4.3.2007 | 12:30
"Eyjan okkar" tóks vel.
Þá er afar vel lukkaðri Eyjahelgi lokið en eins og flestum er kunnugt fór fram markaðskynningin "Eyjan Okkar" um helgina. Dagskrá byrjaði kl. 13.00 með Eyjakynningu í Smáralindinni. Þar höfðu tæplega 30 fyrirtæki og stofnanir frá Vestmannaeyjum sett upp kynningu á því sem þau hafa fram að færa. Góður rómur var gerður af kynningunni enda komu um 30.000 manns á hana sem lætur nærri því að vera góð Þorláksmessa í Smáralindinni. Grímur kokkur fór á kostum og mokaði út ”smakki” af sínum frábæru fisk- og heilsuréttum á milli þess sem hann tróð upp með Hippabandinu. FÍV kynnti markaðssókn sína og námsframboð, Vestmannaeyjabær minnti á óviðjafnalegt viðburðadagatal og búsetugæði, Póley kynnti vöru sína, Setrið, Fréttir, Hótel Þórshamar, Flugfélag Íslands og svo margir fleiri buðu upp á kynningu sem virkilega sýndi og sannaði að í Vestmannaeyjum er bæði öflugt mannlíf og blómlegt atvinnulíf. Ekki er hægt að ljúka þessari upptalningu án þess að minnast á VKB (Vini Ketils bónda) sem voru með kynningarbás þar sem þeir sögðu frá þjóðhátíðinni og öðrum möguleikum til skemmtana í Vestmannaeyjum.
Sjálfur var ég á bás Vestmannaeyja með mínu góða fólki þeim Frosta, Rut og Kristínu. Mér var það sérstakt ánægjuefni að finna þá römmu taug sem er milli brottfluttra Eyjamanna og Eyjunnar okkar. Þá neita ég því ekki að svo stoltur var ég af öllu hrósinu sem Vestmannaeyjar fengu frá gestum og gangandi að Eyjamontið í mér varð jafnvel enn sterkara en áður.
Kl. 20.30 var svo boðið til Eyjatónlistarveislu í Vetrargarðinum og tókst hún afar vel. Logarnir, Jarl Sigurgeirs, Hippabandið, og aðrar menningarperlur Eyjanna voru þar á borð bornar og var stemmningin óviðjafnaleg. Um miðnætti hófst svo Eyjaball á Players og ef ég þekki mitt fólk rétt stendur það enn nú um hádegi á sunnudegi.
Þá er gaman að segja frá því að aðóknarmet var slegið á Pleyers þetta kvöld en í húsið komu rétt um 1000 manns. Fyrra met átti Sálin en núverandi aðsóknarmet á þennan vinsælasta skemmtistað á Íslandi á sem sagt Eyjahljómsveitin Dans á Rósum ásamt Eyjahljómsveitinni Logum.
Þeir félagar Bjöggi Rúnars og Biggi Nilsen í 3B ásamt Röggu Guðna eiga mikið og gott hrós skilið fyrir sinn stóra þátt í þessari Eyjahelgi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með þetta, frábærar fréttir. Mér þætti eðlilegt að VKB yrði ráðið í sérverkefni fyrir Vestmannaeyjabæ. Þetta eru drengir sem halda merkjum eyjanna uppi hvar og hvenar sem er. Snillingar allir og yrðu góðir sendiherrar eyjanna.
Kjartan Vídó, 4.3.2007 kl. 20:21
Stórkostlegt Elliði. Sýndir þú ekki Smáralindarfólki Bæjarstjórasprang ?
Karl Gauti Hjaltason, 5.3.2007 kl. 20:42
Þakka hlý orð í garð okkar VKB manna. Við færum létt með að sinna einhverjum sérverkefnum fyrir Vestmannaeyjabæ, enda mun stærra og glæsilegra félag en Mafía Vestmannaeyja og Fyrirmyndar bílstjórafélagið til samans ...
Helgi Ólafs (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.