Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
15.2.2007 | 22:06
Surtsey er ein af mörgum perlum Vestmannaeyja
23. september 2005 var haldin ráðstefna í Vestmannaeyjum þar sem fjallað var um eina af perlum Vestmannaeyja, Surtsey. Síðan þá hefur í raun lítið gerst hvað varðar þessa perlu.
Staðan nú er því eins og hún hefur verið frá því að Surtsey gaus, Vestmannaeyjum gagnast það lítið að vera með eitt af sérstæðustu náttúruundrum veraldar í túnfætinum (eða réttara sagt á haffletinum) hjá sér. Það er afar mikilvægt að þetta breytist í nánustu framtíð. Vilji sveitafélagsins er að nýta sóknarfæri eyjarinnar og þá bæði tengt vísindarannsóknum og ferðaþjónustu.
Í þessu sambandi skiptir samvinna Vestmannaeyjabæjar og ríkisins miklu. Lykilstofnun í þessu öllu er umhverfisráðuneytið og umhverfisstofnun. Það er jú hlutverk umhverfisstofnunar að veita fræðslu á náttúruverndarsvæðum, eins og Surtsey er, og reka gestastofur í tengslum við þau. Af einhverjum orsökum sem mér eru ekki kunnug hefur slíkt ekki verið gert í tengslum við Surtsey. Nú eru hinsvegar blikur á lofti og rætt um að stofnsetja Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum. Eitt af hlutverkum Surtseyjarstofu verður væntanlega að vera fræðslu- og vísindamiðstöð þessarar merku perlu þar sem gestum og gangandi er veitt fræðsla um viðkomandi svæði um leið og þar verður miðstöð allra rannsókna tengdum eynni.
Surtseyjarstofa ætti að mínu viti að hýsa niðurstöður þeirra rannsókna sem þar hafa verið gerðar, upplýsingar um þær rannsóknir sem eru í á hverjum tíma og almennt fræðsluefni um náttúrufar og jarðfræði svæðisins. Vafalaust myndi skapast færi til að standa fyrir uppsetningum á styttri sýningum þar sem ákveðin atriði yrðu kynnt ítarlega. Gagnvirkt fræðsluefni sem kristallaði töfra jarðfræði þessa svæðis gæti hæglega tengt saman myndun Surtseyjar, úteyjanna og Heimaeyjar.
Allar eyjarnar í Vestmannaeyjarklasanum (þar með talið Ísland) eiga sér sérstakt náttúrufar og er Surtsey í raun lifandi tilraunastofa sem sýnir hvernig þetta lífríki þróast. Slíkt á erindi við alla og er klárlega söluvara hvað ferðaþjónustu varðar.
Nábýlið við Náttúrustofu Suðurlands sem starfar hér í Vestmannaeyjum og Fiska- og náttúrgripasafninu myndi án nokkurs vafa styrkja starf Surtseyjarstofu og verða vítamínsprauta inn í þetta starf hér í Eyjum. Þar yrði svo að sjálfsögðu einnig höfuðstöðvar hins merka Surtseyjarfélags sem sinnt hefur Eyjunni af mikilli kostgæfni frá því það var stofnað 1965.
Eðlilegt væri að við Surtseyjarstofu væru að lágmarki 2 stöðugildi allt árið þar sem annarsvegar væri um að ræða vísindamann á sviði náttúrufræða og hinsvegar stöðu landvarðar/almenns starfsmanns sem annaðist ferðir með ferðaþjónustuaðilum þegar siglt er umverfis Surtsey og fræddi ferðamenn um það sem fyrir augun ber. Yfir sumar væri svo hægt að bæta við starfsmönnum og þá þyrfti einnig að gera ráð fyrir n.k. gestastofu fyrir vísindamenn.
11.2.2007 | 02:15
Breyttir atvinnuhættir og forsendur fyrir flutningi opinberra starfa til Vestmannaeyja
Aukin umsvif opinberra stofnana á landsbyggðinni hafa lengi verið í deiglunni. Ríkið er stærsti atvinnurekandi á Íslandi og það hefur verið skilningur íslenska ríkisins (eða réttara sagt ríkisstjórnar) að dreifa beri þeim störfum sem eru á þess vegum sem jafnast um landið, í hlutfalli við íbúa.
Í þessu sambandi samþykkti ríkisstjórn Íslands þingsályktunartillögu þann 3. maí 2002 um byggðaáætlun 2002 2005, þar sem m.a. segir um opinbera þjónustu:
Í mörgum nágrannalöndum hefur verið tekið tillit til byggðasjónarmiða við uppbyggingu opinberrar þjónustu. Þannig hefur stofnunum sem þjóna öllu landinu verið valinn staður annars staðar en í höfuðborginni. Þessari aðferð þarf að beita hér á landi í meira mæli en gert hefur verið. Í því sambandi skyldi fyrst og fremst horft til helstu byggðakjarna á landsbyggðinni.
Í byggðaáætlun fyrir árin 2006 til 2009 segir ennfremur:
"Á gildistíma byggðaáætlunar skulu stjórnvöld hafa þrjú meginatriði að leiðarljósi:
a. Að stórefla menntun á landsbyggðinni.
b. Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.
c. Að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðarmála."
Nú er komið að Vestmannaeyjum
Ég ætla hér í næstu línum að fjalla nánar um það hver staðan er hvað opinber störf í Vestmannaeyjum varðar. Taka ber fram (og ítreka það öðruhverju) að tölurnar sem er með eru frá 2005. Fátt hefur þó breyst hvað þetta varðar hér í Vestmannaeyjum, ef eitthvað þá hefur staðan sennilega því miður versnað. Það er mín skoðun að nú sé komin tími til þess að gefa þessum málum gaum hvað Vestmannaeyjar varðar.
Tölurnar
Þessar tölur sem ég hef verið að skoða hafa bent til að um 17.581 starf sé á vegum íslenska ríkisins á Íslandi. Þar af eru 12662 störf á höfuðborgarsvæðinu eða um 72% af heildarfjölda (um 62,4% landsmanna búa þar)
Fróðlegt er að draga grunnstofnanir ríkisins (sýslumanns- og lögregluembættið, héraðsdómstóla og skattstjóraembætti) út úr þessari jöfnu en þá eru 15,2 íbúar á bak við hvert starf á höfuðborgarsvæðinu. Ef önnur grunnþjónusta ríkisins, heilbrigðiskerfið, er tekið út verða 24,1 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu og 100 íbúar í Eyjum. Ef gengið er enn lengra og önnur mikilvæg þjónusta ríkisins, framhaldsskólarnir, teknir út verða 29,2 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu en 268 í Eyjum. Þetta sýnir hve flóra ríkisstarfa í Vestmannaeyjum er fábreytt og það mætti leiða líkum að því að störf á vegum ríkisins eru í Vestmannaeyjum til að uppfylla brýna þörf við íbúana eða þá að þau hreinlega þurfi að vera þar lögum samkvæmt. Þau störf sem er valkvætt hvar staðsett eru, eru hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu.
Af þeim stofnunum sem hafa sérhæfðu og einstöku hlutverki að gegna og þá undanskildar grunnstofnanir eins og sýslumannsembætti, heilbrigðisstofnanir, skólar o.s.frv. eru um 86% þeirra með höfuðstöðvar í Reykjavík eða 104 af 121 stofnun (hér ítreka ég að ég er með tölur frá 2005). Í Vestmannaeyjum er engin ríkisstofnun með höfuðstöðvar. Það má því draga þá ályktun að meðallaun á hvern ríkisstarfsmann séu mikið hærri á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfirstjórnir stofnana eru staðsettar.
Skipting eftir eftirráðuneytum
Skoðum nú nánar hvernig þessi skipting er þegar við lítum til skiptinga eftir ráðuneytum eins og staðan var 2005 (ég verð við tækifæri að verða mér út um nýrri tölur því sennilega hefur staðan versnað hér í Eyjum frekar en hitt). Athugið þó að í þessari úttekt minni er ég ekki að skoða stofnanir sem eru að nokkuð stórum hluta fjármagnaðar af sveitarfélögum eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands og ekki voru heldur talin ríkisfyrirtæki sem eru hlutafélög. Þá voru ekki taldar með sendiskrifstofur erlendis.
Forsætisráðuneytið
Hjá forsætisráðuneytinu og stofnunum þess eru um 182 starfsmenn. 179 þeirra eða 98,4% eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu en ekkert starf er í Vestmannaeyjum. Þetta jafngildir því að 1.011 íbúar séu á höfuðborgarsvæðinu fyrir hvert starf á vegum ráðuneytisins en þessi tala er óskilgreind í Vestmannaeyjum þar sem ekki er neitt starf er á vegum ráðuneytisins. Allar 7 stofnanir forsætisráðuneytisins eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að Þingvallanefnd undanskilinni.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Í Vestmannaeyjum starfa eftir því sem ég best veit 22 starfsmenn á vegum þessa ráðuneytis. Um 1.558 störf eru í heildina undir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og eru 1.007 á höfuðborgarsvæðinu eða um 64,6% af heild. Allar stofnanir ráðuneytisins eru á höfuðborgarsvæðinu að frátöldum sýslumannsembættum og héraðsdómstólum á viðkomandi stöðum. Þess ber þó að geta að í góðu samstarfi Vestmanneyjabæjar, sýslumannsembættisins og dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að því að koma upp nýrri starfsemi með fjölgun ársstarfa við embættið í Vestmannaeyjum.
Félagsmálaráðuneytið
316 störf eru á vegum félagsmálaráðuneytisins og stofnunum þess. 233 störf eða 73,7% eru á höfuðborgarsvæðinu en 1 í Vestmannaeyjum. Á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu eru því 777 íbúar en 4100 í Vestmannaeyjum. Sjö stofnanir af níu eru með höfuðstöðvar í Reykjavík en Jafnréttisstofa er með höfuðstöðvar á Akureyri og Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum er á Ísafirði.
Fjármálaráðuneytið
819 störf eru á vegum fjármálaráðuneytisins og stofnana þess. 718 starfsmenn eru á
höfuðborgarsvæðinu eða 87,7% af heildarfjölda, 3,8 störf eru í Vestmannaeyjum. 252 íbúar eru því á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu en 1078 íbúar í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar 13 eru með höfuðstöðvar í Reykjavík.
Hagstofa Íslands
Hjá Hagstofu Íslands starfa um 120 starfsmenn og eru þeir allir staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að 1.508 íbúar eru á bakvið hvert starf hjá Hagstofunni á höfuðborgarsvæðinu en þessi tala er óskilgreind í Vestmannaeyjum þar sem hér er ekki neitt starf á vegum Hagstofunnar.
Heilbrigðis- og trygginamálaráðuneytið
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er eitt stærsta ráðuneytið og hjá því starfa um 6.788 starfsmenn. Sökum þessa hve stórt það er mjög erfitt að finna nákvæman fjölda starfa og hvar þau eru á landinu og mér tókst því ekki að finna út nákvæmar upplýsingar um fjölda starfsmanna hjá öllum stofnunum. Úttekt bendir þó til að 4.785 störf séu á höfuðborgarsvæðinu eða 70,5% af heild og 72 í Vestmannaeyjum. 38 íbúar eru á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu en 53 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar hafa höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum úti á landi undanskildum.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
Fjöldi starfsmanna hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og stofnunum þess eru 556. Á höfuðborgarsvæðinu eru 358 starfsmenn 64,4% af heildafjöldanum, í Vestmannaeyjum er ekkert starf. 506 íbúar eru á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu en 4100 íbúar í Vestmannaeyjum dekka ekki einu sinni eitt starf. 10 af 11 stofnunum ráðuneytisins eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
Landbúnaðarráðuneytið
349 starfsmenn eru hjá Landbúnaðarráðuneytinu og stofnunum þess. 122 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 35% af heild. Í Vestmannaeyjum er ekkert starf. Það eru því 1.484 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu. Af 13 stofnunum eru 5 á höfuðborgarsvæðinu.
Menntamálaráðuneytið
Sökum stærðar menntamálaráðuneytisins og fjölda starfsfólks í hlutastarfi er erfitt að finna nákvæman fjölda starfsmanna hjá stofnunum undir því. Fjöldi starfsmanna undir menntamálaráðuneytinu sem fannst er 5.021 og af þeim eru 3.772 störf á höfuðborgarsvæðinu eða 75,1% heildarfjölda. 27 störf eru í Vestmannaeyjum. Íbúar á bakvið hvert starf eru 48 á höfuðborgarsvæðinu og 151 í Vestmannaeyjum. Að skólum undanskildum er eitt starf á vegum ráðuneytisins í Vestmannaeyjum
Samgönguráðuneytið
789 störf eru hjá samgönguráðuneytinu og stofnunum þess. 483 störf eða 61,2% eru á höfuðborgarsvæðinu en 7 störf eru í Vestmannaeyjum. Á bak við hvert opinbert starf undir ráðuneytinu eru 375 íbúar á höfuðborgarsvæðinu en 683 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
Sjávarútvegsráðuneytið
372 starfsmenn eru hjá sjávarútvegsráðuneytinu og stofnunum þess. 335 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 90,1% af heild, 6 starfsmenn eru í Vestmannaeyjum. Íbúar á bakvið hvert starf á vegum sjávarútvegsráðuneytisins eru 540 á höfuðborgarsvæðinu og 683 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að Verðlagsstofu skiptaverðs undanskilinni sem er á Akureyri.
Hér er rétt að taka fram að u.þ.b. 14% af aflaheimildum (og fiskveiðar eru jú það sem þetta ráðuneyti á að ganga út á) eru í Vestmannaeyjum.
Umhverfisráðuneytið
Hjá umhverfisráðuneytinu og stofnunum þess eru 337 starfsmenn. 285 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 84,6% af heild, 1 er í Vestmannaeyjum. Á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu eru 635 íbúar og 4100 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar átta eru með höfuðstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu nema Landmælingar Íslands sem eru á Akranesi og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.
Utanríkisráðuneytið
Hér á landi eru um 179 starfsmenn undir utanríkisráðuneytinu og stofnunum þess. 75 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 41,9%. Ekkert starf er í Vestmannaeyjum á vegum stofnana ráðuneytisins. 2.413 íbúar eru í Reykjavík á bakvið hvert starf en ekki er unnt að reikna þetta fyrir Vestmannaeyjar þar sem enginn starfsmaður er hér. Þær fjórar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru allar með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að einni undanskilinni sem er í Keflavík.
Alþingi
Hjá Alþingi og stofnunum sem heyra undir það eru um 195 störf og eru 192 þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða 98,5% af heildarfjölda, ekkert starf er í Vestmannaeyjum
943 íbúar eru á bakvið hvert starf undir Alþingi á höfuðborgarsvæðinu.
Stofnanir tengdar sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum
Eins og gefur að skilja teljum við Eyjamenn ríka ástæðu til að telja stofnanir tengdar sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum eigi erindi í Vestmannaeyjum. Hvergi annarstaðar á íslandi er atvinnulífið jafn vel undir það búið að styðja við bakið á slíku. Hér er um 14% af aflaheimildunum og því væri ekkert eðlilegra en að störfin hér væru í sama hlutfalli. En hver er raunveruleikinn.
Staðan er einfaldlega óþolandi hvað þetta varðar. Hjá Hafró starfa 165 (2 í Vestmannaeyjum), hjá fiskistofu 89 (4 hér), hjá siglingastofnun 73 (engin hér), hjá RF 48 (1 hér), hjá veiðimálastofnun 12 (engin hér) og svona mætti áfram telja. Þess ber enn og aftur að geta að þessar tölur eru frá 2005 og eftir tilkomu Matís má vera að eitthvað hafi breyst.
Til að bæta grá ofan á svart
Eins og áður er getið er fróðlegt að skoða hvar höfuðstöðvar stofnana eru almennt. Sérstaklega ef litið er til höfuðstöðvar ríkisstofnana sem hafa einstöku hlutverki að gegna og er í raun valkvætt hvað er staðsett (skólum, sjúkrahúsum, sýslumannsembættum og slíku sem eðli málsins samkvæmt þurfa að starfa í návígi við þjónustuþega er sleppt). Sé málið nálgast þannig kemur í ljós að 121 slík stofnun er á landinu. Af þessum stofnunum eru 104 á höfuðborgarsvæðinu eða 86% en engin í Vestmannaeyjum.
Þetta sýnir að stærstur hluti æðstu stjórna í stofnunum ríkisins er á höfuðborgarsvæðinu sem hlýtur aftur að gefa til kynna að ríkisstörf á því svæði séu ekki einungis hlutfallslega mun fleiri en í Vestmannaeyjum heldur má einnig leiða að því líkum að störfin séu betur launuð. Að mínu mati er þetta stærsti byggðastyrkur sem um getur.
Hvaða störf væri hægt að vinna í Vestmannaeyjum?
Ríkisstofnanir sem tengjast beint sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum eru um 7 talsins (RALA er hér talin með þar eð mikið af rannsóknum á ferskvatns og sumum sjávarfiskum fer fram hjá þeim). Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru 89% starfa hjá þessum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Með tilliti til gríðarlegs styrks fyrirtækja í Vestmannaeyjum hvað sjávarútveg varðar má fullyrða að góð tækifæri eru til fjölgunar starfa í þessum geira á vegum ríkisins í Vestmannaeyjum.
Í Vestmannaeyjum er gott aðgengi að rafrænu samfélagi. Candat3 sæstrengurinn liggur hér og því öryggið mikið. Seðlabankinn er stofnun sem þarf gott aðgengi að símalínum, tölvu og internettengingum. Það er ljóst að eitthvað af þessum sviðum er hægt að sinna í Vestmannaeyjum. Hér er einnig mjög hentugt húsnæði undir slíka starfsemi þar sem til dæmis væri hægt að nýta t.d. gömlu símstöðina fyrir slíka starfsemi. (Davíð Oddsson seðlabankastjóri mætti svo gista í forstofuherberginu hjá mér þar til hann gæti orðið sér úti um hentugt húsnæði).
Landhelgisgæslan væri afar vel staðsett hér í Vestmannaeyjum Hafnaraðstaða hér rúmar vel varðskipin, staðsetning þyrlu og annarra flugfara er auðveld.
Fasteignamat ríkisins gæti vel átt hér heima og þá hagrætt verulega með því að losa sig við hið dýra húsnæði í Borgartúni.
Siglingastofnun getur alveg eins verið staðsett í Vestmannaeyjum eins og Byggðastofnun getur verið staðsett á Sauðárkróki. Hjá Siglingastofnun eru fastir starfsmenn tæplega 70. Í það minnsta væri hægt að sinna fjöldamörgum störfum á vegum Siglingastofnunar sem í dag eru á höfuðborgarsvæðinu hér í Vestmannaeyjum.
Afar mikilvægt er að unnið verði að uppbyggingu Hafró í Vestmannaeyjum. Starfið fellur vel að áherslum samfélagsins og fellur vel að sérhæfingu menntunar í Vestmannaeyjum.
Á sama hátt er afar mikilvægt að unnið verði að uppbyggingu á RF (Matís) í Vestmannaeyjum. Starfið fellur á sama hátt vel að áherslum samfélagsins og eykur möguleika á sprotaþróun fyrirtækja í sjávarútvegi
Fiskistofa opnaði í fyrra útibú í Vestmannaeyjum. Auðvelt er að efla það starf enn frekar og sinna fleiri deildum svo sem veiðieftirliti, veiðiheimildasviði og fleira héðan frá Eyjum
Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna er með 11 starfsmenn. Í dag er þessi stofnun til húsa að Nóatúni 17 í Reykjavík. Ef krafan er hagræðing er auðvelt að benda á mikinn sparnað hvað húsnæðiskostnað varðar með því einu að flytja þessa stofnun til Vestmannaeyja.
Ég gæti haldið áfram að telja upp stofnanir en...
Skilaboðin eru þessi
Störfum í sjávarútvegi hefur ekki fækkað eins mikið og ætla mætti. Að hluta til hafa þau flust til. Störfin voru áður tengd veiðum og vinnslu en eru í dag fyrst og fremst í eftirliti, rannsóknum og fleira þess háttar.
Ríkið ber ábyrgð á vinnumarkaði sem stærsti atvinnurekandinn. Vestmannaeyskt atvinnulíf þarf tímabundna aðstoð við uppbyggingu ef ekki á illa að fara. Grundvöllur stórs hluta þeirra starfa sem hér hafa verið talin upp er búinn til hér og krafan er sú að störfin skili sér hingað.
Flutningur opinberrar þjónustu til Vestmannaeyja er þjóðhagslega hagkvæmur kostur. Það er einfaldlega ódýrara fyrir ríkið að reka ákveðna starfsemi í Vestmannaeyjum en á höfuðborgarsvæðinu.
Við þetta bætist að sterkur vilji er í Vestmannaeyjum til að notfæra sér flutning á opinberri þjónustu til frekari eflingar annarrar þjónustu.
Við fulltrúa ríkisins er einungis eitt að segja hvað þetta varðar gjör rétt og þol ei órétt
Þetta er mín skoðun, en hvað finnst ykkur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2007 | 21:34
Fregnir af andláti bæjarstjórans í Vestmannaeyjum eru stórlega ýktar
Ég fékk áðan merkilegt símtal. Þannig er að það hringdi í mig blaðamaður og bað mig um að staðfesta þann orðróm að ég hefði sagt upp starfi mínu sem bæjarstjóri og hygðist snúa mér að kennslu í framhaldsskólanum á ný. Ég hváði eðlilega og bað hann um að endurtaka spurninguna. Hann hækkaði dálítið róminn og talaði hægar en áður en spurningin var sú sama Ert þú að hætta í starfi bæjarstjóra? Ég svaraði sannleikanum samkvæmt Fregnir af andláti mínu er stórlega ýktar.
Frá því að símtalið átti sér stað hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig þessi saga varð til. Hæg ættu nú að vera heimtökin enda hef ég haldið marga sálfræðifyrirlestra og meira að segja heilu námskeiðin um kjaftasögur.
Til að einfalda málið mjög má segja að kjaftasögur eða slúður eigi sér fyrst og fremst tvær rætur annarsvegar eru þær nokkurskonar dægrastytting þar sem sagan er sögð vegna skemmtigildis og á þeim grundvelli víkur hún frá sannleikanum. Oft er þetta þannig að sagan er grátbrosleg og einhvern veginn þannig að íronían í henni gerir hana sanna fyrir þeim sem á hlýða. Gott dæmi um þetta er þegar sú saga gekk fjöllunum hærra að söngvarinn Bobby McFerrin (sem söng lagið Dont worry be happy) hafi verið kvíðasjúklingur og framið sjálfsmorð.
Hin tegundin af kjaftasögum er þess eðlis að þeim er beitt í markvissum tilgangi til að grafa undan trúverðugleika einhvers eða koma á hann höggi. Þannig leka fyrirtæki ósönnum tölum úr ársreikningum samkeppnisaðilans, veitingamenn segja frá óþrifnaði hjá samkeppnisaðilum og stjórnmálamenn segja slúðursögur hver um annan til að grafa undan trúverðugleika hvers annars.
Nú er ég blessunarlega laus við áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mína persónu. Fólk talar um fólk, satt eða logið skiptir ekki máli. Lífið er bara of stutt til að vera að hafa áhyggjur af því. Þegar fólk er í opinberu hlutverki þá fylgja kjaftasögurnar.
Til að mynda hafði ég nokkuð gaman af því núna fyrir nokkrum dögum þegar því var haldið fram á bloggsíðu að ég hefði aldrei lokið neinu námi enda væri ég frekar illa gefinn (fyrir því var borin fyrrverandi samstarfskona mín úr FÍV). Þessu var haldið fram af konu sem hafði horn í síðu mína vegna ákvarðana sem ég átti þátt í. Auðvitað er með þetta með námið ekki satt (stúdentspróf 1990, BA sálfræði 1994, réttindanám til kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi 1995, mastersgráða í sálfræði 1998, og er nú í mastersnámi í opinberri stjórnsýslu). Hinsvegar má vel vera að ég sé ekki greindur maður, ég læt mér það þó í léttu rúmi liggja og eftirlæt öðrum um að dæma um það.
En sem sagt þarna var um skemmtilega sögu að ræða og þá er komin ákveðin grundvöllur fyrir henni. Svo fær sagan aukið líf við það að þó nokkuð margir hafa beinan hag af því að draga úr trúverðugleika mínum (rétt eins og annarra pólitískra fulltrúa) og þar með eru komnir fótgönguliðar (og ritstjórar ;) til að breiða út boðskapinn.
Það hvort sagan um að ég sé nú að láta af störfum sem bæjarstjóri eigi sér einhver slík upptök hef ég ekki hugmynd um. Um það verður hver fyrir sig að spá. Ég get þó fullyrt að ég er í skemmtilegustu vinnu í heimi. Svo skemmtilegt er þetta starf að ég hætti í næst skemmtilegustu vinnu í heimi til að gegna því. Ég fæ að vinna við mitt helsta áhugamál, taka þátt í að móta mitt nær umhverfi, hafa áhrif á framtíð alls þess sem mér er kærast og allt þetta með frábært samstarfsfólk mér við hlið. Hvernig dettur nokkrum í hug að maður láti slíkt frá sér. Það eina sem háir mér í þessu starfi er að þurfa að sofa en eins og þeir sem mig þekkja vita þá leiðist mér sá vani sem svefninn er.
Sem sagt ég er ekki að hætta sem bæjararstjóri. Framundan eru spennandi tímar hjá sveitarfélaginu. Mín bjargföst trú er sú að ef við höldum rétt á spilunum þá getum við lagt af stað í stórsókn á næstu árum. Stórefling atvinnulífisins (nýir bátar, meiri kvóti og margt fleira), yfirvofandi bylting í samgöngum, hækkandi fasteignarverð, eftirspurn eftir lóðum fyrir einbýlishús, eftirspurn eftir lóðum fyrir fyriræki og fleira vekur með mér trú á framtíðina og kveikir í mér enn meiri neista í starfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 23:07
ESB, EMU, Evran og kynferðisleg girnd

Stundum ræði ég Evrópumál við vini og félaga. Stundum hætti ég mér meira að segja svo langt að ræða þetta mál við félaga minn sem kallar sig hægri krata, er lærður hagfræðingur og skilgreinir sjálfan sig sem "evrópusinna" (hvað sem það nú er), en að ræða þetta við hann er eins og að ræða synd við kaþólskan prest, hann segir að ég geti einungis orðið hólpinn með því að skammast mín og iðrast. Svo bendir hann líka öðru hverju á að ég skilji ekki umræðuna (sennilega er það rétt hjá honum).
Þessi félagi minn sem ég hef miklar mætur á heldur því sem sagt fram að málið sé ekki svo flókið, bara að taka upp evruna eða tengja krónuna við evruna, best þætti honum þó að ganga bara beint í ESB.
Ég hef hinsvegar ekki nokkra trú á því að hægt sé að taka upp evruna án inngöngu í ESB, þótt gaman sé að leika sér með slíkar hugmyndir. Hann vísar hinsvegar í Vatíkanið, Mónakó og San Maríno sem eru öll smáríki sem standa utan við ESB en nota evruna. Samanburður okkar við þessi ríki er þó að mínu viti hæpinn enda hagkerfi þessara ríkja svo nátengt ESB að vart má á milli skilja.
Einhliða upptaka evrunnar eða tenging krónunnar við hana er því eini kosturinn (ef ræða á myntbandalag án inngöngu) og þá vandast nú málin. Auðvitað óttast maður að erfitt verði að halda uppi fastgengisstefnu og að tengingin verði ekki eins alger og þau þurfa að vera. Þessi aðferð myndi væntanlega merkja lítinn stuðning frá evrópska seðlabankanum og áhrif okkar á samráð um efnahagsmál líkt og á sér stað innan ESB væri ekkert. Ergo, tenging okkar við evruna væri ekki trúverðug og við værum að fórna peningamálastefnunni sem hagstjórnartæki án nokkurrar hlutdeildar í stefnu evrusvæðisins á móti. Við værum sem sagt í svipuðum sporum og Danir en þó sá munur á að Danir eiga langtum meiri samleið með bæði ESB og EMU en við (langtum hærra hlutfall viðskipta við ESB en hjá okkur, fylgni hagvaxtarsveiflna og viðskiptakjara milli Danmerkur og ESB er langtum hærri en milli Íslands og ESB, o.s.frv.). Svo skiptir nú ekki litlu að hagkerfi okkar (svo ekki sé nú talað um í sjávarútvegsplássum eins og hér í Eyjum) er svo langtum háðara utanaðkomandi þáttum svo sem stofnstærðum þorsks og loðnu og báðum þessum kvikindum er víst slétt sama um gengi gjaldmiðla og vaxa eða minnka algerlega óháð efnahagsástandinu í ESB og því mikilvægt að eiga sveiflujöfnunarúrræði í slíkum tilvikum. Ég skil auðvitað rök þessa félaga þegar hann bendir á að íslenska hagkerfið sé alltaf að verða minna og minna háð sjávarútvegi en þessi sömu rök eiga við um alheimsverð á áli, hverfullyndi ferðaþjónustu, o.s.frv.
Og talandi um Dani. Við skulum líka halda því til haga að 30% viðskipta okkar eru við Dani, Breta og Svía sem allir standa utan við myntbandalagið.
Í þeirri viðleitni að halda rökræðum okkar félagana áfram gefum við okkur stundum að mikilvægt sé að bregðast við núverandi "vanda" og þá rétt í ljósi þess sem ofan segir að ganga alla leið og ganga inn í ESB. Hann telur okkur þar með hólpin. Hagkerfið kólnar, vextir lækka, útflutningur dafnar o.s.frv. (rétt eins og kaþólskuprestarnir segja að nokkrar maríubænir hreinsi mig af syndum mínum).
Ég er ekki viss um að þetta sé rétt hjá honum. Ferilinn frá tímanum "núna" að því að hægt yrði að taka upp evru er langur. Sumir hafa bent á að það þurfi breytingu á stjórnarskránni (gæti þá sennilega fyrst orðið 2011 í ljósi þess hversu skammt umræðan er komin hér á landi) en á móti kemur að sjálfsagt færi minni tími í inngöngu hjá okkur en mörgum öðrum vegna aðildar að EES. Svo skiptir náttúrulega höfuð máli að eftir að ríki hefur fengið aðild að ESB verður að halda gengi gjaldmiðils stöðugum gagnvart evrunni í 2 ár áður en aðild fæst að EMU. Það yrði því sennilega ekki fyrr en eftir 2013 sem við gætum farið að nota evruna. Innganga í ESB og upptaka evrunnar gagnast því lítt í núverandi "vanda". Lykilatriðið í þess öllu, sama hvort við stefnum að inngöngu í ESB, inngöngu í EMU, fasttengingu krónunnar við evruna eða áframhaldandi veru í EES með sjálfstæðan gjaldmiðil er stöðugleiki í ríkisfjármálum, stöðugleiki í gengismálum og lágt viðvarandi vaxtarstig. Um leið og slíkt yrði til þess að draga úr þörfinni á upptöku evrunnar þá er það um leið forsendan fyrir inngöngu (sbr. skilyrði fyrir aðild að EMU í Maastricht sáttmála Evrópusambandsins).
Oftast enda samræður okkar um þessi mál með því að hann grípur til einhverra hagfræðilegra kenninga og frasa sem ég skil ekki, og í nauðvörn svara ég fyrir mig með freudískum frösum á borð við að hann girnist móður sína kynferðislega, óttist refsingu föður síns (ödipusarduld) og persónugeri föður sinn í forseta okkar og það leiði til þessarar illsku út í krónuna. Sennilega er ég að teygja mig dáldið langt í rökum, en hvað gerir maður ekki í nauðvörn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 17:59
Fólkinu fjölgar í Eyjunum enn
Ég hef það fyrir reglu að fylgjast náið með íbúaþróun í Vestmannaeyjum. Staðan hefur því miður verið sú að fólki hefur fækkað nánast stöðugt síðan 1991. Mest varð fækkunin á þessum tíma á árunum 2003 til 2004 en þá fækkaði um 122 íbúa. 1. desember síðastliðinn bjuggu 4075 íbúar í Vestmannaeyjum og hafði þá fækkað úr 4923 árið 1991.
Það er sannfæring mín að neikvæðni og barlómur sé það versta sem nokkuð samfélag getur gert sjálfu sér. Sjálfsvirðingin og baráttuþrekið hlýtur hnekk af slíku. Auðvitað er spurning hvort kemur á undan eggið eða hænan, fækkunin eða barlómurinn. Í mínum huga er það að minnsta kosti ljóst að þetta tvennt hefur áhrif hvort á annað.
Mín bjargfasta trú er sú að árið 2007 verði árið sem ber með sér bjartari tíma í íbúaþróun í Vestmannaeyjum. Almenn sátt virðist ríkja í samfélaginu og vilji til breytinga er mikill. Óvenju bjart er yfir sjávarútvegi, fyrirtækin hafa verið að styrkja sig mikið, skip í smíðum, aflaheimildir keyptar, aðstaða til vinnslu stórefld og þannig mætti áfram telja. Fasteignamarkaður í Vestmannaeyjum hefur verið líflegur og fjöldi þinglýstra kaupsamninga árið 2006 var meiri en nokkru sinni áður. Fasteignir hafa hækkað í verði og þröngt er um leigumarkað. Framundan er bylting í samgöngumálum og ekki nema nokkur ár í að Vestmannaeyingar fari að ferðast milli Vestmannaeyja og Suðurlands á bílum sínum og þá annaðhvort í gegnum jarðgöng eða með skipi sem siglir í Bakkafjöru (30 mínútna sigling).
Vissan um þetta held ég að komi til með að hafa áhrif. Máli mínu til stuðnings er gaman að segja frá því að frá því 1. des. síðastliðinn og til 1. feb. fjölgaði um 20 manns í Eyjum og er þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem hægt er að segja frá slíku.
Það er því við hæfi að enda þessa færslu með miðhluta þjóðhátíðarlags Gylfa Ægissonar frá 1974 því ég hef ákveðið að ef þessi texti á enn við um næstu áramót þá hyggst ég bjóða í opið partý og syngja það opinberlega.
Fólkinu fjölgar í Eyjunum enn
og öllum ber saman um það.
Hér eigi það heima, hér eigi það senn
heimsins fegursta stað.
Byggðin hún stækkar nú dag eftir dag
dafnar svo ótrúlegt er.
Ég eigna þér Eyja mitt ljúfasta lag
og lagið nú hefurðu hér.
5.2.2007 | 18:26
Mannrán, morð og svívirðingar í Vestmannaeyjum
Ég hef alla tíð haft mikið dálæti á sögum tengdum Tyrkjaráninu. Mér er afar minnistætt sem barni þegar farið var í ferðir með félögum út í Lyngfellisdal, inn í Hundraðmannahelli, upp að Fiskhellum, út að Sængurkonusteini og víðar til að spá og spekulera í sögusviði Tyrkjaránsins. Oft skeggræddum við um það hvernig við myndum bregðast við ef helvítin kæmu nú aftur. Oftast varð það okkar niðurstaða að við myndum stökkva þeim á flótta með herkænsku, afli og baráttuþreki. Stundum sakna ég þess tíma þegar manni fannst maður geta sigrað heiminn með annarri hendi (og tekið í nefið með hinni).
Ég hóf í gær lestur bókarinnar Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur sem fjallar jú eins og nafnið gefur til kynna um Tyrkja Guddu. Ég er í dágóðan tíma búinn að ætla mér að lesa þess bók og nú má ekki lengra líða því í ár eru 380 ár frá því að Tyrkjaránið svokallaða var framið hér í Eyjum og víðar um land. Vestmannaeyjabær ætlar sér í sumar að heiðra minningu herleiddra og þeirra sem drepnir voru í þessum voðaverkum með dagskrá tengdri Tyrkjaráninu.
Ég las fyrir nokkru bókina Hrapandi jörð eftir Úlfar Þormóðsson sem fjallar um þessa sömu atburði og hef síðan þá ætlað mér að lesa bók Steinunnar. Að þessari bók lesinni hyggst ég svo verða mér út um Reisubók Séra Ólafs Egilssonar.
Eins og flestir vita þá voru mörkuð djúp spor í samfélag okkar Eyjamanna 16. júlí árið 1627 þegar hingað herjuðu ofbeldismenn frá annarri veröld og hertóku um 240 menn, konur og börn og fluttu þau nauðug suður um höf til þrældóms í Barbaríinu. Fjölda margar frásagnir eru til um Tyrkjaránið hér í Eyjum og mikilvægt að halda þessum sögulegu viðburðum á lofti, enda þeir til marks um það umhverfi sem skóp það samfélag sem Eyjamenn byggja enn í dag. Umhverfi sem alla tíð hefur kallað á baráttu og þrek.
Ein í hópnum var Guðríður Símonardóttir, Tyrkja-Gudda, ung sjómannskona og móðir hér í Vestmannaeyjum. Í bók sinni fylgir Steinunn Guðríði á hennar löngu reisu í þrælakistuna í Alsír, segir frá níu ára vist hennar þar og lýsir ferðinni norður á bóginn aftur uns hún eygir Ísland á ný með Hallgrími Péturssyni.
Ekki fer á milli mála að Steinunn þekkir sögusviðið allt afar vel og tekst lista vel að flétta saman sögulegum heimildum og spennandi skáldsögu. Ég ætla að fjalla meira um þessa bók þegar ég hef lokið lestri og aldrei að vita nema umfjöllun um Tyrkjaránið fylgi með.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2007 | 20:42
Er Herjólfur þjóðvegur?
Við Eyjamenn erum vanir því að tala um Herjólf sem þjóðveginn okkar, en er víst að allir séu sammála okkur. Með bréfi dagsettu 05.05.2003 spurðist bæjarráð Vestmannaeyja hvort það væri rétt mat hjá bæjarstjórn Vestmannaeyja, að m.s. Herjólfur værði þjóðvegur milli lands og Eyja.
Svarið var svohljóðandi:
23. gr. vegalaga nr. 45/1994 með síðari breytingum hljóðar svo:
Vegagerðinni er heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og eiga aðilda að félögum sem hafa eignarhald á þeim. Heimilt er að greiða af vegaáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengivegi a.m.k. hluta úr ári. Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur. Í vegaáætlun skulu ferjuleiðir taldar upp og gerð grein fyrir stofnframlögum til einstakra ferja.
III kafli vegaáæltunar ber heitið flokkun vega. Undirkafli þar, gr. 3.3., ber heitið ferjuleiðir.
Þar segir í 1. tölulið: Vestmannaeyjar Þorlákshöfn
Á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja eru fluttir farþegar og bílar í reglulegum áætlanaferðum.
Virðingarfyllst,
Gunnar Gunnarsson
aðstoðarvegamálastjóri
Eftirstendur spurningin er Herjóflur þjóðvegur?
4.2.2007 | 19:01
Herjóflur kostar 642 milljónir á ári
Í morgunblaðinu í gær komu ýmsar athyglisverðar upplýsingar um rekstur Herjólfs fram Þar var sagt frá því að Vegagerðin greiddi á liðnu ári 642 milljónir króna með rekstri farþegaferjunnar Herjólfs. Ferðir voru samtals 725 þannig að hver ferð kostaði um 885.000 krónur. Framlagi Vegagerðarinnar er annars vegar skipt í rekstrarkostnað og hins vegar í afborgarnir og vexti af lánum. Í fyrra nam rekstrarkostnaður 290 milljónum en afborgarnir og vextir voru 352 milljónir. Sé einungis tekið tillit til rekstrarkostnaðar kostaði hver ferð ríkissjóð 400.000 krónur.
Þetta eru nokkuð merkilegar upplýsingar. Í fyrsta lagi þá slær það mann hversu dýr samgönguleið Herjólfur er, eða 642 milljónir. Í öðru lagi þá grunar mig að inn í þessar tölur vanti kostnað sem tilféll vegna leigu á St. Ola sem sigldi þann tíma sem Herjólfur var í viðgerðum erlendis og ef ég man rétt þá var sá kostnaður um 70 milljónir.
Þrátt fyrir þessi framlög eru samgöngur til Eyja akelisarhæll samfélagsins og nær er óhætt að fullyrða að ástæðan fyrir neikvæðri íbúaþróun er fyrst og fremst slæm staða á samöngum. Því til stuðnings vísa ég í fyrri umfjöllun hér á síðunni.
Fyrir mér þýðir þetta bara eitt. Að bæta samgöngur til Eyja hvað (framtíðarkost varðar) snýst ekki um það að leggja aukið fjármagn til samgangna heldur að verja fénu öðruvísi en hingað til hefur verið gert.
Vestmannaeyjar eru öflugt samfélag með alla burði til vaxtar. Að því gefnu að samgöngur verði stórbættar þá verður gerbreyting á samfélagsþróun og vexti byggðar. Þrátt fyrir að samgöngur til séu kostnaðarfrekar þá má ekki gleyma því að flest samfélög á landsbyggðinni eru að skila verulegu fjármagni til ríkisins og því má aldrei falla í þá gryfju að líta á framlög til samgangna sem ölmusu.
31.1.2007 | 22:59
Eyjamenn og samgöngur
Þeir sem fylgst hafa með umræðu um samgöngumál í Vestmannaeyjum þekkja vel hvers rík áhersla er um þessar mundir á varanlegar úrbætur hvað samöngur varðar. Þrír framtíðarkostir hafa verið nefndir sem leið úr þeim vanda sem byggðalagið er nú í þ.e.a.s. jarðgöng, ferjulægi í Bakkafjöru og nýtt skip sem siglir til Þorlákshafnar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur að forgangsröðunin sé þessi 1. jarðgöng, 2. ferjulægi í Bakkafjöru og 3. nýtt skip sem siglir til Þorlákshafnar. Forgangsröðunin byggir á því að allir möguleikar séu tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegir.
Staðan í Eyjum
Engum dylst að Vestmananeyjar eru öflugt samfélag með sterkt atvinnulíf. Skilji maður samgöngur frá eru allar forsendur til mikils hagvaxtar enda atvinnuleysi lítið og meðaltekjur háar. Þrátt fyrir þetta hefur þróun mannfjölda í Vestmannaeyjum hefur verið með öðrum hætti en á öðrum svæðum á Suðurlandi. Íbúum hér í Eyjum hefur fækkað um 12% frá árinu 1996 eða um 60 íbúa að jafnaði árlega frá þeim tíma.
En hverju breyta bættar samgöngur?
Auðvitað er afar erfitt að leggja beina mælistiku á áhrif samgöngubóta hvað íbúaþróun varðar. Margt kemur þar til svo sem samfélagsgerð, þjónustustig, samheldni, sjálfsmynd samfélagsins, vilji og svo margt fleira. Með þessum fyrirvara má þó nánast fullyrða að samgöngubætur hvetja til vaxtar og þá ekki síðst með því að ýta undir hagvöxt á þeim svæðum sem hann tengir.
Öflugt samfélag þar sem íbúum fækkar
Með tilliti til þess að þrátt fyrir stærðarlegan styrk sinn (4100 íbúar) og hátt þjónustu stig (nánast algerlega sjálfbært þjónustusamfélag) fækkar íbúum í Vestmannaeyjum á meðan þeim fjölgar í nágranasveitarfélögum sem þó eru mikið minni (Td. á Hvolsvelli og Hellu). Miðað við þann mikla mun sem fram kemur í lýðfræðilegri þróun í Vestmannaeyjum og á nálægum svæðum er ljóst að bættar samgöngur (Jarðgöng eða ferjulægi) myndu styrkja búsetu á svæðinu til muna. Þær munu færa íbúa í Vestmannaeyjum meiri tengsl við önnur svæði og kröfum nútímans um meiri hreyfanleika í samskiptum verður mætt.
Jarðgöng og ferjulægi geta bæði valdið straumhvörfum
Í mínum huga er það hafið yfir allan vafa að jarðgöng eða ferjulægi koma á næstu árum valda straumhvörfum hvað varðar forsendur byggðar í Vestmannaeyjum. Áhrifin koma vafalaust til með að ná til allra þátta samfélagsins allt frá atvinnulífið yfir til listalífsins, og allt þar á milli. Sérstaklega má gera ráð fyrir að ferðaþjónusta og tengdar greinar taki miklum breytingum auk þess sem matvælaiðnaðurinn á eftir að njóta verulega góðs af tíðari ferðum og lægri flutningskostnaði. Það liggur í augum uppi að slíkar samgöngubætur koma til með að auka arðsemi atvinnuveganna í Vestmannaeyjum og forsendur til betri lífskjara aukast sem rennir einnig stoðum undir jákvæðari búsetuþróun í Vestmannaeyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 17:42
Vilji Eyjamanna er samhljóða og skýr
Bregðast þarf við núverandi vanda
Engum dylst að Vestmannaeyjar eru svæði með gríðarlega vaxtarmöguleika. Fyrirtæki eru hér öflug og mannlíf og menning einstaklega blómlegt. Þrátt fyrir það hefur íbúum fækkað í Vestmannaeyjum á undanförnum árum og ferðamönnum sem leggja þangað leið sína sömuleiðis. Skýringarnar eru eflaust margvíslegar, en takmarkaðar samgöngur eru án efa ein meginskýringin enda koma þær í veg fyrir að svæðið fái notið styrkleika síns og vaxtarmöguleika.Of oft þarf að vísa fólki á leið til Eyja frá
Núverandi staða hvað samgönur á sjó varðar er verulega slæm og mikilvægt að ráðist verði í raunhæfar aðgerðir til að bæta samgöngur þar til framtíðarkostir í samgöngum verða teknir notkun. Sá veruleiki liggur fyrir að það kemur ítrekað fyrir í nánast hverri viku yfir sumartímann að bíladekk Herjólfs er fullnýtt og ítrekað gerist slíkt hið sama yfir vetrartímann. Í fyrra sumar gerðist það í nánast hverri viku að vísa þurfti frá fólki þegar bíladekkið var orðið fullbókað. Við slíkt getur ekkert byggðalag búið. Þá er skipið eðlilega orðið slitið og aðbúnaður um borð langt frá því að vera sæmandi. Aukið sætaframboð, styttri ferðatími og betri sjófærni myndu virka hvetjandi á ferðamenn og bæta búsetuskilyrði Vestmannaeyja. Vestmannaeyjar eru eitt af öflugustu byggðarlögum á Íslandi og hafa alla burði til frekari vaxtar svo fremi sem samgöngur séu í takt við kröfur samtímans.
Óhófleg gjaldtaka
Gjaldtaka fyrir notkun þjóðvegarins hefur eðli málsins samkvæmt lengi verið umdeild enda Eyjamenn nánast eina byggðarlagið sem greiða þarf fyrir að nota þjóðveg sinn. Þótt við Eyjamenn finnum það á eigin buddu hversu mikill auka skattur gjaldskrá Herjólfs er þá hefur því miður aldrei verið kortlagt nákvæmlega hversu íþyngjandi þessar álögur eru. Þess vegna hefur Bæjarstjórn Vestmannaeyja nú samþykkt að óska eftir því við samgönguráðherra og iðnaðaráðherra sem ráðherra byggðarmála að þeir skipi nefnd til að gera úttekt á íþyngjandi álögum á Vestmannaeyinga vegna gjaldtöku fyrir notkun á þjóðvegi Eyjamanna, Ms. Herjólfi. Nefndin skal sérstaklega horfa til áhrifa farmgjalda á verðlagningu á vörum og þjónustu í Vestmannaeyjum. Þá er einnig óskað eftir því að nefndin leggi mat á áhrif farmgjalda Herjólfs á samkeppnishæfni fyrirtækja í Vestmannaeyjum.
Vilji Eyjamanna í þessum efnum er því samhljóða og skýr.
Við viljum nýtt skip sem siglir þar til framtíðarsamgöngur komast á og við viljum algera endurskoðun á gjaldskránni þannig að Eyjamenn sitji við sama borð og aðrir hvað slíkt varðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)