16.4.2007 | 22:53
Stýrimannaskóli á að vera eitt af flaggskipum skólamála í Vestmannaeyjum
Uppgangur í sjávarútvegi síðustu ár hefur verið ævintýralegur. Í dag er svo komið að Vestmannaeyjar eru öflugasta sjávarútvegs byggðalag á íslandi með sterka kvótastöðu, hæfa stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja og framúrskarandi starfsmenn á öllum sviðum. Við hjá Vestmannaeyjabæ erum eins og gefur að skilja afar stolt af þessari sterku stöðu okkar og viljum fyrir alla muni halda þessari uppbyggingu áfram með frekari vöxt fyrir augum. Vestmannaeyjar eru að vera hinn eini sanni útgerðarbær á íslandi og fyrir þær sakir að vera hnarreyst og bjóðast til að draga vagninn í þróun sjávarútvegs á öllum sviðum.
Fáum dylst að aflamarkskerfið hefur átt stóran þátt í þessari uppbyggingu hér í Eyjum þótt sannarlega sé það ekki gallalaust. Útgerðarmenn hér hafa kappkostað að styrkja sín fyrirtæki með fjárfestingum og það hefur orðið til að efla byggðarlagið allt. Aukinn stöðugleiki í stjórnun sjávarútvegs hefur jafnframt orðið til þess að fjárfestingar í landvinnslu og skipum hér í Eyjum hafa verið miklar.
Einn er þó sá hængur á allri þessari uppbyggingu innan sjávarútvegsins hér í Eyjum að menntun í sjávarútvegi hefur undanfarin ár fyrst og fremst farið fram við Fjöltækniskólann í Reykjavík og stýrimannamenntun einungis þar. Þrátt fyrir að ég meti störf þess skóla mikils og efist ekki um gæði þessa náms þá hefur þetta verið mér eins og öðrum Eyjamönnum mikill þyrnir í augum enda álíka og að bændaskólinn á Hvanneyri væri hér í Vestmannaeyjum. Þetta fyrirkomulag hefur átt sinn þátt í því að í óefni stefnir hvað varðar mönnunarmál á glæstum flota Eyjamanna rétt eins og víðar um land. Þá er það skoðun undirritaðs að stýrimannskóli eigi að vera eitt af flaggskipum skólamála í Vestmannaeyjum.
Með þetta hugfast lagði undirritaður eftirfarandi tillögu fram í sjávarútvegsnefnd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins seinustu helgi. Meðal meðflutningsmanna voru útgerðarmenn í Vestmannaeyjum, framkvæmdarstjóri LÍÚ og fleiri.
"Aðkoma atvinnulífsins hefur styrkt stöðu Fjöltækniskólans, en mikilvægt er að menntun á sviði sjávarútvegs sé í tengslum við sjávarútvegsfyrirtæki. Því er rétt að horfa til þess að auka slíkt samstarf með því að menntun fari í auknum mæli fram á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur er undistaða atvinnulífsins."
Eftir afar jákvæðar umræður á fundinum var tillagan samþykkt einróma bæði í nefndinni og svo síðar á landsfundinum í Laugardalshöllinni. Í kjölfarið á þessu hef ég svo átt gagnlegar viðræður við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, Ólaf Hrein Sigurjónsson skólameistara FÍV, Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóra LÍÚ og Jón B. Stefánsson skólameistara Fjöltækniskóla Íslands auk útgerðarmanna í Vestmannaeyjum sem eru mjög áfram um þetta mál.
Von mín nú stendur til þess að á næstu dögum taki stjórnendur FÍV og Fjöltækniskólans upp viðræður um þessi mál með það fyrir augum að á ný verði boðið upp á skipstjórnarnám í Vestmannaeyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.4.2007 | 14:05
Fasteignir rjúka út í Vestmannaeyjum
Fjallað er um Vestmannaeyjar með nýjum hætti á forsíðu Fréttablaðsins í dag:
Fasteignamarkaðurinn er óvenju líflegur í Vestmannaeyjum og íbúðir rjúka út. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að á næstu árum verði 25 þúsund fermetrar byggðir. Uppbyggingin nú sé sú mesta eftir að byggð hófst í Eyjum.
Óvenju mikil umsvif hafa verði á fasteignamarkaðnum í Vestmannaeyjum síðustu misseri og fyrirsjáanlegt að svo verði áfram. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir fjölda þinglýstra kaupsamninga aldrei hafa verið jafnmikinn og nú. Sveitarfélagið hafi til dæmis selt rúmlega þrjátíu íbúðir úr félagslega kerfinu á innan við ári en þessar íbúðir hafi lítið hreyfst áður fyrr. Samkvæmt mínum bókum flokkast þetta sem verulega líflegur markaður, segir Elliði.
Guðbjörg Jónsdóttir, löggiltur fasteignasali, segir að allar góðar eignir seljist, sérstaklega góð einbýlishús og góðar íbúðir. Margir eru að fara í betra húsnæði. Svo er fólk uppi á landi að kaupa sér afdrep, segir hún. Fasteignaverð í Eyjum hefur hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent. Stór blokkaríbúð sem kostaði um fjórar milljónir í fyrra selst nú á fimm milljónir. Helgi Bragason lögmaður áætlar að fimmtán til tuttugu fasteignir hafi verið seldar á mánuði það sem af er árinu. Elliði telur trú fjárfesta á vaxtarmöguleikum í Eyjum hafa aukist. Fram undan eru stórkostlegar samgöngubætur. Við komum til með að vera í beinum tengslum við Suðurland. Það tekur tuttugu mínútur að fara um jarðgöng á milli og sigling tekur hálftíma. Sjávarútvegurinn hefur líka eflst og skilað auknum tekjum.
Verslunarhúsnæði er í byggingu í miðbænum í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir að fimm verslanir verði á jarðhæð og fimmtán íbúðir á efri hæðum. Þá er talsverð eftirspurn eftir lóðum fyrir iðnaðarhúsnæði og einbýlishús. Bæjaryfirvöld reikna með að á næstu þremur árum verði byggðir 25 þúsund fermetrar. Þá hefst bygging menningarhúss á næstunni. Þetta er mesta uppbygging sem um getur eftir að byggð hófst í Eyjum, segir Elliði.
Ég tel þetta góðar fréttir. Lykilatriðið er að við heimamenn höfum nú aukna trú á samfélaginu. Sjávarútvegurinn er með eindæmum blómlegur og Vestmannaeyjar eru nú kvótasterkasta sveitarfélag á Íslandi. Þegar saman fer uppgangur í sjávarútvegi og væntingar um stórbættar samgöngur þá er von á góðu. Fasteignamarkaðurinn er barómeter á stöðu samfélaga og því hljótum við öll að fagna þessari frétt.
Reyndar ætlaði ég að segja að þetta væri mesta uppbygging sem um getur eftir að byggð hófst að nýju eftir gos. En hitt er svo sem ekki heldur fjærri lagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2007 | 00:47
Af hverju að fagna?
Margir hafa spurt mig að því hvers vegna bæjarráð hafi fagnað umsókn um leyfi til að afgreiða léttvín og bjór um borð í Herjólfi í stað þess að láta hið hefðbundna orðalag duga (Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir aðilar sem um málið fjalla geri það einnig.).
Hið sanna í þessu er að á fundi bæjarráðs urðu allnokkrar umræður um þetta mál. Allir þeir sem fundinn sátu voru á þeirri skoðun að með þessu væri verið að auka þjónustu við ferðamenn um borð í Herjólfi. Rædd voru rök með og á móti og öll töldum við að ekki væri ástæða til að vera með forræðishyggju hvað veitingasölu í Herjólfi varðar og þrátt fyrir að Vestmannaeyjabær hafi áður hafnað samskonar erindi þá töldum við rétt að fela farþegum og rekstraraðila að meta það hvort grundvöllur sé fyrir þessari þjónustu að gefnum ákveðnum forsendum sem eiga við um alla þá sem selja áfengi.
Ástæðan fyrir því að við ákváðum að orða þetta þannig að við "fögnum umsókninnni" var sú að við vildum vekja athygli á því að með þessu er verið að auka þjónustu við ferðamenn og í raun löngu tímabært að þessi þjónusta verði veitt rétt eins og í millilandaflugi sem tekur svipaðan og í sumum tilvikum skemmri tíma.
Herjólfsferð getur verið hin notalegasta þegar vel viðrar. Mikið af fólki ferðast með skipinu á ári hverju og vilji Vestmannaeyjabæjar er að þjónustan við þetta fólk verði eins mikil og mögulegt er. Léttvínsveitingar eru ein tegund af þjónustu, og aukinni þjónustu ber að fagna.
Sótt um áfengisleyfi um borð í Herjólfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2007 | 22:14
Eyjamenn styðja Vestfirðinga
Vestmannaeyjabær hefur nú lýst yfir fullum stuðningi við þær áherslur sem sveitarstjórnarmenn, með Halldór Halldórsson bæjarstjóra á Ísafirði í broddi fylkingar, hafa sett á oddinn í baráttu sinni fyrir áframhaldandi blómlegri byggð á Vestfjörðum.
Svohljóðandi ályktun var samþykkt á seinasta fundi bæjarstjórnar:
Vestmannaeyjabær, styður heilshugar þær áherslur sem sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum setja fram í viðleitni til að snúa við þeirri óheillaþróun í byggða- og atvinnumálum sem átt hefur sér stað í landshlutanum.
Veik byggð á Vestfjörðum veikir landsbyggðina alla og um leið landið allt.
Vestmannaeyjabær lýsir sig reiðubúinn til að taka þátt í því með öðrum sveitarfélögum að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni.
Það er skoðun mín að við sveitarstjórnarmenn eigum að leggjast allir á eitt með Vestfirðingum í þessari baráttu þeirra enda er þetta barátta fyrir landsbyggðina alla. Á oddinn þarf að setja jöfnun flutningsgjalda, bættar samgöngur, flutning opinberra starfa og fleira.
Sameinuð stöndum vér....
21.3.2007 | 18:47
Efla á háskólastarfsemi í Vestmannaeyjum
Rannsókna- og fræðasetur Vestmannaeyja (Setrið) var opnað í október 1994 og var það með fyrstu Rannsókna- og fræðasetrunum sem stofnuð voru og hefur síðan verið fyrirmynd slíkra setra á landsbyggðinni. Hlutverk setursins hefur verið að sinna rannsóknum og þróun á sviði sjávarútvegs, náttúru Vestmannaeyja og Suðurlands í samvinnu við atvinnulífið í Eyjum, stuðla að samvinnu við sérfræðinga og nemendur sem vinna að verkefnum tengdum Vestmannaeyjum og Suðurlandi.
Vilji er nú til að þegar verði blásið til nýrrar sóknar hvað háskólastarf varðar í Vestmannaeyjum. Í þeim tilgangi hefur verið skipaður starfshópur til að fjalla um og koma með tillögur um framtíðarskipulag háskóla- og rannsóknastofnana í Vestmannaeyjum. Hann skipa Páll Marvin Jónsson, Rögnvaldur Ólafsson, Guðrún Marteinsdóttir, Arnar Sigurmundsson, Þorsteinn Ingi Sigfússon og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson.
Fyrsti fundur þessa starfshóps fór fram í gær mánudaginn 20. mars og var sá fundur haldinn í aðalbyggingu HÍ. Stefnt er að því að stórefla háskólastarf í Vestmannaeyjum. Sérstaklega er horft til þess að myndað verði öflugt kjölfestustarf í Rannsókna- og fræðasetrinu sem laðar til sín fræðimenn og nemendur í gegnum sérþekkingu og sérhæfða rannsóknaraðstöðu tengda náttúru-, menningu- og atvinnulífi Eyjanna. Þannig er ætlunin að efla setrið sem lifandi vettvang sem myndar regnhlíf um fræðastarf í Vestmannaeyjum.
Miklar blikur eru nú á lofti sem vafalaust koma til með að verða byr undir vængi þessa starfs svo sem bygging á menningarhúsi í Vestmannaeyjum, stofnun trjárætaseturs, stofnun Surtseyjarstofu, aukin þátttaka atvinnulífisins í rannsóknastarfi og fleira.
Sjálfur efast ég ekki um að árangur mun nást á þessu sviði. Uppbygging á háskólasamfélagi og aukin þekking og/eða menntun í heimabyggð er talin vera ein meginforsenda jákvæðrar byggðarþróunar á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að Vestmannaeyjar taki virkan þátt í þessari þróun og marki sér nýja framtíðarsýn í þessum málum, með aðkomu ríkisins og hinum fjölmörgu háskóla- og rannsóknastofnunum sem gera sér grein fyrir mikilvægi starfsemi sinnar í Vestmannaeyjum.
Það var ánægjulegt að Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands skyldi sjá sér fært að koma til fyrsta fundar starfshópsins en í samtölum mínum við hana hefur komið fram einlægur vilji hennar til að efla Háskólastarf í Vestmannaeyjum. Ekki spillir fyrir að Kristín á ættir að rekja til Vestmannaeyja.
15.3.2007 | 09:08
Mikil batamerki á rekstri félagslega húsnæðiskerfisins
Rekstur félagslega húsnæðiskerfisins hefur verið Vestmannaeyjabæ sérlega erfiður seinustu ár enda var það rekið með 104 milljóna króna halla árið 2005.
Í aðdraganda seinustu kosninga ræddi framboðslisti sjálfstæðismanna oft þennan vanda og í stefnuskrá framboðsins segir Við viljum ljúka samningum um lausn á vanda félagslega íbúðakerfisins í Vestmannaeyjum og stöðva halla rekstur þess. Það er gaman að segja frá því að nú innan við ári seinna hefur verulegur árangur þegar náðst vegna þeirra aðgerða sem til hefur verið gripið hvað fjármál og eignarstýringu félagslega húsnæðiskerfisins varðar. Nú þegar vinnu vegna ársreikninga 2006 er að ljúka bendir flest til þess að hallinn af félagslega húsnæðiskerfinu árið 2006 hafi verið 64,1 m. kr. (í stað 104 milljóna halla 2005). Þar af eru verðbætur langtímalána 56 m. kr. og afskriftir 8,6 m. kr.
Eins og tölurnar hér að ofan gefa til kynna, þá er staða okkar enn gríðarlega erfið í þessum málaflokki þótt sannarlega hafi þær aðgerðir sem gripið var til um mitt síðasta ár bætt stöðuna verulega. Sú leið sem farin hefur verið frá því að samningurinn var undirritaður er að selja þessar eignir og greiða upp þau miklu lán sem eru áhvílandi. Þannig hafa 21 íbúð verið seld og lán upp á 133.795.005 kr. verði greidd upp. Framlag varasjóðs íbúðarlánasjóðs hefur verið 72.163.29.
Kostnaðurinn við rekstur og eignarhald á íbúðum þessum hefur verið þungur og tekjur ekki nema að litlum hluta dekkað þennan kostnað. Þannig voru leigutekjur seinustu tveggja ára fyrir þessar 21 íbúð 11.937.683 en beinn kostnaður og afborganir lána námu 19.353.199 og rekstrarkostnaður því 7.415.516. Þá á enn eftir að taka inn í þetta vinnulaun starfsmanna sveitarfélagsins hér að lútandi, eftirlit með fasteignum og margt fleira.
Vilji Vestmannaeyjabæjar er að halda áfram í þessa átt og stefna að því að innan tveggja ára standi leigutekjur félagslegra íbúða í eigu Vestmannaeyjabæjar undir rekstri þeirra og reiknuðum liðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2007 | 13:09
Grímulaus hótun um eignarupptöku
Enn á ný blöskrar mig virðingaleysi ákveðinna þingmanna fyrir mikilvægi þess að atvinnulíf á landsbyggðinni fái þrifist án yfirvofandi ógnar um eignarupptöku ríkisins. Stundum er þetta eins og að vera kominn aftur til þess tíma sem menn ræddu þjóðnýtingu og kommúnískt samfélag af fullkominni alvöru.
Í morgunblaðinu í dag er rætt við þingmenn allra flokka í Norðvesturkjördæmi. Allir hafa þeir miklar áhyggjur af stöðu mála á Vestfjörðum og þeim áhyggjum deili ég með þeim. Vestfirðir eru stórkostlegt landsvæði og fólkið þar gott heim að sækja. Tengdaforeldrar mínir eru í atvinnurekstri á Vestfjörðum og í gegnum þá starfsemi hef ég fylgst með hug og vilja Vestfirðinga til að efla byggð á sínu svæði.
Skiljanlega er uggur í Vestfirðingum núna í kjölfar þungbærra frétta úr atvinnulífinu og þá ekki síst fréttir af lokun á útibúi Marels. Þingmenn reyna í slíkum aðstæðum að leggja fram einhverskonar patentlausnir og ekki er laust að lýðskrums gæti korteri í kosningar þegar allir vilja allt fyrir alla gera.
Hinsvegar tekur steininn algerlega úr þegar maður rýnir í orð Jóns Bjarnasonar þingmanns vinstri grænna í morgunblaðinu í dag. Hann segir:
Íbúar og atvinnulíf á Vestfjörðum verða að hafa forgang að auðlindum sínum til lands og sjávar, segir hann. Fái Vestfirðingar forgangsrétt til að njóta auðlinda sinna í þágu byggðarinnar og allrar þjóðarinnar, þá verður þarna öflugt og gott mannlíf, segir Jón.
Hér er ekki um neitt annað að ræða en grímulausa hótun um eignaupptöku. Hótun um að flytja aflaheimildir með handafli frá byggðalögum eins og Vestmannaeyjum sem hafa sterka kvótastöðu vestur á firði. Flytja þessar sömu aflaheimildir og fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa keypt dýru verði til sveitarfélaga þar sem fyrirtæki seldu frá sér aflaheimildirnar. Flytja sem sagt vandann á milli byggðalaga. Nema náttúrulega að Jóni Bjarnasyni hafi tekist að fjölga fiskunum í sjónum því annars verður bara um tilflutning á aflaheimildum að ræða.
Skyldu þessir sömu þingmenn ekki vita að íbúum í Vestmannaeyjum hefur fækkað um nálægt 20% á 15 árum? Nú þegar loks er bjart framundan bæði vegna nálægra samgöngubóta og mikils uppgangs í sjávarútvegi á að hrifsa lífviðurværið af Eyjamönnum. Svo mikið er víst að þessi leið mætir andstöðu hér í Eyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2007 | 22:40
Ræðan í vasanum
Í dag var nýr og glæsilegur leikskóli opnaður í Vestmannaeyjum, stærsti leikskóli sem hér hefur verið en hann rúmar rúmlega 100 börn. Af því tilefni var blásið til mikillar veislu og áhugasamir gátu komið og kynnt sér þessa frábæru aðstöðu. Af þessu tilefni átti ég að halda ræðu og var búinn að punkta slíkt hjá mér. Áheyrendahópurinn (u.þ.b. 100 börn) var hinsvegar ekki spenntur fyrir ræðuhöldum og því fór svo að ræðan fór aldrei upp úr vasa mínum. Þess í stað spjallaði ég bara stuttlega við börnin og ég veit eiginlega ekki hvort þau eða fjölmargir foreldrar þeirra sem þarna voru komin voru fegnari að losna við ræðuhöld.
Hér er hinsvegar ræðan sem ég var með í vasanum:
Komiði sæl og til hamingju með daginn.
Það er mér mikið gleðiefni að standa hér í dag og taka með ykkur þátt í formlegri vígslu þessa leikskóla sem Vestmannaeyjabær hefur nú reist af miklum myndarskap í samvinnu við eignarhaldsfélagið Fasteign.
Þegar börn hefja skólagöngu sína í leikskóla hefst mjög mikilvægur kafli í lífi þeirra. Þessi fyrstu ár er leikurinn mikilvægasta náms- og þroskaleið barnsins. Í leikskólanum þarf að skapa barninu skilyrði þar sem áhugi þess, virkni og viðfangsefni hæfa aldri þess og þroska. Barnið þarf að fá að njóta sín sem einstaklingur jafnt og í hópi með öðrum börnum. Þótt foreldrarnir og fjölskyldan séu ætíð sterkasti mótunaraðilinn þá er það hér sem stór hluti að grunni sjálfstrausts og jákvæðrar sjálfsmyndar er byggður.
Vestmannaeyjabær tekur hlutverki sínu sem rekstraraðili skóla alvarlega og vill skapa börnum skilyrði til þess að þroskast og öðlast færni á sem flestum sviðum. Við lítum sem svo á að það er hér í skólakerfinu sem við getum búið til fyrirmyndar Eyjamenn framtíðarinnar. Full af orku, þreki og dug taka við kyndlunum frá okkur og bera hann áfram.
Til þess að þessum markmiðum verði náð þarf umhverfið að vera gott. Húsnæði þarf að svara þörfum samtímans og til starfsins þarf að veljast fólk sem fært er til að takast á við vandasamasta verkefni sem til er, að móta og mennta kynslóð framtíðarinnar. Þetta góða starfsfólk höfum við haft og af því erum við stolt og nú fyrst eru húsnæðismál leikskóla í þeim farvegi sem við getum verið sátt við.
Það húsnæði sem við nú erum að vígja leysir tvö eldri húsnæði af hólmi. Annarsvegar er það húsnæði gamla Sóla sem tekið var í notkun fyrir 47 árum eða nánar tiltekið 12. mars 1960, og hinsvegar húsnæði Rauðagerðis sem tekið var í notkun 1974 eða fyrir 33 árum. Trú hefðinni höfum við tekið þá ákvörðun að kalla þennan leiksóla Sóla líkt og það hús sem nú mun brátt verða minningin ein eftir að niðurrifi þess lýkur á næstu dögum.
Það er von mín og trú að starfsemi þessa skóla komi til með að vera samfélaginu öllu og þá sérstaklega börnunum til góðs.
Að lokum vil ég þakka Fasteign Hf., verktakanum, honum Þór Engilberts og öðrum undirverktökum þeirra framlag. Þá vil ég einnig þakka starfsmönnum gamla Sóla og Rauðgerðis þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig við sameiningu þessara tveggja skóla. Það eru forréttindi fyrir Vestmannaeyjabæ að eiga svona gott starfsfólk.
Ég vil svo enda þetta með því að flytja ykkur ljóð sem einn af nemendum hér við skólann samdi og móðir hennar sendi mér í tölvupósti í seinustu viku:
Nýi skólinn minn er góður
þar er góð lykt
stóllinn minn flottur
og frændi minn er þar líka
Til hamingju öll
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2007 | 18:27
Ógn og óvissa
Því er ekki að neita útspil Framsóknarflokksins um stjórnarskrárbreytingu vekur mér ugg. Að vísu liggur enn ekki fyrir frekari útfærsla í kringum þennan farsa þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hversu langt á að ganga. Í raun verður að telja líklegt að hér sé um pólitískan storm í vatnsglasi að ræða.
Það er hinsvegar vont til þess að vita að undirstöðuatvinnugrein Vestmannaeyja og margra annarra byggðalaga skuli áfram þurfa að búa við stöðuga ógn og óvissu.
Vegna þessa máls ályktaði bæjarráð svo:
"Vegna umræðu um hugsanlega stjórnarskrárbreytingu vill Bæjaráð Vestmannaeyja minna á mikilvægi þess að ekki verði gerðar breytingar sem skapa óvissu hvað varðar stöðu sjávarútvegs.
Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í Vestmannaeyjum og skapar samfélaginu mikil verðmæti. Uppgangur sjávarútvegs síðustu ár er að miklu leyti tilkomin vegna þess að dregið hefur úr óvissu hvað varðar stöðu sjávarútvegs og nýtingu auðlindarinnar.
Jafnframt minnir bæjaarráð á að atvinnuréttindi þau sem menn hafa helgað sér á sviði fiskveiða njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert samfélag fær nýtt sín vaxtartækifæri ef það má eiga von á að í stjórnarskrá verði bundin ákvæði sem veikja atvinnulífið á svæðinu."
Ég ætla svo að enda þessa færslu á því að vitna orðrétt í álitsgerð sem Sigurður Líndal og Tryggvi Gunnarsson sömdu að beiðni þingmanna árið 1990:
Atvinnuréttindi teljast eign og njóta verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar [þessi grein er nú 72. grein stjórnarskrárinnar]. Sú vernd er þó takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Atvinnuréttindi þau sem menn hafa helgað sér á sviði fiskveiða eru eignaréttindi.
Eyjamenn lýsa efasemdum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2007 | 17:08
Ógn og óvissa
Því er ekki að neita útspil Framsóknarflokksins um stjórnarskrárbreytingu vekur mér ugg. Að vísu liggur enn ekki fyrir frekari útfærsla í kringum þennan farsa þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hversu langt á að ganga. Í raun verður að telja líklegt að hér sé um pólitískan storm í vatnsglasi að ræða.
Það er hinsvegar vont til þess að vita að undirstöðuatvinnugrein Vestmannaeyja og margra annarra byggðalaga skuli áfram þurfa að búa við stöðuga ógn og óvissu.
Vegna þessa máls ályktaði bæjarráð svo:
"Vegna umræðu um hugsanlega stjórnarskrárbreytingu vill Bæjaráð Vestmannaeyja minna á mikilvægi þess að ekki verði gerðar breytingar sem skapa óvissu hvað varðar stöðu sjávarútvegs.
Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í Vestmannaeyjum og skapar samfélaginu mikil verðmæti. Uppgangur sjávarútvegs síðustu ár er að miklu leyti tilkomin vegna þess að dregið hefur úr óvissu hvað varðar stöðu sjávarútvegs og nýtingu auðlindarinnar.
Jafnframt minnir bæjaarráð á að atvinnuréttindi þau sem menn hafa helgað sér á sviði fiskveiða njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert samfélag fær nýtt sín vaxtartækifæri ef það má eiga von á að í stjórnarskrá verði bundin ákvæði sem veikja atvinnulífið á svæðinu."
Ég ætla svo að enda þessa færslu á því að vitna orðrétt í álitsgerð sem Sigurður Líndal og Tryggvi Gunnarsson sömdu að beiðni þingmanna árið 1990:
Atvinnuréttindi teljast eign og njóta verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar. Sú vernd er þó takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Atvinnuréttindi þau sem menn hafa helgað sér á sviði fiskveiða eru eignaréttindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)