Enn blæðir úr samgöngusárinu, ekkert bólar á næturferðaplástrinum

IMG_2468Þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnar íslands um að fjölga ferðum með Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi um 20 í sumar bólar ekkert á slíkri viðbót.  Samkvæmt upplýsingum dugar það fjármagn sem ríkisstjórnin og samgönguráðuneytið höfðu áætlað til þessara ferða ekki til. 

Mín skoðun er sú að ástandið sé algerlega óásættanlegt.  Í byrjun júní lásum við Eyjamenn í fjölmiðlum að ríkisstjórnin myndi verða við óskum bæjarstjórnar og fjölga ferðum yfir álagspunkta enda það afar bagalegt að heimamenn geti ekki komist til og frá Vestmannaeyjum svo ekki sé nú minnst á skerðinguna í ferðaþjónustunni.  Staðan nú er einfaldlega sú að flestar helgar í sumar er erfitt og stundum ómögulegt fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar að ferðast til og frá Eyjum. 

Þessar 20 ferðir sem búið var að lofa eru náttúrulega nauðsynlegur plástur á samgöngusárið sem hér blæðir úr.  Það sem til þarf er að tafarlaust verði fengin nýrri og öflugri ferja sem leyst geti þessa af þar til við sjáum framtíðarsamgöngur komast á.  Þrátt fyrir hina margrómuðu glaðværð og hinn mikla baráttuhug okkar Eyjamanna þá erum við orðnir langþreyttir.  Við ætlum þó ekki að gefast upp og trúum því að staðið verði við gefin loforð.

Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum unnið okkar heimavinnu vandlega hvað þessar næturferðir varðar og lagt áherslu á að kortleggja helstu flöskuhálsa.  Þeirri vinnu lukum við fyrir dágóðum tíma og óskuðum þá eftir 20 ferðum og tiltókum dagsetningar enda mikilvægt að geta auglýst þessa þjónustu.  Það er því verulega slæmt að enn liggi ekki fyrir hvort né hvenær þessar ferðir verði farnar.

Til þess að vinna okkur tíma og bregðast við nærtækasta vandanum hefur Vestmannaeyjabær nú gripið til þess ráðs að óska eftir því að Herjólfur sigli þær 5 næturferðir sem kveðið er á um í gildandi samningum í kringum Shellmót og Goslokahátíð.  Sú ákvörðun hefur því verið tekin að nú fyrir Shellmót verða næturferðir farnar á morgun miðvikudag 27. júní, á fimmtudag 28. júní. og svo aftur á sunnudag 1. júlí kl. 23.00.   Í kringum Goslokahátíð hefur tveimur næturferðum verið bætt við þ.e.a.s. á fimmtudeginum 5. júlí og á sunnudeginum 8. júlí.  Þar með er núverandi svigrúm Vestmannaeyjabæjar til að biðja um næturferðir búið.  Þetta gerum við hinsvegar í þeirri trú að þessar tvær vikur sem við brúum með þessu verði notaðar til að efna gefin loforð um 20 næturferðir.  Ef ekki þá er hætt við að hér verði ófremdar ástand flestar helgar svo ekki sé nú minnst á til dæmis Þjóðhátíð þegar von er á 7 til 8 þúsund gestum. 

Svona hljóðaði fréttatilkynning samgönguráðuneytisins:

Ferðum Herjólfs fjölgað í sumar
12.6.2007

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgönguráðherra ákveðið að ferðum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs verði fjölgað í sumar. Áætlað er að bæta við rúmlega 20 ferðum á mikilvægum ferðadögum og þá daga verða því þrjár ferðir á dag.

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgönguráðherra ákveðið að ferðum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs verði fjölgað í sumar. Áætlað er að bæta við rúmlega 20 ferðum á mikilvægum ferðadögum og þá daga verða því þrjár ferðir á dag.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að beiðni hafi borist frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um að bæta við þriðju ferð Herjólfs á mikilvægum ferðadögum í sumar. Er einkum horft til nætuferða á föstudögum en aðrir dagar, þegar vænta má mikils straums ferðamanna og eftirspurn er mikil vegna flutnings á bílum með fylgivagna, koma einnig til greina.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna rúmlega 20 ferða verði kringum 30 milljónir króna. Samgönguráðherra segir mikilvægt að geta orðið strax við þessari ósk Vestmannaeyinga um fjölgun ferða og mun Eimskip, sem rekur Herjólf, tilgreina nánari tilhögun aukaferðanna.

 


mbl.is Eimskip krefjast meira fyrir aukaferðir Herjólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Elliði, ég spái því að þetta mál verði notað eins og síðast þegar ferðum var fjölgað til þess að hækka fargjöldin, nú ríður á að standa vaktina. kv.

Georg Eiður Arnarson, 26.6.2007 kl. 22:33

2 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góða kvöldið Bæjarstjóri góður já nú er ég alveg sammála ykkur hægri mönnum, það sem mér finnst að í samgöngumálum okkar Eyjamanna er að það er byrjað á vitlausum enda í flestum málum, eins og það þegar samgönguráðherra sagði frá því að nú skyldu farnar 20 aukaferðir á nóttunni þá var ekkert búið að undirbúa það í kerfinu og enginn vissi neitt þegar fjölmiðlar sögðu frá því, sem er kannski ekkert skrýtið því pólitíkusar ráða akkúrat engu, eins og þið vitið vænti ég. Með samgöngu baráttukveðju úr Eyjum kveð ég nú ykkur í kvöld.  

Helgi Þór Gunnarsson, 26.6.2007 kl. 23:18

3 Smámynd: Kjartan Vídó

Ég sá frétt frá bæjarstórafundi sveitafélaga á kaffihúsasvæðinu að þeir vilja að ríkið komi að greiðslu almenningssamgagna á höfuðborgarsvæðinu. Alveg dæmigert fyrir þetta fjandans 101 lið, þegar peningar eiga að fara í samgöngur úti á landi þá grætur kaffihúsafólkið og núna ætlar það að fara að fá peninga frá ríkinu til að reka strætó. Ótrúlegt lið. 

Kjartan Vídó, 27.6.2007 kl. 10:29

4 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góða kvöldið Elliði, ég var að lesa Frétti í kvöld og ég verð að segja það sem mér býr í brjósti, þú ert orkubolti mikill og mér finnst allt í lagi að hrósa þér því þú vinnur greinilega vinnuna þína betur en fyrirrennarar þínir. Þetta virðist vera góð blanda sem mætast í þér það er að segja oddstaðarætt og Stóradalsætt.  

Helgi Þór Gunnarsson, 27.6.2007 kl. 23:58

5 identicon

Það er algjörlega óásættanlegt aðþurfa að borga eimskip 3 milljónir fyrir hverja ferð og því eðlilegt að það taki smá tíma að lenda málinu enda ekki hægt að réttlæta hækkun á kostnaði við hverja ferð um 500%

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband