Enn blæðir úr samgöngusárinu, ekkert bólar á næturferðaplástrinum

IMG_2468Þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnar íslands um að fjölga ferðum með Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi um 20 í sumar bólar ekkert á slíkri viðbót.  Samkvæmt upplýsingum dugar það fjármagn sem ríkisstjórnin og samgönguráðuneytið höfðu áætlað til þessara ferða ekki til. 

Mín skoðun er sú að ástandið sé algerlega óásættanlegt.  Í byrjun júní lásum við Eyjamenn í fjölmiðlum að ríkisstjórnin myndi verða við óskum bæjarstjórnar og fjölga ferðum yfir álagspunkta enda það afar bagalegt að heimamenn geti ekki komist til og frá Vestmannaeyjum svo ekki sé nú minnst á skerðinguna í ferðaþjónustunni.  Staðan nú er einfaldlega sú að flestar helgar í sumar er erfitt og stundum ómögulegt fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar að ferðast til og frá Eyjum. 

Þessar 20 ferðir sem búið var að lofa eru náttúrulega nauðsynlegur plástur á samgöngusárið sem hér blæðir úr.  Það sem til þarf er að tafarlaust verði fengin nýrri og öflugri ferja sem leyst geti þessa af þar til við sjáum framtíðarsamgöngur komast á.  Þrátt fyrir hina margrómuðu glaðværð og hinn mikla baráttuhug okkar Eyjamanna þá erum við orðnir langþreyttir.  Við ætlum þó ekki að gefast upp og trúum því að staðið verði við gefin loforð.

Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum unnið okkar heimavinnu vandlega hvað þessar næturferðir varðar og lagt áherslu á að kortleggja helstu flöskuhálsa.  Þeirri vinnu lukum við fyrir dágóðum tíma og óskuðum þá eftir 20 ferðum og tiltókum dagsetningar enda mikilvægt að geta auglýst þessa þjónustu.  Það er því verulega slæmt að enn liggi ekki fyrir hvort né hvenær þessar ferðir verði farnar.

Til þess að vinna okkur tíma og bregðast við nærtækasta vandanum hefur Vestmannaeyjabær nú gripið til þess ráðs að óska eftir því að Herjólfur sigli þær 5 næturferðir sem kveðið er á um í gildandi samningum í kringum Shellmót og Goslokahátíð.  Sú ákvörðun hefur því verið tekin að nú fyrir Shellmót verða næturferðir farnar á morgun miðvikudag 27. júní, á fimmtudag 28. júní. og svo aftur á sunnudag 1. júlí kl. 23.00.   Í kringum Goslokahátíð hefur tveimur næturferðum verið bætt við þ.e.a.s. á fimmtudeginum 5. júlí og á sunnudeginum 8. júlí.  Þar með er núverandi svigrúm Vestmannaeyjabæjar til að biðja um næturferðir búið.  Þetta gerum við hinsvegar í þeirri trú að þessar tvær vikur sem við brúum með þessu verði notaðar til að efna gefin loforð um 20 næturferðir.  Ef ekki þá er hætt við að hér verði ófremdar ástand flestar helgar svo ekki sé nú minnst á til dæmis Þjóðhátíð þegar von er á 7 til 8 þúsund gestum. 

Svona hljóðaði fréttatilkynning samgönguráðuneytisins:

Ferðum Herjólfs fjölgað í sumar
12.6.2007

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgönguráðherra ákveðið að ferðum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs verði fjölgað í sumar. Áætlað er að bæta við rúmlega 20 ferðum á mikilvægum ferðadögum og þá daga verða því þrjár ferðir á dag.

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgönguráðherra ákveðið að ferðum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs verði fjölgað í sumar. Áætlað er að bæta við rúmlega 20 ferðum á mikilvægum ferðadögum og þá daga verða því þrjár ferðir á dag.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að beiðni hafi borist frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um að bæta við þriðju ferð Herjólfs á mikilvægum ferðadögum í sumar. Er einkum horft til nætuferða á föstudögum en aðrir dagar, þegar vænta má mikils straums ferðamanna og eftirspurn er mikil vegna flutnings á bílum með fylgivagna, koma einnig til greina.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna rúmlega 20 ferða verði kringum 30 milljónir króna. Samgönguráðherra segir mikilvægt að geta orðið strax við þessari ósk Vestmannaeyinga um fjölgun ferða og mun Eimskip, sem rekur Herjólf, tilgreina nánari tilhögun aukaferðanna.

 


mbl.is Eimskip krefjast meira fyrir aukaferðir Herjólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mátti ef til vill litlu muna að ég yrði framskóknarmaður?

Gústi og JókaÉg eins og svo margir hef gaman af hvers konar grúski.  Margir tímar geta horfið við að skoða myndir frá ömmu og afa, lesa Blik, rýna í gömul sendibréf sem varðveist hafa í fjölskyldunni og þannig mætti áfram telja.

Reyndar hef ég það forskot að búa svo vel að hún móðir mín heillin og systur hennar eru ákafir grúskarar og gauka að mér því sem þær telja að mér þyki álitlegt.  Í gær eftir bæjarstjórnarfund fór ég til þeirra systranna í kaffi og þá laumuðu þær að mér þessari mynd sem fylgir bloggi þessu.  Á henni má sjá faðir Guðna Ágústssonar, Gústa á Brúnastöðum og hana ömmu mína, Jóku á Kirkjubæ.

Augljóslega hefur farið vel á með þeim þegar myndin er tekin enda amma mín fríðust kvenna og Gústi stæðilegur.  Hugur þeirra hvors til annars náði þó aldrei öðrum hæðum en vinarhug.  Kannski sem betur fer því þá væri annað hvort Guðni sjálfstæðismaður eða ég framsóknarmaður.  Hvorutveggja þætti mér vont þótt ég meti fáa stjórnmálamenn meira en vin minn Guðna Ágústsson.


Skaðleg ummæli stjórnmálamanna!!!

IMG_1580Kvótakerfið hefur mikið verið rætt seinustu daga.  Ég óttast að þessi umræða sé skaðleg fyrir sjávarútveginn og sjávarbyggðir eins og Vestmannaeyjar, Grindavík og fleiri.  Það er erfitt fyrir fyrirræki að ætla sér að byggja upp á meðan stöðugt er verið að hóta þeim eignaupptöku.  Hér í Eyjum hafa sjávarútvegsfyrirtæki ráðgert að ráðast í  fjárfestingar í landvinnslu fyrir hundruði milljóna og má þar nefna algera endurnýjun vinnslulína, byggingar á frystigeymslum, endurnýjun hráefnistanka, kaup á skipum, kaup á aflaheimildum og fleira. Svipaða sögu er að segja  um sveitarfélagið sem kappkostar að veita útgerðum úrvalsþjónustu og hefur í hyggju að ráðast í uppbyggingu á upptökumannvirki, endurbætur á hafnarmannvirkjum og fleira.  Yfirlýsingar af þeirri gerð sem við höfum orðið vitni af hjá ákveðnum stjórnmálamönnum eru ekki til þess fallnar að hvetja fólk til dáða í þessum atvinnuvegi og auðvitað óttast maður afleiðingarnar. 

Hversu viljugt væri hugbúnaðarfyrirtæki til að fjárfesta í markaðssetningu, skrifstofuaðstöðu, þróunarvinnu og fleira ef yfir þeim myndi vofa sambærileg hætta og nú vofir yfir sjávarútvegsfyrirtækjum?

Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að kvótakerfið sé stöðugt til endurskoðunar.  Þannig mætti með einföldum hætti sníða ákveðna agnúa af því til dæmis með því að auka veiðskyldu og fleira.


Kvótakerfið er hvorki upphaf né endir á vanda landsbyggðarinnar

Í gær fagnaði íslenska þjóðin 63 ára afmæli lýðveldisins.  Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að flytja hátíðarræðu á Stakkagerðistúni.  Þótt tilefnið hafi verið afmæli lýðveldisins þá tók ég mér þann rétt að tala fyrst og fremst um málefni Vestmannaeyja. 

Sjálfum þykir mér vænst um þá tvo kafla sem hér fara á eftir:

----

Ég þreytist aldrei á að brýna fyrir þeim sem hæst tala um gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og tilflutning aflaheimilda að hafa það hugfast að hér í Eyjum - í þessari verstöð sem í gegnum aldirnar hefur verið burðarás í íslenskri útgerðarsögu-, er kvótastaða sterk.  Þrátt fyrir það hefur byggðin átt verulega undir högg að sækja.  Kvótakerfið svo kallaða er sannarlega ekki fullkomið.  Þvert á móti eru á því meinlegir gallar og eðlilegt og sjálfsagt að það sé í stöðugri endurskoðun.  Kvótakerfið er hinsvegar hvorki upphaf né endir á erfiðleikum landsbyggðarinnar.  Ráðandi aðilar verða að vinna sína heimavinnu og horfast í augu við eigið aðgerðarleysi í ýmsum málum en fela sig ekki á bak við umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið.  Þessir aðilar verða að skoða málið í heild sinni og gera okkur íbúum meðfram strandlengjunni kleyft að aðlagast breyttum tíðaranda og er mér þá efst í huga uppbygging á samgöngum, menntun og opinberrar þjónustu.

---------

Með bjartsýni og djörfung að leiðarljósi getum við Vestmannaeyingar horft keikir til framtíðar. Það er gaman að segja frá því að í fyrsta skipti í mörg ár hefur okkur íbúum í Vestmannaeyjum fjölgað á fyrrihluta ársins.  Við Eyjamenn höfum beitt aðlögunarhæfninni sem ég trúi að sé svo vandlega ofin í Eyjasálina okkar. Við ætlum að halda áfram að aðlagast breyttum aðstæðum og leita nýrra tækifæra líkt og forfeður okkar gerðu í upphafi síðustu aldar. Við snúum ekki til fyrra horfs – það kennir sagan okkur. Við ætlum að skapa okkur sérstöðu sem byggir á gömlum grunni - sérfræðiþekkingunni í sjávarútvegi– en með nýjum áherslum og aukinni víðsýni.  Við ætlum áfram að virkja frumkvöðlakraftinn sem býr í okkur Eyjamönnum, þann sama og sveif yfir vötnum fyrir rétt rúmum hundrað árum þegar Eyjamenn leiddu vélbátaþróun Íslendinga, enda eru vaxtarbroddarnir allt í kringum okkur ef vel er að gáð. Þeir kunna að vera litlir en þeir eru vísbending um það sem mun verða ef rétt er á haldið. Látum aldrei aftur úrtöluraddir draga úr okkur mátt heldur verum stolt og upplitsdjörf.  Verjum atvinnulíf okkar og eflum það.  Stöndum saman og gleymum aldrei að Eyjahjartað slær öðruvísi en hjörtu annarra landsmanna.  Eyjahjartað er sterkasta vopnið í baráttu okkar.  Því eins og ég sagði áðan þá er sjálfstæðisbarátta okkar Eyjamanna hafin og hana ætlum við okkur að vinna.

 

Ræðan í heild má lesa með því að smella hér:  17. júní 2007


Svohljóðandi yfirlýsingu höfum við bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins sent fjölmiðlum

 

Hörmum óábyrga umræðu Vestmannaeyjalistans um höfn við Bakkafjöru 

baejarfulltruar_d_listaVegna skrifa bæjarfulltrúa minnihlutans um samgöngur vill meirihluti sjálfstæðismanna koma eftirfarandi á framfæri. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hingað til verið algerlega samstíga í umfjöllun og áherslum hvað framtíðarsamgöngur varðar. Lögð hefur verið áhersla á vönduð vinnubrögð og rík krafa gerð til rannsóknastofnana um vinnubrögð og miðlun upplýsinga.

Þá hefur einnig verð lögð rík áhersla á að samráð væri haft við sjómenn í Vestmannaeyjum í könnun á möguleikum tengdum Bakkafjöru rétt eins og jákvæð samvinna við Ægisdyr vegna jarðganga.

Ferð sú er tveir af sjö bæjarfulltrúum Vestmannaeyja fóru á Lóðsinum, lóðsbát Vestmannaeyjahafnar, og orðið hefur tilefni umfjöllunar í fjölmiðlum var farin án vitneskju bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Að ferð lokinni höfðu viðkomandi tveir bæjarfulltrúar samband við bæjarstjóra og lýstu áhyggjum sínum.  Bæjarstjóri tók þá strax fram að hann deildi þessum áhyggjum með þeim og myndi í kjölfarið óska eftir viðbrögðum frá Siglingastofnun.  Bæjarstjóra var þá tjáð að tekið hefði verið upp á myndband þegar brot reið yfir og óskaði hann eftir afriti af því til að hægt væri að fá viðbrögð hjá Siglingastofnun sem hefur verið ábyrg fyrir rannsóknum á Bakkafjöru.  Rétt er að taka það fram að bæjarfulltrúar V- listans hafa enn ekki komið afriti af því til bæjarstjóra.

Bæjarstjóri setti sig án tafar í samband við Siglingastofnun og óskaði eftir viðbrögðum við skrifum Sveins Rúnars Valgeirssonar skipstjóra á Lóðsinum þar sem viðkomandi áhyggjum var lýst á málefnanlegan máta.  Einnig óskaði hann eftir upplýsingum um hversu frátafir hefðu verið miklar frá því um áramót og hvort ekki væri eðlilegt að frekari raunathuganir færu fram á vettvangi eins og Sveinn Rúnar og fleiri höfðu bent á.  Svör bárust frá Siglingastofnun á mánudaginn.

Í bréfi siglingastofnunar segir m.a.:Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefur lagt til að fengið verði skip til að kanna aðstæður og afla reynslu af umhverfinu undan Bakkafjöru. Siglingastofnun tekur undir þessa tillögu.

Bæjarstjóri fór án tafar með viðkomandi upplýsingar til Sveins Rúnars Valgeirssonar auk þeirra tveggja bæjarfulltrúa sem fóru í umrædda siglingu.  Einungis annar þeirra var heima þegar bæjarstjóri fór með bréfið til þeirra.  Í samræðum bæjarstjóra og viðkomandi bæjarfulltrúa voru þeir sammála um að mikilvægt væri að staldra við og skoða þessi mál betur enda framtíð sveitarfélagsins í húfi.

Undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þá ákvörðun V-listans að reyna að skapa sér stöðu í umræðu um samgöngur nú í aðdraganda kosninga með óábyrgri umræðu um einn af þeim kostum sem til skoðunar eru.  Bæjarfulltrúarnir voru vel meðvitaðir um vilja Siglingastofnunar til að kanna aðstæður betur enda var þeim manna fyrst afhent fyrrgreind greinargerð.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mun hér eftir sem hingað til sýna festu og ábyrgð í umfjöllun um samgöngur með hag Vestmannaeyinga að leiðarljósi.  Pólitísk upphlaup og hróp á götuhornum verða ekki til að bæta samgöngur.

Bakkafjara kann að vera raunhæfur kostur og mikilvægt kanna vandlega forsendur þess kosts. Til þess að það sé hægt þarf að leggja áframhaldandi áherslu á samstarf milli heimamanna og Siglingastofnunar.  Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mun þó standa við þá forgangsröðun sem áður hefur verið lýst og horfa á jarðöng sem fyrsta kost.  Ófrávíkjanleg krafa er að ekki verði ráðist í framkvæmdir við aðra kosti fyrr en nauðsynlegar rannsóknir vegna jarðganga hafa átt sér stað.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Sem sagt við sem sitjum í meirihluta bæjarstjórnar munum ekki taka þátt í pólitísku uppboði um samgöngumál né hlaupa útundan okkur við ágjöf.  Við ætlum að fá því svarað hvort jarðgöng séu fjárhagslega framkæmanleg og ef svo þá verður sú leið farin.  Svo mörg eru þau orð.

Séu jarðgöng ekki fjárhagslega framkvæmanleg þá verður að leita annarra leiða og þá er einungis hægt að bæta samgöngur á sjó.

Hitt er svo annað mál að Herjólfur sá er nú siglir getur ekki veitt okkur viðunandi þjónustu og því þarf að ráðast tafarlaust í úrbætur. 


Skyldi Ögmundur vera fjármálaráðherraefni VG?

42911_hitaveitan[1]Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ríkið hefur nú selt 15,203% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.  Í ársskýrslu HV fyrir árið 2006 er hluturinn metinn á 1.133.356.000 kr. (rúman einn komma einn milljarð).  Kaupandinn Geysir Green Energy mun hinsvegar greiða 7.617.000.000 kr. (rúmlega sjö og hálfan milljarð) fyrir hlutann.  Með þessu er ríkið að losa um eignir og koma þeim í hendur einkaaðila.  Eins og með aðra fjármuni ríkisins mun söluandvirðið verða nýtt til að bæta lífskjör í landinu.

Vestmannaeyjabær á skv. fyrrgreindri ársskýrslu 6.878% hlut í þessu verðmæta fyrirtæki eða 512.756.280 að nafnvirði.  Hlut þennan eignaðist bærinn þegar það heillaskref var tekið að sameina Bæjarveitur Vestmannaeyja við HV.  Á sínum tíma var sú aðgerð mjög umdeild og þótti vinstrimönnum í Vestmannaeyjum þetta mikið óheillaskref.  Miðað við gengið á bréfum ríkisins er hluti Vestmannaeyjabæjar nú 3.446.234.957 (rétt tæpir þrír og hálfur milljarður).  Þá er einnig rétt að halda því til haga að HV hefur nú skrifað undir kaupsamning á nýrri vatnslögn til Vestmannaeyja sem kemur sennilega til með að kosta um milljarð.  Slíkt hefði orðið þungur biti fyrir Bæjarveitur Vestmannaeyja.

Sem stjórnarmanni í HV og bæjarstjóra í sveitarfélagi sem á verðmætan hlut í þessu góða fyrirtæki þá vakti það undrun mína það sem fram kom í 1. maí ræðu Ögmunds Jónassonar þinglokksformanns Vinstri grænna, en þar sagði hann það “siðlaust” af ríkinu að selja sinn hlut.

Þeir sem telja að Vinstri grænir hafi verið að mildast í afstöðu sinni til markaðslögmálanna og tali nú af aukinni ábyrgð um efnahagsmál þurfa væntanlega að endurskoða það mat.  Í ræðunni velti Ögmundur því m.a. fyrir sér hvernig standi á því að auðmennirnir stofni aldrei nein ný fyrirtæki, skapi ekki ný atvinnutækifæri, finni aldrei neitt upp og fái aldrei neinar hugmyndir.

Steininn tók þó úr þegar Ögmundur lýsti sýn sinni á „auðmennina“ með eftirfarandi dæmisögu:
„Þekkt er sagan af froskinum og sporðdrekanum sem sátu við árbakkann. Sporðdrekinn bað froskinn um far en froskurinn taldi það hættuspil fyrir sig. „Hví skyldi ég stinga þig,“ sagði sporðdrekinn, „þá myndum við báðir deyja?“ Satt er það sagði froskurinn og lagði til sunds með sporðdrekann á bakinu. Í miðri ánni, fann froskurinn skerandi sting í bakinu. Sporðdrekinn hafði stungið hann dauðastungu. „Hvers vegna gerðirðu þetta?“ sagði froskurinn, „nú munum við báðir deyja?“ „Ég get ekki annað,“ sagði sporðdrekinn, „þetta er mitt eðli“. Auðmenn gera sitt gagn í samhengi hlutanna. En við skulum muna að flytja engan þeirra yfir ána án þess að hafa vara á okkur.“

Þetta er áhugaverð sýn þingflokksformanns Vinstri grænna á eðli "auðmanna" og ágætis áminning um að Vinstri grænir eru ekki bara grænir.  Skyldi Ögmundur vera fjármálaráðherraefni VG?


380 ár frá Tyrkjaráninu

tyrkjaran copyÍ ár eru 380 ár liðin frá Tyrkjaráninu, skelfilegasta sjóráni í sögu Íslands.  Af því tilefni mun Vestmannaeyjabær standa fyrir margvíslegum viðburðum til að minnast þessa viðburðar og fórnarlamba hryðjuverkana.  Upphaf minningarviðburða ársins og þjóðlagadagskrá er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. 

Tengsl þessi við Listahátíðina eru okkur Eyjamönnum afar mikilvæg þar sem þau bæði gera okkur kleift að gera dagskránna veglegri en ella og auðvelda okkur markaðsetningu á þessum magnaða viðburði. Upphaf minningarviðburða ársins og þjóðlagadaskrá því tengd verður haldin hér í Vestmannaeyjum 15. maí kl. 17.00 í Vélasalnum. 

Þar er um að ræða sýningu sem opnuð verður af Ólafi Ragnari Grímssyni forseta vorum, sem ber heitið “Sjónræningjar og kristnir þrælar – ferðir og örlög fórnarlamba Tyrkjaránsins”.  Sýning þessi er afar vönduð og var upphaflega sett upp árið 2004 í Fiskeri og Söfartsmuseet í Esbjerg í Danmörku.  Þar vakti hún verðskuldaða athygli sem varð til þess að hún var ári síðar sett upp í Osló.  Á sýningunni er lífi hinna mörg þúsund manna sem alsírsku sjóræningjarnir rændu gerð ítarleg skil í máli og myndum. 

Það á vel við að setja sýninguna upp í Vestmannaeyjum, því Tyrkjaránið kom hvað harðast niður á Vestmannaeyingum.  Af þeim um 400 karlmönnum og konum sem rænt var á Íslandi voru 242 frá Eyjum.  Uppsetning sýningarinnar er í höndum Ólafs J. Engilbertssonar hjá Sögumiðlun ehf.

Í framhaldi af opnuninni, eða kl. 18.00, verður þjóðlagadagskráin “Þjóðlög frá dögum Tyrkjaránsins – dagskrá í tali og tónum” flutt í Gömlu Höllinni í Eyjum.  Um er að ræða tveggja tíma dagskrá þar sem dregin er fram íslensk þjóðlagahefð, annars vegar eins og hún birtist í íslenskum handritum nálægt tíma Tyrkjaránsins (1627) og hinsvegar með sérstakri skírskotun til arfleiðar frá Vestmannaeyjum frá svipuðum tíma og síðar.  Flutt verða áður óþekkt þjóðlög frá tíma Tyrkjaránsins og eftir suma af þeim er þar komu helst við sögu.  Tónlistarmennirnir sem fram koma eru m.a. Steingrímur Guðmundsson og Hilmar Örn Agnarsson.

Af ofansögðu má ljóst vera að Vestmannaeyjabær ætlar sér að láta einskis ófreistað til að heiðra minningu fórnarlamba þessara voðaverka.  Viðburður þessi er einstakur og í mínum huga er það ljóst að hér felast tækifæri fyrir aðila í ferðaþjónustu.  Ástæða er til að hvetja slíka aðila til að notfæra sér þessi tækifæri og skipuleggja dagskrá og þjónustu í tengslum við dagskrá Vestmannaeyjabæjar.  Þannig mætti vera með sérstaka matseðla, tónlistaratriði, drykki og þar fram eftir götunum.

Tækifærin eru víða, en það verður hver að grípa sín tækifæri.  Ef til vill sjá einhverjir tækifæri í þessu framtaki Vestmannaeyjabæjar.


Mikil batamerki á rekstri

Það er oft gaman að leika sér með fyrirsagnir.  Yfirskrift þessarar fréttar hefði einnig getað verið "Mikil batamerki á rekstri Vestmannaeyjabæjar", "Dregur úr tapi Vestmannaeyjabæjar" og "Vestmannaeyjabær á réttri leið".

Fróðlegt væri að vita hver valdi þessa leiðinda fyrirsögn.  Ég hvet fólk til að lesa alla fréttina en þar segir m.a.:

"Rekstrarafkoman batnar verulega á árinu 2006 miðað við árið áður. Þannig batnar rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði um 226 m. kr. og rekstrarniðurstaða
batnar um 119 m. kr."

 


mbl.is Tap á rekstri Vestmannaeyjabæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar breytinganna vegna

listiNúna í aðdraganda kosninga fjölgar þeim ört stjórnarandstæðingunum sem halda því fram að það þurfi að skipta um ríkisstjórn einfaldlega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið svo lengi við völd. Við Eyjamenn erum nú á stuttum tíma að heyra þessi rök í annað skipti.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2002 gekk Samfylkingin í Vestmannaeyjum (V-listinn) fram undir nákvæmlega þessum formerkjum.  Sjálfstæðisflokkurinn hafði þá setið í meirihluta í Vestmannaeyjum í 12 ár og skilaboð V-listans voru "Breytum breytinganna vegna".  Auðvitað var einnig bent á margt sem betur mátti fara og sumt sem var í góðu lagi gert tortryggilegt svo sem framkvæmdir í miðbænum sem svo tókust mjög vel.

Þegar upp var staðið tókst þetta herbragð og fyrir það ber að hrósa áróðursmeisturum.  Kjörtímabilið sem fylgdi var hinsvegar langt frá því að vera Vestmannaeyjum til hagsbóta.

Ég hef því ekki trú á að hér í Eyjum bíti menn tvisvar á þennan sama ryðgaða öngul.  Þegar við göngum til kosninga skulum við einfaldlega vega og meta hvaða flokki við treystum best til að leiða landið allt til móts við nýja tíma. 

Fyrir þá sem óttast að ekki verði einhverjar breytingar er einnig vert að benda á þá miklu endurnýjun sem orðið hefur í Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt nýjustu könnunum stefnir í að þingmannahópur flokksins verði nærri því helmingur nýir þingmenn.

Þá er einnig athyglisvert að spá í því að miðað við nýjar skoðanakannanir í Suðurkjördæmi verða einungis tvær konur á suðurlandi á þingi þær Björk og Unnur Brá sem báðar eru á lista Sjálfstæðisflokksins.


Lýst eftir manni

Ég hef í dálítinn tíma verið að leita að netfangi hjá þeim mikla öðlingi og vini mínum Arnljóti Bjarka Bergssyni en það ekki gengið.  Ef einhver þekkir netfang þess heiðursmanns þá bið ég hann um að setja það inn í "Kommentið". 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband