8.11.2007 | 16:08
Millilandaflugvöllur við Vestmannaeyjar
Ég er þess fullviss að í framtíðinni verður millilandaflugvöllur á Suðurlandi og þá ef til vill á Bakka, rétt við höfnina okkar sem þar mun rísa innan skamms. Þegar af því verður mun þetta (myndin hér til hliðar) verða útsýnið út um flugstjórnarklefan þegar vélar lenda til suðurs.
Um seinustu helgi átti ég sæti í samgöngunefnd SASS. Ýmislegt var þar skeggrætt og eitt af því var millilandaflugvöllur á suðuarlandi og fór svo að eftirfarandi var samþykkt:
"Samgöngunefnd hvetur til þess að hafin verði undirbúningur að gerð alþjóðarflugvellar á Suðurlandi. Slíkur flugvöllur mun þjóna hlutverki varaflugvallar fyrir alþjóðlegaflugvöllinn á Reykjanesi um leið og þar væri rekin lággjaldarflugvöllur að erlendri fyrirmynd. Aðstæður á suðurlandi er kjörnar í ljósi nálægðar við öflugustu ferðaþjónustusvæði á landinu."
Gaman er að velta því fyrir sér hvaða áhrif slíkur völlur myndi hafa fyrir austursvæðið og Vestmannaeyjar ef slíkur völlur yrði staðsettur á Bakkaflugvelli. Aðstæður þar eru einstaklega góðar, ekkert fjalllendi, og sléttlendi slíkt að lagning brauta er ódýr og ótakmörkuð. Samgöngur milli lands og Eyja koma í framtíðinni til með að verða milli Vestmannaeyja og hafnar í Landeyjum (Land-Eyjahöfn). Þetta myndi merkja að öflugasta útflutningshöfn á landinu (hér í Eyjum) væri í seilingarfjarlægð frá millilandaflugvelli, það eitt og sér skapar gríðarleg tækifæri.
Þá myndi þetta einnig merkja gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu bæði hér í Eyjum og á Suðurlandi. Þetta er mál sem ánægjulegt verður að fylgja eftir, hér heima sem og innan SASS. Meira um þetta síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er geðveik hugmynd. Furðulegt að þetta hafi ekki verið rætt áður..
Prik fyrir þetta!
Friðberg Egill Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 18:17
Góð hugmynd!
Sigþóra Guðmundsdóttir, 8.11.2007 kl. 18:26
Sæll og blessaður Elliði.
Já, við sumarbústaðaeigendur í Rangárþingi verðum kannski ábyrgir fyrir öllum helstu framfarasporun 21stu aldarinnar í Vestmannaeyjum ! Vonandi komast þessi stórbrotnu áform öll til framkvæmda. Þetta eru byltingarkenndar hugmyndir, sagt er að byltingin éti börnin sín. Við skulum vona, að það eigi ekki við af þessu tilefni.
Ég hefi lengi haldið því fram, að hugmyndir um Bakkafjöruhöfn (Landeyjahöfn) eru mikið framfaraspor í sögu Eyjanna, og Suðurlands í heild sinni. Það sem allt of margir koma ekki auga á, eru þeir miklu möguleikar, sem felast í samskiptum Vestmannaeyinga og Sunnlendinga með tilkomu hafnarinnar.
Hugmyndir um stóran flugvöll og tvöföldun Suðurlandsvegar bæta náttúrlega enn stöðuna fyrir okkur, ef af verður. Þetta eru nánast einu möguleikarnir, að stækka okkar búsetu- og atvinnusvæði. Og svo sem ekki slæmt að tengjast okkar nánustu grönnum.
Svo ekki sé minnst á gífurlega möguleika ferðaþjónustunnar hér í bæ. Suðurland dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna, innlendra, sem útlendra. Hálftíma ferð með ferju til Eyja verður án efa mjög spennandi kostur fyrir þá, sem eru á ferð sunnanlands.
Til viðbótar því, sem áður er nefnt eru þær gífurlegu breytingar, sem verða í samskiptum íþróttahreyfingarinnar við önnur byggðalög. Allir, sem hafa starfað innan hreyfingarinnar þekkja þá miklu erfiðleika, sem fylgja ferðalögum milli landshluta, sérstaklega í vondum veðrum.
Reyni þeir, sem tala mest á móti títtnefndri höfn, að bjóða sjóveikri fjölskyldu aftur skemmtiferð til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn í leiðinlegu sjóveðri, nokkru eftir slíka reynslu. Ja ég myndi þurfa brýnt erindi til að leggja slíkt á mig.
Mikið skelfing myndi ég vilja, að við leggðumst nú öll á árarnar og sameinuðumst í þessu stórkostlega framfaramáli. Við skulum horfa fram á veg. Þeir sem hafa haft mestar efasemdir hingað til, hafa vissulega ýmislegt til síns máls. Sú umræða hefir án nokkurs vafa skilað heilmiklu til þeirra, sem vinna að þessu máli. Þess vegna eigum við að vera þakklát þeim, sem lagt hafa ýmislegt til málanna hingað til.
Nú er hins vegar mál að linni. Ákvörðun liggur fyrir, snúum bökum saman Eyjamenn, og leggjum aðal áherslu á, að vandað verði til verka. Nú er lag.
Friðbjörn Ó. Valtýsson (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 18:48
Ég er búin að tala fyrir því að loka flugvellinum í Vatnsmýrinni byggja upp alþjóðaflugvöll á Suðurlandi með þessum formerkjum sem þarna er um talað. Við þetta þá myndi koma samkeppni í millilanda og innanlandsflugi á milli Keflavíkur og staðsetningarinnar á suðurlandi.
Frábært framtak, vonandi að sem flestir réttsýnir menn sjái að þetta er eina sem dugir..
Ingi Björn Sigurðsson, 8.11.2007 kl. 22:24
Nú vilja allir fá flugvöll og Eyþór Arnalds vill hann við Selfoss. Hvorki Selfossflugvöllur né Bakkaflugvöllur geta hins vegar orðið varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll vegna þess að Suðurland er á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur í suðlægum áttum.
Í suðlægum þoku- og suddavindáttum virkar Reykjanesfjallgarðurinn með sín 6-700 metra háu Bláfjöll og Lönguhlíð eins og varnargarður þannig að þar er miklu betra skyggni og sést jafnvel til sólar!
Væri nú ekki ráð að athuga þetta áður en gerðir eru tveir stórir millilandaflugvellir á Suðurlandi.
Ómar Ragnarsson, 8.11.2007 kl. 23:45
Alveg arfavitlaus hugmynd og alveg eftir pólitíkusum í dreifbýli að koma með svona hugmyndir. Þarna yrði miklum peningum varið í "hvítan fíl" sem ætti sér litla sem enga tekjumöguleika. Veðurfar á þessu svæði á suðurlandi (sem ég þekki vel) er svo þannig eins og Ómar kemur inná að ekki er fýsilegt að byggja þar varaflugvöll fyrir KEF. Enda eru þeir þrír á landinu nú þegar og hlýtur að duga.
Bakkaflugvöllur er í eðli sínu mistök. Eyja-Bjarni og síðar Valur
Hvumpinn, 9.11.2007 kl. 08:04
Afsakið rak mig í enter takkann..
Bakkaflugvöllur er í eðli sínu mistök, en ekki flugvöllur hvers staðarval byggðist á þeim forsendum sem þarf að líta til þegar staðsetja á flugvöll. Eyjaflugs Bjarni (Jónsson) og síðar Valur Andersen treystu sér ekki til að "skríða" sjónflug lengra inná land í misjöfnum veðrum, þeir gátu auðveldlega fundið brimgarðinn og svo brautina í sandinum. Síðan komu svo misvitrir og spilltir stjórnmálamenn og létu setja pening í braut og hús.
Öll rök hefðu legið til að gera braut einhvers staðar vestan Þjórsár, eða nota Selfossflugvöll vegna Vestmannaeyjaflugs, flugtími hefði verið einungis örfáum mínútum lengri en til Bakka, en aksturstími til Reykjavíkur hefði hinsvegar styst um tugi mínútna. Flugmálastjórn má að nokkru um kenna að hafa ekki komið upp aðflugsbúnaði við Selfoss, en reyndar má ekki gleyma þráhyggju eyjaflugmanna við að skríða sjónflug, eitthvað sem reyndar kostaði ungan flugmann lífið.
Bakkaflugvöllur er í raun "anomaly". Enn stærri mistök væru að byggja þar stærri flugvöll, þegar höfn fyrir ferjusiglingar til Eyja er búin að þurrka út hið litla notagildi vallarins.
Hvumpinn, 9.11.2007 kl. 08:12
Er verið að tala um að leggja niður millilandaflugvöllinn í Keflavík?,því flugvöllurinn í Reykjavík er innanlandsflugvöllur sem þjónar landsbyggðinni,Færeyjum og Grænlandi.Spurningin er hvort þörf sé á tveim millilandaflugvöllum.?
María Anna P Kristjánsdóttir, 9.11.2007 kl. 10:57
Ég þekki vel til veðursaðtæðna á suðurlandi eins og reyndar víðar. Bakkaflugvöllur er hentugur til að sinna því hlutverki sem Elliði kemur inná. Það er kjánalegt að stilla þessu upp sem "frekju í landsbyggðarmönnnum". Í dag er varaflugvöllurinn of langt frá höfuðborgarsvæðinu og hann þar að koma nær. Annað skapar mikil vandræði eins og nýleg dæmi sanna þegar vélar urðu að lenda á Egilstöðum. Þá er það einnig fín hugmynd að reka þarna lággjaldavöll í samkeppni við völlinn á Suðurnesjum. Þetta mál styð ég heilshugar.
ps - Bakkafjara er stærsta og besta byggðarspor sem þið Eyjamenn hafið stigið. Framtíðin á eftir að sýna það.
Sæþór G (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 11:01
Þetta er dásemdar hugmynd í alla staði.. Nú hef ég ekki vit á veðri líkt og Ómar Ragnarsson og því síður hef é flughæfileika eða flugheimsku hans.
Þetta er án efa með galla og kosti og væri gaman að fá einhvern sem vit hefur á þessu til að tjá sig um svona mál.
Ég hef alltaf verið á móti Bakkafjöru en tel hana þó vera að vinna á. Hlakka til að vakna einn góðan veðurdag og sjá að ég hafi haft rangt fyrir mér í þeim efnum.
Sé frábæra ferð til útlanda enda á Bakkaflugvelli þar sem ég tek næsta rúllustiga sem ég sé beint uppí Bakkabátinn(Herjólf) og vera kominn í mat til mömmu augnabliki síðar..
Stefán Þór Steindórsson, 15.11.2007 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.