Ræðan í vasanum

3-2007-soli_nyrÍ dag var nýr og glæsilegur leikskóli opnaður í Vestmannaeyjum, stærsti leikskóli sem hér hefur verið en hann rúmar rúmlega 100 börn.  Af því tilefni var blásið til mikillar veislu og áhugasamir gátu komið og kynnt sér þessa frábæru aðstöðu.  Af þessu tilefni átti ég að halda ræðu og var búinn að punkta slíkt hjá mér.  Áheyrendahópurinn (u.þ.b. 100 börn) var hinsvegar ekki spenntur fyrir ræðuhöldum og því fór svo að ræðan fór aldrei upp úr vasa mínum.  Þess í stað spjallaði ég bara stuttlega við börnin og ég veit eiginlega ekki hvort þau eða fjölmargir foreldrar þeirra sem þarna voru komin voru fegnari að losna við ræðuhöld.

Hér er hinsvegar ræðan sem ég var með í vasanum:

Komiði sæl og til hamingju með daginn. 

P1000370Það er mér mikið gleðiefni að standa hér í dag og taka með ykkur þátt í formlegri vígslu þessa leikskóla sem Vestmannaeyjabær hefur nú reist af miklum myndarskap í samvinnu við eignarhaldsfélagið Fasteign. 

Þegar börn hefja skólagöngu sína í leikskóla hefst mjög mikilvægur kafli í lífi þeirra.  Þessi fyrstu ár er leikurinn mikilvægasta náms- og þroskaleið barnsins. Í leikskólanum þarf að skapa barninu skilyrði þar sem áhugi þess, virkni og viðfangsefni hæfa aldri þess og þroska. Barnið þarf að fá að njóta sín sem einstaklingur jafnt og í hópi með öðrum börnum.  Þótt foreldrarnir og fjölskyldan séu ætíð sterkasti mótunaraðilinn þá er það hér sem stór hluti að grunni sjálfstrausts og jákvæðrar sjálfsmyndar er byggður.   

Vestmannaeyjabær tekur hlutverki sínu sem rekstraraðili skóla alvarlega og vill skapa börnum skilyrði til þess að þroskast og öðlast færni á sem flestum sviðum.  Við lítum sem svo á að það er hér í skólakerfinu sem við getum búið til fyrirmyndar Eyjamenn framtíðarinnar.  Full af orku, þreki og dug taka við kyndlunum frá okkur og bera hann áfram. 

Til þess að þessum markmiðum verði náð þarf umhverfið að vera gott.  Húsnæði þarf að svara þörfum samtímans og til starfsins þarf að veljast fólk sem fært er til að takast á við vandasamasta verkefni sem til er, að móta og mennta kynslóð framtíðarinnar.  Þetta góða starfsfólk höfum við haft og af því erum við stolt og nú fyrst eru húsnæðismál leikskóla í þeim farvegi sem við getum verið sátt við.   

P1000363Það húsnæði sem við nú erum að vígja leysir tvö eldri húsnæði af hólmi.  Annarsvegar er það húsnæði gamla Sóla sem tekið var í notkun fyrir 47 árum eða nánar tiltekið 12. mars 1960, og hinsvegar húsnæði Rauðagerðis sem tekið var í notkun 1974 eða fyrir 33 árum.  Trú hefðinni höfum við tekið þá ákvörðun að kalla þennan leiksóla Sóla – líkt og það hús sem nú mun brátt verða minningin ein eftir að niðurrifi þess lýkur á næstu dögum. 

Það er von mín og trú að starfsemi þessa skóla komi til með að vera samfélaginu öllu og þá sérstaklega börnunum til góðs. 

Að lokum vil ég þakka Fasteign Hf., verktakanum, honum Þór Engilberts og öðrum undirverktökum þeirra framlag. Þá vil ég einnig þakka starfsmönnum gamla Sóla og Rauðgerðis þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig við sameiningu þessara tveggja skóla.  Það eru forréttindi fyrir Vestmannaeyjabæ að eiga svona gott starfsfólk. 

Ég vil svo enda þetta með því að flytja ykkur ljóð sem einn af nemendum hér við skólann samdi og móðir hennar sendi mér í tölvupósti í seinustu viku:

Nýi skólinn minn er góður

þar er góð lykt

stóllinn minn flottur

og frændi minn er þar líka  

Til hamingju öll  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Elliði góður punktur hjá þér.

Ég persónulega þoli ekki langar tilgangslausar ræður um hvað allt sé æðislegt og gott, og ég nenni ekki einu sinni að lesa ræðuna þína, fyrirgefðu mér. hún er örugglega mjög góð og pínu boring eins og flestar ræður eru, ekkert persónulegt.

Samt sem áður. Til hamingju Elliði og aðrir Eyjamenn með nýja leikskólann.

Grétar Ómarsson, 11.3.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband