Svohljóðandi yfirlýsingu höfum við bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins sent fjölmiðlum

 

Hörmum óábyrga umræðu Vestmannaeyjalistans um höfn við Bakkafjöru 

baejarfulltruar_d_listaVegna skrifa bæjarfulltrúa minnihlutans um samgöngur vill meirihluti sjálfstæðismanna koma eftirfarandi á framfæri. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hingað til verið algerlega samstíga í umfjöllun og áherslum hvað framtíðarsamgöngur varðar. Lögð hefur verið áhersla á vönduð vinnubrögð og rík krafa gerð til rannsóknastofnana um vinnubrögð og miðlun upplýsinga.

Þá hefur einnig verð lögð rík áhersla á að samráð væri haft við sjómenn í Vestmannaeyjum í könnun á möguleikum tengdum Bakkafjöru rétt eins og jákvæð samvinna við Ægisdyr vegna jarðganga.

Ferð sú er tveir af sjö bæjarfulltrúum Vestmannaeyja fóru á Lóðsinum, lóðsbát Vestmannaeyjahafnar, og orðið hefur tilefni umfjöllunar í fjölmiðlum var farin án vitneskju bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Að ferð lokinni höfðu viðkomandi tveir bæjarfulltrúar samband við bæjarstjóra og lýstu áhyggjum sínum.  Bæjarstjóri tók þá strax fram að hann deildi þessum áhyggjum með þeim og myndi í kjölfarið óska eftir viðbrögðum frá Siglingastofnun.  Bæjarstjóra var þá tjáð að tekið hefði verið upp á myndband þegar brot reið yfir og óskaði hann eftir afriti af því til að hægt væri að fá viðbrögð hjá Siglingastofnun sem hefur verið ábyrg fyrir rannsóknum á Bakkafjöru.  Rétt er að taka það fram að bæjarfulltrúar V- listans hafa enn ekki komið afriti af því til bæjarstjóra.

Bæjarstjóri setti sig án tafar í samband við Siglingastofnun og óskaði eftir viðbrögðum við skrifum Sveins Rúnars Valgeirssonar skipstjóra á Lóðsinum þar sem viðkomandi áhyggjum var lýst á málefnanlegan máta.  Einnig óskaði hann eftir upplýsingum um hversu frátafir hefðu verið miklar frá því um áramót og hvort ekki væri eðlilegt að frekari raunathuganir færu fram á vettvangi eins og Sveinn Rúnar og fleiri höfðu bent á.  Svör bárust frá Siglingastofnun á mánudaginn.

Í bréfi siglingastofnunar segir m.a.:Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefur lagt til að fengið verði skip til að kanna aðstæður og afla reynslu af umhverfinu undan Bakkafjöru. Siglingastofnun tekur undir þessa tillögu.

Bæjarstjóri fór án tafar með viðkomandi upplýsingar til Sveins Rúnars Valgeirssonar auk þeirra tveggja bæjarfulltrúa sem fóru í umrædda siglingu.  Einungis annar þeirra var heima þegar bæjarstjóri fór með bréfið til þeirra.  Í samræðum bæjarstjóra og viðkomandi bæjarfulltrúa voru þeir sammála um að mikilvægt væri að staldra við og skoða þessi mál betur enda framtíð sveitarfélagsins í húfi.

Undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þá ákvörðun V-listans að reyna að skapa sér stöðu í umræðu um samgöngur nú í aðdraganda kosninga með óábyrgri umræðu um einn af þeim kostum sem til skoðunar eru.  Bæjarfulltrúarnir voru vel meðvitaðir um vilja Siglingastofnunar til að kanna aðstæður betur enda var þeim manna fyrst afhent fyrrgreind greinargerð.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mun hér eftir sem hingað til sýna festu og ábyrgð í umfjöllun um samgöngur með hag Vestmannaeyinga að leiðarljósi.  Pólitísk upphlaup og hróp á götuhornum verða ekki til að bæta samgöngur.

Bakkafjara kann að vera raunhæfur kostur og mikilvægt kanna vandlega forsendur þess kosts. Til þess að það sé hægt þarf að leggja áframhaldandi áherslu á samstarf milli heimamanna og Siglingastofnunar.  Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mun þó standa við þá forgangsröðun sem áður hefur verið lýst og horfa á jarðöng sem fyrsta kost.  Ófrávíkjanleg krafa er að ekki verði ráðist í framkvæmdir við aðra kosti fyrr en nauðsynlegar rannsóknir vegna jarðganga hafa átt sér stað.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Sem sagt við sem sitjum í meirihluta bæjarstjórnar munum ekki taka þátt í pólitísku uppboði um samgöngumál né hlaupa útundan okkur við ágjöf.  Við ætlum að fá því svarað hvort jarðgöng séu fjárhagslega framkæmanleg og ef svo þá verður sú leið farin.  Svo mörg eru þau orð.

Séu jarðgöng ekki fjárhagslega framkvæmanleg þá verður að leita annarra leiða og þá er einungis hægt að bæta samgöngur á sjó.

Hitt er svo annað mál að Herjólfur sá er nú siglir getur ekki veitt okkur viðunandi þjónustu og því þarf að ráðast tafarlaust í úrbætur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Já Elliði nú erum við að tala saman!!!!!! Ég ætla að vona til Guðs að ríki og bær beri þá gæfu til að taka rétta ákvörðun í samgöngumálum, það er að segja göng og aftur göng. Ég er sannfærður um að Bakkafjara sé glapræði og ekkert annað.

Helgi Þór Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 23:17

2 identicon

Alveg er það merkilegt hvað þarf að fara mikil orka í svona vitleysu.  Það eru allir að keppa að sama marki og finnst þetta nú vægast sagt vindhögg V-listans og rýrir trúverðugleika hans verulega.  Það virðist skipta meira máli að koma höggi á meirihlutann en vinna að heilindum að framgangi málsins.  Því miður finnst mér þetta hafa verið ljóður á Vestmannaeyskum stjórmálum lengi að það virðist skipta meira máli að tryggja sér prikin en tryggja hag Eyjanna. 

Jón Óskar Þórhallsson (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband