13.7.2007 | 16:06
Myndi skipta á Herjólfi og holóttum vegi
Í gær var þetta viðtal við mig í DV vegna umræðu um samgöngubætur sem mótvægisaðgerðir við samdrátt í þroskkvóta:
Bæjarstjóri minnir á að Vestmannaeyjar eru þriðja stærsta þorskveiðihöfn landsins:
Myndi skipta á Herjólfi og holóttum vegi
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það að hafa vakið reiði í Vestmannaeyjum að samgönguráðherra hafi ekki minnst á Vestmannaeyjar í tillögum sínum um hröðun vegaframkvæmda vegna skerðingar aflheimilda á þorski. Alls hefur verið ákveðið að hraða ellefu vegaframkvæmdum víðs vegar um landið og voru þær kynntar á korti þar sem ellefu rauð strik sýndu hvar hraða ætti framkvæmdum
,,Í kringum Vestmannaeyjar var ekkert rautt strik, og myndi ég þó glaður skipta á Herjólfi og holóttum vegi, segir Elliði. Hann segir þetta sérstaklega komið illa við Eyjamenn þar sem ekki er enn búið að koma á næturferðum með Herjólfi sem hafði verið lofað fyrir löngu. ,,Ég trúi því að þetta hafi annað hvort verið mistök eða þá hreinlega á næstu dögum muni ráðherra tilkynna um stærstu framkvæmd sem ráðist hefur verið í hvað samgöngur til Vestmannaeyja varðar. Ég veit að ráðherra skilur þarfir okkar og vill bregðast við. Þess vegna kom þetta á óvart, segir Elliði.
Elliði minnir á að Vestmannaeyjar séu þriðja stærsta þorskveiðihöfn á landinu og verði því fyrir þriðja mesta niðurskurðinum með skerðingu þorskkvótans. Hann telur mikilvægt að mótvægisaðgerðir verði að frumkvæði heimamanna til að árangur náist. Ekki megi bara bíða þess að ríkið komi færandi hendi. Hann segir möguleikann til vaxtar í Vestmannaeyjum mikinn en heimamenn og ríkið verði að vinna vel saman.
Elliði segir að miðað við umræðuna að undanförnu mætti halda að vandinn vegna skerðingar þorskkvótans væri bundinn við Vestfirði án þess að hann vilji gera lítið úr vanda þeirra og því að þar þurfi að bregðast við. ,,Við Sunnlendingar viljum sjá þingmenn okkar berjast með oddi og egg fyrir hagsmunum okkar núna á þessum niðurskurðartímum, segir Elliði sem spyr hvort þingmenn þeirra séu týndir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Elliði!Ég ætla nú ekki að fara að leika neinn sérfræðing í samgöngumálum langt frá því.En ég leifi mér að hafa skoðun á samgöngumálum Eyjamanna.Mér finnst þetta"Bakkafjörudæmi út í hött.Ég bý í Eyjum og var hér til sjós í"gamla daga"Þessvegna þekki ég töluvert af skipstjórnarmönnum og sjómönnum hér.Ekki einn einasti áf þessum mönnum sem ég hef talað við er hlynntur þessum framkvæmdum.Ég var um árabil skipstjórnarmaður hjá"Ríkisskip"og var þá töluvert með skip sem hét"Esja".Hún var 2ja skrúfu skip og með 2 stýri(eins og mér skilst að Bakkafjöruferjan eigi að vera) sem héngu niður úr skrokknum fyrir aftan skrúfurnar,enginn hæll.Ég þekki vel tilfinninguna að koma inn í höfn í miklu brimi og vera með lífið í"lúkunum"yfir að skipið í stórum sjó ræki "afturendan"niður svo að stýri og jafnvel skrúfur færu til fja......Ég er sannfærður um að göng koma til Vestmannaeyja.Hvort það eru 5,10,15 ár eða hvað það veit ég ekki ,en tækninni fleygir svo áfram að það sem er óframkvæmanlegt í dag getur orðið það á morgun.Það á að gleyma Bakkafjöru en fá aðeins stærri(höfnin hér takmarkar lengdina)og gangmeiri Herjólf.Og það strax.Nú ef göng eru framkvæmanleg fljótlega er alltaf markaður fyrir notaðar ferjur.Kært kvaddur
Ólafur Ragnarsson, 13.7.2007 kl. 17:56
auka skip!
2 skip ganga það er alveg nóg, þarf ekkert nýja höfn
Tryggvi Hjaltason, 14.7.2007 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.