27.11.2007 | 23:16
Eru sumar auðlindir sameiginlegar? (gestapenni)
Stundum þegar mikið brennur á mér eða mig vantar álit hjá manni með vit og þekkingu þá leita ég til vinar míns og kollega á Ísfirði, Halldórs Halldórssonar. Bæði er þar að finna vandaðan og góðan mann með mikla þekkingu á málefnum sveitarstjórna og mann sem stýrir samfélagi sem ég finn mikla samsvörun í og viðfangsefnin því áþekk. Nú fyrir stuttu átti ég gott spjall við Halldór. Eitt af því sem við ræddum var auðlindagjaldið svo kallaða en Vestfirðirnir eru að borga um 42 milljónir á ári í sérstök gjöld fyrir það eitt að veiða fisk í stað þess að höndla með verðbréf, vinna orku, eða eitthvað annað. Halldór benti mér á grein sem hann skrifaði fyrir nokkru og heitir Eru sumar auðlindir sameiginlegar?. Ég fékk hans samþykki fyrir því að munstra hann sem gestapenna hér síðunni.
Eru sumar auðlindir sameiginlegar?
Nú fer fram umræða um jöfnun flutningskostnaðar á landinu vegna breyttra orkulaga og líklegrar niðurstöðu svokallaðrar 19 manna nefndar. Hafa forstjórar orkufyrirtækja á suðvesturhorninu sem og borgarráð látið falla varnaðarorð vegna þessa. Fullyrt er að raforkukostnaður muni hækka á höfuðborgarsvæðinu um 20% og að það svæði muni líða mikið fyrir þessar breytingar.
Ekki hefur undirritaður upplýsingar um hversu mikið kostnaður mun aukast við breytinguna en veltir jafnframt fyrir sér hvort ekkert kostaði að dreifa rafmagni á svæðinu fyrir lagabreytingu. Getur verið að það gleymist í umræðunni?
Sameiginlegar auðlindir.
Talað er um fiskimiðin sem sameiginlegar auðlindir og að greiða skuli sérstakan skatt til landsmanna af fiskveiðum. Fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins greiða stærstan hluta af þeim skatti sem rennur í sameiginlegan sjóð landsmanna sem ráðstafað er í Reykjavík. Þá eru flest opinber störf tengd sjávarútveginum í Reykjavík sem nýtur þess í ýmsum tekjustofnum.
Orkuauðlindirnar eru sameiginlegar auðlindir. Við vitum að höfuðborgarbúar dæla ekki allri orkunni undan fótum sér heldur er hún líka sótt út fyrir svæðið úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Að því gefnu er auðvitað eðlilegt að landsmenn njóti að mestu sambærilegs raforkuverðs. Það er reyndar ekki svo heldur nokkuð misjafnt og víða eru þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni sem greiða niður kostnað við dreifikerfi á viðkomandi svæði. Á flestum stöðum er að auki hærra orkuverð en á höfuðborgarsvæðinu þó munurinn hafi minnkað á undanförnum árum.
Viðhorf.
Viðbrögðin við hugmyndum um jöfnun flutningskostnaðar á orku rifja upp viðhorf of margra embættismanna í stjórnkerfinu gagnvart því að störf á vegum hins opinbera eigi samkvæmt byggðaáætlun að fara út á land. Margir þessara embættismanna setja í handbremsu og bakkgír til öryggis gegn svona hugmyndum (stefnu ríkisstjórnar) og vinna að öfugri þróun í mörgum tilfellum.
Skv. skýrslu Verslunarráðs, minni ríkisumsvif margfalda tækifærin, fjölgaði opinberum störfum um 1.300 á árunum 2000-2002. Þó það eigi ekki að vera markmið að fjölga opinberum störfum hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og því er ekki tilviljun að svæðið sé jafnöflugt og raun ber vitni. Þessi störf eru viðbót við þau þúsundir sem fyrir eru. Á sama tímabili hefur opinberum störfum í mínu bæjarfélagi fækkað þrátt fyrir fyrrgreinda stefnu um að færa opinber störf út á land í kjarnastaði á landsbyggðinni.
Þarna skiptir hugarfarið öllu máli því mín tilfinning er sú að fyrir hvert starf sem við í kjarnabyggðunum leggjum til að fari þangað, séu tugir embættismanna fyrir sunnan sem berjast gegn því með öllum ráðum. Við höfum auðvitað lítið í þá að segja því þeim fjölgar jafnt og þétt og vex ásmegin þegar þróunin er í þveröfuga átt hjá okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mjög góð grein og alveg þörf að ræða þessi mál á sem víðustum grunni.
Gísli Guðmundsson, 28.11.2007 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.