"Frasar" okkar Eyjamanna

1068204577_afHa2Ég hef í dag verið að fara í gegnum ýmis gögn hér á skrifstofunni hjá mér í ráðhúsinu.  Það er oft ágætis leið til slökunar eftir annasama vinnuviku að taka til á skrifstofunni og rifja upp innihald einhvers þess mikla magns af skýrslum, minnisblöðum og hverskonar úttektum sem fylla þó nokkra hillumetra hér í hillunum í kringum mig.

Eitt af því sem ég staldraði við var úrvinnsla Alta á íbúaþingi því sem fyrir skömmu fór fram hér í Vestmannaeyjum.  Eitt af því sem þeir gerðu var að fara yfir nokkra af þeim “frösum” sem þeir hnutu um í samtölum sínum við okkur Eyjamenn.

Ég vitna hér í skýrslu Alta:

Sagt var:
„Flutningskostnaður er of hár”
Þó er fiskur í neytendaumbúðum, sem er pakkað á Selfossi, seldur í verslunum í Eyjum – en þar er engin fiskbúð. Sérunnið sjávarfang, t.d. borgfirskt rækjusalat, er selt á Ísafirði og hefur þá líklega staldrað við tvisvar í Reykjavík, bæði sem hráefni og sem vara í dreifingu. Af þessu má draga þá ályktun að vara er misviðkvæm fyrir flutningskostnaði.

Sagt var
„Það er nauðsynlegt að fá hraðskreiðari ferju”
Þó styttist heildarferðatími aðeins 20% þegar miðað er við að ferð Herjólfs styttist um 45 mínútur af u.þ.b. 4 klst heildarferðatíma frá húsi í Eyjum til húss í Reykjavík.

Sagt var:
„Við þurfum háskóla- og rannsóknasetur”
Það er vissulega mikilvægt en stundum kom þetta fram sem ósk um störfin sem þessum stofnunum fylgja fremur en þekkinguna sem þær veita. Ekkert kom fram um á hvaða sviðum Eyjamenn þyrftu að styrkja þekkingu sína til að spjara sig betur í samkeppni.

Sagt var:
„Við þurfum fleiri störf”
Þó viðurkenna heimamenn að vera neikvæðir og öfundast út í velgengni annarra.

Að mati Alta gefa fyrrgreind skilaboð, ásamt ýmsu fleiru, vísbendingu um að samfélagið hafi ekki gert sér grein fyrir því að varanleg breyting er að verða og að í stað þess að viðurkenna breytingarnar og takast á við þær er beðið eftir reddingu.

Ég viðurkenni það fúslega að alla ofangreinda “frasa” hef ég notað og nota enn.  Þessi úrvinnsla Alta hefur ekki breytt því.  Engu að síður eru þessar ábendingar þeirra góð áminning um að það veldur hver á heldur. Hár flutningskostnaður, hægfara Herjólfur, þörf á öflugra háskóla- og rannsóknarsetri, fjölgun fjölbreyttra starfa auk annarra vel þekktra staðreynda eru meðal þeirra mörgu verkefna sem við Eyjamenn verðum að leysa. 

Ekkert af þessu er óyfirstíganlegt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband