8.2.2007 | 21:34
Fregnir af andláti bæjarstjórans í Vestmannaeyjum eru stórlega ýktar
Ég fékk áðan merkilegt símtal. Þannig er að það hringdi í mig blaðamaður og bað mig um að staðfesta þann orðróm að ég hefði sagt upp starfi mínu sem bæjarstjóri og hygðist snúa mér að kennslu í framhaldsskólanum á ný. Ég hváði eðlilega og bað hann um að endurtaka spurninguna. Hann hækkaði dálítið róminn og talaði hægar en áður en spurningin var sú sama Ert þú að hætta í starfi bæjarstjóra? Ég svaraði sannleikanum samkvæmt Fregnir af andláti mínu er stórlega ýktar.
Frá því að símtalið átti sér stað hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig þessi saga varð til. Hæg ættu nú að vera heimtökin enda hef ég haldið marga sálfræðifyrirlestra og meira að segja heilu námskeiðin um kjaftasögur.
Til að einfalda málið mjög má segja að kjaftasögur eða slúður eigi sér fyrst og fremst tvær rætur annarsvegar eru þær nokkurskonar dægrastytting þar sem sagan er sögð vegna skemmtigildis og á þeim grundvelli víkur hún frá sannleikanum. Oft er þetta þannig að sagan er grátbrosleg og einhvern veginn þannig að íronían í henni gerir hana sanna fyrir þeim sem á hlýða. Gott dæmi um þetta er þegar sú saga gekk fjöllunum hærra að söngvarinn Bobby McFerrin (sem söng lagið Dont worry be happy) hafi verið kvíðasjúklingur og framið sjálfsmorð.
Hin tegundin af kjaftasögum er þess eðlis að þeim er beitt í markvissum tilgangi til að grafa undan trúverðugleika einhvers eða koma á hann höggi. Þannig leka fyrirtæki ósönnum tölum úr ársreikningum samkeppnisaðilans, veitingamenn segja frá óþrifnaði hjá samkeppnisaðilum og stjórnmálamenn segja slúðursögur hver um annan til að grafa undan trúverðugleika hvers annars.
Nú er ég blessunarlega laus við áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mína persónu. Fólk talar um fólk, satt eða logið skiptir ekki máli. Lífið er bara of stutt til að vera að hafa áhyggjur af því. Þegar fólk er í opinberu hlutverki þá fylgja kjaftasögurnar.
Til að mynda hafði ég nokkuð gaman af því núna fyrir nokkrum dögum þegar því var haldið fram á bloggsíðu að ég hefði aldrei lokið neinu námi enda væri ég frekar illa gefinn (fyrir því var borin fyrrverandi samstarfskona mín úr FÍV). Þessu var haldið fram af konu sem hafði horn í síðu mína vegna ákvarðana sem ég átti þátt í. Auðvitað er með þetta með námið ekki satt (stúdentspróf 1990, BA sálfræði 1994, réttindanám til kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi 1995, mastersgráða í sálfræði 1998, og er nú í mastersnámi í opinberri stjórnsýslu). Hinsvegar má vel vera að ég sé ekki greindur maður, ég læt mér það þó í léttu rúmi liggja og eftirlæt öðrum um að dæma um það.
En sem sagt þarna var um skemmtilega sögu að ræða og þá er komin ákveðin grundvöllur fyrir henni. Svo fær sagan aukið líf við það að þó nokkuð margir hafa beinan hag af því að draga úr trúverðugleika mínum (rétt eins og annarra pólitískra fulltrúa) og þar með eru komnir fótgönguliðar (og ritstjórar ;) til að breiða út boðskapinn.
Það hvort sagan um að ég sé nú að láta af störfum sem bæjarstjóri eigi sér einhver slík upptök hef ég ekki hugmynd um. Um það verður hver fyrir sig að spá. Ég get þó fullyrt að ég er í skemmtilegustu vinnu í heimi. Svo skemmtilegt er þetta starf að ég hætti í næst skemmtilegustu vinnu í heimi til að gegna því. Ég fæ að vinna við mitt helsta áhugamál, taka þátt í að móta mitt nær umhverfi, hafa áhrif á framtíð alls þess sem mér er kærast og allt þetta með frábært samstarfsfólk mér við hlið. Hvernig dettur nokkrum í hug að maður láti slíkt frá sér. Það eina sem háir mér í þessu starfi er að þurfa að sofa en eins og þeir sem mig þekkja vita þá leiðist mér sá vani sem svefninn er.
Sem sagt ég er ekki að hætta sem bæjararstjóri. Framundan eru spennandi tímar hjá sveitarfélaginu. Mín bjargföst trú er sú að ef við höldum rétt á spilunum þá getum við lagt af stað í stórsókn á næstu árum. Stórefling atvinnulífisins (nýir bátar, meiri kvóti og margt fleira), yfirvofandi bylting í samgöngum, hækkandi fasteignarverð, eftirspurn eftir lóðum fyrir einbýlishús, eftirspurn eftir lóðum fyrir fyriræki og fleira vekur með mér trú á framtíðina og kveikir í mér enn meiri neista í starfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Facebook
Athugasemdir
Hva, fáum við þá ekki kveðjupartý Elliði?!
Annars, flott blogg minn kæri og þetta er ekki bara til að sleikja upp yfirmanninn sinn! Áfram með bjartsýnina og jákvæðnina.
Guðrún J.
Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.