Eftirfarandi viðtal við mig er að finna í Fréttablaðinu í dag. Fyrir mér er þetta lykilatriðið:
"Vilji okkar Eyjamanna er því að um leið og lokarannsóknir og umhverfismat vegna Bakkafjöru fer fram verði rannsóknum vegna jarðganga lokið þannig að hægt verði með nokkurri vissu að bera þessa tvo kosti saman, Sem sagt áfram með vinnu að Bakkafjöru og ljúka um leið rannsóknum vegna jarðganga sé frekari rannsókna þörf.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að ákvörðun verði tekin í vor um það hvort ráðist verði í framkvæmdir við gerð ferjulægis í Bakkafjöru. Þetta kom fram á fundi sem Vestmannaeyjabær átti með Siglingamálastofnun og Landgræðslunni fyrir skömmu. Verði ferjulægið að veruleika myndi það taka um það bil hálftíma að sigla á milli Vestmannaeyju og Bakkafjöru, í stað tveggja klukkustunda og 45 mínútna sem það tekur að sigla milli Eyja og Þorlákshafnar. Jafnframt er gert ráð fyrir allt að sex ferðum á dag í stað tveggja eins og nú er raunin. Myndu ramkvæmdirnar kosta 4,9 milljarða króna.
Við erum að tala um algera byltingu á samgöngum við Vestmannaeyjar ef þetta verður að veruleika, segir Elliði, sem segir möguleikann á gerð ferjulægisins hafa verið í rannsókn síðan 2001. Fundurinn með Siglingastofnun sýndi að sá kostur að hefja siglingar milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru er jafnvel enn nærtækari, áreiðanlegri og öflugri samgöngubót heldur en við höfum hingað til þorað að vona.
Að sögn Elliða telur Det Norske Veritas, sem er stærsta vottunarfyrirtæki í heimi, rúmlega sexfalt öruggara að sigla í Bakka heldur en í Þorlákshöfn. Í mínum huga er það ljóst að samgöngubót sem þessi myndi efla vaxtar- og búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum enn frekar þótt sannarlega sé þetta ekki jafn góður kostur og jarðgöng. Vilji okkar Eyjamanna er því að um leið og lokarannsóknir og umhverfismat vegna Bakkafjöru fer fram verði rannsóknum vegna jarðganga lokið þannig að hægt verði með nokkurri vissu að bera þessa tvo kosti saman, segir Elliði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.