Það vill svo til að ég er ekki "101 rotta", ég bý ekki einu sinni á höfuðborgarvæðinu.  Samgöngumál eyjamanna þekki ég mæta vel, hef æði oft ferðast í tómum Herjólfi.  Það veit það hvert mannsbarn að þetta skip er fullt í kringum 2 hátíðar á ári, annarsvegar Shell mótið og svo Þjóðhátíð.

Það er ekki nóg með það að þið hafið risavaxna hálftóma ferju sigla þarna 2 á dag og 3 flugfélög að hrærast í flugrekstri í kringum eyjarnar, nei, það er ómögulegt, þið viljið Bakkafjöru, þið viljið göng, hvað verður það næst?

Ég sé ekki betur en það sé ógerlegt að þóknast ykkur eyjamönnum hvað þetta varðar.  Og samúð landans hafið þið því miður ekki því allir þokkalega þenkjandi menn sjá það að þetta yfirgengileg frekja af ykkar hálfu!

Bestu kveðjur

Suddi 

suðurland (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 20:43

6 Smámynd: Vinir Ketils bónda, áhugamannafélag

Ekki ber að taka mark á svona fírum enda eina sem þeir gera er að hamast á netinu til að æsa menn upp. Leyfum honum bara eiga sig ef hann getur ekki lagt skilning í aðstæður eyjamanna og annara sem á landsbyggðinni búa.

Vinir Ketils bónda, áhugamannafélag, 27.7.2007 kl. 10:18

7 identicon

Ég hef líka oft ferðast í tómum Herjólfi, en ég hef líka oft ferðast í troð fullum Herjólfi. Og það er ekki bara í kringum þessar 2 hátíðir sem Sunnlendingurinn talar um, langt því frá bara í kringum þær. En þetta snýst ekki bara um að geta komist á milli lands og Eyja, þetta snýst um að komast þegar maður þarf og vill, og að geta ferðast á manns eginn bíl. Held að Sunnlendingurinn yrði ekki ánægður með það, ef hann þyrfti að ákveða með margra vikna fyrir vara að hann ætli að skreppa eina helgi til Reykjavíkur, ellegar neyddist hann til þess að fara með rútu og vera svo á bílaleigu bíl það sem eftir lifði helgar. Þar sem flutningsgetan yfir Heiðina væri fullnýtt um helgar á sumrin.

Við Eyjamenn erum ekki að leita að samúð. Við erum að leita eftir skilningi á okkar málum. Við viljum enga ölmusu, heldur einungis sanngjarna samgöngubætur, til að færa samgöngur okkar við fasta landið nær nútímanum.

Auk þess sem þetta bréf hans Elliða er ekki skrifað til þess að "væla" utan í formanni samgöngunefndar, heldur til þess að benda henni á hvað hún hafi móðgað, og í raun lítillækkað marga einstaklinga með þessum vanhugsuðu orðum sínum. 

Helgi Ólafs (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 10:29

8 Smámynd: Grétar Ómarsson

Það er auðvelt að tala um 500 manna Herjólf sem of stórt skip, en þegar uppantað er fyrir bíla er skipið fullt, svo einfallt er það.

Grétar Ómarsson, 27.7.2007 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband