Stýrimannaskóli á að vera eitt af flaggskipum skólamála í Vestmannaeyjum

1072647395Uppgangur í sjávarútvegi síðustu ár hefur verið ævintýralegur.  Í dag er svo komið að Vestmannaeyjar eru öflugasta sjávarútvegs byggðalag á íslandi með sterka kvótastöðu, hæfa stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja og framúrskarandi starfsmenn á öllum sviðum.  Við hjá Vestmannaeyjabæ erum eins og gefur að skilja afar stolt af þessari sterku stöðu okkar og viljum fyrir alla muni halda þessari uppbyggingu áfram með frekari vöxt fyrir augum. Vestmannaeyjar eru að vera hinn eini sanni útgerðarbær á íslandi og fyrir þær sakir að vera hnarreyst og bjóðast til að draga vagninn í þróun sjávarútvegs á öllum sviðum.

Fáum dylst að aflamarkskerfið hefur átt stóran þátt í þessari uppbyggingu hér í Eyjum þótt sannarlega sé það ekki gallalaust.  Útgerðarmenn hér hafa kappkostað að styrkja sín fyrirtæki með fjárfestingum og það hefur orðið til að efla byggðarlagið allt.  Aukinn stöðugleiki í stjórnun sjávarútvegs hefur jafnframt orðið til þess að fjárfestingar í landvinnslu og skipum hér í Eyjum hafa verið miklar.

Einn er þó sá hængur á allri þessari uppbyggingu innan sjávarútvegsins hér í Eyjum að menntun í sjávarútvegi hefur undanfarin ár fyrst og fremst farið fram við Fjöltækniskólann í Reykjavík og stýrimannamenntun einungis þar.  Þrátt fyrir að ég meti störf þess skóla mikils og efist ekki um gæði þessa náms þá hefur þetta verið mér eins og öðrum Eyjamönnum mikill þyrnir í augum enda álíka og að bændaskólinn á Hvanneyri væri hér í Vestmannaeyjum.  Þetta fyrirkomulag hefur átt sinn þátt í því að í óefni stefnir hvað varðar mönnunarmál á glæstum flota Eyjamanna rétt eins og víðar um land.  Þá er það skoðun undirritaðs að stýrimannskóli eigi að vera eitt af flaggskipum skólamála í Vestmannaeyjum.

Með þetta hugfast lagði undirritaður eftirfarandi tillögu fram í sjávarútvegsnefnd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins seinustu helgi.  Meðal meðflutningsmanna voru útgerðarmenn í Vestmannaeyjum, framkvæmdarstjóri LÍÚ og fleiri. 

"Aðkoma atvinnulífsins hefur styrkt stöðu Fjöltækniskólans, en mikilvægt er að menntun á sviði sjávarútvegs sé í tengslum við sjávarútvegsfyrirtæki.  Því er rétt að horfa til þess að auka slíkt samstarf með því að menntun fari í auknum mæli fram á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur er undistaða atvinnulífsins."

Eftir afar jákvæðar umræður á fundinum var tillagan samþykkt einróma bæði í nefndinni og svo síðar á landsfundinum í Laugardalshöllinni.  Í kjölfarið á þessu hef ég svo átt gagnlegar viðræður við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, Ólaf Hrein Sigurjónsson skólameistara FÍV, Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóra LÍÚ og Jón B. Stefánsson skólameistara Fjöltækniskóla Íslands auk útgerðarmanna í Vestmannaeyjum sem eru mjög áfram um þetta mál.

Von mín nú stendur til þess að á næstu dögum taki stjórnendur FÍV og Fjöltækniskólans upp viðræður um þessi mál með það fyrir augum að á ný verði boðið upp á skipstjórnarnám í Vestmannaeyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg frábært og frábært hversu vel Landsfundinum leist á þetta.

Kv. Jóhanna R.

Jóhanna Reynisd. (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 10:17

2 identicon

Mæltu manna heilastur.  Ánægjulegt að sjá að menn eru farnir að snúa sér að einhverju öðru en að berja höfðinu við steininn í samgöngumálum.  Við verðum að byggja um Vestmannaeyjar á þeim forsendum sem hér eru.  Þessi samgönguumræða er allt lifandi að drepa hér í Eyjum.  Öll orka fer í að að ræða mál sem þegar er verið að vinna að.  Ég hvet alla til að sleppa umræðu um samgöngumál í komandi kosningaáróðri enda allir sammála um að jarðgöng eru besti kosturinn og mikilvægt að allt sem að þeim lítur verði full kannað áður en önnur skref er tekin.  Ef ekki verður farið í gerð jarðgnaga þá er það bara sigling í Bakkafjöru.  En... Nú er ég farinn að gera það sem ég vil ekki að aðrir geri, tala um samgöngur.  Sem sagt frábært mál ef Stýrimannaskólinn verður á ný hér í Eyjum.

Friðrik (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:09

3 identicon

Flott framtak hjá þér Elliði,og ykkur sem standa að því að  reyna að fá stýrimannaskólann aftur til eyja..Vonandi tekst þetta.. Það var mjög slæmt,þegar við misstum skólann frá okkur,með ( her ) valdi Björns Bjarnasonar.. við eyjaskeggjar mótmæltum ekki nógu kröftuglega þá.. Annars finnst mér flott hjá þér Elliði,hvernig þú nálgast starfið þitt,með mikilli jákvæðni og bjartsýni sem  hefur sárlega vantað hjá okkur í eyjum... baráttukveðja...

Sig.Þór Ögm. (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 14:57

4 identicon

ég var nú nemandi í skólanum í bænum því ég gat ekki lært þetta hérna heima, sem er algjör skömm. Nú t.d. er ég að fara aftur í haust að halda áfram til að klára þetta, þó svo ég hafi engann áhuga á því að fara búa þarna. Svo var bara málið þegar ég spurði nokkra nemendur sem komu frá landsbyggðinni, þá sögðu margir að þeir vildu gjarnan læra þetta hérna því hérna er miklu ódýrara að lifa og miklu þægilegra að búa. Við erum að tala um það að ef menn kæmu að læra þetta hérna þá væri meiri líkur á að menn settust hérna að til að fara á bátana sem hér eru, því það styttist í að það verði algjört mannahallæri.

haffi halldórsson (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 18:01

5 Smámynd: Grétar Ómarsson

Þetta er laukrétt há Haffa félaga mínum. Hér hafa margir góðir menn sest að eftir að hafa komið til Eyja á sínum tíma í nám við stýrimannaskólann.

 Hér á Stýrimannaskólinn að vera og átti aldrei að fara.

Grétar Ómarsson, 22.4.2007 kl. 16:44

6 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Innilega sammála Haffa.Það væri mikil lyftistöng fyrir það að ungir menn úr Vestmannaeyjum og víðar hæfu nám í þeim fræðum sem snúa að sjávarútvegi.Mig minnir að margir menn af landsbyggðinni hafi einmitt farið til Vestmannaeyja þegar skólinn starfaði þar af þeim ástæðum sem Hallur minnist á.Menn eru miklu meir í snertingu við sjálft efnið í Eyjum en þeir eru í skólanum í Rvík.Þótt margir eigi góðar minningar úr þeim góða skóla og af hinnu frábæru kennurum sem þar voru.Mér hefur skilist á mönnum að kennarnir í Eyjum hafi ekki verið síðri.Þannig að reynslan er til staðar má segja á öllum sviðum.

Ólafur Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband