18.2.2008 | 23:03
Sjálfstæðar Vestmannaeyjar?
í dag hringdi í mig fréttakona með vangaveltur um sjálfstæði Kosovo og hvort við Eyjamenn myndum ekki í framhaldinu íhuga að krefjast sjálfstæðis frá Íslandi. Ég átti ágætis rabb við fréttakonuna og sagði henni sem var að þessari hugmynd hefði öðruhverju skotið upp hér í Vestmannaeyjum og er þess skemmst að minnast þegar Bragi Ólafsson þá verandi bæjarfulltrúi vildi skoða þetta af fullri alvöru. Maður skyldi að minnsta kosti aldrei segja aldrei.
Fréttin sem síðan var birt var eðlilega í hálfkæringi enda viðtalið það einnig. Fréttin var svohljóðandi:
Sjálfstæðar Vestmannaeyjar
Von hefur kviknað í brjóstum þegna margra smáríkja í kjölfar þess að Kosovo lýsti einhliða yfir sjálfstæði í gær. Ríkisstjórnir Rúmeníu, Spánar, Indlands, Rússlands og Kína eru meðal þeirra sem skjálfa nú á beinunum yfir því að íbúar Transnistríu, Baskalands, Nagalands og hinna og þessa -stana taki sig til og feti í fótspor Kosovo.
En Ísland?
Jú, það er aldrei að vita nema við hugleiðum þetta," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. Við erum tekjuhátt samfélag og sjálfum okkur nóg með flest. Menn hafa jafnvel velt fyrir sér hostile takeover" á fastalandinu," segir Elliði og hlær.
Hann bætir við að að öllu gamni slepptu hafi hugmyndir um sjálfstæði eyjanna skotið upp kollinum öðru hvoru. Þær hafi til að mynda verið ræddar af fullri alvöru innan stjórnkerfis Vestmannaeyja fyrir 10-15 árum síðan. Vestmannaeyjar gætu þá haft svipaða stöðu gagnvart Íslandi og Isle of Wight hefur gagnvart Bretlandi.
Elliði segir þær hugmyndir í sjálfu sér ekki svo galnar. Vestmannaeyjar eru mjög tekjuhátt bæjarfélag og atvinnulífið stendur hér feiknarsterkum fótum. Okkur svíður skattlagning á ýmsum sviðum eins og til að mynda með veiðigjaldinu," segir Elliði. Þetta eru allt vangaveltur sem eru þess virði að skoða." segir hann og bætir við að þetta sé þó í bili ekki til neinnar formlegrar umfjöllunar annars staðar en á kaffistofum bæjarins.
Þetta er skemmtileg pæling svo mikið er víst. Svo erum við eina bæjarfélagið sem á sinn eigin opinbera þjóðsöng sem heitir "Sumarmorgun á Heimaey". Textinn er eftir Sigurbjörn Sveinsson og lag eftir Brynjólf Sigfússon.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Facebook
Athugasemdir
Ætlið þið þá að ganga í myntbandalagið? Þá myndu hugsanlega allir bankarnir flytja höfuðstöðvarnar til Eyja ... ekki amalegt það!
Aðalheiður Ámundadóttir, 18.2.2008 kl. 23:10
Þetta er góð hugmynd hjá þér Elliði. Endilega farðu alla leið með þessa pælingu. Það væri vit í þessari mótvægisaðgerð.
Sjóari (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 00:21
Endilega lýsið yfir sjálfstæði, og losið okkur við Árna Johnsen. Við hljótum svo að geta samið um ekki of hátt verð á vatn og rafmagn.
gunnar (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 08:59
Á tímum stúdentauppreisna og ólgu meðal ungs fólks var þessi hugmynd alveg raunhæfur möguleiki, sérstaklega í huga yngri Eyjamanna. Þetta var mikið rætt og í umræðunni var þó nokkur alvara. Ég man eftir aprílgabbi í útvarpi allra landsmanna á þessum árum. Þar var sagt frá því, að Vestmannaeyingar hygðust slíta samabandinu við Ísland. Afi minn heitinn, sem þá bjó á höfuðborgarsvæðinu, hringdi heldur óhress með þessa ákvörðun og taldi henni allt til foráttu. Það tók nokkra stund að sannfæra hann um eðli málsins. Baráttusöngvar voru sungnir á samkomum ungs fólks s.s. "We shall overcome", lag sem Joan Baez gerði vinsælt. Það er mín sannfæring, að ef ekki hefði gosið á Heimaey 1973, hefi eitthvað gerst í þessum málum í átt til einhvers konar sjálfstjórnar Vestmannaeyja. Sjálfstraust heimamanna var slíkt á þessum árum, að ekkert gat stöðvað Eyjamenn, nema eldgos. Við vorum besta bæjarfélag landsins á þessum tíma, það var enginn efi í okkar huga. Bestir í fótbolta, unnum 5 titla af sjö, sem í boði voru á Íslandi 1972. Áttum fegurðardrottningar í röðum, og sjálfan Heimaklett, sem er fegurstur fjalla.
Friðbjörn Ó. Valtýssoni (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 10:22
Hef ætíð veri á sem mesri sjálfstjórn hvers landshluta í sínum málum.
Lagt til, að hver landsfjórðungur hefði sín mið innan ,,sinnar" lögsögu og hefðu nokkuð með skattlagningu að gera á sitt fólk.
ÞAnnig næsðist mesta hugsanlega nýtni út úr hverjum fjórðungi.
Sjáum bara hve auðvelt þetta væri í raun.
Vestfirðir þyrftu ekki neina hjálp í sínum málum, þar væri nóg að gera í fiski og svoleiðis nokk.
Suðurland væri í góðum málum í sölu á landbúnaðarafurðum og orku.
Austuland væri nú í þokkalegum málum með uppsjávarfiska og nokkuð góð mið og núna með virkjuninni.
Vestmannaeyjar hefðu svona nokkrar bleyður að renna í en ef þeir fylgdu Suðurlandi væsti ekki um þá.
Vestlendingar hefðu úr nokkru að moða, eftir því hvernig gengi með Höfuðborgarsvæðið. Svo auðvitað Hluti Breiðarfjarðar, sem væri í þeirra umráði
Norðlengdingar hefðu næga oru, bæði úr iðrum jarðar og fallvötnum. Ekki mikið af sjóvarfangi en búsældarlegt er þarna víða og auðvelt að búa þar þónookkuð góðum búum. Svo er auðvitað hægt að virkja í Þingeyjingum og fl. LOFTIÐ
Miðbæjaríhaldið
nokkuð mikið fyrir sjálfstjórn landshluta.
Bjarni Kjartansson, 19.2.2008 kl. 13:08
Þetta er algjör snilld, ég hef persónulega alltaf litið á mig sem Eyjamann frekar en Íslending :)
Eini gallinn við þetta er að maður þarf þá að fara í gegnum tollinn þegar maður fer á milli lands og Eyja... (er ekki málið að vera bara tollfrjáls þjóð?)
Og hey! Verður þá ekki Helgi "forseti" Ólafsson fyrsti forseti Vestmannaeyja?
Andri Ólafsson, 19.2.2008 kl. 20:59
Ég er sammála Bjarna, nema ég vil ganga enn lengra:
Ég vil leggja Alþingi niður í núverandi mynd og að sérhvert sveitarfélag fái sjálfstæði, sem fæli að sjálfsögðu í sér löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald. Þá væri Alþingi endurreist með svipuðu sniði og það var á landnámsöld, nema snúið á hvolf: í stað þess að vera löggjafarþing væri það eingöngu sameiginlegt framkvæmdarráð sveitarfélagana.
Hæstiréttur Íslands væri jafnframt til, en í stað hæstaréttardómara valda eftir hentisemi Björns Bjarna væri þetta þing dómara úr öllum sveitarfélögum, og í stað landslaga myndi hver og einn dómari dæma eftir lögum síns sveitarfélags og einfaldur meirihluti ráða dómsúrskurðinum. Þó væri hæstiréttur eingöngu valdhafandi í málefnum sem snúa að mannréttindum, sameiginlegum auðlindum og því sem snýr að sameiginlegri framkvæmd sveitarfélaga.
Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er tiltölulega einföld: Lýðræði virkar fínt, en það skalast illa. Rannsóknir mannfræðinga (svo sem Dunbar) hafa sýnt að í hópum manna þar sem eru fleiri en 150 einstaklingar byrja allir einstaklingarnir að missa yfirsýn vegna þess hvað tengslanetið er orðið flókið og flestir fara að fórna réttindum sínum á altari þæginda; sumir gera það með því að draga sig í hlé í málefnum samfélagsins meðan aðrir reyna að sölsa undir sig völd og reyna að stjórna öllum. Ég trúi því sterklega að því minna sem þetta er gert, því betur líður öllum þegar að öllu er á botninn hvolft.
Þetta er ekki óraunhæft. Þetta er bara útfærsluatriði. (San Marino er skipulagt á sirka þennan hátt, sem og Sviss.). Ég hef skoðað þetta mikið... ef þið viljið kynna ykkur þetta betur, sjá síðuna mína. Sér í lagi er frábært myndband með Paul Saffo hér.
Smári McCarthy (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.