Ferjulægi í Bakkafjöru er nærtæk, áreiðanleg og öflug samgöngubót, en...

Viðtal þetta við mig er að finna í Morgunblaðinu í dag:

VILJI Vestmannaeyinga er að allur vafi verði tekinn af hvað jarðgöng varðar áður en  ákvörðun um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar verður tekin, að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra. Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkti m.a. ályktun 22. febrúar sl. um að leggja til við stjórnvöld „að óháðu ráðgjafarfyrirtæki á sviði jarðvegsrannsókna og jarðgangagerðar verði falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga milli lands og Eyja og væntanlegan kostnað af þeim ef svo ber undir“. Elliði sagði að meginniðurstaða fundar fulltrúa Siglingastofnunar og Landgræðslunnar í  Vestmannaeyjum í fyrrakvöld hefði verið sú að ekkert væri því nú til fyrirstöðu að hefja verklegar framkvæmdir við gerð ferjulægis í Bakkafjöru innan örfárra vikna. „Hvað Bakkafjöru varðar kom það berlega í ljós á fundinum að sá kostur er jafnvel enn  nærtækari, áreiðanlegri og öflugri samgöngubót heldur en við höfum hingað til þorað að vona,“ sagði Elliði. „Samkvæmt upplýsingum frá Det Norske Veritas er sexfalt öruggara að sigla ttil Bakkafjöru en Þorlákshafnar og einungis gert ráð fyrir að 1–2% daga á hverju ári falli ferðir alveg niður. Í mínum huga er það algerlega ljóst að samgöngubót sem þessi myndi efla vaxtar- og búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum enn frekar, þótt sannarlega sé þetta ekki jafngóður kostur og jarðgöng.“ 

Opinbert hlutafélag
Gert er ráð fyrir því að fyrirhuguð ferjuhöfn í Bakkafjöru verði í eigu sveitarfélaganna Vestmannaeyjabæjar og Rangárþings eystra. Elliði segir að sveitarfélögin hafi rætt um
rekstrarform hafnarinnar að beiðni stýrihóps um gerð ferjulægis í Bakkafjöru. Niðurstaðan úr þeim viðræðum hafi orðið sú að stofnað verði opinbert hlutafélag um ferjulægið. Gert er ráð fyrir því að Vestmannaeyjabær muni eiga 60% í félaginu og Rangárþing eystra 40%. Aðspurður hvort höfnin verði opin öðrum skipum en fyrirhugaðri ferju segir Elliði að það verði eigenda hafnarinnar að ákvarða notkun
hennar á hverjum tíma.  Ferjulægið í Bakkafjöru mundi verða í meirihlutaeigu Vestmannaeyinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Ómarsson

 Mitt mat.

Hvað kostar ferjulægið við Bakkafjöru með öllu? þá á ég við byggingin á mannvirkinu, og reksturinn ásamt möguleika á útskiptingu og viðhaldi á skipinu næstu 20 árin.

Þeir fjármunir eru betur settir í útborgun á framtíðarlausn Eyjamanna sem eru jarðgöng, ef sá kostur er mögulegur.

Hanna Birna, ert þú orðin vilji Vestmannaeyjinga?  Ég sé að þú þarft sennilega ekki að glýma við sjóveiki eða kvíða fyrir sjóferð þegar þú ætlar að ferðast með aðal farkosti Eyjamanna, en því miður eru ekki allir eins og þú.

Grétar Ómarsson, 25.2.2007 kl. 15:41

2 identicon

Sameinuð stöndum vér!

Við Vestmannaeyingar stöndum á ákveðnum tímamótum í dag. Um nokkurt skeið hefir ríkt frekar erfitt ástand í okkar annars ágæta samfélagi. Teikn eru á lofti á ýmsum sviðum um að eitthvað sé að rofa til, þó ýmis mál séu enn í óvissu. Vonir standa til að úr rætist hjá þeim fyrirtækjum, sem eru í vanda. Samgöngumál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðu hér um nokkurt skeið. Ekki eru allir á einu máli um lausnir í þeim efnum. Mjög mikilvægt er að bæjarbúar komi sér saman um þá kosti, sem í boði er. Við getum ekki vaðið reyk í samgöngumálum, þessi málaflokkur er næst mikilvægasti þátturinn í samfélagi okkar í dag, næst á eftir atvinnumálum. Hugsanlega eru þessir málaflokkar að nokkru leyti samtengdir. Vestmannaeyjar eru þannig í sveit settar, að stækkunarmöguleikar út á við, takmarkast við Eyjasamfélagið. Stórbættar samgöngur við byggðalög hér næst okkur, eru einu möguleikar okkar til samvinnu og jafnvel einhvers konar sameiningar í náinni framtíð. Að mínu mati eigum við Eyjamenn, að hugleiða alvarlega þessa valkosti. Með kynnum mínum af Rangæingum hefi ég komist að því, að þeirra hugsun rímar vel við þær hugleiðingar, sem hér koma fram. Allt frá því ég sem ungur peyi var að alast upp hér í Eyjum hefi ég mjög horft upp á fastalandið og dáðst að fegurð Eyjafjalla og byggðinni hér handan við sundið. Einhverjum finnst hér örugglega einhver sveitarómantík á ferðinni. Það má vel vera, að eitthvað örli á því hjá undirrituðum, enda fagurkeri að upplagi! Hins vegar hefi ég þá bjargföstu trú, að þetta séu raunhæfir möguleikar í stöðunni.

Virðingarvert framtak.

Ég ber mikla virðingu fyrir fólki, sem hefir skoðanir og er tilbúið að fylgja sínum málum eftir, af festu og harðfylgni. Öflugir talsmenn jarðgangnagerðar milli lands og Eyja hafa lagt á sig ómælda vinnu við það verkefni, og eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag. Þeirra vinna er um margt til fyrirmyndar og mun nýtast okkur Vestmannaeyingum, þó svo fari að ekki verði gerð göng milli lands og Eyja á næstunni. Í spjallinu í bænum kemst maður ekki hjá að finna fyrir ákveðinni þreytu meðal fólks, þegar samgöngumálin ber á góma. Alls konar hugmyndir eru uppi, með eða á móti hinu og þessu. Flestir eru sammála um að jarðgöng eru valkostur númer eitt. Um það er undiritaður hundrað prósent sammála. Svo virðist, sem göng séu ekki inn í myndinni hjá stjórnvöldum af ýmsum ástæðum, þau rök verða ekki tíunduð hér, enda flestum ljós. Hvort sem fólki í Vestmannaeyjum líkar betur eða verr, er íslenska ríkisstjórnin og væntanlega þorri þingmanna ásamt ráðandi öflum í þjóðfélaginu á þeirri skoðun að höfn í Bakkafjöru sé besti kosturinn í dag. Ekki er að fullu lokið rannsóknum á hugsanlegu ferjulægi. Það hefir hins vegar ekkert komið fram, sem útilokar þá framkvæmd, enn sem komið er. Miðað við stöðu mála í dag, virðist allt stefna í að höfn verði byggð í Bakkafjöru.

“Sjóleiðin til Bagdað”.

Ekki svo að skilja, að Þorlákshöfn og Bagdað eigi margt sameiginlegt. Hér er aðeins um að ræða líkingamál. Íbúar Þorlákshafnar eiga alt gott skilið af hálfu Eyjamanna, enda hefir samvinna og samstarf verið til fyrirmyndar um áratuga skeið. Ein af þeim leiðum, sem færar eru í samgöngumálum okkar er að sjálfsögðu, að halda áfram að sigla í Þorlákshöfn. Stærsti gallinn við þann valkost, er hins vegar sú staðreynd, að siglingaleiðin er rétt tæpar 40 mílur. Í dag getum við ekki reiknað með að sú ferð taki skemur en tvær klukkustundir. Þá erum við að reikna með nýju öflugu skipi, sem siglir á tuttugu mílna ferð. Það er að mínu mati ekki ásættanlegt í samanburði. Hvoru tveggja er að mjög margir og þar með talið undirritaður, setja mjög fyrir sig svo langa sjóferð við misjafnar aðstæður eins og gengur. Ég er ansi hræddur um að sá, sem eitt sinn hefir kynnst vondri sjóveiki, langar ekki sérstaklega aftur í slíka ferð í bráð. Það er t.d. engin óskastaða, að ferðast sjóleiðis með unga íþróttahópa til Þorlákshafnar í leiðinlegu veðri. Stór hluti hópsins með sjóveikistöflur í maganum, og síðan beint í kappleiki. Snúum við blaðinu og setjum dæmið þannig upp, að ferjusamgöngur hafi um 40 ára skeið verið í Bakkafjöru. Nú séu uppi hugmyndir um að lengja ferðina og taka upp ferjusamgöngur til Þorlákshafnar í staðinn. Er þetta erfitt val?

Bakkafjara raunhæfur kostur?

Það er mín skoðun, að Vestmanneyingar og Rangæingar eigi að sameinast um Bakkafjöruhöfn, reynist sú framkvæmd viðráðanleg með tilliti til aðstæðna og viðunandi frátafa vegna veðurs og sjólags. Þar við bætist, að gert er ráð fyrir, að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður að Markarfljóti á næstu árum. Slík framkvæmd gerið ferðalag, hvort sem er til höfuðborgarsvæðis eða annað, mun öruggari og þægilegri. Eftir að hafa kynnt mér nokkuð ferðamynstur erlendra ferðamanna um Suðurland, tel ég einsýnt, að ferðamannastraumurinn um svæðið mun í stórauknum mæli beinast út í Eyjar með tilkomu ferju í Bakkafjöru. Eflaust á undirritaður eftir að fá orð í eyra vegna skrifa af þessu tagi, vegna mismunandi skoðana fólks. Það er hins vegar mín tilfinning, að þorri Eyjamanna sé að hallast að þessari lausn. Eins og ég hefi sagt áður í þessu greinarkorni mínu, tel ég mjög mikilvægt að bæjarbúar sameinist um þennan valkost, enda ekki annað í boði nú um stundir, hvað sem hver segir. Ég óttast, að ef ekki næst samstaða meðal íbúa hér, muni tækifærið renna okkur úr greipum. Það gæti verið óskastaða fjárveitingavaldsins, að slá af milljarða fjárveitingar til byltingakenndra samgöngubóta við Vestmannaeyjar. Landsmenn allir bíða í röðum eftir framlögum til vegagerðar, ríkisvaldið hefir úr nógu að velja í þeim efnum.

Með einlægum óskum og kveðjum Friðbjörn Ó. Valtýsson.

Friðbjörn Ó. Valtýsson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Grétar Ómarsson

 Sæll Friðbjörn,

Ég lít svo á að ef farið verður í framkvæmdir á ferjulægi í Bakkafjöru áður en rannsóknir á jarðgöngum verði fullkláraðar, mun það verða til þess að við sitjum uppi með næst besta kostinn næstu 40-50 árin. 

Þú talar um óskastöðu fjárveitingarvaldsins, ég held að óskastaða fjárveitingarvaldsins sé einmitt sú að ráðast í þær framkvæmdir á Bakkafjöru eins fljótt og möguleiki er, en þá erum við Eyjamenn búnir að útiloka jarðgöng næstu 50 árin og fjárveitingarvaldið komið í þá góðu stöðu að geta bent okkur á að við höfum þegar fengið samgöngubót upp á fleiri milljarða, samgöngubót sem á að nýtast okkur um ókomna framtíð.

Það hrillilegasta sem ég sé í stöðunni er það að við skulum ekki klára allar rannsóknir áður en ákvörðun er tekin um milljarðaframkvæmd, framkvæmd sem á eftir að hafa gífurleg áhrif á allt okkar samfélag á næstu áratugum.

Grétar Ómarsson, 26.2.2007 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband