Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.7.2007 | 17:05
Bréf til formanns samgöngunefndar alþingis
Fjölmiðlar hafa í dag fjallað um skýrslu VST um forsendur jarðganga milli lands og Eyja. Það vakti reiði mína að lesa orð formanns samgöngunefndar alþingis þar sem hún dregur í efa heilbrigða skynsemi þeirra sem unnið hafa að þessu máli. Sérstaklega er undarlegt að hún skuli velja slík orð í ljósi þess að hún hefur að öllum líkindum ekki enn fengið skýrsluna í hendurnar, ekki frekar en aðrir fulltrúar í samgöngunefnd alþingis. Því hef ég skrifað henni neðangreint bréf. Í ljósi þess að þessi orð hennar snúa að stórum hópi fólks ætla ég að birta bréfið hér og mun að sjálfsögðu einnig birta svör hennar þegar þau berast.
____________________________________________________________
Vestmannaeyjum 25. júlí 2007
Komdu sæl Steinunn Valdís
Ég óska hér með eftir nánari útskýringu á eftirfarandi orðum þínum sem birtast í Fréttablaðinu í dag:
Þessar niðurstöður koma ekki
á óvart, þetta er það sem heilbrigð
skynsemi hefur sagt fólki í gegnum
tíðina, að jarðgöng til Eyja séu
óraunhæfur kostur, segir Steinunn
Valdís Óskarsdóttir, formaður
samgöngunefndar Alþingis.
Átt þú við að ég og aðrir þeir sem hafa viljað kanna möguleika á gerð jarðganga milli lands og Eyja til fullnustu og beita við það viðurkenndum aðferðum vísindamanna höfum ekki haft til að bera heilbrigða skynsemi? Ertu með þessu að segja að frambjóðendur allra framboða í suðurkjördæmi til alþingis, þar með talið þíns flokks, hafi ekki haft til að bera heilbrigða skynsemi? Ertu með þessu að segja að núverandi og fyrrverandi samgönguráðherra hafi ekki haft til að bera heilbrigða skynsemi þegar þeir fóru þá leið að láta VST vinna úttekt á þessum möguleika?
Ég vísa slíku tali algerlega frá og fordæmi að formaður samgöngunefndar og þingmaður samfylkingar skuli beita slíku tali í umræðu um jafn mikilvægt málefni sem varðar hagsmuni heils byggðarlags. Þá krefst ég þess einnig að þú biðjir opinberlega afsökunar á þessum orðum þínum enda þau meiðandi og skaðleg málefnalegri umræðu um samgöngur milli lands og Eyja.
Ég óska eftir því að þú, líkt og aðrir sem koma að ákvörðun um samgöngur, kynnir þér skýrslu VST og þær forsendur sem þar er unnið út frá og nálgist viðfangsefnið með mikilvægi þess í huga. Það er von mín að þú sjáir þér í framtíðinni fært að sýna samgöngumálum og því fólki sem að þeim koma tilhlýðanlega virðingu. Upphrópanir og gífuryrði eru ekki til þess fallin að bæta samgöngur, hvorki milli lands og Eyja né annars staðar.
Virðingarfyllst
Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2007 | 00:17
Tölurnar eru hærri en ég vonaði
Þá liggur loks fyrir skýrsla Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um forsendur jarðgangagerðar milli lands og Eyja eða Vestmannaeyjar, Road Tunnel Connection, Pre-feasibility assessment eins og stendur á forsíðunni. Skýrsla þessi var unnin fyrir Vegagerðina að beiðni Bæjarstjórnar Vestmannaeyja i þeirri viðleitni að fá fram óháð mat á forsendum jarðgangnagerðar þar sem gögn og tölur höfðu verið verulega misvísandi.
Helstu niðurstöður hafa verið birtar í fjölmiðlum en í lok niðurstöðukafla skýrslunnar stendur:
Niðurstaða mats okkar er eins og að framan segir að tæknilega sé mögulegt að gera veggöng milli lands og Eyja og að kostnaðurinn verði líklega á bilinu 50 til 80 milljarðar króna. Á hinn bóginn er álitamál sem áhöld eru eða ættu að vera um hvort nokkurn tímann geti verið réttlætanlegt að grafa og reka þetta löng jarðgöng djúpt undir sjó á jafn jarðfræðilega virku svæði og Vestmannaeyjasvæðið vissulega er og dæmin sanna.
Ég dreg ekki fjöður yfir að tölur þær sem þarna eru nefndar eru hærri en ég vonaði, og sennilega hærri en allir þeir sem vilja bæta samgöngur á Íslandi vonuðu. Draumur okkar allra var að tölur þessar væru lægri og að hægt væri að vinda sér tafarlaust í gerð slíkra jarðganga.
Fyrir bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum vakir það eitt að bæta samgöngur eins mikið og mögulegt er. Hér öskarar allt á bættar samgöngur og skiptir þar einu hvort litið er til atvinnulífsins, menningarlífsins, íþróttastarfs eða almennra búsetuskilyrða. Ég held að almennur skilningur ríki meðal landsmanna á stöðu okkar þótt einn og einn kjáni geri sig stundum breiðan með barnalegum frösum sem ekki verða hafðir eftir hér. Ég virði það þó við landsmenn alla að ræða samgöngur á málefnalegum nótum enda eru samgöngur almennt greiddar af almannafé. Þá kemur það mér ekki á óvart að fólk vilji staldra við þegar það heyrir tölur eins og 50 til 80 milljarðar. Svo mikið er víst að ég hef engan Eyjamann heyrt halda því fram af fullri alvöru að reynist þessar tölur á rökum reistar þá eigi samt að ráðast í framkvæmdina. Hinsvegar hefur verið deilt um þær forsendur sem þessar og aðrar tölur hafa verið byggðar á, en það er svo annað mál.
Þá er það einnig mitt mat að þverpólitískur vilji sé innan ríkistjórnar og reyndar innan alþingis til að ráðast í verulegar framkvæmdir til bæta samgöngur milli lands og Eyja eins mikið og verða má. Verkefni næstu daga er að fara vandlega yfir þær tölur og þær niðurstöður sem birtast í skýrslu VST og meta hvort hægt sé að byggja ákvörðun um framtíðar samgöngur á þessari vinnu. Sjálfur hef ég ekki enn komist til þess, né haft tök á að leita álits hjá mér fróðari mönnum og kem því ekki til með að tjá mig efnislega um skýrsluna.
Svo mikið er víst að upphrópannir og gífuryrði eru vond meðöl í þessari stöðu.
Ákvörðun um þetta kemur þó af sjálfsögðu ekki til með að liggja hjá mér eða öðrum stjórnendum Vestmannaeyjabæjar. Í fjölmiðlum hefur komið fram að ríkisstjórn komi til með að fjalla um skýrsluna á fundi sínum á föstudaginn og það er jú þeirra að taka ákvörðun þótt sannarlega leggi þeir mikið upp úr samstarfi við okkur heimamenn.
![]() |
Álitamál hvort göng til Vestmannaeyja séu réttlætanleg" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2007 | 19:11
Þjóðvegurinn til Vestmannaeyja ekki opinn eins og þurfa þykir
Þá liggur fyrir svar frá Vegagerðinni um að næturferðum með Herjólfi verði ekki fjölgað umfram það sem þegar hefur verið auglýst.
Forsaga þessa máls er að ÍBV sem er jú hátíðarhaldari og hefur um aldar reynslu af því að halda þjóðhátíð óskaði eftir því við Vestmannaeyjabæ að ferðum yrði fjölgað umfram það sem þegar var orðið vegna fyrirsjáanlegs aukins álags. Nánar tiltekið var óskað eftir því að ferðum yrði bætt við aðfaranótt miðvikudagsins 1. ágúst og aðfaranótt föstudagsins 10. ágúst.
Beiðni þar að lútandi var komið til skila til Vegagerðarinnar og svar barst núna í dag þar sem fram kom að "að athuguðu máli sér Vegagerðin ekki ástæðu til þess að fara fram á það við Eimskip, að fleiri næturferðir verði farnar milli lands og Eyja um verslunarmannahelgi en nú þegar hefur verið ákveðið."
Staðan núna þegar enn eru 11 dagar til þjóðhátíðar:
Upppantað er fyrir bíla í 17 ferðir dagana 31. júlí til 10. ágúst
7678 manns eiga pantað með Herjólfi dagana 31. júlí til 10. ágúst
1297 manns eiga pantað með Flugfélagi Íslands dagana 31. júlí til 10. ágúst
900 manns eiga pantað með Flugfélagi Vestmannaeyja dagana 31. júlí til 10 ágúst.
Þá er einnig vert að hafa það hugfast að reynslan sýnir að mikið á enn eftir að bætast við hvað pantanir ferða varðar og því ekki ráð nema í tíma sé tekið. Í fyrra var verið að bæta næturferðum við með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Slíkt veldur óþarfa óþægindum og er öllum til ama.
Þá tel ég einnig vert að halda því til haga að þótt nýtingatölur (pantanir) væru ekki slíkar sem að ofan greinir þá hefur aukin ferðatíðni í för með sér aukna þjónustu, og aukin þjónusta ber í för með sér fleiri og ánægðari gesti.
Ég hef þegar lýst miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun og kem í kjölfarið til með að óska eftir skýrum svörum frá samgönguráðuneytinu um það hvort slík ákvörðun sé endanleg.
Þjóðhátíðin í Eyjum er stærsta ferðahelgi ársins. Hingað koma þúsundir manna til þess að taka þátt í þessum hátíðarhöldum. Þjóðhátíðin er stolt okkar og yndi enda kristallast kraftur og gleði Eyjamanna þar. Það er afar mikilvægt að hvergi sé kvikað frá þeirri kröfu að þess sé gætt að þjóðvegurinn okkar sé opinn svo mikið sem verða má þessa helgi.
Að gefnu tilefni tek ég hér fram að enn er hægt að komast á þjóðhátíð, þar sem enn er ekki orðið upppantað fyrir farþega í ferðir Herjólfs og flugfélögin eru að bæta við ferðum. Vestmannaeyjabær og ÍBV munu sameiginlega leggja áherslu á að þægindi og þjónusta hvað samgöngur varðar verði í takt við þá gæðastaðla sem Vestmannaeyingar setja þjóðhátíðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2007 | 17:19
Eyjahjartað og samfélagsleg ábyrgð
Mér var að berast í hendur blaðið Vaktin. Þar er því haldið fram að fjársterkur aðili hafi boðið einhverjum stofnfjáreigendum að kaupa hlut þeirra í Sparisjóði Vestmannaeyja. Mér varð því hugsað til vilja þeirra manna sem stofnuðu sparisjóðinn.
Efling Sparisjóðsins er efling einstaklingsins í Vestmannaeyjum til mannsæmandi lífs.
Barátta Sparisjóðsins fyrir bættum kjörum Eyjabúa er um leið eins konar sjálfstæðisbarátta þeirra, losar þá undan fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Þar er þeirra eigið fé, þeirra eigið afl, til þeirra hluta sem gera skal og nauðsyn krefst, að framkvæmdir verði, ef Eyjabúum skal farnast vel. (Sparisjóður Vestmannaeyja 50 ára. bls. 8)
Þannig komst Þorsteinn Þ. Víglundsson að orði þegar hann rifjaði upp tilgang og starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja í fyrstu. Hann var frumkvöðull að stofnun Sparisjóðsins. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um vilja stofnenda Sparisjóðsins hvað þetta varðar. Stofnfjáreigendur eru fyrst og fremst táknrænir ábyrgðaraðilar. Þannig má benda á að meðal núverandi 70 stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja hafa 15-20 þeirra verið vara- eða aðalbæjarfulltrúar í lengri eða skemmri tíma og aðkoma þeirra að hópi stofnfjáreigenda hefur að nokkru byggst á þátttöku þeirra í bæjarmálum. Yfirgnæfandi meirihluti stofnfjáreigenda hefur komist yfir sinn hluta vegna þátttöku í bæjarmálum og þeim ber alger samfélagsleg skylda til að gæta að heildarhagsmunum og taka þá fram fyrir skjótfenginn gróða fyrir sjálfan sig.
Ég fæ ekki séð hvernig stofnfjáreigendur sem greitt hafa táknræna upphæð að nafnvirði 55.000 krónur ætla að réttlæta það að leysa út stórfé sem í raun er eign samfélagsins alls.
Ef heimildir Vaktarinnar eru réttar þá er þetta í annað skiptið nú á fáum vikum sem fjársterkir aðilar reyna yfirtöku á stóru fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Eyjamenn stóðu saman í að verjast yfirtöku á Vinnslustöðinni og ég hef trú á því að okkur beri gæfa til að standa einnig vörð um Sparisjóðinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.7.2007 | 08:18
Góð nótt í Eyjum
Um daginn fórum við nokkrir félagar í miðnætursiglingu hér umhverfis Caprí norðursins. Lagt var af stað um miðnætti. Við byrjuðum á að sigla út að Einadrangi. Einidrangur er vestasta skerið í Vestmannaeyjaklasanum og stendur eitt og sér, í um 20km fjarlægð vestur frá Heimaey. Þar vorum við svo lukkulegir að rekast á þessa vinalegu háhyrninga. Mér þótti magnað að þótt við værum forvitnir um þá var ekki laust við að forvitnin væri gagnkvæm.
Eftir þetta fórum við út að Surtsey. Eins og þekkt er getur orðið mjög vindasamt við Surtsey og öldurót þar mikið. Sem dæmi má nefna að í aftakaveðri 8. - 9. janúar 1990 mældist ölduhæð allt að 14 metrar suðaustur af Surtsey, en það svarar til þess að stærstu öldur hafi orðið um 20 metrar á hæð. Brimrof er því mikið í Surtsey. Það kom mér því ekki svo mjög á óvart hversu mjög eyjan hefur breyst frá því að ég kom þangað seinast. Til að mynda er þar engin sandfjara í dag.
Frá Surtsey héldum við út í Geirfuglasker og príluðum þar upp. Geirfuglasker (öðru nafni Freykja) liggur allt að mílu í suðvestur frá Súlnaskeri. Skerið er lítið (svona svipað og Bjarnarey) og keilumyndað, en grasi vaxin laut ofan í kollinn á því. Þangað hafði ég ekki komi áður og kom það mér á óvart hversu mikil fýla og svartfuglabyggð er þar.
Úr Geirfuglaskeri lá leiðin út í Brand. Hún er gíglaga nema suðurhlið gígsins hefur orðið sterkri suðuröldunni að bráð og rofnað burt. Greinilega má sjá 5 m háan gígtappa við rætur suðurbrekkunnar og þessi gerð eyjarinnar gerir hana kjörna til heimsókna þar sem nánast er um náttúrulega höfn að ræða. Þá spillir ekki fyrir að "Brandararnir" eru höfðingjar heim að sækja enda mannval þar mikið. Vel var tekið á móti okkur og ég er ekki frá því að "vatnið" í Brandi sé göróttara en víða annarstaðar.
Á heimlið renndum við upp að Suðurey og ég hef aldrei séð jafn mikið af Lunda. Greinilegt að fuglinn hræðist ekki Suðureyinga enda þar miklir friðunnar sinnar og hefur háfi ekki enn verið slegið í Suðurey þetta sumarið. Heim var komið um 05.00 og því ekki laust við að dálítillar þreytu hafi gætt þegar ég vaknaði til vinnu kl. 07.30. Allt var þetta þó vel þess virði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2007 | 14:49
Hagræðum álinu, styðjum sjávarútveginn.
Ég las áhugaverða grein í viðskiptablaðinu sem ég tel að eigi erindi við fleiri. Lykilatriðið fyrir mér, mitt í öllu tali um mótvægisaðgerðir er þetta: Ætti ekki að skoða hvort hægt sé að slaka aðeins á hagræðingaklónni í sjávarútvegi og beita henni á aðrar atvinnugreinar svo sem álframleiðslu? Í því samhengi má minna á sértækan landsbyggðarskatt sem kallast "veiðigjald" og er ekkert annað en landsbyggðaskattur.
Hér er greinin:
Hagræðum álinu, styðjum sjávarútveginn.
Íslendingar eru stoltir af því að hér á landi er sjávarútvegurinn ekki ríkisstyrkt atvinnugrein líkt og í mörgum nágrannalöngum okkar. Kvóta kerfið hefur leikið lykilhlutverk í þessari velgengni atvinnugreinarinnar á síðustu áratugum og enginn neitar því að íslenskur sjávarútvegur státar af öflum fyrirtækjum.
Þó er ljóst að mjög sársaukafullar hagræðingaraðgerðir hafa verið forsendan fyrir velgengni stærstu fyrirtækjanna í atvinnugreininni eftir að kvótakerfið var tekið upp. Þær hagræðingaraðgerir hafa komið verst niður áa litlum byggðarlögum í dreifbýli. Án þess að kvótakerfinu einu skuli kennt um vanda dreifbýlisins á Íslandi er ljóst að lagasetning um það hefur ekki þjónað hagmunum hinna dreifðu byggða.
Þannig má sjá að íslensk stjórnvöld hafa ekki ætlað sjávarútvegnum að vera í forystuhlutverki í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Allt kapp hefur verið lagt á að gera greinina hagkvæma og það hefur verið litið á hnignun smárra byggðarlaga landið um kring sem fórnarkostnað í þeim tilgangi.
Önnur atvinnugrein var hinsvegar útvalin af stjórnvöldum til að þjóna atvinnuppbyggingnu á landsbyggðinni, og þá hefur hvorki verið sparað til í beinum niðurgreiðslum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna né í hvers kyns fyrirgreiðslum og stuðningi í deilum sem um þá atvinnugrein hefur skapast. Sú atvinnugrein er álframleiðsla.
Sífellt háværari kröfum landsbyggðarfólks um aðstoð við atvinnuuppbyggingu hefur verið mætt með því að reisa þar álver á forsendum afar óhagstæðara orkusölusamninga sem myndu hvergi hljóta náð fyrir augum skynsamlegs einkarekstrar, svo sem hagfræðingar hfa marítrekað bent á. Drifkrafturinn á bak við uppbyggingu áliðnaðarins á Íslandi er ekki kröfur markaðarins heldur byggðarstefna.
Hvers vegna skyldi atvinnugrein sem er jafn mengandi, frumstæð, gamaldags og laus við virðisauka og álframleiðsla vera niðurgreidd af ríkinu sem liður í byggðarstefnu, á meðan atvinnustarfsemi sem stendur í sérstaklega djúpum tengslum við sögu okkar og menningu er látið blæða út á skurðarborði hagræðingar í hinum dreifðu byggðum?
Sumir Íslendingar, sérstaklega í Reykjavík, segja sem svo að hnignun byggða í dreifbýli sé óumflýjanleg þróun sem ekki sé réttlætanlegt að reyna að snúa við með stjórnvaldsaðgerðum. Fyrir þessari kaldranalegu afstöðu má færa ýmis rök, en mér segir svo hugur að margir sem hana verja hafa ekki opnað augu sín fyrir því að áliðnaðurinn hér á landi er ekkert annað en byggðarstefna.
Þeir hinir sömu ættu að spyrja sig sem svo: Ef vægi krafna um ríkisþátttöku í atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er þrátt fyrir allt svo mikið að ekki þykir tiltökumál að svara henni með atvinnustarfsemi sem ógnar stöðugleika efnahagslífsins, vaxtarmöguleikum sprotafyrirtækja, alþjóðlegri ímynd Íslands og síðast en ekki síst sjálfri náttúrunni, ættum við þá ekki frekar að skoða hvort hægt sé að slaka aðeins á hagræðingaklónni í atvinnugreinum sem allir eru sammála um að eiga ákaflega vel heima í íslensku dreifbýli?
Andstæðingar stóriðju eru iðulega beðnir, eins og frægt er orðið, að nefna eitthvað annað. Sjávarútvegurinn, ein elsta og rótgrónasta atvinnugrein okkar, er eitthvað annað eitthvað sem við getum ræktað og stutt sem lið í blómlegri atvinnustarfsemi á landsbyggðinni áður en sjálfskaðaðir afarkostir leiða okkur dýpra í sjálfheldu mengandi frumframleiðslugreina.
13.7.2007 | 16:06
Myndi skipta á Herjólfi og holóttum vegi
Í gær var þetta viðtal við mig í DV vegna umræðu um samgöngubætur sem mótvægisaðgerðir við samdrátt í þroskkvóta:
Bæjarstjóri minnir á að Vestmannaeyjar eru þriðja stærsta þorskveiðihöfn landsins:
Myndi skipta á Herjólfi og holóttum vegi
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það að hafa vakið reiði í Vestmannaeyjum að samgönguráðherra hafi ekki minnst á Vestmannaeyjar í tillögum sínum um hröðun vegaframkvæmda vegna skerðingar aflheimilda á þorski. Alls hefur verið ákveðið að hraða ellefu vegaframkvæmdum víðs vegar um landið og voru þær kynntar á korti þar sem ellefu rauð strik sýndu hvar hraða ætti framkvæmdum
,,Í kringum Vestmannaeyjar var ekkert rautt strik, og myndi ég þó glaður skipta á Herjólfi og holóttum vegi, segir Elliði. Hann segir þetta sérstaklega komið illa við Eyjamenn þar sem ekki er enn búið að koma á næturferðum með Herjólfi sem hafði verið lofað fyrir löngu. ,,Ég trúi því að þetta hafi annað hvort verið mistök eða þá hreinlega á næstu dögum muni ráðherra tilkynna um stærstu framkvæmd sem ráðist hefur verið í hvað samgöngur til Vestmannaeyja varðar. Ég veit að ráðherra skilur þarfir okkar og vill bregðast við. Þess vegna kom þetta á óvart, segir Elliði.
Elliði minnir á að Vestmannaeyjar séu þriðja stærsta þorskveiðihöfn á landinu og verði því fyrir þriðja mesta niðurskurðinum með skerðingu þorskkvótans. Hann telur mikilvægt að mótvægisaðgerðir verði að frumkvæði heimamanna til að árangur náist. Ekki megi bara bíða þess að ríkið komi færandi hendi. Hann segir möguleikann til vaxtar í Vestmannaeyjum mikinn en heimamenn og ríkið verði að vinna vel saman.
Elliði segir að miðað við umræðuna að undanförnu mætti halda að vandinn vegna skerðingar þorskkvótans væri bundinn við Vestfirði án þess að hann vilji gera lítið úr vanda þeirra og því að þar þurfi að bregðast við. ,,Við Sunnlendingar viljum sjá þingmenn okkar berjast með oddi og egg fyrir hagsmunum okkar núna á þessum niðurskurðartímum, segir Elliði sem spyr hvort þingmenn þeirra séu týndir.
