Breyttir atvinnuhættir og forsendur fyrir flutningi opinberra starfa til Vestmannaeyja

1068206467_khlid5aAukin umsvif opinberra stofnana á landsbyggðinni hafa lengi verið í deiglunni.  Ríkið er stærsti atvinnurekandi á Íslandi og það hefur verið skilningur íslenska ríkisins (eða réttara sagt ríkisstjórnar) að dreifa beri þeim störfum sem eru á þess vegum sem jafnast um landið, í hlutfalli við íbúa.

Í þessu sambandi samþykkti ríkisstjórn Íslands þingsályktunartillögu þann 3. maí 2002 um byggðaáætlun 2002 – 2005, þar sem m.a. segir um opinbera þjónustu:

“Í mörgum nágrannalöndum hefur verið tekið tillit til byggðasjónarmiða við uppbyggingu opinberrar þjónustu. Þannig hefur stofnunum sem þjóna öllu landinu verið valinn staður annars staðar en í höfuðborginni. Þessari aðferð þarf að beita hér á landi í meira mæli en gert hefur verið. Í því sambandi skyldi fyrst og fremst horft til helstu byggðakjarna á landsbyggðinni.“

Í byggðaáætlun fyrir árin 2006 til 2009 segir ennfremur:
"Á gildistíma byggðaáætlunar skulu stjórnvöld hafa þrjú meginatriði að leiðarljósi:
a. Að stórefla menntun á landsbyggðinni.
b. Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.
c. Að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðarmála."

Nú er komið að Vestmannaeyjum
Ég ætla hér í næstu línum að fjalla nánar um það hver staðan er hvað opinber störf í Vestmannaeyjum varðar.  Taka ber fram (og ítreka það öðruhverju) að tölurnar sem er með eru frá 2005.  Fátt hefur þó breyst hvað þetta varðar hér í Vestmannaeyjum, ef eitthvað þá hefur staðan sennilega því miður versnað.   Það er mín skoðun að nú sé komin tími til þess að gefa þessum málum gaum hvað Vestmannaeyjar varðar.

Tölurnar
Þessar tölur sem ég hef verið að skoða hafa bent til að um 17.581 starf sé á vegum íslenska ríkisins á Íslandi.  Þar af eru 12662 störf á höfuðborgarsvæðinu eða um 72% af heildarfjölda (um 62,4% landsmanna búa þar)

Fróðlegt er að draga grunnstofnanir ríkisins (sýslumanns- og lögregluembættið, héraðsdómstóla og skattstjóraembætti) út úr þessari jöfnu en þá eru 15,2 íbúar á bak við hvert starf á höfuðborgarsvæðinu.  Ef önnur grunnþjónusta ríkisins, heilbrigðiskerfið, er tekið út verða 24,1 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu og 100 íbúar í Eyjum. Ef gengið er enn lengra og önnur mikilvæg þjónusta ríkisins, framhaldsskólarnir, teknir út verða 29,2 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu en 268 í Eyjum. Þetta sýnir hve flóra ríkisstarfa í Vestmannaeyjum er fábreytt og það mætti leiða líkum að því að störf á vegum ríkisins eru í Vestmannaeyjum til að uppfylla brýna þörf við íbúana eða þá að þau hreinlega þurfi að vera þar lögum samkvæmt.   Þau störf sem er valkvætt hvar staðsett eru, eru hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

Af þeim stofnunum sem hafa sérhæfðu og einstöku hlutverki að gegna og þá undanskildar grunnstofnanir eins og sýslumannsembætti, heilbrigðisstofnanir, skólar o.s.frv. eru um 86% þeirra með höfuðstöðvar í Reykjavík eða 104 af 121 stofnun (hér ítreka ég að ég er með tölur frá 2005). Í Vestmannaeyjum er engin ríkisstofnun með höfuðstöðvar.  Það má því draga þá ályktun að meðallaun á hvern ríkisstarfsmann séu mikið hærri á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfirstjórnir stofnana eru staðsettar.

Skipting eftir eftirráðuneytum
Skoðum nú nánar hvernig þessi skipting er þegar við lítum til skiptinga eftir ráðuneytum eins og staðan var 2005 (ég verð við tækifæri að verða mér út um nýrri tölur því sennilega hefur staðan versnað hér í Eyjum frekar en hitt).  Athugið þó að í þessari úttekt minni er ég ekki að skoða stofnanir sem eru að nokkuð stórum hluta fjármagnaðar af sveitarfélögum eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands og ekki voru heldur talin ríkisfyrirtæki sem eru hlutafélög. Þá voru ekki taldar með sendiskrifstofur erlendis.

Forsætisráðuneytið
Hjá forsætisráðuneytinu og stofnunum þess eru um 182 starfsmenn. 179 þeirra eða 98,4% eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu en ekkert starf er í Vestmannaeyjum. Þetta jafngildir því að 1.011 íbúar séu á höfuðborgarsvæðinu fyrir hvert starf á vegum ráðuneytisins en þessi tala er óskilgreind í Vestmannaeyjum þar sem ekki er neitt starf er á vegum ráðuneytisins. Allar 7 stofnanir forsætisráðuneytisins eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að Þingvallanefnd undanskilinni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Í Vestmannaeyjum starfa eftir því sem ég best veit 22 starfsmenn á vegum þessa ráðuneytis.  Um 1.558 störf eru í heildina undir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og eru 1.007 á höfuðborgarsvæðinu eða um 64,6% af heild. Allar stofnanir ráðuneytisins eru á höfuðborgarsvæðinu að frátöldum sýslumannsembættum og héraðsdómstólum á viðkomandi stöðum.  Þess ber þó að geta að í góðu samstarfi Vestmanneyjabæjar, sýslumannsembættisins og dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að því að koma upp nýrri starfsemi með fjölgun ársstarfa við embættið í Vestmannaeyjum.

Félagsmálaráðuneytið
316 störf eru á vegum félagsmálaráðuneytisins og stofnunum þess. 233 störf eða 73,7% eru á höfuðborgarsvæðinu en 1 í Vestmannaeyjum. Á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu eru því 777 íbúar en 4100 í Vestmannaeyjum. Sjö stofnanir af níu eru með höfuðstöðvar í Reykjavík en Jafnréttisstofa er með höfuðstöðvar á Akureyri og Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum er á Ísafirði.

Fjármálaráðuneytið
819 störf eru á vegum fjármálaráðuneytisins og stofnana þess. 718 starfsmenn eru á
höfuðborgarsvæðinu eða 87,7% af heildarfjölda, 3,8 störf eru í Vestmannaeyjum. 252 íbúar eru því á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu en 1078 íbúar í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar 13 eru með höfuðstöðvar í Reykjavík.

Hagstofa Íslands
Hjá Hagstofu Íslands starfa um 120 starfsmenn og eru þeir allir staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að 1.508 íbúar eru á bakvið hvert starf hjá Hagstofunni á höfuðborgarsvæðinu en þessi tala er óskilgreind í Vestmannaeyjum þar sem hér er ekki neitt starf á vegum Hagstofunnar. 

Heilbrigðis-  og trygginamálaráðuneytið
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er eitt stærsta ráðuneytið og hjá því starfa um 6.788 starfsmenn. Sökum þessa hve stórt það er mjög erfitt að finna nákvæman fjölda starfa og hvar þau eru á landinu og mér tókst því ekki að finna út nákvæmar upplýsingar um fjölda starfsmanna hjá öllum stofnunum.  Úttekt bendir þó til að 4.785 störf séu á höfuðborgarsvæðinu eða 70,5% af heild og 72 í Vestmannaeyjum. 38 íbúar eru á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu en 53 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar hafa höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum úti á landi undanskildum.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
Fjöldi starfsmanna hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og stofnunum þess eru 556. Á höfuðborgarsvæðinu eru 358 starfsmenn 64,4% af heildafjöldanum, í Vestmannaeyjum er ekkert starf. 506 íbúar eru á bakvið hvert starf undir ráðuneytinu á höfuðborgarsvæðinu en 4100 íbúar í Vestmannaeyjum dekka ekki einu sinni eitt starf. 10 af 11 stofnunum ráðuneytisins eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Landbúnaðarráðuneytið
349 starfsmenn eru hjá Landbúnaðarráðuneytinu og stofnunum þess. 122 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 35% af heild. Í Vestmannaeyjum er ekkert starf. Það eru því 1.484 íbúar á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu.   Af 13 stofnunum eru 5 á höfuðborgarsvæðinu.

Menntamálaráðuneytið
Sökum stærðar menntamálaráðuneytisins og fjölda starfsfólks í hlutastarfi er erfitt að finna nákvæman fjölda starfsmanna hjá stofnunum undir því.   Fjöldi starfsmanna undir menntamálaráðuneytinu sem fannst er 5.021 og af þeim eru 3.772 störf á höfuðborgarsvæðinu eða 75,1% heildarfjölda. 27 störf eru í Vestmannaeyjum. Íbúar á bakvið hvert starf eru 48 á höfuðborgarsvæðinu og 151 í Vestmannaeyjum. Að skólum undanskildum er eitt starf á vegum ráðuneytisins í Vestmannaeyjum

Samgönguráðuneytið
789 störf eru hjá samgönguráðuneytinu og stofnunum þess. 483 störf eða 61,2% eru á höfuðborgarsvæðinu en 7 störf eru í Vestmannaeyjum. Á bak við hvert opinbert starf undir ráðuneytinu eru 375 íbúar á höfuðborgarsvæðinu en 683 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. 

Sjávarútvegsráðuneytið
372 starfsmenn eru hjá sjávarútvegsráðuneytinu og stofnunum þess. 335 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 90,1% af heild, 6 starfsmenn eru í Vestmannaeyjum. Íbúar á bakvið hvert starf á vegum sjávarútvegsráðuneytisins eru 540 á höfuðborgarsvæðinu og 683 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar eru með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að Verðlagsstofu skiptaverðs undanskilinni sem er á Akureyri. 

Hér er rétt að taka fram að u.þ.b. 14% af aflaheimildum (og fiskveiðar eru jú það sem þetta ráðuneyti á að ganga út á) eru í Vestmannaeyjum.

Umhverfisráðuneytið
Hjá umhverfisráðuneytinu og stofnunum þess eru 337 starfsmenn. 285 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 84,6% af heild, 1 er í Vestmannaeyjum. Á bakvið hvert starf á höfuðborgarsvæðinu eru 635 íbúar og 4100 í Vestmannaeyjum. Allar stofnanirnar átta eru með höfuðstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu nema Landmælingar Íslands sem eru á Akranesi og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.

Utanríkisráðuneytið
Hér á landi eru um 179 starfsmenn undir utanríkisráðuneytinu og stofnunum þess. 75 starfsmenn eru á höfuðborgarsvæðinu eða 41,9%. Ekkert starf er í Vestmannaeyjum á vegum stofnana ráðuneytisins. 2.413 íbúar eru í Reykjavík á bakvið hvert starf en ekki er unnt að reikna þetta fyrir Vestmannaeyjar þar sem enginn starfsmaður er hér. Þær fjórar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru allar með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að einni undanskilinni sem er í Keflavík.

Alþingi
Hjá Alþingi og stofnunum sem heyra undir það eru um 195 störf og eru 192 þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða 98,5% af heildarfjölda, ekkert starf er í Vestmannaeyjum
943 íbúar eru á bakvið hvert starf undir Alþingi á höfuðborgarsvæðinu.


Stofnanir tengdar sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum
Eins og gefur að skilja teljum við Eyjamenn ríka ástæðu til að telja stofnanir tengdar sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum eigi erindi í Vestmannaeyjum.  Hvergi annarstaðar á íslandi er atvinnulífið jafn vel undir það búið að styðja við bakið á slíku.  Hér er um 14% af aflaheimildunum og því væri ekkert eðlilegra en að störfin hér væru í sama hlutfalli.  En hver er raunveruleikinn.

Staðan er einfaldlega óþolandi hvað þetta varðar.  Hjá Hafró starfa 165 (2 í Vestmannaeyjum), hjá fiskistofu 89 (4 hér), hjá siglingastofnun 73 (engin hér), hjá RF 48 (1 hér), hjá veiðimálastofnun 12 (engin hér) og svona mætti áfram telja.  Þess ber enn og aftur að geta að þessar tölur eru frá 2005 og eftir tilkomu Matís má vera að eitthvað hafi breyst.

Til að bæta grá ofan á svart
Eins og áður er getið er fróðlegt að skoða hvar höfuðstöðvar stofnana eru almennt.  Sérstaklega ef litið er til höfuðstöðvar ríkisstofnana sem hafa einstöku hlutverki að gegna og er í raun valkvætt hvað er staðsett (skólum, sjúkrahúsum, sýslumannsembættum og slíku sem eðli málsins samkvæmt þurfa að starfa í návígi við þjónustuþega er sleppt).  Sé málið nálgast þannig kemur í ljós að 121 slík stofnun er á landinu. Af þessum stofnunum eru 104 á höfuðborgarsvæðinu eða 86% en engin í Vestmannaeyjum.

Þetta sýnir að stærstur hluti æðstu stjórna í stofnunum ríkisins er á höfuðborgarsvæðinu sem hlýtur aftur að gefa til kynna að ríkisstörf á því svæði séu ekki einungis hlutfallslega mun fleiri en í Vestmannaeyjum heldur má einnig leiða að því líkum að störfin séu betur launuð.  Að mínu mati er þetta stærsti byggðastyrkur sem um getur.


Hvaða störf væri hægt að vinna í Vestmannaeyjum?
Ríkisstofnanir sem tengjast beint sjávarútvegi og rannsóknum á sjávar- og vatnalífverum eru um 7 talsins (RALA er hér talin með þar eð mikið af rannsóknum á ferskvatns og sumum sjávarfiskum fer fram hjá þeim). Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru 89% starfa hjá þessum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.  Með tilliti til gríðarlegs styrks fyrirtækja í Vestmannaeyjum hvað sjávarútveg varðar má fullyrða að góð tækifæri eru til fjölgunar starfa í þessum geira á vegum ríkisins í Vestmannaeyjum.

Í Vestmannaeyjum er gott aðgengi að rafrænu samfélagi.  Candat3 sæstrengurinn liggur hér og því öryggið mikið.  Seðlabankinn er stofnun sem þarf gott aðgengi að símalínum, tölvu og internettengingum.   Það er ljóst að eitthvað af þessum sviðum er hægt að sinna í Vestmannaeyjum.  Hér er einnig mjög hentugt húsnæði undir slíka starfsemi þar sem til dæmis væri hægt að nýta t.d. gömlu símstöðina fyrir slíka starfsemi.  (Davíð Oddsson seðlabankastjóri mætti svo gista í forstofuherberginu hjá mér þar til hann gæti orðið sér úti um hentugt húsnæði). 

Landhelgisgæslan væri afar vel staðsett hér í Vestmannaeyjum  Hafnaraðstaða hér rúmar vel varðskipin, staðsetning þyrlu og annarra flugfara er auðveld.  

Fasteignamat ríkisins gæti vel átt hér heima og þá hagrætt verulega með því að losa sig við hið dýra húsnæði í Borgartúni. 

Siglingastofnun getur alveg eins verið staðsett í Vestmannaeyjum eins og Byggðastofnun getur verið staðsett á Sauðárkróki.  Hjá Siglingastofnun eru fastir starfsmenn tæplega 70.  Í það minnsta væri hægt að sinna fjöldamörgum störfum á vegum Siglingastofnunar sem í dag eru á höfuðborgarsvæðinu hér í Vestmannaeyjum.

Afar mikilvægt er að unnið verði að uppbyggingu Hafró í Vestmannaeyjum.  Starfið fellur vel að áherslum samfélagsins og fellur vel að sérhæfingu menntunar í Vestmannaeyjum. 

Á sama hátt er afar mikilvægt að unnið verði að uppbyggingu á RF (Matís) í Vestmannaeyjum.  Starfið fellur á sama hátt vel að áherslum samfélagsins og eykur möguleika á sprotaþróun fyrirtækja í sjávarútvegi

Fiskistofa opnaði í fyrra útibú í Vestmannaeyjum.  Auðvelt er að efla það starf enn frekar og sinna fleiri deildum svo sem veiðieftirliti, veiðiheimildasviði og fleira héðan frá Eyjum

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna er með 11 starfsmenn.  Í dag er þessi stofnun til húsa að Nóatúni 17 í Reykjavík. Ef krafan er hagræðing er auðvelt að benda á mikinn sparnað hvað húsnæðiskostnað varðar með því einu að flytja þessa stofnun til Vestmannaeyja. 

Ég gæti haldið áfram að telja upp stofnanir en...

Skilaboðin eru þessi
Störfum í sjávarútvegi hefur ekki fækkað eins mikið og ætla mætti.  Að hluta til hafa þau flust til.  Störfin voru áður tengd veiðum og vinnslu en eru í dag fyrst og fremst í eftirliti, rannsóknum og fleira þess háttar.

Ríkið ber ábyrgð á vinnumarkaði sem stærsti atvinnurekandinn.  Vestmannaeyskt atvinnulíf þarf tímabundna aðstoð við uppbyggingu ef ekki á illa að fara.  Grundvöllur stórs hluta þeirra starfa sem hér hafa verið talin upp er búinn til hér og krafan er sú að störfin skili sér hingað.

Flutningur opinberrar þjónustu til Vestmannaeyja er þjóðhagslega hagkvæmur kostur.  Það er einfaldlega ódýrara fyrir ríkið að reka ákveðna starfsemi í Vestmannaeyjum en á höfuðborgarsvæðinu.

Við þetta bætist að sterkur vilji er í Vestmannaeyjum til að notfæra sér flutning á opinberri þjónustu til frekari eflingar annarrar þjónustu.

Við fulltrúa ríkisins er einungis eitt að segja hvað þetta varðar “gjör rétt og þol ei órétt”

Þetta er mín skoðun, en hvað finnst ykkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt er að ríkið er stærsti vinnuveitandinn í landinu og jafnframt sá er hefur vaxið hraðast undanfarin ár.   Sem er slæmt.    Ef því fylgir hagkvæmni að flytja ríkisstörf "út á land" þá hef ég ekkert á móti því.   Hins vegar held ég að forgangsatriðið á næstu árum sé að minnka ríkisbáknið verulega. 

Sigurður J. (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 02:23

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Elliði.

Stórfínt yfirlit og auðvitað hefði fyrir löngu mátt aðskilja ákveðna þætti þjónustu hins opinbera og flytja til í áföngum en viljinn hefur því miður enginn verið, alllt málamyndahjal og yfirlýsingar, því miður.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.2.2007 kl. 02:31

3 identicon

Góður pistill Elliði,

 Það virðist vera lítið samræmi vera á milli byggðaáætlunar og raunverulegrar þróunnar. Raunveruleg þróun hefur verið stöðnun eða fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni, t.d. í Vestmannaeyjum síðasta áratuginn, en á sama tíma hefur opinberum störfum verið að fjölga um rúmlega fjórðung á höfuðborgarsvæðinu og réttilega má nefna þetta sem stærsta byggðastyrkinn.

Það má einnig velta því fyrir sér að hvað miklu leyti hefur þessi stóri byggðastyrkur haft áhrif á byggðaþróun síðustu ára? Hvað ef Vestmannaeyjar hefðu notið hlutfallslega sama byggðastyrkar síðasta áratuginn?

Ef svo hefði verið, þá væru líklega nærri 40 fleiri störf á vegum hins opinbera í Eyjum. Það má því spyrja sig, hvað mundu þessi störf með afleiddum störfum hafa vegið þungt á móti þeirri byggðaþróunn sem verið hefur?

 

Samkvæmt “Nýsis” þá mundu verða til 2,4 afleidd störf fyrir hvert starf í álveri Alcan í Hafnarfirði ef það yrði stækkað. Ef sömu forsendum er beitt þá hefðu orðið til 96 afleidd störf í Vestmannaeyjum til viðbótar þessum 40 eða 136 störf. Þessa tölu er síðan hægt að tvöfalda, sem þýða 272 fleiri íbúar í Vestmannaeyjum en nú er. Ef  “hlutfall íbúa” hefði verið notað í stað “sambærilegrar þróunnar” þá væri líklega hægt að bæta við eins og 60 starfsmönnum við þessa 40.

Það er greinilegt misræmi í gangi og kannski komin tími til að efna stóru orðin í byggðaáætlunni.

 

VB (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 12:00

4 identicon

Ég vill ekki vera leiðinlegur en þetta var langt og leiðinlegt blogg =\ Hverjum datt í hug að setja þig í bæjarstjórastól??

 Annars skal eg bara vera sammála svo það sé það einhver =)

Sigur! (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband