Fréttatilkynning, erum ekki á leið í framboð

web_xdVið bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum höfum nú sent frá okkur svo hljóðandi fréttatilkynningu: 

Ákveðið hefur verið að prófkjör um val frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar vorið 2009 fari fram 14. mars næstkomandi. Eins og ætíð eru margir orðaðir við prófkjörsframboð enda rík krafa um endurnýjun í kjördæminu.  Meðal þeirra sem títt eru orðuð við framboð erum við undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.

Eftir að ákvörðun var tekin um prófkjör höfum við fundið fyrir miklum stuðningi víðsvegar úr kjördæminu og þykir okkur vænt um þann stuðning.  Enn vænna þykir okkur þó um hvatningu íbúa í Vestmannaeyjum um að halda áfram þeim störfum sem unnin hafa verið á kjörtímabilinu.

Staða Vestmannaeyja er um þessar mundir afar sterk og hefur íbúum nú tekið að fjölga í fyrsta skipti í 18 ár.  Atvinnulíf samfélagsins stendur styrkum stoðum og útlit er fyrir að svo verði áfram.  Skuldir hafa verið greiddar niður um 1,2 milljarða og engin ný lán verið tekin á kjörtímabilinu.  Bæjarsjóður Vetmannaeyja er rekinn hallalaust og skilar rekstrarafgangi.  Miklar verklegar framkvæmdir hafa verið settar í gang og enn fleiri eru framundan.  Stutt er orðið í gríðarlegar framfarir í kjölfar breyttra samgangna þegar Herjólfur hefur siglingar í Land-Eyjahöfn 1. júlí 2010.  Þar með verður hægt að sigla 7 sinnum á dag á 25 mínútum milli lands og Eyja í stað þriggja klukkutíma tvisvar á dag.  Vestmannaeyingar geisla nú af sjálfstrausti, samhug og trú á framtíðina enda er hún björt fyrir Vestmannaeyjar.

Hinu er þó ekki að leyna að blikur eru á lofti og mikilvægt að sofna ekki á verðinum.  Staðan á fjármálamarkaði er viðsjárverð. Ríkið hyggst draga verulega úr sínum rekstri og þótt þenslan hafi ekki náð til Vetmannaeyja virðist stefnt að niðurskurði þar.  Ákveðnir stjórnmálaflokkar stefna leynt og ljóst að ákvörðunum sem kunna að stofna framtíð Vestmannaeyja í hættu.   Klær kreppunnar ná því miður til Vestmannaeyja eins og annarra staða. Vænleg staða getur því verið fljót að breytast til hins verra ef ekki er gætt að.

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum því tekið sameiginlega ákvörðun um að rjúfa ekki þá samstöðu sem verið hefur um störf bæjarstjórnar Vestmannaeyja.  Það hefur aldrei þótt hyggilegt að skipta um klár í miðri á og þá sérstaklega ekki þegar áin er straumþung og erfið viðureignar.  Við undirrituð fengum traust bæjarbúa til að ljá bæjarfélaginu starfskrafta okkar í fjögur ár og fyrir það erum við þakklát.  Við teljum því ekki rétt að hverfa frá störfum á okkar fyrsta kjörtímabili.

Við munum því ekki gefa kost á okkur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri
Páley Borgþórsdóttir, bæjarfulltrúi
Páll Marvin Jónsson, bæjarfulltrúi
Gunnlaugur Grettisson, bæjarfulltrúi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband