Sendiherrar Vestmannaeyja

1068205692_DSCF0584_med_2fiska_cropÉg var rétt í þessu að standa upp frá sjónvarpinu þar sem fram kom einn af sendiherrum Vestmannaeyja Siggi Gísla.  Í þessum þætti var umfjöllun um norræna matargerð og trúr sinni heimabyggð bauð Siggi upp á hnossgæti úr matarkistu Vestmannaeyja, lunda, fisk og ýmislegt fleira.  

Náttúrunni var gert hátt undir höfði og bersýnilega kom í ljós hversu lífrænt og heilnæmt umhverfið hér er. Kvikmyndatakan í þessum þætti var skemmtileg og skóp umfjölluninni kosmískan ramma og punkturinn yfir i-ið var lífleg og frjálsleg framkoma Eyjapeyjans Sigga Gísla.   

Siggi stóð sig eins og sannur sendiherra, var okkur öllum til sóma.  Hann eins og svo margir brottfluttir Eyjamenn eru auðlind sem við eigum að vera óhrædd við að nýta okkur í sókn okkar.  Eyjamenn eru ætíð trúir sinni heimabyggð og stoltir af því að vera héðan.  Við erum líka stolt af okkar fólki og það er gott að eiga góða að.  Siggi Gísla er einn af landsins fremstu matreiðslumönnum og ég vænti mikils af honum.  Reyndar eru þau Gíslabörn öll einstaklega gefandi og sérstaklega mikið Eyjafólk sem vill heimabyggðinni vel.

  

"Eyjan okkar" tóks vel.

Þá er afar vel lukkaðri Eyjahelgi lokið en eins og flestum er kunnugt fór fram markaðskynningin "Eyjan Okkar" um helgina.  Dagskrá byrjaði kl. 13.00 með Eyjakynningu í Smáralindinni.  Þar höfðu tæplega 30 fyrirtæki og stofnanir frá Vestmannaeyjum sett upp kynningu á því sem þau hafa fram að færa.  Góður rómur var gerður af kynningunni enda komu um 30.000 manns á hana sem lætur nærri því að vera góð Þorláksmessa í Smáralindinni.  Grímur kokkur fór á kostum og mokaði út ”smakki” af sínum frábæru fisk- og heilsuréttum á milli þess sem hann tróð upp með Hippabandinu.  FÍV kynnti markaðssókn sína og námsframboð, Vestmannaeyjabær minnti á óviðjafnalegt viðburðadagatal og búsetugæði, Póley kynnti vöru sína, Setrið, Fréttir, Hótel Þórshamar, Flugfélag Íslands og svo margir fleiri buðu upp á kynningu sem virkilega sýndi og sannaði að í Vestmannaeyjum er bæði öflugt mannlíf og blómlegt atvinnulíf.  Ekki er hægt að ljúka þessari upptalningu án þess að minnast á VKB (Vini Ketils bónda) sem voru með kynningarbás þar sem þeir sögðu frá þjóðhátíðinni og öðrum möguleikum til skemmtana í Vestmannaeyjum. 

Sjálfur var ég á bás Vestmannaeyja með mínu góða fólki þeim Frosta, Rut og Kristínu.  Mér var það sérstakt ánægjuefni að finna þá römmu taug sem er milli brottfluttra Eyjamanna og Eyjunnar okkar.  Þá neita ég því ekki að svo stoltur var ég af öllu hrósinu sem Vestmannaeyjar fengu frá gestum og gangandi að Eyjamontið í mér varð jafnvel enn sterkara en áður. 

Kl. 20.30 var svo boðið til Eyjatónlistarveislu í Vetrargarðinum og tókst hún afar vel.  Logarnir, Jarl Sigurgeirs, Hippabandið, og aðrar menningarperlur Eyjanna voru þar á borð bornar og var stemmningin óviðjafnaleg.  Um miðnætti hófst svo Eyjaball á Players og ef ég þekki mitt fólk rétt stendur það enn nú um hádegi á sunnudegi. 

Þá er gaman að segja frá því að aðóknarmet var slegið á Pleyers þetta kvöld en í húsið komu rétt um 1000 manns.  Fyrra met átti Sálin en núverandi aðsóknarmet á þennan vinsælasta skemmtistað á Íslandi á sem sagt Eyjahljómsveitin Dans á Rósum ásamt Eyjahljómsveitinni Logum. 

Þeir félagar Bjöggi Rúnars og Biggi Nilsen í 3B ásamt Röggu Guðna eiga mikið og gott hrós skilið fyrir sinn stóra þátt í þessari Eyjahelgi.


Skák og stærðfræði í Vestmannaeyjum

1-2007-skakÍ gegnum tíðina hefur því oft verið haldið fram að ástundun stærðfræði geri menn almennt skynsama.  Á þennan streng sló Platón í frummyndakenningu sinni og að mörgu leyti má segja að góðkunningi minn (og fyrrum nemenda minna) Jean Piaget hafi einnig haldið þessu fram. Piaget taldi að grundvöllur talnafræði, rúmfræði og mengjafræði, sem stærðfræðin hvílir á, séu líka grundvöllur hvers konar vitrænnar hugsunar. Eins og alkunna er hafa kenningar þessa merka fræðimanns haft mjög mótandi áhrif á skólastarf.  Á seinni tímum hafa menn svo í auknu mæli velt fyrir sér tengslum milli getu í skák og getu í stærðfræði og virðist það almennt vera álitið að hugarferlin á bak við þessar tvær aðgerðir (að tefla og reikna) sé nánast hin sama.

Margir fræðimenn halda því fram að stærðfræði (og þar með talið skák) sé í senn grunnur og hornsteinn þeirrar færni sem börn þurfa á að halda í flóknu lífi hins vestræna heim.  Ekki svo að skilja að samlagning, frádráttur, margföldun og deiling sé orðin svo mikið mikilvægari en áður heldur leggur stærðfræðileg færni okkur til hugsunarskemun (færnina) sem við þurfa á að halda til að læra hratt og örugglega.  Einhvers staðar las ég að heildarþekking hins vestræna heims tvöfaldist annað hvert ár.  Til að komast af í jafn flóknum heimi þurfum við getu til skjótrar ákvörðunartöku, lausnarmiðaða hugsun, gagnrýna hugsun, aðleiðslu, afleiðslu, getu til breiðrar yfirsýnar, miðaða hugsun (focused attention), einbeitingu  og svo framvegis.  Skák og stærðfræði eiga það sameiginlegt að þjálfa alla þessa færni.

Fjölmargar rannsóknir hafa bent til þess að nemendur sem tefla reglulega hafi bætt almenna getu sína til þrautalausnar og námsárangurs.  Ollie LaFreniere, frumkvöðull í að innleiða skák í skóla í Bandaríkjunum sagði nýlega “Skák er öflugasta námstæki sem við eigum í augnablikinu og sífellt fleiri skólastjórnendur eru að átta sig á þessari staðreynd”.  Þessu til stuðnings má benda á rannsókn sem unnin var í New York (Harlem School district). Tilgangurinn var að efla stærðfræðikunnáttu á unglingastigi með því að þjálfa gagnrýna hugsun og þrautalausn.  Nemendum var skipt af handahófi í hópa þar sem annar hópurinn fékk þjálfun í skák en hinn fékk sambærilegan fjölda tíma í fjölbreytta kennslu (vettvangsferðir, listsköpun og fl.)  Í ljós kom að hópurinn sem fékk þjálfun í skák hækkaði einkunnir sínar um 17.3%, samanborið við 4.56% hjá hinum hópnum. 

Hér í Vestmannaeyjum búum við svo vel að vera með framúrskarandi öflugt skákfélag – Taflfélag Vestmannaeyja.  Kraftur þess, áræðni, léttleiki og metnaður er öðrum til eftirbreytni.  Höfuðáhersla hefur verið lögð á barna- og unglingastarf og hefur árangurinn verið hreint magnaður.  Fullt hús af börnum sem æfa 2 – 4 sinnum í viku þessa göfugu og öflugu íþrótt.  Fjöldi Íslandsmeistara, skólameistara, deildarmeistara og þar fram eftir götunum segja ákveðna sögu um þetta starf en leikgleði barnanna og áhugi þeirra ber gæðum þessa starfs sennilega enn sterkari vitni.

Stór hluti þeirra barna sem nú nýverið var að taka afburða góð samræmd próf í Grunnskóla Vestmannaeyja eiga það einmitt sammerkt að æfa (eða hafa æft) með Taflfélagi Vestmannaeyja.  Erfitt er að fullyrða um hvort kemur á undan eggið eða hænan.  Hvort okkar sterka skólastarf er að skila svo sterku skákfólki eða hvort okkar sterka skáklíf er að skila svona sterkum námsmönnum veit ég ekki.  Líklegast er að hér haldist þetta tvennt í hendur og ætti að vera okkur öllum hvatning til að efla samvinnu skólanna og Taflfélagsins enn frekar.

Við Eyjamenn megum vera stolt af því að börnin okkar voru yfir landsmeðaltali í samræmdu prófunum (4. og 7. bekkur) og við megum vera stolt af árangri og uppbyggingu TV.  Þótt vart verði því haldið fram að áframhaldandi árangur á þessum tveimur sviðum standi og falli með samstarfi skóla og TV þá verður að telja líklegt að hvort styðji við hitt.


Það er komið að ákvörðun (gestapenni)

Ritstjórn þessarar bloggsíðu (ég sjálfur) hefur nú tekið þá ákvörðun að hér eftir verða reglulega birtir pistlar eftir gestapenna.  Skoðanir gestapenna eru þeirra sjálfra og skrifin ekki ritskoðuð af ritstjórn.

Fyrstur ríður á vaðið vinur minn Friðbjörn Ó. Valtýsson 

Virðingarvert framtak.

1171388371_bibbiÉg ber mikla virðingu fyrir fólki, sem hefir skoðanir og er tilbúið að fylgja sínum málum eftir, af festu og harðfylgni. Öflugir talsmenn jarðgangnagerðar milli lands og Eyja hafa lagt á sig ómælda vinnu við það verkefni, og eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag. Þeirra vinna er um margt til fyrirmyndar og mun nýtast okkur Vestmannaeyingum, þó svo fari að ekki verði gerð göng milli lands og Eyja á næstunni. Í spjallinu í bænum kemst maður ekki hjá að finna fyrir ákveðinni þreytu meðal fólks, þegar samgöngumálin ber á góma. Alls konar hugmyndir eru uppi, með eða á móti hinu og þessu. Flestir eru sammála um að jarðgöng eru valkostur númer eitt. Um það er undiritaður hundrað prósent sammála. Svo virðist, sem göng séu ekki inn í myndinni hjá stjórnvöldum af ýmsum ástæðum, þau rök verða ekki tíunduð hér, enda flestum ljós. Hvort sem fólki í Vestmannaeyjum líkar betur eða verr, er íslenska ríkisstjórnin og væntanlega þorri þingmanna ásamt ráðandi öflum í þjóðfélaginu á þeirri skoðun að höfn í Bakkafjöru sé besti kosturinn í dag. Ekki er að fullu lokið rannsóknum á hugsanlegu ferjulægi. Það hefir hins vegar ekkert komið fram, sem útilokar þá framkvæmd, enn sem komið er. Miðað við stöðu mála í dag, virðist allt stefna í að höfn verði byggð í Bakkafjöru.

“Sjóleiðin til Bagdað”.

Ekki svo að skilja, að Þorlákshöfn og Bagdað eigi margt sameiginlegt. Hér er aðeins um að ræða líkingamál. Íbúar Þorlákshafnar eiga alt gott skilið af hálfu Eyjamanna, enda hefir samvinna og samstarf verið til fyrirmyndar um áratuga skeið. Ein af þeim leiðum, sem færar eru í samgöngumálum okkar er að sjálfsögðu, að halda áfram að sigla í Þorlákshöfn. Stærsti gallinn við þann valkost, er hins vegar sú staðreynd, að siglingaleiðin er rétt tæpar 40 mílur. Í dag getum við ekki reiknað með að sú ferð taki skemur en tvær klukkustundir. Þá erum við að reikna með nýju öflugu skipi, sem siglir á tuttugu mílna ferð. Það er að mínu mati ekki ásættanlegt í samanburði. Hvoru tveggja er að mjög margir og þar með talið undirritaður, setja mjög fyrir sig svo langa sjóferð við misjafnar aðstæður eins og gengur. Ég er ansi hræddur um að sá, sem eitt sinn hefir kynnst vondri sjóveiki, langar ekki sérstaklega aftur í slíka ferð í bráð. Það er t.d. engin óskastaða, að ferðast sjóleiðis með unga íþróttahópa til Þorlákshafnar í leiðinlegu veðri. Stór hluti hópsins með sjóveikistöflur í maganum, og síðan beint í kappleiki. Snúum við blaðinu og setjum dæmið þannig upp, að ferjusamgöngur hafi um 40 ára skeið verið í Bakkafjöru. Nú séu uppi hugmyndir um að lengja ferðina og taka upp ferjusamgöngur til Þorlákshafnar í staðinn. Er þetta erfitt val?

Bakkafjara raunhæfur kostur?

Það er mín skoðun, að Vestmanneyingar og Rangæingar eigi að sameinast um Bakkafjöruhöfn, reynist sú framkvæmd viðráðanleg með tilliti til aðstæðna og viðunandi frátafa vegna veðurs og sjólags. Þar við bætist, að gert er ráð fyrir, að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður að Markarfljóti á næstu árum. Slík framkvæmd gerið ferðalag, hvort sem er til höfuðborgarsvæðis eða annað, mun öruggari og þægilegri. Eftir að hafa kynnt mér nokkuð ferðamynstur erlendra ferðamanna um Suðurland, tel ég einsýnt, að ferðamannastraumurinn um svæðið mun í stórauknum mæli beinast út í Eyjar með tilkomu ferju í Bakkafjöru. Eflaust á undirritaður eftir að fá orð í eyra vegna skrifa af þessu tagi, vegna mismunandi skoðana fólks. Það er hins vegar mín tilfinning, að þorri Eyjamanna sé að hallast að þessari lausn. Eins og ég hefi sagt áður í þessu greinarkorni mínu, tel ég mjög mikilvægt að bæjarbúar sameinist um þennan valkost, enda ekki annað í boði nú um stundir, hvað sem hver segir. Ég óttast, að ef ekki næst samstaða meðal íbúa hér, muni tækifærið renna okkur úr greipum. Það gæti verið óskastaða fjárveitingavaldsins, að slá af milljarða fjárveitingar til byltingakenndra samgöngubóta við Vestmannaeyjar. Landsmenn allir bíða í röðum eftir framlögum til vegagerðar, ríkisvaldið hefir úr nógu að velja í þeim efnum.

Með einlægum óskum og kveðjum Friðbjörn Ó. Valtýsson.


Vilji Vestmannaeyjabæjar er ekki að fresta ákvörðunartöku

Margir hafa haft samband það sem af er vinnudegi og falast eftir skoðunum mínum hvað varðar framtíðarsamgöngur.  Einhverjum fannst því hafa verið haldið fram að Vestmannaeyjabær vildi fresta öllu hvað Bakkafjöru varðar um óákveðin tíma þar til frekari vinna við jarðgöng hefur farið fram. Þess vegna hef ég nú sent eftirfarandi frá mér:

Picture1Vegna umfjöllunar fjölmiðla um samgöngur til Vestmannaeyja langar mig að koma eftirfarandi á framfæri:   Nú þegar fyrir liggur að sá kostur að hefja siglingar í Bakkafjöru er nærtækari, áreiðanlegri og öflugri en við höfum hingað til þorað að vona vil ég leggja aukinn þunga á að um leið og að áfram verði haldið með undirbúning gerðar hafnar í Bakkafjöru eins og áætlanir gera ráð fyrir verði óháðu ráðgjafafyrirtæki falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga.  Fyrir liggur að hægt er að hefja framkvæmdir í Bakkafjöru innan fárra vikna.  Vilji Vestmannaeyjabæjar hefur aldrei verið að fresta ákvörðunartöku vegna framtíðarsamganga heldur að flýta úttekt á forsendum jarðganga þannig að þegar ákvörðun verður tekin liggi allar forsendur fyrir. Vonir mínar eru að fyrir alþingiskosningar verði tekin ákvörðun um framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja og að framkvæmdir hefjist árið 2007.

Bakkafjara er góður kostur en mikilvægt er að ljúka rannsóknum á jarðgöngum

Eftirfarandi viðtal við mig er að finna í Fréttablaðinu í dag.  Fyrir mér er þetta lykilatriðið:

"Vilji okkar Eyjamanna er því að um leið og lokarannsóknir og umhverfismat vegna Bakkafjöru fer fram verði rannsóknum vegna jarðganga lokið þannig að hægt verði með nokkurri vissu að bera þessa tvo kosti saman,“  Sem sagt áfram með vinnu að Bakkafjöru og ljúka um leið rannsóknum vegna jarðganga sé frekari rannsókna þörf.  

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að ákvörðun verði tekin í vor um það hvort ráðist verði í framkvæmdir við gerð ferjulægis í Bakkafjöru.  Þetta kom fram á fundi sem Vestmannaeyjabær átti með Siglingamálastofnun og Landgræðslunni fyrir skömmu. Verði ferjulægið að veruleika myndi það taka um það bil hálftíma að sigla á milli Vestmannaeyju og Bakkafjöru, í stað tveggja klukkustunda og 45 mínútna sem það tekur að sigla milli Eyja og Þorlákshafnar. Jafnframt er gert ráð fyrir allt að sex ferðum á dag í stað tveggja eins og nú er raunin. Myndu ramkvæmdirnar kosta 4,9 milljarða króna.

„Við erum að tala um algera byltingu á samgöngum við Vestmannaeyjar ef þetta verður að veruleika,“ segir Elliði, sem segir möguleikann á gerð ferjulægisins hafa verið í rannsókn síðan 2001. „Fundurinn með Siglingastofnun sýndi að sá kostur að hefja siglingar milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru er jafnvel enn nærtækari, áreiðanlegri og öflugri samgöngubót heldur en við höfum hingað til þorað að vona.“

Að sögn Elliða telur Det Norske Veritas, sem er stærsta vottunarfyrirtæki í heimi, rúmlega sexfalt öruggara að sigla í Bakka heldur en í Þorlákshöfn. „Í mínum huga er það ljóst að samgöngubót sem þessi myndi efla vaxtar- og búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum enn frekar þótt sannarlega sé þetta ekki jafn góður kostur og jarðgöng. Vilji okkar Eyjamanna er því að um leið og lokarannsóknir og umhverfismat vegna Bakkafjöru fer fram verði rannsóknum vegna jarðganga lokið þannig að hægt verði með nokkurri vissu að bera þessa tvo kosti saman,“ segir Elliði.


Ferjulægi í Bakkafjöru er nærtæk, áreiðanleg og öflug samgöngubót, en...

Viðtal þetta við mig er að finna í Morgunblaðinu í dag:

VILJI Vestmannaeyinga er að allur vafi verði tekinn af hvað jarðgöng varðar áður en  ákvörðun um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar verður tekin, að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra. Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkti m.a. ályktun 22. febrúar sl. um að leggja til við stjórnvöld „að óháðu ráðgjafarfyrirtæki á sviði jarðvegsrannsókna og jarðgangagerðar verði falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga milli lands og Eyja og væntanlegan kostnað af þeim ef svo ber undir“. Elliði sagði að meginniðurstaða fundar fulltrúa Siglingastofnunar og Landgræðslunnar í  Vestmannaeyjum í fyrrakvöld hefði verið sú að ekkert væri því nú til fyrirstöðu að hefja verklegar framkvæmdir við gerð ferjulægis í Bakkafjöru innan örfárra vikna. „Hvað Bakkafjöru varðar kom það berlega í ljós á fundinum að sá kostur er jafnvel enn  nærtækari, áreiðanlegri og öflugri samgöngubót heldur en við höfum hingað til þorað að vona,“ sagði Elliði. „Samkvæmt upplýsingum frá Det Norske Veritas er sexfalt öruggara að sigla ttil Bakkafjöru en Þorlákshafnar og einungis gert ráð fyrir að 1–2% daga á hverju ári falli ferðir alveg niður. Í mínum huga er það algerlega ljóst að samgöngubót sem þessi myndi efla vaxtar- og búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum enn frekar, þótt sannarlega sé þetta ekki jafngóður kostur og jarðgöng.“ 

Opinbert hlutafélag
Gert er ráð fyrir því að fyrirhuguð ferjuhöfn í Bakkafjöru verði í eigu sveitarfélaganna Vestmannaeyjabæjar og Rangárþings eystra. Elliði segir að sveitarfélögin hafi rætt um
rekstrarform hafnarinnar að beiðni stýrihóps um gerð ferjulægis í Bakkafjöru. Niðurstaðan úr þeim viðræðum hafi orðið sú að stofnað verði opinbert hlutafélag um ferjulægið. Gert er ráð fyrir því að Vestmannaeyjabær muni eiga 60% í félaginu og Rangárþing eystra 40%. Aðspurður hvort höfnin verði opin öðrum skipum en fyrirhugaðri ferju segir Elliði að það verði eigenda hafnarinnar að ákvarða notkun
hennar á hverjum tíma.  Ferjulægið í Bakkafjöru mundi verða í meirihlutaeigu Vestmannaeyinga.


Óháð mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga til Eyja

Í gær ræddum við samgöngur í bæjarráði.  Svohljóðandi tillaga var samþykkt með meðfylgjandi greinargerð:

TillagaBæjarráð Vestmannaeyja leggur til við stjórnvöld að óháðu ráðgjafafyrirtæki á sviði jarðvegsrannsókna og jarðgangagerðar verði falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga milli lands og Eyja og væntanlegum kostnaði af þeim ef svo ber undir. GreinargerðÁkvörðun um framtíðar samgöngur milli lands og Eyja er stærsta ákvörðun sem tekin hefur verið í seinni tíð hvað hagsmuni Vestmannaeyja varðar.   Bæjarráð fagnar þeim mikla vilja sem nú er til staðar til að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar eins og fyrirliggjandi samgönguáætlun ber með sér.  Aldrei áður hefur verið gert ráð fyrir jafn mikilli uppbyggingu á samgöngum við Vestmannaeyja enda gert ráð fyrir að fimm milljörðum króna verði á næstu þremur árum varið til þessa verkefnis. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur forgangsraðað möguleikum þannig að jarðgöng séu besti kosturinn og þar á eftir komi ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Bakka. Þessi forgangsröðun hefur þó byggt á því að hægt sé að treysta því að allar forsendur beggja möguleika hafi verið kannaðir. Engum dylst að trúnaður ríkir ekki milli Vegagerðarinnar og Ægisdyra hvað varðar mat á forsendum fyrir jarðgangagerð milli lands og Eyja.  Báðir aðilar hafa sér til halds og trausts ábyrga og viðurkennda sérfræðinga en engu að síður hafa aðilar véfengt fullyrðingar og niðurstöður hvors annars.     Fulltrúar Ægisdyra hafa bent á að til þess að hægt sé að kostnaðarmeta jarðgöng milli lands og Eyja þurfi frekari rannsóknir að koma til en þessu hafa fulltrúar Vegagerðarinnar andmælt.  Þá hefur Vegagerðin haldið því fram að litlar viðbótarupplýsingar fáist með þeim rannsóknum sem Ægisdyr og Vestmannaeyjabær hafa ítrekað óskað eftir og talið að kostnaður vegna þessara rannsókna verði umfram áætlanir. Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur að í slíku umhverfi sé ekki hægt að komast að trúverðugum niðurstöðum um forsendur jarðganga milli lands og Eyja.  Sem fulltrúi langstærsta hagsmunaaðila leggur bæjarstjórn Vestmannaeyja því til að óháðu ráðgjafafyrirtæki á sviði jarðvegsrannsókna og jarðgangnagerðar verði falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir og væntanlegan kostnað af þeim ef svo ber undir.   Vestmannaeyjabær telur mikilvægt að slíkar niðurstöður liggi fyrir áður en endanleg ákvörðun verður tekin um framtíðar samgöngur milli lands og Eyja og því áríðandi að áhersla verði lögð á að slíkur aðili vinni áliti sitt eins hratt og auðið er. Vestmannaeyjabær telur einnig afar mikilvægt að fulltrúar Vegagerðarinnar og Ægisdyra beri báðir traust til þess aðila sem fyrir valinu verður og því er ef til vill rétt að um verði að ræða erlendan aðila, sem ekki hefur áður haft aðkomu að málinu.   Um leið leggur Vestmannaeyjabær ríka áherslu á að áfram verði haldið með rannsóknir og undirbúning gerðar hafnar í Bakkafjöru eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Von mín og trú er sú að stjórnvöld fari tafarlaust í að finna slíkan hlutlausan aðila enda það afar mikilvægt að þeim spurningum sem enn er ósvarað hvað jarðgöng varðar verði svarað núna á næstu vikum.  Stóra spurningin núna er "Þarf frekari rannsóknir til að geta metið kostnað við jarðgöng milli lands og Eyja".


Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur

Untitled-1Eðlilega hefur umræða um samgöngur fengið mikinn byr hér í Vestmannaeyjum í kjölfarið á umfjöllun um samgönguáætlun.  Eins og flestum er vel kunnugt er í henni gert ráð fyrir rétt um 5 milljörðum í gerð hafnar í Bakkafjöru sem skal verða tilbúin fyrrihluta árs 2010.  Þá er og gert ráð fyrir því að ríkið geti gert samninga við einkaaðila um fjármögnun og eignarhald og rekstri ferju sem þjónustað getur á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Bakki – Vestmannaeyjar.

Ég er sannfærður um að jarðgöng til Eyja verða að veruleika
Ég er einn af þeim sem hef alið með mér þann draum að jarðgöng til Vestmannaeyja verði að veruleika.  Ég viðurkenni að ég hef sveiflast til og frá í þeirri trú að jarðgöng verði að veruleika og þá sérstaklega í upphafi umræðu þar að lútandi.  Nú er hinsvegar svo komið að ég er sannfærður um að jarðgöng til Vestmannaeyja verða að veruleika, ef ekki núna á næstu 10 árum þá á þar næsta áratug.

Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur
Ég fagna því  að nú eigi að ráðast í framkvæmdir vegna framtíðarsamganga við Vestmannaeyjar.  Á næstu árum verður meira fé varið til framkvæmda við samgöngur til Vestmannaeyja heldur en nokkurn tíma áður.  Með nokkurri vissu má fullyrða að hér verði um öflugustu lyftistöng að ræða sem beitt hefur verið frá því að vélbátaútgerð hófst í Vestmannaeyjum.  Það skiptir okkur Eyjamenn hins vegar verulega miklu að unnið verði hratt og örugglega að varanlegum samgöngubótum enda eru samgöngur það eina sem kemst nálægt því að vera patentlausn á byggðarvanda Vestmannaeyja.  Tími er munaður sem við getum ekki leyft okkur.  Á árinu 2006 fækkaði búsettum Eyjamönnum um 100.  Með sama áframhaldi verða einungis 3500 íbúar hér eftir 5 ár.

Meira um jarðgöng
Vegagerðin og Ægisdyr hafa sér bæði til halds og trausts ábyrga og viðurkennda sérfræðinga en engu að síður hafa aðilar véfengt fullyrðingar og niðurstöður hvors annars.  Það er mín skoðun að í því umhverfi sem umræða um jarðgöng er núna sé ekki hægt að komast að trúverðugum niðurstöðum um forsendur jarðganga milli lands og Eyja.  Það er því afar mikilvægt að niðurstaða fáist í umræðu um jarðgöng áður en ákvörðun um framtíðarsamgöngur verður tekin.

Bakkafjara getur orðið mikilvægur millileikur
Verði niðurstaðan hinsvegar sú að nú strax verði ráðist í gerð á ferjulægi í Bakkafjöru þá lít ég svo á að sú framkvæmd sé millileikur þar til ráðist verður í gerð jarðganga milli lands og Eyja.  Það vita allir að jarðgöng eru langbesti kosturinn að öllu leyti og þá ekki síst hvað rekstur varðar.  Þótt uppbygging mannvirkja sem gera siglingu milli Vestmannaeyja og Bakka mögulega sé stór framkvæmd sem gerbreytir samgöngum hér, þá hefur hún lítil áhrif á þörf okkar fyrir vegtengingu.  Slík 5 milljarða framkvæmd er ekki það fjárbindandi að það þurfi að hafa áhrif á ákvörðun um jarðgöng þegar að því kemur að kostnaður við gerð jarðganga milli lands og Eyja sé óumdeilanlega hagkvæmur.  Sjálfur er ég ekki með nokkra menntun eða reynslu á sviði jarðgangagerðar og ætla því ekki að hætta mér út í umræðu um það hver raunkostnaður í dag væri.

Þurfum við að óttast að höfnin í Bakkafjöru keppi við Vestmannaeyjahöfn?
Spurning þessi er fullkomlega eðlileg enda höfnin lífæð samfélagsins og flaggskip reksturs sveitarfélagsins.  Hins vegar er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að allar áætlanir ríkisins sem og sveitarfélaganna sem verða eigendur hafnarinnar hafa gert ráð fyrir að höfnin í Bakkafjöru verði opinbert hlutafélag (ohf) í meirihluta eigu Vestmannaeyjabæjar.  Bæjarstjórn Vestmannaeyja og sveitarstjórn Rangárþings hafa báðar samþykkt tillögur þar sem gert er ráð fyrir að stofnað verði opinbert hlutafélag um rekstur Bakkafjöruhafnar og  Vestmannaeyjabær verði eigandi 60% hlutafjár í félaginu og  Rangárþing eystra með 40% hlut.  Þetta merkir að framtíð hafnarinnar er fyrst og framst undir okkur komin og forræðið verður á höndum okkar heimamanna og þá af sjálfsögðu í farsælu samstarfi við okkar góðu nágranna í Rangárþingi eystra.

Er um að ræða áætlun um litla höfn og litla ferju?
Hugtökin stór og lítil eru nú einu sinni þannig að erfitt er að segja af eða á um hvað sé stórt og hvað sé lítið.  Þegar rætt er um samgöngur er einhvern vegin eðlilegra að ræða um flutningsgetu en stærð.  En gott og vel skoðum þetta með stærðina.  Hvað stærðina varðar þá er í dag gert ráð fyrir að ferjan sem sigla á þessari leið verði um 63 metra löng og 15/16 metra breið.  Til samanburðar má nefna núverandi Herjólf sem er með skráða lengd 67 metra og 16 metra breiður (sjá www.skip.is) .   Flutningsgetan segir hinsvegar meira en stærðin.  Flutningsgeta þess skip sem í dag er rætt um eru 50 bílar og 250 farþegar og er reiknað með að skipið sigli allt að 6 ferðir á dag skv. áætlun.  Til samanburðar skulum við aftur taka Herjólf sem tekur u.þ.b. 65 bíla og 500 farþega og siglir tvær ferðir á dag.  Þetta merkir að flutningsgeta hvað fólk varðar fer úr 1000 í 1500 á dag og fjöldi bíla fer úr 130 í 300 á dag.  Annað sem máli skiptir er að fólk er langtum minna háð brottfarar og komutíma þegar hægt er að velja um 6 ferðir á dag í stað tveggja.  Svo skiptir náttúrulega höfuðmáli að skipið er ekki nema rétt um hálftíma á leiðinni.  Ferðin verður því í allan stað þægilegri en sú sem við þekkjum í dag.  Mín von, sem fulltrúi sjóveikra, er sú að lítið verði um slíka veiki enda þekkjum við sem erum sjóveik það vel að slíkur kvilli gerir yfirleitt ekki vart við sig fyrr en eftir fyrsta hálftímann.  Að tala um litla ferju og litla höfn hefur því að mínu mati lítið innihald.

Verður oft ófært?
Hér erum við komin að mínu helsta áhyggjuefni.  Það sem ég óttast eru frátafir með skipinu.  Sjálfur þekki ég álíka mikið til hafnargerðar og til jarðganga, sem sagt lítið og verð því að stóla á mér reyndari og lærðari menn í þessum málum.  Ég veit það þó að ekkert samfélag má við því að samgöngur þangað falli ítrekað niður.  Ég teldi að frátafir sem verða mikið umfram það sem í dag er með Herjólfi séu óásættanlegar og leyfi mér að gera þá kröfu að frátafir á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Bakki verði sambærilegar við það sem er í dag á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn.  Sjálfur teldi ég það nokkuð ásættanlegt ef einungis verður ófært allan daginn í 1 – 2% af tímanum (3 – 7 dagar á ári) og hálfan daginn í 2 - 4% af tímanum.  Þá er það af sjálfsögðu skýlaus krafa að hin nýja ferja geti siglt til Þorlákshafnar, sé með velti ugga og vel fari um farþega á slíkri siglingu ef sú staða kemur upp að fært sé þangað en ekki á Bakka.  Um frátafir skulum við Eyjamenn ræða við fulltrúa Siglingastofnunar þegar þeir koma hingað á föstudaginn (nánar auglýst síðar).

Að lokum þetta
Mín skoðun er því sú að fyrr eða síðar verði jarðgöng milli lands og Eyja.  Enn er ekki loku fyrir það skotið að jarðgöng geti orðið að veruleika á næstu árum og mikilvægt að ekki verði tekin ákvörðun fyrir en sá kostur hefur verið skoðaður í kjölinn.  Verði hins vegar ráðist í framkvæmdir við gerð hafnar í Bakkafjöru þá verður það einungis millileikur þangað til að jarðgöng verða að veruleika.  Verði frátafir innan þolmarka (ca. 1 – 2%) kemur höfn í Bakkafjöru til með að gerbylta samgöngum milli lands og Eyja og auka hagsæld svæðisins beggja vegna við hafið, sýnu meira þó í Vestmannaeyjum.  Hér er um stórkostlegt sóknarfæri fyrir Vestmannaeyjar að ræða og það skiptir afar miklu að Eyjamenn láti það ekki eftir sér að tala niður þennan frábæra kost verði hann ákveðinn þótt sannarlega væru jarðgöng betri kostur. 


"Frasar" okkar Eyjamanna

1068204577_afHa2Ég hef í dag verið að fara í gegnum ýmis gögn hér á skrifstofunni hjá mér í ráðhúsinu.  Það er oft ágætis leið til slökunar eftir annasama vinnuviku að taka til á skrifstofunni og rifja upp innihald einhvers þess mikla magns af skýrslum, minnisblöðum og hverskonar úttektum sem fylla þó nokkra hillumetra hér í hillunum í kringum mig.

Eitt af því sem ég staldraði við var úrvinnsla Alta á íbúaþingi því sem fyrir skömmu fór fram hér í Vestmannaeyjum.  Eitt af því sem þeir gerðu var að fara yfir nokkra af þeim “frösum” sem þeir hnutu um í samtölum sínum við okkur Eyjamenn.

Ég vitna hér í skýrslu Alta:

Sagt var:
„Flutningskostnaður er of hár”
Þó er fiskur í neytendaumbúðum, sem er pakkað á Selfossi, seldur í verslunum í Eyjum – en þar er engin fiskbúð. Sérunnið sjávarfang, t.d. borgfirskt rækjusalat, er selt á Ísafirði og hefur þá líklega staldrað við tvisvar í Reykjavík, bæði sem hráefni og sem vara í dreifingu. Af þessu má draga þá ályktun að vara er misviðkvæm fyrir flutningskostnaði.

Sagt var
„Það er nauðsynlegt að fá hraðskreiðari ferju”
Þó styttist heildarferðatími aðeins 20% þegar miðað er við að ferð Herjólfs styttist um 45 mínútur af u.þ.b. 4 klst heildarferðatíma frá húsi í Eyjum til húss í Reykjavík.

Sagt var:
„Við þurfum háskóla- og rannsóknasetur”
Það er vissulega mikilvægt en stundum kom þetta fram sem ósk um störfin sem þessum stofnunum fylgja fremur en þekkinguna sem þær veita. Ekkert kom fram um á hvaða sviðum Eyjamenn þyrftu að styrkja þekkingu sína til að spjara sig betur í samkeppni.

Sagt var:
„Við þurfum fleiri störf”
Þó viðurkenna heimamenn að vera neikvæðir og öfundast út í velgengni annarra.

Að mati Alta gefa fyrrgreind skilaboð, ásamt ýmsu fleiru, vísbendingu um að samfélagið hafi ekki gert sér grein fyrir því að varanleg breyting er að verða og að í stað þess að viðurkenna breytingarnar og takast á við þær er beðið eftir reddingu.

Ég viðurkenni það fúslega að alla ofangreinda “frasa” hef ég notað og nota enn.  Þessi úrvinnsla Alta hefur ekki breytt því.  Engu að síður eru þessar ábendingar þeirra góð áminning um að það veldur hver á heldur. Hár flutningskostnaður, hægfara Herjólfur, þörf á öflugra háskóla- og rannsóknarsetri, fjölgun fjölbreyttra starfa auk annarra vel þekktra staðreynda eru meðal þeirra mörgu verkefna sem við Eyjamenn verðum að leysa. 

Ekkert af þessu er óyfirstíganlegt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband