Svör til sóma konu


IMG_2971Að öllu jöfnu lít ég ekki á það sem skildu mína að svara spurningum sem til mín er beint hér í gegnum bloggsíðuna enda henni haldið úti mér til dundurs en ekki sem hluti af starfi mínu.  Það eru allir velkomnir til skrafs og ráðgerða á skrifstofu mína ef það á erindi við mig sem bæjarstjóra og hvet ég fólk til að bóka tíma ef það á slík erindi við mig.  Hinsvegar ætla ég að gera sjálfsagða undantekningu vegna Hönnu Birnu vinkonu minnar og frambjóðanda frjálslyndra enda hún mikil sóma kona.

Hún spyr:
Hver er aðkoma  bæjarstjórnar Vestmannaeyja  í þessu máli [siglingar um Bakkafjöru]?

Aðkoma Vestmannaeyjabæjar er náttúrulega sem fulltrúi stærsta hagsmunaaðilans í þessu öllu það er að segja Eyjamanna.  Bæjarstjórn öll á í stöðugum samskiptum við fulltrúa ríkisvaldsins bæði formlega og óformlega.  Þannig hafa bæði meiri og minni hluti rætt við sína fulltrúa og gert þeim grein fyrir sínum áherslum.  Formleg aðkoma er náttúrulega í gegnum fundi bæjarstjórnar og bæjarráð sem fer með samgöngu mál.  Þar sitja Páley Borgþórsdóttir, Páll Scheving og Páll Marvin (ekki fjölbreytt nafna val).  Þá eiga heimamenn tvo fulltrúa í stýrihóp vegna Bakkafjöru, þ.e.a.s. undirritaður og Róbert Marshall.  Góð samvinna og traust er milli okkar í þessari vinnu og ég get fullvissað alla um að það er fengur fyrir okkur að hafa Róbert þarna inni enda talar hann fyrir hönd ráðherra.  Haldnir hafa verið 14 fundir í stýrihópnum en við Róbert höfum aðeins setið 1 slíkan þar sem við erum ný komnir inn.


Það er mjög gott að segja í fréttaviðtali " ég vil og ég óska" Hver er samningstaða bæjarstórnar  Vestmannaeyja í dag? Það kom ykkur ýmislegt á óvart?
Það er sennilega ekki rétt að tala um samningsstöðu í þessu máli því hún er í raun engin.  Ríkið rekur samgöngur fyrir sína tekjustofna og fer því alfarið með stjórnina í þessu mál.  Í raun er engin munur á þessu og td. rekstri sjúkrahúsa.  Ríkið fer með ferðina en eðlilega taka þeir mið af óskum okkar og kröfum ef þær eru vel unnar og rökstuddar.  Til marks um það hefur samgönguráðherra skipað tvo Eyjamenn í stýrihópinn til að rödd okkar heyrist og komist til skila.  Ef ég yrði knúin svara um “samningsstöðu” þá verð ég að segja að hún er engin.  Við getum engu hótað öðru en að ef ekki verður vel unnið þá veljum við nýja stjórnendur í næstu kosningum, þannig virkar fulltrúalýðræðið.


Hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja  sett fram sínar kröfur? Ef svo er ekki, hvers vegna?  
Bæjarstjórn hefur ekki enn gert það.  Það verður gert í næstu viku.  Ástæðan er sú að tíminn til að skila inn kröfugerð er heppilegur þá.  Það er í aðdraganda forvals og vel fyrir útboð.

Hver er aðkoma bæjarstjórnar  Ve., í Bakkafjöru ævintýrinu?
Hér erum við sammála eins og í svo mörgu.  Ef vel tekst til þá verður þetta ævintýri líkast og mér finnst þetta gott orðaval hjá þér.  Ég tel mig hinsvegar búinn að svara þessu.

Er krafa  um lágmarks  ferðatíðni  inn í samningi fyrirhugaðrar einkaferjunnar?  
Já við höfum sagt að við krefjumst allt að 8 ferðum á sólahring og meira á álagstímum.  Þetta verður svo ítrekað í kröfugerð bæjarstjórnar.


Ferja sem  eftir útboðgögnum á að vera í einkaeign. er það eðlilegt, boðlegt,sem framtíðarferðamáti Eyjabúa  að mati bæjarstjórnar Vestmannaeyja?
Bæjarstjórn fjallaði lítillega um þetta á seinasta bæjarstjórnarfundi.  Miðað við þá umræðu sem þar fór fram þá sýnist mér á flestu að menn óttast kannski ekki mest að eignarhaldið verði á höndum einkaaðila heldur frekar að samningstíminn sé of langur.  Herjólfur sá er nú siglir er í eigu ríkisins og mín skoðun er sú að ýmislegt megi betur fara í viðhaldi.  Ég óttast ekki að viðhaldi eða rekstri sjálfs stálsins verði ekki í lagi í höndum einkaaðila.  Í raun hefur mér fundist betur hugað að eigum einkaaðila en opinberra og sjálfsagt á hið sama við um ferjur.  Hinsvegar má færa rök fyrir því að með eignarhaldi sé viðkomandi rekstraraðili með töglin og halgdirnar því ef þeim verður sagt upp rekstrarsamningi þá taka þeir skipið með sér.  Við gjöldum einnig varhug við of löngum samningstíma.  Sjálfur tel ég líklegt að “vinir” mínir í ESA hafi athugasemdir um ríkisstyrktan samning til 15 ára.  Við viljum einnig tryggja í bak og fyrir að uppsagnarákvæði séu bæði mörg og skýr.


Er einkarekstur ferjunar það sem ykkur hugnast?
Sjá svar hér að ofan


Hvert er  ykkar álit á auglýsingu Siglingamálastofnunar vegna framtíðarsamgöngumála Eyjanna  án samráðs við  bæjarstjórn Vestmannaeyja?
Ég hef áður svarað þessu á þann hátt að fyrst og fremst fögnum við því að málið sé komið það langt að hægt sé að ráðast í forval.  Þá er það rangt hjá þér að fullt samráð hafi ekki verið haft við fulltrúa Vestmannaeyjabæjar um auglýsinguna.  Við vissum af auglýsingunni þótt að það hafi komið okkur á óvart að jafnvel kæmi til greina að hafnarmannvirki yrðu í einkarekstri.  Við höfum þegar komið athugasemdum við það á framfæri og sagt að það kemur ekki til greina að okkar hálfu.  Við höfum þegar hafið undirbúning að stofnun rekstrarfélags með Rangárþingi Eystra og þar verðum við með 60% eignarhlutfall og okkar góðu nágranar með 40% eignarhlutfall.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

bíddu hvað fékkstu eilega mikið af spurningum í gegnum bloggið þitt?

RSPCT

Tryggvi Hjaltason, 21.10.2007 kl. 20:58

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Elliði, Hér með skora ég á þig sem bæjarstjóra allra Vestmannaeyinga að beita þér fyrir því að við eyjamenn fáum að kjósa á milli Bakkafjöru eða nýs Herjólfs, það er það eina rétta í stöðunni. Vonast eftir skjótum viðbrögðum því okkur liggur á .GEA.

Georg Eiður Arnarson, 21.10.2007 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband