31.1.2007 | 22:59
Eyjamenn og samgöngur
Þeir sem fylgst hafa með umræðu um samgöngumál í Vestmannaeyjum þekkja vel hvers rík áhersla er um þessar mundir á varanlegar úrbætur hvað samöngur varðar. Þrír framtíðarkostir hafa verið nefndir sem leið úr þeim vanda sem byggðalagið er nú í þ.e.a.s. jarðgöng, ferjulægi í Bakkafjöru og nýtt skip sem siglir til Þorlákshafnar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur að forgangsröðunin sé þessi 1. jarðgöng, 2. ferjulægi í Bakkafjöru og 3. nýtt skip sem siglir til Þorlákshafnar. Forgangsröðunin byggir á því að allir möguleikar séu tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegir.
Staðan í Eyjum
Engum dylst að Vestmananeyjar eru öflugt samfélag með sterkt atvinnulíf. Skilji maður samgöngur frá eru allar forsendur til mikils hagvaxtar enda atvinnuleysi lítið og meðaltekjur háar. Þrátt fyrir þetta hefur þróun mannfjölda í Vestmannaeyjum hefur verið með öðrum hætti en á öðrum svæðum á Suðurlandi. Íbúum hér í Eyjum hefur fækkað um 12% frá árinu 1996 eða um 60 íbúa að jafnaði árlega frá þeim tíma.
En hverju breyta bættar samgöngur?
Auðvitað er afar erfitt að leggja beina mælistiku á áhrif samgöngubóta hvað íbúaþróun varðar. Margt kemur þar til svo sem samfélagsgerð, þjónustustig, samheldni, sjálfsmynd samfélagsins, vilji og svo margt fleira. Með þessum fyrirvara má þó nánast fullyrða að samgöngubætur hvetja til vaxtar og þá ekki síðst með því að ýta undir hagvöxt á þeim svæðum sem hann tengir.
Öflugt samfélag þar sem íbúum fækkar
Með tilliti til þess að þrátt fyrir stærðarlegan styrk sinn (4100 íbúar) og hátt þjónustu stig (nánast algerlega sjálfbært þjónustusamfélag) fækkar íbúum í Vestmannaeyjum á meðan þeim fjölgar í nágranasveitarfélögum sem þó eru mikið minni (Td. á Hvolsvelli og Hellu). Miðað við þann mikla mun sem fram kemur í lýðfræðilegri þróun í Vestmannaeyjum og á nálægum svæðum er ljóst að bættar samgöngur (Jarðgöng eða ferjulægi) myndu styrkja búsetu á svæðinu til muna. Þær munu færa íbúa í Vestmannaeyjum meiri tengsl við önnur svæði og kröfum nútímans um meiri hreyfanleika í samskiptum verður mætt.
Jarðgöng og ferjulægi geta bæði valdið straumhvörfum
Í mínum huga er það hafið yfir allan vafa að jarðgöng eða ferjulægi koma á næstu árum valda straumhvörfum hvað varðar forsendur byggðar í Vestmannaeyjum. Áhrifin koma vafalaust til með að ná til allra þátta samfélagsins allt frá atvinnulífið yfir til listalífsins, og allt þar á milli. Sérstaklega má gera ráð fyrir að ferðaþjónusta og tengdar greinar taki miklum breytingum auk þess sem matvælaiðnaðurinn á eftir að njóta verulega góðs af tíðari ferðum og lægri flutningskostnaði. Það liggur í augum uppi að slíkar samgöngubætur koma til með að auka arðsemi atvinnuveganna í Vestmannaeyjum og forsendur til betri lífskjara aukast sem rennir einnig stoðum undir jákvæðari búsetuþróun í Vestmannaeyjum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.