6.7.2007 | 17:22
Bréf til þingmanna suðurkjördæmis
Svohljóðandi bréf hef ég nú sent á þingmenn suðurkjördæmis. Ég á von á miklum og góðum stuðningi þeirra í þessu vandasama máli. Mikilvægt er að þeir verði sjáanlegir í þjóðfélagsumræðunni enda sýna tölur að áhrifin í suðurkjördæmi eru mikil. Ég held að við sunnlendingar megum líta á þetta sem prófraun þessara þingmanna.
Ágætu þingmenn suðurkjördæmis
Í bréfi þessu ætla ég ekki að tjá mig sérstaklega um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að samþykkja tillögu sjávarútvegsráðherra um gríðarlegan niðurskurð aflaheimilda einkum í þorski á næsta fiskveiðiári. Þessi ákvörðun hefur legið í loftinu um nokkurn tíma og ég vænti þess að þingmenn séu reiðubúnir til að ræða tafarlaust mótvægisaðgerðir og gæta hagsmuna sinna umbjóðenda. Tilefni þessa bréfs er einmitt óska eftir aðstoð ykkar þingmanna í þessum þrengingum sem nú blasa við okkur og falast eftir samstarfi við ykkur um væntanlegar mótvægisaðgerðir.
Hjálagt eru upplýsingar frá Fiskistofu um stöðu helstu útgerðisstaða á landinu.
Þau sveitarfélög sem eru með mestar veiðiheildir í þorski eru á fiskveiðiárinu 2006/07 eru:
Grindavík 18.298 tonn af slægðum þorski.
Akureyri 14.175 tonn af slægðum þorski
Vestmannaeyjar 11.995 tonn af slægðum þorski
Ísafjörður í heild 9.612 tonn af slægðum þorski
Reykjavík 7.746 tonn af slægðum þorski
Hornafjörður 6.200 tonn af slægðum þorski
Eins og þið sjáið þá eru 3 af 6 kvótahæstu byggðalögum, hvað þorsk varðar, í ykkar kjördæmi (Vestmannaeyjar, Grindavík og Höfn). Þannig eru Vestmannaeyjar með 11.995 tonn af slægðum þorski í kvóta á yfirstandandi fiskveiðiári eða 7,76% af heild og hefur þorskkvóti í Eyjum aukist umtalsvert frá fyrra fiskveiðiári.
Vestmannaeyjar, Grindavík og Höfn eru með stærstu útgerðarbæjum á Íslandi og fara því ekki varhluta af þessum tillögum. Tölur Fiskistofu sýna að þrátt fyrir að umræðan hafi nokkuð einskorðast við vestfirði er þorskurinn okkur á suðurlandi einnig gríðarlega mikilvægur. Til samanburðar má geta þess að þorskkvótinn í Eyjum er meiri en samtals á Ísafirði í heild, þ.e.a.s. Ísafjörður, Hnífsdalur, Suðureyri, Flasteyri og Þingeyri til samans. Því ítreka ég hvatningu til ykkur um að leggja okkur í sjávarbyggðum suðurkjördæmis lið í þessari stöðu. Ég vil þó halda því til haga að með þessu er ég ekki að draga úr vanda byggða á Vestfjörðum. Við í suðurkjördæmi skiljum stöðu þeirra og finnum samhljóm í ábendingum þeirra. Staðan þar er slæm og aðgerða þörf.
Til þess að árangur náist hér í suðurkjördæmi er samstaða meðal sveitarstjórnarmanna og þingmanna afar mikilvæg. Ég hef í ræðu og riti bent á mögulegar mótvægisaðgerðir svo sem mikilvægi þess að efla jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hið sama gildir um stóraukið fjármagn til bættra samgangna, fjarskipta og menntunar á landsbyggðinni. Meira þarf svo að koma til og get ég til að mynda bent á niðurfellingu veiðigjalds á allar tegundir, lækkun flutningskostnaðar, tilflutning opinberra starfa frá höfuðborgarsvæðinu til sjávarbyggðanna og eflingu Rannsókna- og háskólasetra á landsbyggðinni. Þá tel ég það forgangsverkefni að lögð verði stóraukin áhersla á auknar fiskrannsóknir, ekki síst á þorskstofnunum og á því sviði viljum við Eyjamenn leggja okkar að mörkum.
Íslenskt samfélag var byggt upp í kringum fiskveiðar og hagnaðinn af þeim. Nú þrengir að bæjarfélögum eins og Vestmannaeyjum, Grindavík og Höfn sem að fjármögnuðu að stóru leiti hið nýja öfluga hagkerfi sem við öll erum stolt af. Upp er hinsvegar komin upp sú staða að sjávarútvegurinn og verstöðvarnar þurfa tímabundna aðstoð til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum ef ekki á illa að fara.
Ég er þess fullviss að ef rétt verður staðið að mótvægisaðgerðum þá kann þetta að styrkja samfélögin til lengri tíma litið. Það gerist þó eingöngu ef þið þingmenn suðurlands gætið hagsmuna okkar.
Kveðja
Elliði Vignisson
Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
6.7.2007 | 15:35
Eyjar eftirsóttar
Það er ánægjulegt að sjá að áhugi fyrir Goslokahátíið eykst með hverju árinu. Nú er svo komið að þetta er orðin ein af stóru ferðahelgum hvers árs. Reyndar er dylst engum að möguleikar í ferðaþónustu eru hvergi meiri en einmitt hér og þá sérstaklega þar sem allt stefnir í að samgöngur verði stórbættar á næstu árum.
Eins og fram kemur í fréttinni er dagskráin glæsileg. Hápunkturinn er náttúrulega tónlistadagskrá Jarls Sigurgeirssonar sem hefur nú tekið upp listamannsnafnið "EyjaJarl". Jarl hefur heitið aðdáendum sínum að spila fram undir morgun og því ljóst að gleðin verður við völd.
Við þetta má svo bæta að ég hafði samband við VST verkfræðistofuna sem er að vinna úttekt á forsendum jarðgangagerðar milli lands og Eyja. Þeir töluðu í véfréttastíl eins og við var að búast þannig að ég er engu nær um niðurstöður. Hinsvegar sögðu þeir mér að niðurstöður þeirra koma til með að liggja fyrir um miðjan júlí. Þetta eru spennandi tímar.
![]() |
Mikill ferðamannastraumur til Eyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svo hljóðandi fréttatilkynning hefur verið send á fjölmiðla.Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar í morgun kl. 08.00 var tekin ákvörðun um að selja hlut Vestmannaeyjabæjar að nafnvirði 512.756.280 í Hitaveitu Suðurnesja á genginu 7,1. Kaupandinn er Geysir Green Energy.
Ákvörðun þessi er tekin að vel ígrunduðu máli og ríkir alger einhugur meðal bæjarfulltrúa hvað þetta varðar.
Vestmannaeyjabær hefur alla tíð lagt áherslu á góða þjónustu við bæjarbúa og telur það hlutverk sitt að haga fjárfestingum sínum í samræmi við það. Í kjölfarið á þessari sölu mun bæjarstjórn leggja áherslu á að greiða niður skuldir bæjarfélagsins og vill horfa til þess að rekstrarforsendur þess til lengri tíma litið verði í kjölfarið sterkari.
Um leið og sala þessi gefur Vestmannaeyjabæ aukin tækifæri til að ráðast í þarfar framkvæmdir sem auka þjónustu við bæjarbúa verður áhersla áfram lögð á hagræðingu og aðhald í rekstri.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja
Elliði Vignisson
bæjarstjóri