Opið bréf til afrekskonu

IMG_2586Í dag skrifaði ég opið bréf til íþróttakonu sem ég ber mikla virðingu fyrir.  Einhverjir hafa lesið bréfið og komist að þeirri niðurstöðu að með því sé ég að kasta rýrð á aðra íþróttakonu sem ég virði mikils, Hólmfríði Magnúsdóttur, sem spilaði með ÍBV við góðan orðstí fyrir nokkrum árum.  Ég missi svo sem ekki svefn yfir slíkum misskilningi (eða vísvitandi mistúlkun).  Bréfið sem ég birti hér að neðan er skrifað í þeim tilgangi að standa við bakið á mestu afrekskonu Vestmannaeyja í íþróttum í dag.   (Myndinn hér til hliðar er af Einidrangi)

Sæl Margrét Lára!

Mig langar fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar að óska þér hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur í sumar.  Það velkist engin í efa um að þú skaraðir fram úr í sumar og varst langbesti leikmaður ársins í Landsbankadeild kvenna. 

Val leikmanna á Hólmfríði Magnúsdóttur, sem við Eyjamenn þekkjum af góðu einu, tók mið af öðru en að hún sé þér fremri á sviði knattspyrnu.  Frammistaða Hólmfríðar í sumar var glæst og undir flestum kringumstæðum hefði hún verið afar vel af titlinum komin.  Í sumar barst þú hinsvegar höfuð og herðar yfir alla aðra leikmenn í  Landsbankadeildinni, það er óumdeilanlegt.

Það hafa verið forréttindi fyrir áhugafólk um íþróttir að fylgjast með ferli þínum.  Við Eyjamenn höfum orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fylgjast með þér frá því að þú varst lítið hærri en boltinn.  Við höfum séð þig þroskast úr duglegu og hæfileikaríku barni sem með ósérhlífni óx í einhverja mestu afrekskonu í íþróttum á íslandi í dag.  Sem foreldri er ég þér einnig þakklátur fyrir þá fyrirmynd sem þú ert börnum af báðum kynjum.

Einn af fylgifiskum þess að skara fram úr er hinsvegar öfund og afbrýðisemi.  Frændur okkar Danir hafa kallað þá tilhneigingu að geta ekki samglaðst þeim sem gengur vel "janteloven" og fyrsta grein hljóðar svona: "Du skal ikke tro, du er noget" eða "Þú skal ekki halda að þú sért eitthvað".  Hugsanaháttur sem þessi er mein sem því miður plagar ákveðna kima samfélags okkar.  Í stað þess að umvefja þá sem vel gengur og hampa þeim fyrir árangur þá verður minnimáttarkennd til þess að undan þeim er grafið og steinn lagður í götu þeirra.

Eftir jákvæð kynni mín af þér þekki ég að mótlæti sem þetta styrkir þig.  Ég veit sem er að þú lætur ekki öfund og róg trufla þig í vegferð þinni á leið til afreka.  Við Eyjamenn erum afar stolt af því að geta gert tilkall til þín sem afrekskonu og trúum því að samfélagsgerð okkar hvetji fólk til að skara fram úr.  Við ætlum áfram að standa þétt við bakið á þér og öðru afreksfólki jafnt á sviði íþrótta sem öðrum sviðum.

Til hamingju Margrét Lára.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mummi Guð

Það er verið að kasta rýrð á kvenna íþróttir með því að halda því fram að leikmenn annarra liða hafa tekið sig saman um kjósa ekki Margréti Láru. Ég hef ekki heyrt neinar sannanir fyrir því að eitthvað slíkt hafi verið í gangi. Ég bendi þér og öðrum á lesa bloggsíðu Henrys Birgis. Þar fjallar hann um þessa kosningu frá öðru sjónarhorni en er í tísku hjá fjölmiðlum.

Mummi Guð, 23.10.2007 kl. 17:01

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er nú Henry ekki oft á öndverðu meiði en almenningur, mér finnst ekki allt sem hann skrifar vera gáfulegt.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.10.2007 kl. 00:41

3 identicon

Hahaha, er ekki allt í lagi með fólk, er fólk svo örvæntingarfullt að það er farið að vitna í Henry birgir og ekki nóg með það að þá er Henry birgir að sjóða saman kjaftasögu ofl og með vangaveltur um atriði sem hann hefur engin haldbær rök fyrir, þú talar um engar sannanir mummi guð en vitnar svo í mann sem hefur engar sannanir, stígur ekki beint í vitið með þetta.

Halldór (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 09:19

4 Smámynd: Skarfurinn

Mikið hlýtur að vera rólegt að vera bæjarstjóri þarna í litlu eyjunni, mér  finnst að bæjarstjóri eigi ekki að vera að fjargviðrast út í íþróttafólk.

Skarfurinn, 24.10.2007 kl. 11:05

5 identicon

Mikið hlýtur að vera rólegt í efra Breiðholtinu. Mér finnst að menn sem hafa ekkert að gera eigi að finna sér eitthvað þarfara að gera en að tuða.

doddi (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 12:27

6 Smámynd: Skarfurinn

Mikið andskotii ertu geðstirður Doddi, er biðin eftir göngunum að drepa þig ? en þú talar um að tuða, það er akkúrat það sem þið eyjamenn eruð að gera haldandi að ykkar íþróttafólk sé af öðrum gæðaflokki. 

Skarfurinn, 24.10.2007 kl. 13:34

7 identicon

Það eru bara einfaldlega orð að sönnu, skarfurinn minn, svo held ég að fólk hvort sem það er bæjarstjóri eða einhver annar í Vestmannaeyjum megi alveg hafa skoðun, og auðvitað erum við hlutdræg, enda hafa margir frábærir íþróttamenn frá Vestmannaeyjum náð langt í íþróttum og af þeim erum við stolt, enga öfund......

Kalli (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 14:33

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel mælt Elliði - eins og talað út úr mínu hjarta. Persónulega þekki ég hvoruga íþróttakonuna sem mál þetta snýst um, en mér blöskrar að það skyldi gengið fram hjá Margréti Láru - svo glæst sem hennar frammistaða hefur verið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.10.2007 kl. 16:03

9 Smámynd: Mummi Guð

Halldór, ertu ekki að grínast með þessari líkingu þinni. Samkvæmt því sem margir halda fram (og þar á meðal ég) þá var ekkert samráð í þessari kosningu. Þess vegna eru engin sönnunargögn til. Hvernig sönnun ætti annars að vera til sem sannar að ekkert samráð var?

Mummi Guð, 24.10.2007 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband