Hagræðum álinu, styðjum sjávarútveginn.

IMG_3118Ég las áhugaverða grein í viðskiptablaðinu sem ég tel að eigi erindi við fleiri.  Lykilatriðið fyrir mér, mitt í öllu tali um mótvægisaðgerðir er þetta:   Ætti ekki að skoða hvort hægt sé að slaka aðeins á hagræðingaklónni í sjávarútvegi og beita henni á aðrar atvinnugreinar svo sem álframleiðslu?  Í því samhengi má minna á sértækan landsbyggðarskatt sem kallast "veiðigjald" og er ekkert annað en landsbyggðaskattur.

Hér er greinin:

Hagræðum álinu, styðjum sjávarútveginn.

Íslendingar eru stoltir af því að hér á landi er sjávarútvegurinn ekki ríkisstyrkt atvinnugrein líkt og í mörgum nágrannalöngum okkar.  Kvóta kerfið hefur leikið lykilhlutverk í þessari velgengni atvinnugreinarinnar á síðustu áratugum og enginn neitar því að íslenskur sjávarútvegur státar af öflum fyrirtækjum.

Þó er ljóst að mjög sársaukafullar hagræðingaraðgerðir hafa verið forsendan fyrir velgengni stærstu fyrirtækjanna í atvinnugreininni eftir að kvótakerfið var tekið upp.  Þær hagræðingaraðgerir hafa komið verst niður áa litlum byggðarlögum í dreifbýli.  Án þess að kvótakerfinu einu skuli kennt um vanda dreifbýlisins á Íslandi er ljóst að lagasetning um það hefur ekki þjónað hagmunum hinna dreifðu byggða.

Þannig má sjá að íslensk stjórnvöld hafa ekki ætlað sjávarútvegnum að vera í forystuhlutverki í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.  Allt kapp hefur verið lagt á að gera greinina hagkvæma og það hefur verið litið á hnignun smárra byggðarlaga landið um kring sem fórnarkostnað í þeim tilgangi.

Önnur atvinnugrein var hinsvegar útvalin af stjórnvöldum til að þjóna atvinnuppbyggingnu á landsbyggðinni, og þá hefur hvorki verið sparað til í beinum niðurgreiðslum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna né í hvers kyns fyrirgreiðslum og stuðningi í deilum sem um þá atvinnugrein hefur skapast.  Sú atvinnugrein er álframleiðsla.

Sífellt háværari kröfum landsbyggðarfólks um aðstoð við atvinnuuppbyggingu hefur verið mætt með því að reisa þar álver á forsendum afar óhagstæðara orkusölusamninga sem myndu hvergi hljóta náð fyrir augum skynsamlegs einkarekstrar, svo sem hagfræðingar hfa marítrekað bent á.  Drifkrafturinn á bak við uppbyggingu áliðnaðarins á Íslandi er ekki kröfur markaðarins heldur byggðarstefna.

IMG_3089Hvers vegna skyldi atvinnugrein sem er jafn mengandi, frumstæð, gamaldags og laus við virðisauka og álframleiðsla vera niðurgreidd af ríkinu sem liður í byggðarstefnu, á meðan atvinnustarfsemi sem stendur í sérstaklega djúpum tengslum við sögu okkar og menningu er látið blæða út á skurðarborði hagræðingar í hinum dreifðu byggðum?

Sumir Íslendingar, sérstaklega í Reykjavík, segja sem svo að hnignun byggða í dreifbýli sé óumflýjanleg þróun sem ekki sé réttlætanlegt að reyna að snúa við með stjórnvaldsaðgerðum.  Fyrir þessari kaldranalegu afstöðu má færa ýmis rök, en mér segir svo hugur að margir sem hana verja hafa ekki opnað augu sín fyrir því að áliðnaðurinn hér á landi er ekkert annað en byggðarstefna.

Þeir hinir sömu ættu að spyrja sig sem svo: Ef vægi krafna um ríkisþátttöku í atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er þrátt fyrir allt svo mikið að ekki þykir tiltökumál að svara henni með atvinnustarfsemi sem ógnar stöðugleika efnahagslífsins, vaxtarmöguleikum sprotafyrirtækja, alþjóðlegri ímynd Íslands og síðast en ekki síst sjálfri náttúrunni, ættum við þá ekki frekar að skoða hvort hægt sé að slaka aðeins á hagræðingaklónni í atvinnugreinum sem allir eru sammála um að eiga ákaflega vel heima í íslensku dreifbýli?

Andstæðingar stóriðju eru iðulega beðnir, eins og frægt er orðið, að nefna “eitthvað annað”.  Sjávarútvegurinn, ein elsta og rótgrónasta atvinnugrein okkar, er eitthvað annað – eitthvað sem við getum ræktað og stutt sem lið í blómlegri atvinnustarfsemi á landsbyggðinni áður en sjálfskaðaðir afarkostir leiða okkur dýpra í sjálfheldu mengandi frumframleiðslugreina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

Já get vel tekið undir þetta, flott hjá þér að koma þessu á framfæri!

RSPCT

svo máttu fara að svara fyrirspurninni minni varðandi hitaveituhlutinn!

Tryggvi Hjaltason, 16.7.2007 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband