Kröfugerð heimamanna (bloggorlofi lokið)

Picture1Þá hef ég lokið bloggorlofi og hyggst taka upp bloggið að nýju.  Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst hávær krafa Eyjamanna um aukið aðgengi að upplýsingum, straumum og stefnu hvað Vestmannaeyjabæ varðar.

Nú nýverið skoraði vinur minn Maggi Braga á mig að taka upp bloggið að nýju og Hanna Birna vinkona mín í suðurgarði tók undir með því að segja "Halelúja" og þar með höfðu þau í raun tekið ákvörðun fyrir mig.

Hér kemur svo fyrsti pistill:

Eðlilega eru í skiptar skoðanir um það hvort nýr Herjólfur sem siglir í Bakkafjöru sé gæfu spor fyrir okkur.  Sjálfur hef ég ekki farið í grafgötur með þá skoðun mína að ef frátafir verða sambærilegar við það sem í dag er í siglingum til Þorlákshafnar, og verði og þjónustu verði hagað í samræmi við það að hér er um þjóðvega að ræða, þá komi þetta til með að valda straumhvörfum.

Nú er hinsvegar öllum ljóst að stefnan er tekin á siglingar beint yfir á suðurlandið og nú verður okkur að bera gæfa til að sameinast í kröfugerð til að tryggja að siglingar í Bakkafjöru skili því sem til er ætlast. 

Þannig hef ég lýst þeirri skoðun minni að ferðatíðni eigi ekki einungis að taka mið af álaginu á skipið heldur í takt við yfirlýstan vilja stjórnvalda um að stórefla samgöngur milli lands og Eyja.  Hér er um að ræða þjóðveg.  Þjónustustig og gjaldtaka á að taka mið af því og engu öðru. 

Það er algerlega út úr kortinu að telja bílana sem nú fara um, reikna með einhverri fjölgun og miða ferðatíðni við það hvað skipið þarf að fara margar ferðir til að anna slíkri eftirspurn.  Hugmyndin á bak við siglingar um Bakkafjöru er ekki síst að stækka atvinnusvæði og efla tengsl svæða.  Það gerist eingöngu með því að ferðir séu það hagstæðar og það tíðar að nánast sé með tveggja tíma millibili hægt að komast til og frá Eyjum. 

Í dag er staðan sú að Ferjan er í siglingum í 14 tíma á sólarhring, alla daga vikunnar.  Datt virkilega einhverjum í hug að við myndum láta nýja ferju sigla í færri tíma?  


Við viljum miða við að ferjan sigli fyrstu ferð ekki seinna en kl. 07 á morgnanna og ljúki seinustu ferð um kl. 23.00.  Það gerir 16 tíma (einungis tveimur tímum meira en nú er) .  Í bæklingum kemur skýrt fram að það taki um 2 tíma að ljúka hringnum.  16 tímar til ráðstöfunar deilt í þá 2 tíma sem það tekur að sigla fram og til baka gera 8 ferðir.  Í mínum huga er ljóst að krafan verður sú.

Í viðbót við þetta bætist svo umræða um verðlagningu, kojur, þjónusta við fatlaða, rekstur á Bakkahöfn, þjónusta um borð og svo margt fleira.

Ef vel verður að verki staðið og ríkið stendur við þá yfirlýsingu að þeir vilji stórefla samgöngur milli lands og Eyja þá á þetta eftir að gerbylta samgöngum milli lands og Eyja.

ps. Myndin hér að neðan er tekin í Bakkafjöru og sýnir árangur af uppgræðslu sumarsins.  Myndin sýnir reyndar vel það sem ég hef verið að stríða henni Unni Brá vinkonu minni og sveitarstýru á Hvolsvelli með, að það eina sem þau hafa umfram okkur er fallegra útsýni til suðurs.

Sept 07


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Vertu velkominn úr bloggorlofi Elliði, góð grein hjá þér ég er sammála þér um flest og nú hlýtur að vera komið að okkur í sambandi við kröfur, nú er tíminn því hann hleypur frá okkur. Ekki væri verra að halda borgarafund um þessi mál. Kær kveðja.

Helgi Þór Gunnarsson, 19.10.2007 kl. 14:51

2 identicon

Það er gott að lyklaborðið hjá þér verði núna látið hafa það.Fáir ef einhverjir eru eins góðir pennar og þú.Svo er náttúrulega frábært að fá að vita hvernig framvindur í hinum ýmsu málum á vegum bæjarins.Það slær á óþarfan misskilning sem oft er í gangi.

RagnaB (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 15:59

3 Smámynd: Sigursveinn

Velkominn aftur í bloggheima!  Ég hélt að þú hefðir einfaldlega týnt lykilorðinu inn á síðuna Þetta er flott grein. Við verðum að halda okkar kröfum á lofti. Allt of oft á síðustu árum höfum við fengið fyrirskipanir að sunnan hvernig hlutirnir eiga að vera hjá okkur. Auðvitað eigum við að setja kröfurnar.  En eitt kemur mér virkilega á óvart ef rétt er, að þið (bæjaryfirvöld) hafið ekki vitað af þeim möguleika í útboðinu að höfnin sé einkarekinn?  

Sigursveinn , 19.10.2007 kl. 16:26

4 Smámynd: Kjartan Vídó

Ég verð að hrósa ráðherra samgöngumála fyrir að ætla að hafa Bakkafjöru í rekstri einkaaðila. Þarna er ráðherra sem er frjálshyggjumaður nema hann veit bara ekki af því.

Kjartan Vídó, 19.10.2007 kl. 19:30

5 identicon

Við höfum nú ekki oft verið sammála í pólitíkinni en þarna held ég bara að ég sé sammála þér Kjartan :)

Jórunn Einarsd. (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 19:52

6 Smámynd: Magnús Bragason

Ég er ánægður með að hafa vakið þig til til bloggheima Elliði. Góð grein hjá þér og flott mynd. Mér finnst að við eigum að gera allt til þess að Vestmannaeyjabær eigi meirihluta í Bakkafjöruhöfn. Og það er allt í lagi að einhver einkaaðili eigi skipið, en það á ekki að semja til svo langs tíma. Það getur svo mikið breyst á nokkrum árum. Við höfum reynsluna af styttri samningum.

Magnús Bragason, 19.10.2007 kl. 23:38

7 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Magnús það er ekki í lagi að einkareka þjóðveginn til Eyja, ekki finnst okkur það koma vél út í dag er það?

Helgi Þór Gunnarsson, 21.10.2007 kl. 10:39

8 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Það verður fróðlegt að sjá nýja mynd tekna á sama stað í vor, ég er ansi hræddur um að hún verði ekki jafn falleg.

Helgi Þór Gunnarsson, 21.10.2007 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband