Vilji Eyjamanna er samhljóða og skýr

Starfshópur sem falið var að fjalla um hvernig bæta mætti samgöngur á sjó hefur nú lagt það til að gengið verði til leigu á skipinu Aqua Jewl sem ber allt að 200 bíla og 1000 farþega.  Með vísan til þessarar tillögu starfshópsins hefur Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorað á samgönguráðherra að stórbæta samgöngur á sjó milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja með því að ganga tafarlaust til samninga um leigu á umræddu skipi eða öðru sambærilegu þannig að slíkt skip hefji siglingar ekki síðar en í apríl 2007. 
Aqua Jewl

Bregðast þarf við núverandi vanda

Engum dylst að Vestmannaeyjar eru svæði með gríðarlega vaxtarmöguleika.  Fyrirtæki eru hér öflug og mannlíf og menning einstaklega blómlegt.  Þrátt fyrir það hefur íbúum fækkað í Vestmannaeyjum á undanförnum árum og ferðamönnum sem leggja þangað leið sína sömuleiðis. Skýringarnar eru eflaust margvíslegar, en takmarkaðar samgöngur eru án efa ein meginskýringin enda koma þær í veg fyrir að svæðið fái notið styrkleika síns og vaxtarmöguleika.  
car deck

Of oft þarf að vísa fólki á leið til Eyja frá

Núverandi staða hvað samgönur á sjó varðar er verulega slæm og mikilvægt að ráðist verði í raunhæfar aðgerðir til að bæta samgöngur þar til framtíðarkostir í samgöngum verða teknir notkun.  Sá veruleiki liggur fyrir að það kemur ítrekað fyrir í nánast hverri viku yfir sumartímann að bíladekk Herjólfs er fullnýtt og ítrekað gerist slíkt hið sama yfir vetrartímann.  Í fyrra sumar gerðist það í nánast hverri viku að vísa þurfti frá fólki þegar bíladekkið var orðið fullbókað.  Við slíkt getur ekkert byggðalag búið. Þá er skipið eðlilega orðið slitið og aðbúnaður um borð langt frá því að vera sæmandi.  Aukið sætaframboð, styttri ferðatími og betri sjófærni myndu virka hvetjandi á ferðamenn og bæta búsetuskilyrði Vestmannaeyja. Vestmannaeyjar eru eitt af öflugustu byggðarlögum á Íslandi og hafa alla burði til frekari vaxtar svo fremi sem samgöngur séu í takt við kröfur samtímans.

Scan0010

Óhófleg gjaldtaka

Gjaldtaka fyrir notkun þjóðvegarins hefur eðli málsins samkvæmt lengi verið umdeild enda Eyjamenn nánast eina byggðarlagið sem greiða þarf fyrir að nota þjóðveg sinn.  Þótt við Eyjamenn finnum það á eigin buddu hversu mikill auka skattur gjaldskrá Herjólfs er þá hefur því miður aldrei verið kortlagt nákvæmlega hversu íþyngjandi þessar álögur eru.   Þess vegna hefur Bæjarstjórn Vestmannaeyja nú samþykkt að óska eftir því við samgönguráðherra og iðnaðaráðherra sem ráðherra byggðarmála að þeir skipi nefnd til að gera úttekt á íþyngjandi álögum á Vestmannaeyinga vegna gjaldtöku fyrir notkun á þjóðvegi Eyjamanna, Ms. Herjólfi.  Nefndin skal sérstaklega horfa til áhrifa farmgjalda á verðlagningu á vörum og þjónustu í Vestmannaeyjum.  Þá er einnig óskað eftir því að nefndin leggi mat á áhrif farmgjalda Herjólfs á samkeppnishæfni fyrirtækja í Vestmannaeyjum.  

Vilji Eyjamanna í þessum efnum er því samhljóða og skýr 

Við viljum nýtt skip sem siglir þar til framtíðarsamgöngur komast á og við viljum algera endurskoðun á gjaldskránni þannig að Eyjamenn sitji við sama borð og aðrir hvað slíkt varðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband