19.7.2007 | 17:19
Eyjahjartað og samfélagsleg ábyrgð
Mér var að berast í hendur blaðið Vaktin. Þar er því haldið fram að fjársterkur aðili hafi boðið einhverjum stofnfjáreigendum að kaupa hlut þeirra í Sparisjóði Vestmannaeyja. Mér varð því hugsað til vilja þeirra manna sem stofnuðu sparisjóðinn.
Efling Sparisjóðsins er efling einstaklingsins í Vestmannaeyjum til mannsæmandi lífs.
Barátta Sparisjóðsins fyrir bættum kjörum Eyjabúa er um leið eins konar sjálfstæðisbarátta þeirra, losar þá undan fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Þar er þeirra eigið fé, þeirra eigið afl, til þeirra hluta sem gera skal og nauðsyn krefst, að framkvæmdir verði, ef Eyjabúum skal farnast vel. (Sparisjóður Vestmannaeyja 50 ára. bls. 8)
Þannig komst Þorsteinn Þ. Víglundsson að orði þegar hann rifjaði upp tilgang og starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja í fyrstu. Hann var frumkvöðull að stofnun Sparisjóðsins. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um vilja stofnenda Sparisjóðsins hvað þetta varðar. Stofnfjáreigendur eru fyrst og fremst táknrænir ábyrgðaraðilar. Þannig má benda á að meðal núverandi 70 stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja hafa 15-20 þeirra verið vara- eða aðalbæjarfulltrúar í lengri eða skemmri tíma og aðkoma þeirra að hópi stofnfjáreigenda hefur að nokkru byggst á þátttöku þeirra í bæjarmálum. Yfirgnæfandi meirihluti stofnfjáreigenda hefur komist yfir sinn hluta vegna þátttöku í bæjarmálum og þeim ber alger samfélagsleg skylda til að gæta að heildarhagsmunum og taka þá fram fyrir skjótfenginn gróða fyrir sjálfan sig.
Ég fæ ekki séð hvernig stofnfjáreigendur sem greitt hafa táknræna upphæð að nafnvirði 55.000 krónur ætla að réttlæta það að leysa út stórfé sem í raun er eign samfélagsins alls.
Ef heimildir Vaktarinnar eru réttar þá er þetta í annað skiptið nú á fáum vikum sem fjársterkir aðilar reyna yfirtöku á stóru fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Eyjamenn stóðu saman í að verjast yfirtöku á Vinnslustöðinni og ég hef trú á því að okkur beri gæfa til að standa einnig vörð um Sparisjóðinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Facebook
Athugasemdir
Jæja nú er Vídó orðlaus ég sem hélt að þú kæri vinur værir Sjálfstæðismaður en svona skoðanir eiga heima hjá Vinstri Grænum. Það er frábært að vita að einhverjir hafa áhuga að kaupa sig inn í Sparisjóðinn, Sparisjóðurinn hefur staðið sig vel síðustu ár og farið í ákveðna útráð á suðurlandinu. Gallinn við rekstur Sparisjóða í dag er að þeir hafa ekki jafn mikla möguleika á auknu hlutafé eins og almenn hlutafélög og því tel ég því að Sparisjóðurinn í eyjum ætti að fara sömu leið og SPRON og breyta honum í hlutafélag.
Nú eru þessir stofnfjáreigendur búnir að greiða þarna inn ákveðna upphæð en samt sem áður bera þeir ábyrgð langt umfram þá upphæð og ef að allt fer á versta veg þá skil ég þessi stofnfjárlög (eða hvað sem þetta heitir) þá eru stofnfjáreigendur ábyrgir.
Stofnaður hefur verið markaður með stofnfé hjá SPRON og eru það einungis stofnfjáreigendur sem mega versla með það en núna ætla þeir að opna fyrirtækið og er hlutur hvers stofnfjáraðila í SPRON um 33 milljónir. Frá því að núverandi stofnfjáreigendur greiddu fyrst sinn hlut hefur mikið vatn runnið til sjávar og fyrirtækið allt annað og betra og eru þeir að fá ávöxtin að því í dag.
Eitt af því sem fáranlegt er við Sparisjóðinn í eyjum og flesta sparisjóði er seta fulltrúa frá sveitafélögum í stjórnum þessara fyrirtækja. Þarna skora ég á þig að breyta því, sveitafélög hafa ekkert með svona stjórnarsetu að gera og vona ég að þú lagir þetta.
Hættur í bili.
Kv
Kjartan Vídó
Kjartan Vídó, 19.7.2007 kl. 19:39
Eitt enn frá Vídó:
Ef að stofnfjáreigendur selja sinn hlut þá losnar um mikið fé sem verður í höndum eyjamanna sem sem gætu komið samfélaginu til góða.
Kjartan Vídó, 19.7.2007 kl. 19:50
Skil ekki alveg þennan tvískinnung hjá þér Elliði, þegar þú talar um samfélagslega skyldu til að gæta að heildar hagsmunum og taka þá fram fyrir skjótfenginn gróða fyrir sjálfan sig(stofnfjáreigendur Sp.sj. Ve.). Svolítið ósannfærandi meðan þið ráðamenn bæjafélagsins á sama tíma, seljið hlut okkar Vestmannaeyinga í Hitaveitu Suðurnesja? Telst það kannski ekki skjótfenginn gróði án þess að skoða málið til lengri tíma séð. En satt að segja hefi ég aldrei skilið þetta tangarhald á Sp. sj. Ve. í gegn um stofnfjáreigendur. Þar af leiðir að mér finnst vit í því sem Vító segir , að tími sé á að breyta Sparisjóðnum í hlutafélag.
Þorkell Sigurjónsson, 20.7.2007 kl. 16:17
Þorkell ég las á netinu í dag að einhverjir spáðu því að bærinn keypti Sparisjóðinn og ef að það er rétt og við skoðum málið miðað við skrif Elliða þá ætlar hann að endurgreiða stofnfjáreigendum 55.000 kr og kaupa Sparisjóðin á 3.8 milljón og sjóðurinn skilaði yfir 300 milljónum í hagnað í fyrra.
Ég er ekki sáttur við þann sósíalisma sem á stað í þessari umræðu og t.d. að bærinn kaupi Sparisjóðinn er það fáranlegasta sem ég hef heyrt í langan tíma. Stofnfjáreigendur eiga að ráða því sjálfir hverjum þeim selja og á hvaða upphæð það er hin eðlilega leið.
Skora enn og aftur á Elliða að endurskoða ákvarðanar töku bæjarins varðandi stjórnarmenn í Sparisjóðnum, sú seta er algjör tímaskekkja og hafa stofnfjáreigendur kosið um það á aðalfundi að þessu yrði hætt en mig grunar að þeir tveir sem sitja í stjórninni fyrir bæinn sé ekki sáttir við að missa stöðu sína í Sparisjóðnum.
En sparistjóðurinn er góð fjármálastofnun með gott starfsfólk og hann þarf að stækka ekki standa í stað og það er gert með því að opna hann.
Kjartan Vídó, 20.7.2007 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.