Fasteignir rjúka út í Vestmannaeyjum

Fjallað er um Vestmannaeyjar með nýjum hætti á forsíðu Fréttablaðsins í dag:

husFasteignamarkaðurinn er óvenju líflegur í Vestmannaeyjum og íbúðir rjúka út. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að á næstu árum verði 25 þúsund fermetrar byggðir. Uppbyggingin nú sé sú mesta „eftir að byggð hófst í Eyjum“.

Óvenju mikil umsvif hafa verði á fasteignamarkaðnum í Vestmannaeyjum síðustu misseri og fyrirsjáanlegt að svo verði áfram.  Elliði Vignisson bæjarstjóri segir fjölda þinglýstra  kaupsamninga aldrei hafa verið jafnmikinn og nú. Sveitarfélagið hafi til dæmis selt rúmlega þrjátíu íbúðir úr félagslega kerfinu á innan við ári en þessar íbúðir hafi lítið hreyfst áður fyrr. „Samkvæmt mínum bókum flokkast þetta sem verulega líflegur markaður,“ segir Elliði.

Guðbjörg Jónsdóttir, löggiltur fasteignasali, segir að allar góðar eignir seljist, „sérstaklega góð einbýlishús og góðar íbúðir. Margir eru að fara í betra húsnæði. Svo er fólk uppi á landi að kaupa sér afdrep,“ segir hún. Fasteignaverð í Eyjum hefur hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent. Stór blokkaríbúð sem kostaði um fjórar milljónir í fyrra selst nú á fimm milljónir. Helgi Bragason lögmaður áætlar að fimmtán til tuttugu fasteignir hafi verið seldar á mánuði það sem af er árinu.  Elliði telur trú fjárfesta á vaxtarmöguleikum í Eyjum hafa aukist. „Fram undan eru stórkostlegar samgöngubætur. Við komum til með að vera í beinum tengslum við Suðurland. Það tekur tuttugu mínútur að fara um jarðgöng á milli og sigling tekur hálftíma. Sjávarútvegurinn hefur líka eflst og skilað auknum tekjum.“

Verslunarhúsnæði er í byggingu í miðbænum í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir að fimm verslanir verði á jarðhæð og fimmtán íbúðir á efri hæðum. Þá er talsverð eftirspurn eftir lóðum fyrir iðnaðarhúsnæði og einbýlishús. Bæjaryfirvöld reikna með að á næstu þremur árum verði byggðir 25 þúsund fermetrar. Þá hefst bygging menningarhúss á næstunni. „Þetta er mesta uppbygging sem um getur eftir að byggð hófst í Eyjum,“ segir Elliði.

Ég tel þetta góðar fréttir.  Lykilatriðið er að við heimamenn höfum nú aukna trú á samfélaginu.  Sjávarútvegurinn er með eindæmum blómlegur og Vestmannaeyjar eru nú kvótasterkasta sveitarfélag á Íslandi.  Þegar saman fer uppgangur í sjávarútvegi og væntingar um stórbættar samgöngur þá er von á góðu.  Fasteignamarkaðurinn er barómeter á stöðu samfélaga og því hljótum við öll að fagna þessari frétt. 

Reyndar ætlaði ég að segja að þetta væri mesta uppbygging sem um getur eftir að byggð hófst að nýju eftir gos.  En hitt er svo sem ekki heldur fjærri lagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Já margt gott í gagni þarna fannst þú reyndar fara yfir strikið þarna með mestu uppbyggingu í sögu Eyjanna - en sé að þú áttaðir þig á því að rétt er kannski að tala um mestu uppbyggingu eftir gos, sem er svo kannski ekki rétt því allt hverfið vestur á Eyju var reist í flýti eftir gos þó svo að ég hafi ekki hugmynd um heildar stærð og byggingartíma alls þess svæðis, man bara að það spratt upp og þá var gaman að vera til. - Annað sem stakk mig var þetta með stórkostlegu samgöngubæturnar þar sem að þú talar um hvoru tveggja jarðgöng og Bakkafjöru ekki hef ég trú á því að við fáum hvoru tveggja - en Bakkafjöru vil ég og þangað til það gerist öflugra skip og siglingar allan sólarhringinn frá júní til c.a. 20 ágúst - takk - en eins og staðan er í dag erum við ekkert að fá nema blaður um að eitthvað eigi að gerast

Gísli Foster Hjartarson, 12.4.2007 kl. 16:12

2 identicon

Þetta er frábær umfjöllun um okkur Eyjamenn og okkar frábæra bæjarfélag.  Ég vil meir af þessu.  Ekki grenja og væla.  Gerum hlutina sjálf. 

 En er ekki allt í lagi með fólk sem er að velta sér upp úr því hvort það var meiri uppbygging 1973???  Lykilatriðið er að það eru jákvæðir hlutir að gerast og við eigum að segja öllum frá því.

Meira af þessu Eyjamenn

Halldóra (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 00:59

3 identicon

Mikið rosalega er ég sammála þér Halldóra og Elliða, þetta eru bestu tíðindi af Eyjunum í fjölmiðlum landsins í mörg mörg MÖRG ár og það hlýtur að vera alveg með ólíkindum ef fólk ætlar að reyna að tala það niður, þá er fólki bara ekki viðbjargandi og spurning hvort eyjarnar henti því þá yfirhöfuð?

Annars finnur maður það á eyjamönnum að það eru góðir hlutir að gerast, jákvæðnin hefur ekki verið svona mikil í mörg ár, skipa og kvótakaup, fólksaukning, hækkandi fasteignaverð og svo er í samgönguáætlunum að Bakkafjara verði komin í notkun 2010 og verður það þá ein mesta samgöngubót Eyjanna frá því byggð hófst. En auðvitað má ekki staldra við, gangamálið er vonandi ennþá í fullu fjöri og nú þarf að koma stórefling í menntamálum, fá hingað velstjórnar og stýrimannanám ásamt fjölbreyttara háskólanámi. En þetta er allt í áttina.

Jákvæður Eyjamaður (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 08:17

4 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Engin að rífa neitt niður hér sýnist mér - menn verða bara að passa sig að fara ekki fram úr sjálfum sér - við skulum stíga varlega til jarðar þegar ekkert er í hendi við þurfum að eflast áfram bæði inn á við og útávið.  Við sem rekum fyrirtæki hér í Eyjum hljótum að fagna öllum jákvæðum skrefum fyrir Eyjar en okkur ber samt, að mínu viti, líka skylda til að stíga varlega til jarðar. Eyjamenn eru að berjast fyrir mörgum málum en það gengur erfiðelga að landa mörgum þeirra þó svo að maður voni að sjálfsögðu að sem flest þeirra klárist á sem jákvæðastan hátt - í Eyjum er ég og þar vil ég vera -

Gísli Foster Hjartarson, 13.4.2007 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband