22.10.2007 | 00:05
Vilja slá skjaldborg um Sparisjóð Vestmannaeyja
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að blikur eru nú á lofti hvað varðar Sparisjóð okkar Eyjamanna. Málið kom til umræðu á seinasta bæjarstjórnarfundi og ríkir alger einhugur meðal bæjarfulltrúa hvað varðar áherslur Vestmannaeyjabæjar. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í gær. Fréttin þar var svohljóðandi:
Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Vestmannaeyja vilja koma í veg fyrir að Sparisjóður Vestmannaeyja verði yfirtekinn líkt og gerðist í Hafnarfirði. Bæjarstjórnin heitir á stjórn og stofnfjáreigendur að standa saman og sækist eftir að kaupa stofnfjárbréf til að gæta að hagsmunum bæjarfélagsins. Ýmsir hafa verið að ásælast stofnfjárbréfin, segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja. Við vitum til þess að það hefur verið auglýst eftir stofnfjárbréfum til kaups. Í því sambandi eru nefndar háar fjárhæðir, allt að fjörutíu milljónum króna. Við viljum vara við þessu því miðað við þessa fjárhæð er verið að ásælast völd yfir varasjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja.
Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er varasjóðurinn metinn á allt að 2,5 milljarða króna. Hins vegar er framlag sjötíu stofnfjáreigenda til sjóðsins einungis tæpar fjórar milljónir króna í formi keyptra stofnfjárbréfa. Uppreiknað virði hvers stofnfjárbréfs er um 55 þúsund krónur. Samkvæmt þessu gæti stofnfjáreigandi, sem keypti stofnfjárbréf á 55 þúsund k ónur, selt bréfið á fjörutíu milljónir króna.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja heitir á stjórn og stofnfjáreigendur Sparisjóðsins að standa saman og minnir jafnframt á að þeir eru trúnaðarmenn sjóðsins, segir í ályktun sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fundi bæjarstjórnar í fyrradag. Þar lagði Elliði einnig til að bærinn keypti allt að fimm prósent stofnfjárbréfa Sparisjóðsins. Það yrði gert á genginu einn. Verður það mál tekið fyrir í bæjarráði eftir helgi. Það yrði táknrænn gjörningur, segir Elliði. Við erum meðvituð um samfélagslegt mikilvægi Sparisjóðs Vestmannaeyja. Okkar aðkoma að þessu máli er eðlileg hagsmunagæsla fyrir íbúa samfélagsins hér. Hann segir að það hafi aldrei verið hugmyndin með sölu stofnfjárbréfa að eigendur þeirra myndu leysa út mikinn hagnað af bréfum sínum.
Þetta er í takt við það sem stjórnin hefur lagt áherslu á, segir Arnar Sigmundsson varaformaður stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hann segir að stjórnin hafi ekki afgreitt neina sölu á stofnfjárbréfum. Það muni ekki gerast næstu mánuði á meðan verið sé að auka stofnfé um 350 milljónir króna. Í þeirri hlutafjáraukningu hafi stofnfjáreigendur forkaupsrétt. Til þess að bærinn geti keypt verði einhver að falla frá forkaupsrétti sínum eða þá að selja bænum síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Veit nú ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu öllu. Kannski er best að maður setji bara fram ríflegt blogg um málið. En niðurlagið þarna segir mér allt sem segja þarf. Þeir sem eru stofnfjáreigendur nú , hvernig svo sem þessum dúddum áskotnaðist nú sá hlutur, ætla að milja áfram undir sjálfan sig áður en að öðrum verður hleypt að kökunni - ok - Afhverju er ekki öllum með lögheimili í Eyjum, já eða með viðskipti við Sparisjóðinn segjum t.d. 1. janúar síðastliðinn, gefinn kostur á að kaupa sér x hlut, þá geta líka núverandi stofnfjáreigendur styrkt sína stöðu. Svo er þetta líka með að afhverju getur bæjarfélagið ekki keypt? til hvers hefur bæjarfélagið ávallt verið með 2 fulltrúa þarna inni, vill reyndar svo skringilega til að þeir hafa oft verið eigendur stofnfjárbréfa sjálfir. Svo á bæjarfélagið ekki að eiga neinn rétt þarna! Hvað afrekuðu menn til að gerast eigendur stofnfjárbréfa
"Efling Sparisjóðsins er efling einstaklingsins í Vestmanneyjum til mannsæmandi lífs. Barátta sparisjóðsins fyrir bættum kjörum Eyjabúa er um leið eins konar sjálfstæðisbarátta þeirra, losar þá undan fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Þar er þeirra eigið fé, þeirra eigið afl, til þeirra hluta sem gera skal og nauðsyn krefst, að framkvæmdir verði, ef Eyjabúum skal farnast vel"
Þessi orð Þorsteins Þ. Víglundssonar eru enn í fullu gildi og lýsa vel þeirri hugsjón sem lá að baki stofnunar Sparisjóðs Vestmannaeyja.
þetta segir segir á heimasíðu Sparisjóðs Vestmannaeyja
Gísli Foster Hjartarson, 22.10.2007 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.