Fjarvinnsluver opnað í Vestmannaeyjum

IMG_1222Í gær undirritaði ég samning við Þjóðskjalasafnið um opnun útibús safnsins hér í Vestmannaeyjum.  Samkvæmt honum verða íslensk manntöl tölvuskráð hér í Eyjum og gerð aðgengileg almenningi. Útibúið hér er hið fyrsta af þremur sem opnuð verða á næstu vikum þar sem manntöl verða skráð rafrænt.

Við fjarvinnsluverið hér í Eyjum vinna nú sex starfsmenn í hálfu starfi. Verkefnið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta en alls verða veittar um 240 milljónir króna í verkefnið til ársloka 2009. Fénu er skipt í tvennt, 60% fara í skjalaskráningu og umpökkun en 40% í skráningu manntala.

Stefnt er að því að tíu manntöl frá 19. og 20. öld verði slegin inn og gerð aðgengileg á vefnum en alls verða til um 22 ársverk á landsbyggðinni vegna skráningarinnar. Allt ný störf.

Ólafur Ásgeirssonar, þjóðskjalavörður, hélt stutta tölu í tilefni af opnun útibúsins hér.  Í máli hans kom m.a. fram að eitt helsta verkefni safnsins sé að tölvusetja íslensk manntöl og veita aðgang að þeim á netinu.

Ólafur sagði ennfremur að manntölin nýttust mörgum fræðigreinum, sagnfræði, félagsfræði, landafræði, ættfræði og mannanafnafræði svo dæmi séu tekin og því mikilvægt að koma manntölunum í aðgengilegt form.

Við hjá Vestmannaeyjabæ lítum á þetta verkefni sem tækifæri til að þróa hjá okkur þekkingu og hæfileika til að sinna hverskonar bakvinnslu.  Ég tel það engum vafa undirorpið að mikla hagræðingu megi finna víða í ríkisrekstri með því að flytja störf úr dýrum fasteignum þar sem starfsmannavelta er mikil yfir til okkar sem getum boðið hagkvæmt húsnæði auk hæfs og stöðugs starfsfólks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Blessaður Elliði. Vart trúi ég, að mótvægisaðgerðir sjónarinnar til handa okkur hér í Eyjum séu aðeins þrjú heil störf? Eitthvað fleira hlýtur að vera í spilunum ég trúi ekki öðru. Fróðlegt væri Elliði, að vita hvort þetta er allt og sumt þar sem mér og sjálfsagt fleirum þykir þetta ansi rýrt í roðinu?

Þorkell Sigurjónsson, 14.2.2008 kl. 11:53

2 Smámynd: Elliði Vignisson

Sæll Keli minn gamli vin

Auðvitað er þetta einungis lítill dropi til móts það haf sem við missum.  Áður hefur ýmislegt komið til.  Fjármagni hefur verið varið til Framhaldsskólans, Þekkingaseturs, viðhalds á ríkishúsnæði og ýmsu fleira.  Bæði okkur hjá Vestmannaeyjabæ og þeim hjá ríkinu er ljóst að enn þarf mikið meira að koma til ef ekki á illa að fara.  Við höfum fyrir augunum bein áhrif niðurskurðar á þorskkvóta, fólki sagt upp, bátar seldir úr bænum og fleira.  Það sem ef til vill færri gera sér grein fyrir er að útgerðarmyndstrið breytist líka við þetta þegar bátarnir flýja þorskin og sækja austur á ýsumiðin.  Síðan landa bátarnir þar og minni afli kemur að hér.

Sem sagt Keili, þessi störf fyrir þessar sex konur eru góðra gjalda verð en þau ein og sér væru nú rýr í roðinu.

Elliði Vignisson, 14.2.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband