SASS þing - Átök, sátt, deilur og hugsanlegir eftirmálar

P1000425Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið á fimmtudag og föstudag.  Þar voru haldnir aðalfundir SASS, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.  Ársþingið var sótt af um 70 sveitarstjórnarmönnum og embættismönnum auk gesta.  Meðal gesta ársþingsins voru Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir af þingmönnum kjördæmisins, þeir Árni Johnsen og Árni Mathiesen.  (Myndina hér til hliðar tók ég út um gluggann á flugvélinni seinast þegar ég flaug erlendis).

Eyjamenn áttu 7 sæti á þessum aðalfundi.  Tveir af fulltrúum okkar forfölluðust og gátu ekki mætt en fundinn sátu ásamt mér þau Páll Marvin, Páll Scheving, Páley Borgþórsdóttir og Gunnlaugur Grettisson.

Átök
Þingið gekk vel fyrir sig en fyrir var vitað að nokkur áttök yrðu um formennsku enda hafði Gunnar Þorgeirsson ákveðið að láta af formennsku.  Þá lá einnig fyrir að ágreiningur yrði um skipan fulltrúa Árborgar í stjórn SASS en það sveitarfélag er hið eina sem á tvo fulltrúa í stjórn SASS.  Mikið mæddi á kjörnefnd þessa daga og er ég afar stoltur af framgöngu þeirra og úrvinnslu á erfiðum málum.

Sátt
Svo fór að lokum að einróma sátt náðist um kjör Sveins Pálssonar -þess mæta manns- sveitarstjóra í Vík í Mýrdal.  Í stjórn SASS sem brátt tekur einnig yfir hlutverk stjórnar Atvinnuþróunarfélagsins voru auk mín skipaðir: Sveinn Pálsson formaður, Sigurður Ingi Jónsson, Þorgils Torfi Jónsson, Gylfi Þorkelsson, Jón Hjartarson og Guðmundur Þór Guðjónsson.  Allt eru þetta hinir vænstu menn sem vafalaust verður ánægjulegt að vinna með, þótt auðvitað hefði verið ánægjulegt að sjá konur í stjórn. Án þess á nokkurn sé hallað hefði sjálfur til dæmis viljað sjá Ragnheiði Hergeirsdóttur bæjarstýru í Árborg taka sæti í nefndinni.

Deilur
Deilur standa þó enn um lögmæti þess að Árborg skuli skipa tvo fulltrúa úr röðum meirihlutans.  Á fundinum mótmælti fulltrúi minnihluta Árborgar þessu fyrirkomulagi og taldi að tilnefning ætti að fara fram samkvæmt hlutfallsreglu. Líklegt þykir mér að minnihlutinn í Árborg kæri þessa niðurstöðu til Félagsmálaráðuneytisins til að fá úr þessu skorið.

Hugsanlegir eftirmálar?
Ég fór að lesa mér lítið eitt til í þessu.  Til að varpa ljósi á þetta þarf að skoða samþykktir SASS en þar segir í grein 4.2:


Á aðalfundi skal kosin 7 manna stjórn samtakanna. Samkvæmt tilnefningu skulu stjórnarmenn kosnir þannig úr þeim hópi manna sem eru kjörgengir skv. gr. 3.2.: 2 úr Árborg, 2 úr öðrum sveitarfélögum Árnessýslu, 1 úr Rangárvallasýslu, 1 úr Vestur-Skaftafellssýslu og 1 úr Vestmannaeyjum. Jafnmargir skulu kosnir til vara af hverju svæði.


Því er ljóst að kjósa skal samkvæmt tilnefningu.  Ekkert er hinsvegar sagt um það hver skal tilnefna.  Fulltrúi Árborgar í kjörnefnd hélt því staðfastlega fram að kjósa skyldi í stjórn samkvæmt tilnefningu Árborgar (bæjastjórnar) en ekki samkvæmt tilnefningu kjörnefndar.  Talsverður ágreiningur varð vegna þessara mála og vakti það reiði hjá fulltúum meirihluta Árborgar að aðrir skyldu ætla að hafa áhrif á það hvernig skipan færi fram.   Því varð úr að farið var að kröfu Árborgar og kjörnefnd setti því upp stjórn með tveimur fulltrúum meirihlutans eins og fyrr segir .

Því var unnið út frá því að tilnefningin skuli koma frá bæjarstjórn og því þarf næst að líta til “Samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Árborgar og fundarsköp bæjarstjórnar”.  Þar segir í 31. grein:

“Kosningar sem fram fara í bæjarstjórn skulu vera hlutfallskosningar skv. d´Hondts reglu, sbr. 85. og 86. gr. laga um kosningar til sveitastjórna nr. 5/1998.”

Það virðist því margt benda til þess að hér hefði d’Hondts reglan átt að gilda og minni hlutinn því fá annan fulltrúann.

Ýmislegt mælir þó gegn þessu svo sem sú staðreynd að seinasti meirihluti Árborgar (D og B listi) skipuðu ekki fulltrúa minnihluta í sömu aðstæðum (reyndar var því ekki mótmælt), einungis segir að d’Hondts reglan gildi um “kosningar sem fram fara í bæjarstjórn” og fleira.   

Það má því vissulega deila um hvað sé rétt í þessu og fróðlegt verður að sjá hverju fram vindur í þessu máli.  Sjálfur er ég með króníska rökræðuþörf og hlakka því til þess að sjá hvort málið verður kært til Félagsmálaráðuneytisins og þá hvernig afgreiðslu þetta mál fær þar.

Að lokum

Þess má svo geta að nokkuð hefur verið rætt um framtíðarhlutverk SASS og þátttöku sveitarfélaga.  Umræðan um þátttöku Vestmannaeyja á þessum vettvangi hefur verið umdeild.  Sjálfstæðisflokkurinn tók á sýnum tíma ákvörðun um að segja sig úr samtökunum á þeim grundvelli að samrekstur henti Vestmannaeyjum illa.  Fyrrverandi meirihluti Samfylkingar og Framsóknarmanna notaði hinsvegar lagið þegar þeir náðu meirihluta á miðju seinasta kjörtímabili og gekk á ný inn á þeim forsendum að samráðsvettvangur væri okkur mikilvægur. Sitt sýnist hverjum en hingað til hefur verið nokkur sátt meðal kjörinna fulltrúa í Vestmannaeyjum um þátttöku.


"Heimur versnandi fer" heilkennið

IMG_2882Það er stundum svo dásamlegt hvað fólk lætur auðveldlega selja sér þá hugmynd að heimurinn sé á leið til andskotans. [myndin hér til hliðar er tekin í sumar af dóttur minni og hefur ekkert með þetta blogg að gera að öðru leyti en því að ég trúi því að hún komi til með að búa við betri heim (og betri samgöngur) en við sem nú erum fullorðin]

Fyrir nokkrum árum (reyndar fyrir um 15 árum) rambaði ég inn í fyrirlestur um heimspeki í Odda.  Var reyndar á leið í tíma í lífeðlislegri sálfræði en fór herbergja vilt – hvorki í fyrsta né seinasta skipti sem það gerðist. 

Fyrirlesturinn greip mig hinsvegar strax í upphafi en þar var einmitt verið að fjalla um þetta viðhorf “heimur versnandi fer”.  Meðal annars var vitnað í eitt af stóru grísku nöfnunum þar sem viðkomandi taldi það til marks um þá vegferð sem heimurinn væri á, að ungmenni dagsins bæru ekki næga virðingu fyrir þeim sem eldri væru, kynnu ekki að meta viðtekin siðferðisleg gildi og væru almennt uppvöðslusöm og erfið.  Þetta var skrifað fyrir rúmlega 2000 árum.

Margir trúa því um þessar mundir að landsbyggðin eigi sér ekki viðreisnar von og neysluhyggja borgarlífsins sé allt og alla að drepa.  Borgin laðar og blekkir lýðinn með glamúr sínum og gylltum umbúðum. “Innan fárra ára koma allir Íslendingar til með að búa á suðvestur horninu” er sagt með ýmist armæðu eða meðaumkunar glýju í augum.

Í þessu samhengi er gott að velta því fyrir sér hvort hér sé um “heimur versnandi fer heilkennið” að ræða. 

Í Tímanum 21. desember árið 1927 stóð:

“Og nú blasa við ömurlegar andstæður.  Annars vegar vanhirtar sveitir, þar sem mjög dregst í efa, jafnvel í bestu héröðum, hvort bændur fái haldist við bú.  Hinsvegar glysvörusýningar í Reykjavík þvílíkar sem í stórborgum álfunnar, þar sem verkalýðurinn víðs vegar að á landinu eyðir verkkaupi sínu og efnum þjóðarinnar er varpað í svelg eyðslunnar.”

Það eru 80 ár síðan þetta var skrifað.

Ég hef þá einlægu trú að þótt erfiðleikarnir séu miklir sumstaðar um þessar mundir og víða eigi byggðir undir högg að sækja þá sé í heildina bjart fram undan meðfram allri standlengjunni sem og inn til sveita.  Ef til vill ekki allstaðar jafn bjart en bjart engu að síður.

Ég veit líka að Eyjamenn þekkja “heimur versnandi fer heilkennið” í umræðu um samgöngur í Eyjum.  Fólk hefur ekki enn gleymt umræðunni um manndrápsfleytuna sem ekki er nokkur von að hægt sé að snúa í höfninni vegna þess hversu há hún er (Herjólfur sem er búinn að þjóna okkur í 14 ár).  Fólk man líka umræðuna um jarðgöng undir Hvalfjörð og sumir þekkja meira að segja til mótmæla vegna lagningu símans.

Staðreyndin er engu að síður sú að með hverju árinu sem líður höfum við það betra.  Almenn velmegun eykst, samgöngur batna, þjónusta eflist og áfram má telja.  Vandinn er að það er svo auðvelt að selja fólki ótta.


Hetjunar okkar

P1000627Helgin hefur verið hreint stórkostleg.  Við Unnur vorum með Peyjana okkar í 6. flokki á íslandsmóti og árangurinn var slíkur að við erum að hreint springa úr monti af litlu hetjunum okkar.  Reyndar er ég svo mikil keppnismaður í mér að ég þarf öðru hverju (reyndar í hverjum leik) að minna sjálfan mig á að þetta snýst um það að hafa gaman og sigur er einungis bónus. (myndin hér til hliðar er af drengjunum okkar rétt áður en þeir gengu inn með landsliðinu fyrir leik Íslands og Ungverjalands á föstudaginn, ekki kæmi það mér á óvart þótt einhverjir þeirra ættu síðar eftir að verða leikmenn með landsliðinu).

6. flokkur karla tók þátt í fyrsta fjölliðamóti vetrarins um helgina.  Keppnin var í umsjón FH og fór fram í Hafnafirði, og stóðu þeir sig afar vel í framkvæmd eins og þeirra var von og vís.  Mótið var fjölmennt en við í ÍBV mættum til leiks með 4 lið, A (fæddir 96), B (fæddir 96), C (fæddir 97) og C2 (fæddir 97).  Alls voru því 32 Eyjapeyjar þátttakendur í mótinu.  Riðlakeppni hófs snemma morguns á laugardag og drengirnir okkar sýndu strax að það er ekki tilviljun að Vestmannaeyjar eru kallaðar íþróttabær.  Ekki einungis voru þeir sjálfum sér til sóma innan vallar og utan, heldur var árangur liðanna umfram það sem hægt er að ætlast til.  A og C lið luku sínum leikjum fyrir hádegi og tryggðu sér snemma sannfærandi sæti í milliriðlum.  C liðið lauk til að mynda milliriðlum með markatöluna 96 – 13.  B og C2 hófu svo keppni eftir hádegi.  B liðinu tóks ætlunarverk sitt og tryggði sér sæti í milliriðlum og C2 var einungis einu marki frá því markmiði.

Á sunnudagsmorgun hófust síðan milliriðlar og drengirnir okkar mættu einbeittir til leiks.  Til að gera langa sögu stutta þá endaði A liði í 2. sæti, B liði í 2. sæti og C liðið lauk leik án þess að tapa einum einasta leik og eru ótvíræðir sigurvegar mótsins.

Það eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í því mikla starfi sem unnið er innan ÍBV.  Hlutdeildin í lífi barnanna sem eru stöðugt að upplifa sigra innan vallar og utan fyllir mann trú á tilveruna á öflugri hátt en flest og engin vettvangur er betri en slíkt en starf innan ÍBV.  Skipulagið og gæði starfsins eru hreint frábær.  Að sjá stjörnurnar í augum 50 barna í ÍBV þegar þau gengu inn á þjóðarleikvangin okkar með landsliðsmönnum fyrir leik á föstudaginn er einungis sýnishorn af þeirri upplifun sem störf innan íþróttahreyfingarinnar býður upp á.

Ég er nú þegar farinn að hlakka til æfingarinnar sem er kl. 17.00 á mánudag og ljóst að bæði við Unnur og Peyjarnir erum nú margs vísari um hvað við þurfum að gera til að ná betri árangri því stefnan er áfram tekin á að vera ÍBV til sóma bæði hvað varðar hegðun, umgengni, leikgleði, árangur og allt annað.


Stöndum saman, þannig náum við árangri

Mar01219Í dag kom bæjarráð saman á aukafundi til að ræða kröfur og óskir heimamanna vegna væntanlegs útboðs á siglingum milli Vestmannaeyja og Bakka.   Ég hef áður bent á það hversu mikilvægt það er að kröfur og óskir Vestmannaeyjabæjar vegna ferjusiglinganna liggi fyrir áður en rekstur og eignarhald verður boðið út.  Ég er því afar sáttur með framgöngu bæjarráðs í þessum efnum þar sem það hefur nú komið sér saman um minnisblað undir heitinu “Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar vegna fyrirhugaðs útboðs á hönnun, smíði og rekstri ferju milli Bakka og Vestmannaeyja.  Þrátt fyrir að minnisblaðið hafi verið lagt fyrir bæjarráð þá skrifa allir sjö bæjarfulltrúarnir undir skjalið og því alger einhugur í bæjarstjórn um allt er snýr að siglingum milli Vestmannaeyja og Bakka. (myndin til hliðar er af syni mínum)

Meðal þess sem fram kemur í minnisblaðinu er:

Vestmannaeyjabær gerir kröfu um að...

... skipið beri 55 bíla og 350 farþega
... frátafir verði ekki meiri en þær hafa verið í siglingum til Þorlákshafnar
...15 til 20 kojur verði í skipinu
... ferðatíðnin verði ekki minni en 6 ferðir á sólarhring yfir vetrartímann (15. sept. til 1. maí) og 8 á sólarhring yfir sumartímann (1. maí til 15. sept).
... fyrsta ferð sé farin ekki síðar en  07.00 frá Eyjum og seinasta ferð til Eyja sé um 23.00.
... fullorðinn greiði kr. 500 fyrir fargjaldið (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá kr. 300.00)    
...greitt verði kr. 500 fyrir fólksbíl og jeppa (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá kr. 300.00)
...gjaldheimta fyrir börn verði ekki meiri en nú er og því verði gjaldfrjálst fyrir börn yngri en 12 ára.
... eldri borgarar, öryrkjar, skólafólk og börn á aldrinum 12 til 18 ára greiði kr. 250 (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá 150 krónur.
... aukinn afsláttur sé gefinn við aukin magnkaup (stærri einingakort).  Lagt er til að slík magninnkaup veiti allt að 60% afslátt til þeirra sem mikið nota ferjuna.
...far- og farmgjöld taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða.  Þannig er gerð sú krafa að kostnaður vegna farmgjalda verði ekki meiri en sem nemur því ef viðkomandi leið væri ekin.
 
Einnig er varað við því að samið sé við einn aðili um rekstur í 15 ár og að farið fram á að ekki verði samið til lengri tíma en 5 ára og í 1 – 2 ár til að byrja með á meðan reynsla er að komast á þessar nýju samgöngur og gengið út frá því að hafnarmannvirki og önnur mannvirki í Bakkafjöru verði í rekstri eigenda hafnarinnar þ.e.a.s. sveitarfélaganna Vestmannaeyjabæjar (60%) og Rangárþings Eystra (40%).

Mikið af því sem fram kemur í minnisblaðinu snertir ekki beinlínis stýrihóp þann sem nú starfar að framkvæmdinni heldur hefur að gera með stjórnsýslulegar ákvarðanir samgönguyfirvalda og ríkisstjórnar allrar.  Því er afar brýnt að fjallað verði um óskir þessar og kröfur bæði innan stýrihópsins sem og á pólitískum vettvangi.  Nú reynir á hvort stjórnmálamennirnir okkar eru tilbúnir til að gæta hagsmuna okkar.

Það er einróma skoðun bæði mín og bæjarráðs að sé til þess pólitískur vilji sé hægt að lyfta grettistaki í samgöngum milli lands og Eyja og þar með í þróun samfélagsins.  Leiðin sem hefur verið valin er sigling í Bakkafjöru og nú þurfa Eyjamenn að flykkja sér á bak við sameiginlegar óskir, ábendingar og kröfur.  Einungis þannig getum við tryggt að tekið verði fullt tillit til sjónarmiða okkar.


Opið bréf til afrekskonu

IMG_2586Í dag skrifaði ég opið bréf til íþróttakonu sem ég ber mikla virðingu fyrir.  Einhverjir hafa lesið bréfið og komist að þeirri niðurstöðu að með því sé ég að kasta rýrð á aðra íþróttakonu sem ég virði mikils, Hólmfríði Magnúsdóttur, sem spilaði með ÍBV við góðan orðstí fyrir nokkrum árum.  Ég missi svo sem ekki svefn yfir slíkum misskilningi (eða vísvitandi mistúlkun).  Bréfið sem ég birti hér að neðan er skrifað í þeim tilgangi að standa við bakið á mestu afrekskonu Vestmannaeyja í íþróttum í dag.   (Myndinn hér til hliðar er af Einidrangi)

Sæl Margrét Lára!

Mig langar fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar að óska þér hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur í sumar.  Það velkist engin í efa um að þú skaraðir fram úr í sumar og varst langbesti leikmaður ársins í Landsbankadeild kvenna. 

Val leikmanna á Hólmfríði Magnúsdóttur, sem við Eyjamenn þekkjum af góðu einu, tók mið af öðru en að hún sé þér fremri á sviði knattspyrnu.  Frammistaða Hólmfríðar í sumar var glæst og undir flestum kringumstæðum hefði hún verið afar vel af titlinum komin.  Í sumar barst þú hinsvegar höfuð og herðar yfir alla aðra leikmenn í  Landsbankadeildinni, það er óumdeilanlegt.

Það hafa verið forréttindi fyrir áhugafólk um íþróttir að fylgjast með ferli þínum.  Við Eyjamenn höfum orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fylgjast með þér frá því að þú varst lítið hærri en boltinn.  Við höfum séð þig þroskast úr duglegu og hæfileikaríku barni sem með ósérhlífni óx í einhverja mestu afrekskonu í íþróttum á íslandi í dag.  Sem foreldri er ég þér einnig þakklátur fyrir þá fyrirmynd sem þú ert börnum af báðum kynjum.

Einn af fylgifiskum þess að skara fram úr er hinsvegar öfund og afbrýðisemi.  Frændur okkar Danir hafa kallað þá tilhneigingu að geta ekki samglaðst þeim sem gengur vel "janteloven" og fyrsta grein hljóðar svona: "Du skal ikke tro, du er noget" eða "Þú skal ekki halda að þú sért eitthvað".  Hugsanaháttur sem þessi er mein sem því miður plagar ákveðna kima samfélags okkar.  Í stað þess að umvefja þá sem vel gengur og hampa þeim fyrir árangur þá verður minnimáttarkennd til þess að undan þeim er grafið og steinn lagður í götu þeirra.

Eftir jákvæð kynni mín af þér þekki ég að mótlæti sem þetta styrkir þig.  Ég veit sem er að þú lætur ekki öfund og róg trufla þig í vegferð þinni á leið til afreka.  Við Eyjamenn erum afar stolt af því að geta gert tilkall til þín sem afrekskonu og trúum því að samfélagsgerð okkar hvetji fólk til að skara fram úr.  Við ætlum áfram að standa þétt við bakið á þér og öðru afreksfólki jafnt á sviði íþrótta sem öðrum sviðum.

Til hamingju Margrét Lára.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum


Konur eru konum verstar (gestapenni)

Núna við endurlífgun þessarar bloggsíðu mun ég í auknumæli leita til gestapenna.  Skrif þeirra eru þeirra eigin en birt hér á mína ábyrgð.  Skoðanir þeirra endurspegla þó ekki endilega skoðanir mínar.  Sá gestapenni sem nú ríður á vaðið óskaði nafnleyndar og ég mun af sjálfsögðu verða við því.  Gaman væri þó að vita hver fólk telji að hér skrifi.

untitledNú er ljóst að leiðindamál hefur komið upp í vali á leikmanni ársins í Landsbankadeild kvenna þar sem gengið var framhjá besta leikmanni Íslandsmótsins, Margréti Láru Viðarsdóttur og var Hólmfríður Magnúsdóttir valin best. 

Það eru leikmenn liðanna í Landsbankadeildinni sem velja besta leikmanninn og fá sendan atkvæðaseðil frá KSÍ. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net gengu skilaboð milli leikmanna liðanna í Landsbankadeildinni þess efnis að velja ekki Margréti Láru Viðarsdóttur besta leikmanninn í Landsbankadeild kvenna.  Margrét Lára Viðarsdóttir bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í Landsbankadeild kvenna í sumar og undir eðlilegum kringumstæðum hefði hún verið valin besti leikmaðurinn. Hún skoraði 38 mörk í 16 leikjum og setti þar með markamet í efstu deild kvenna frá upphafi, bætti met sitt frá síðasta ári. 

Nú má ekki draga úr góðri frammistöðu Hólmfríðar Magnúsdóttur sem skoraði 15 mörk í 13 leikjum og spilaði meðal annars með okkur eyjamönnum fyrir nokkrum árum en þó er alveg ljóst að frammistaða Margrétar Láru var betri í sumar og er það samdóma álit flestra sem fylgjast með íslenskri knattspyrnu. Hólmfríður var ekki valin besti leikmaður KR á lokahófi félagsins í haust heldur Olga Færseth.  Það ber þó að ítreka að Hólmfríður er knattspyrnukona í háum gæðaflokki og frábær knattspyrnukona en hún er ekki betri en Margrét og lék ekki betur en hún í sumar

Ég fullyrði að svona lagað gæti aðeins gerst hjá konum.  Karlmenn mundu kannski lemja þann sem var valinn bestur á lokahófinu en aðeins konur geta gert öðrum konum svona með afbrýðissemi og öfund.  Við eyjamenn eru vanir því að aðrir öfundi okkur út af hinum ýmsu málum og kippum okkur því ekki upp við það því við vitum vel að við erum mestir og bestir og þurfum því ekki viðurkenningu annarra fyrir því. 

Vil ég óska Margréti Láru til hamingju með árangur sinn í sumar því hún var sér og öllum öðrum vestmannaeyjingum til mikillar fyrirmyndar.

XXX


Vilja slá skjaldborg um Sparisjóð Vestmannaeyja

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að blikur eru nú á lofti hvað varðar Sparisjóð okkar Eyjamanna.  Málið kom til umræðu á seinasta bæjarstjórnarfundi og ríkir alger einhugur meðal bæjarfulltrúa hvað varðar áherslur Vestmannaeyjabæjar.  Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í gær.  Fréttin þar var svohljóðandi: 

Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Vestmannaeyja vilja koma í veg fyrir að Sparisjóður Vestmannaeyja verði yfirtekinn líkt og gerðist í Hafnarfirði. Bæjarstjórnin heitir á stjórn og stofnfjáreigendur að standa saman og sækist eftir að kaupa stofnfjárbréf til að gæta að hagsmunum bæjarfélagsins. „Ýmsir hafa verið að ásælast stofnfjárbréfin,“ segir Elliði  Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja.  Við vitum til þess að það hefur verið auglýst eftir stofnfjárbréfum til kaups. Í því sambandi eru nefndar háar fjárhæðir, allt að fjörutíu milljónum króna. Við viljum vara við þessu því miðað við þessa fjárhæð er verið að ásælast völd yfir varasjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja.“

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er varasjóðurinn metinn á allt að 2,5 milljarða króna. Hins vegar er framlag sjötíu stofnfjáreigenda til sjóðsins einungis tæpar fjórar milljónir króna í formi keyptra stofnfjárbréfa. Uppreiknað virði hvers stofnfjárbréfs er um 55 þúsund krónur. Samkvæmt þessu gæti stofnfjáreigandi, sem keypti stofnfjárbréf á 55 þúsund k ónur, selt bréfið á fjörutíu milljónir króna.

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja heitir á stjórn og stofnfjáreigendur Sparisjóðsins að standa saman og minnir jafnframt á að þeir eru trúnaðarmenn sjóðsins,“ segir í ályktun sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fundi bæjarstjórnar í fyrradag. Þar lagði Elliði einnig til að bærinn keypti allt að fimm prósent stofnfjárbréfa Sparisjóðsins. Það yrði gert á genginu einn. Verður það mál tekið fyrir í bæjarráði eftir helgi. „Það yrði táknrænn gjörningur,“ segir Elliði. „Við erum meðvituð um samfélagslegt mikilvægi Sparisjóðs Vestmannaeyja. Okkar aðkoma að þessu máli er eðlileg hagsmunagæsla fyrir íbúa samfélagsins hér.“ Hann segir að það hafi aldrei verið hugmyndin með sölu stofnfjárbréfa að eigendur þeirra myndu leysa út mikinn hagnað af bréfum sínum.

„Þetta er í takt við það sem stjórnin hefur lagt áherslu á,“ segir Arnar Sigmundsson varaformaður stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hann segir að stjórnin hafi ekki afgreitt neina sölu á stofnfjárbréfum. Það muni ekki gerast næstu mánuði á meðan verið sé að auka stofnfé um 350 milljónir króna. Í þeirri hlutafjáraukningu hafi stofnfjáreigendur forkaupsrétt. Til þess að bærinn geti keypt verði einhver að falla frá forkaupsrétti sínum eða þá að selja bænum síðar.


Svör til sóma konu


IMG_2971Að öllu jöfnu lít ég ekki á það sem skildu mína að svara spurningum sem til mín er beint hér í gegnum bloggsíðuna enda henni haldið úti mér til dundurs en ekki sem hluti af starfi mínu.  Það eru allir velkomnir til skrafs og ráðgerða á skrifstofu mína ef það á erindi við mig sem bæjarstjóra og hvet ég fólk til að bóka tíma ef það á slík erindi við mig.  Hinsvegar ætla ég að gera sjálfsagða undantekningu vegna Hönnu Birnu vinkonu minnar og frambjóðanda frjálslyndra enda hún mikil sóma kona.

Hún spyr:
Hver er aðkoma  bæjarstjórnar Vestmannaeyja  í þessu máli [siglingar um Bakkafjöru]?

Aðkoma Vestmannaeyjabæjar er náttúrulega sem fulltrúi stærsta hagsmunaaðilans í þessu öllu það er að segja Eyjamanna.  Bæjarstjórn öll á í stöðugum samskiptum við fulltrúa ríkisvaldsins bæði formlega og óformlega.  Þannig hafa bæði meiri og minni hluti rætt við sína fulltrúa og gert þeim grein fyrir sínum áherslum.  Formleg aðkoma er náttúrulega í gegnum fundi bæjarstjórnar og bæjarráð sem fer með samgöngu mál.  Þar sitja Páley Borgþórsdóttir, Páll Scheving og Páll Marvin (ekki fjölbreytt nafna val).  Þá eiga heimamenn tvo fulltrúa í stýrihóp vegna Bakkafjöru, þ.e.a.s. undirritaður og Róbert Marshall.  Góð samvinna og traust er milli okkar í þessari vinnu og ég get fullvissað alla um að það er fengur fyrir okkur að hafa Róbert þarna inni enda talar hann fyrir hönd ráðherra.  Haldnir hafa verið 14 fundir í stýrihópnum en við Róbert höfum aðeins setið 1 slíkan þar sem við erum ný komnir inn.


Það er mjög gott að segja í fréttaviðtali " ég vil og ég óska" Hver er samningstaða bæjarstórnar  Vestmannaeyja í dag? Það kom ykkur ýmislegt á óvart?
Það er sennilega ekki rétt að tala um samningsstöðu í þessu máli því hún er í raun engin.  Ríkið rekur samgöngur fyrir sína tekjustofna og fer því alfarið með stjórnina í þessu mál.  Í raun er engin munur á þessu og td. rekstri sjúkrahúsa.  Ríkið fer með ferðina en eðlilega taka þeir mið af óskum okkar og kröfum ef þær eru vel unnar og rökstuddar.  Til marks um það hefur samgönguráðherra skipað tvo Eyjamenn í stýrihópinn til að rödd okkar heyrist og komist til skila.  Ef ég yrði knúin svara um “samningsstöðu” þá verð ég að segja að hún er engin.  Við getum engu hótað öðru en að ef ekki verður vel unnið þá veljum við nýja stjórnendur í næstu kosningum, þannig virkar fulltrúalýðræðið.


Hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja  sett fram sínar kröfur? Ef svo er ekki, hvers vegna?  
Bæjarstjórn hefur ekki enn gert það.  Það verður gert í næstu viku.  Ástæðan er sú að tíminn til að skila inn kröfugerð er heppilegur þá.  Það er í aðdraganda forvals og vel fyrir útboð.

Hver er aðkoma bæjarstjórnar  Ve., í Bakkafjöru ævintýrinu?
Hér erum við sammála eins og í svo mörgu.  Ef vel tekst til þá verður þetta ævintýri líkast og mér finnst þetta gott orðaval hjá þér.  Ég tel mig hinsvegar búinn að svara þessu.

Er krafa  um lágmarks  ferðatíðni  inn í samningi fyrirhugaðrar einkaferjunnar?  
Já við höfum sagt að við krefjumst allt að 8 ferðum á sólahring og meira á álagstímum.  Þetta verður svo ítrekað í kröfugerð bæjarstjórnar.


Ferja sem  eftir útboðgögnum á að vera í einkaeign. er það eðlilegt, boðlegt,sem framtíðarferðamáti Eyjabúa  að mati bæjarstjórnar Vestmannaeyja?
Bæjarstjórn fjallaði lítillega um þetta á seinasta bæjarstjórnarfundi.  Miðað við þá umræðu sem þar fór fram þá sýnist mér á flestu að menn óttast kannski ekki mest að eignarhaldið verði á höndum einkaaðila heldur frekar að samningstíminn sé of langur.  Herjólfur sá er nú siglir er í eigu ríkisins og mín skoðun er sú að ýmislegt megi betur fara í viðhaldi.  Ég óttast ekki að viðhaldi eða rekstri sjálfs stálsins verði ekki í lagi í höndum einkaaðila.  Í raun hefur mér fundist betur hugað að eigum einkaaðila en opinberra og sjálfsagt á hið sama við um ferjur.  Hinsvegar má færa rök fyrir því að með eignarhaldi sé viðkomandi rekstraraðili með töglin og halgdirnar því ef þeim verður sagt upp rekstrarsamningi þá taka þeir skipið með sér.  Við gjöldum einnig varhug við of löngum samningstíma.  Sjálfur tel ég líklegt að “vinir” mínir í ESA hafi athugasemdir um ríkisstyrktan samning til 15 ára.  Við viljum einnig tryggja í bak og fyrir að uppsagnarákvæði séu bæði mörg og skýr.


Er einkarekstur ferjunar það sem ykkur hugnast?
Sjá svar hér að ofan


Hvert er  ykkar álit á auglýsingu Siglingamálastofnunar vegna framtíðarsamgöngumála Eyjanna  án samráðs við  bæjarstjórn Vestmannaeyja?
Ég hef áður svarað þessu á þann hátt að fyrst og fremst fögnum við því að málið sé komið það langt að hægt sé að ráðast í forval.  Þá er það rangt hjá þér að fullt samráð hafi ekki verið haft við fulltrúa Vestmannaeyjabæjar um auglýsinguna.  Við vissum af auglýsingunni þótt að það hafi komið okkur á óvart að jafnvel kæmi til greina að hafnarmannvirki yrðu í einkarekstri.  Við höfum þegar komið athugasemdum við það á framfæri og sagt að það kemur ekki til greina að okkar hálfu.  Við höfum þegar hafið undirbúning að stofnun rekstrarfélags með Rangárþingi Eystra og þar verðum við með 60% eignarhlutfall og okkar góðu nágranar með 40% eignarhlutfall.

 


Kröfugerð heimamanna (bloggorlofi lokið)

Picture1Þá hef ég lokið bloggorlofi og hyggst taka upp bloggið að nýju.  Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst hávær krafa Eyjamanna um aukið aðgengi að upplýsingum, straumum og stefnu hvað Vestmannaeyjabæ varðar.

Nú nýverið skoraði vinur minn Maggi Braga á mig að taka upp bloggið að nýju og Hanna Birna vinkona mín í suðurgarði tók undir með því að segja "Halelúja" og þar með höfðu þau í raun tekið ákvörðun fyrir mig.

Hér kemur svo fyrsti pistill:

Eðlilega eru í skiptar skoðanir um það hvort nýr Herjólfur sem siglir í Bakkafjöru sé gæfu spor fyrir okkur.  Sjálfur hef ég ekki farið í grafgötur með þá skoðun mína að ef frátafir verða sambærilegar við það sem í dag er í siglingum til Þorlákshafnar, og verði og þjónustu verði hagað í samræmi við það að hér er um þjóðvega að ræða, þá komi þetta til með að valda straumhvörfum.

Nú er hinsvegar öllum ljóst að stefnan er tekin á siglingar beint yfir á suðurlandið og nú verður okkur að bera gæfa til að sameinast í kröfugerð til að tryggja að siglingar í Bakkafjöru skili því sem til er ætlast. 

Þannig hef ég lýst þeirri skoðun minni að ferðatíðni eigi ekki einungis að taka mið af álaginu á skipið heldur í takt við yfirlýstan vilja stjórnvalda um að stórefla samgöngur milli lands og Eyja.  Hér er um að ræða þjóðveg.  Þjónustustig og gjaldtaka á að taka mið af því og engu öðru. 

Það er algerlega út úr kortinu að telja bílana sem nú fara um, reikna með einhverri fjölgun og miða ferðatíðni við það hvað skipið þarf að fara margar ferðir til að anna slíkri eftirspurn.  Hugmyndin á bak við siglingar um Bakkafjöru er ekki síst að stækka atvinnusvæði og efla tengsl svæða.  Það gerist eingöngu með því að ferðir séu það hagstæðar og það tíðar að nánast sé með tveggja tíma millibili hægt að komast til og frá Eyjum. 

Í dag er staðan sú að Ferjan er í siglingum í 14 tíma á sólarhring, alla daga vikunnar.  Datt virkilega einhverjum í hug að við myndum láta nýja ferju sigla í færri tíma?  


Við viljum miða við að ferjan sigli fyrstu ferð ekki seinna en kl. 07 á morgnanna og ljúki seinustu ferð um kl. 23.00.  Það gerir 16 tíma (einungis tveimur tímum meira en nú er) .  Í bæklingum kemur skýrt fram að það taki um 2 tíma að ljúka hringnum.  16 tímar til ráðstöfunar deilt í þá 2 tíma sem það tekur að sigla fram og til baka gera 8 ferðir.  Í mínum huga er ljóst að krafan verður sú.

Í viðbót við þetta bætist svo umræða um verðlagningu, kojur, þjónusta við fatlaða, rekstur á Bakkahöfn, þjónusta um borð og svo margt fleira.

Ef vel verður að verki staðið og ríkið stendur við þá yfirlýsingu að þeir vilji stórefla samgöngur milli lands og Eyja þá á þetta eftir að gerbylta samgöngum milli lands og Eyja.

ps. Myndin hér að neðan er tekin í Bakkafjöru og sýnir árangur af uppgræðslu sumarsins.  Myndin sýnir reyndar vel það sem ég hef verið að stríða henni Unni Brá vinkonu minni og sveitarstýru á Hvolsvelli með, að það eina sem þau hafa umfram okkur er fallegra útsýni til suðurs.

Sept 07


Jarðgöng til Eyja slegin af

Þá liggur ákvörðun ríkistjórnar loks fyrr.  Jarðgöngin til Eyja hafa verið slegin af þar sem kostnaður er talin of mikill.

Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði fyrir mig og alla aðra áhugamenn um bættar samgöngur að búið sé að slá jarðgöng af. En í ljósi kostnaðarmats þá kemur ákvörðun ríkisstjórnarinnar svo sem ekki á óvart.  Að svo stöddu er ekki tímabært að segja til um hvaða mat ég legg á skýrslu VST.  Bæjarstjórn fékk skýrsluna afhenta í gær. Við fáum kynningu á henni á morgunn frá höfundum hennar. Við komum að sjálfsögðu ekki til með að gera athugasemdir nema þá að vel yfirlögðu ráði.

Hvað framtíðar kosti nú  varðar þá liggur fyrir að bæjarstjórn hefur margítrekað fjallað
um samgöngur og forgangsraða þannig að séu jarðgöng ekki framkvæmanleg, annaðhvort
vegna kostnaðar eða einhvers annars, þá sé ferjulegi í Bakkafjöru næstbesti kosturinn.

Það er bara komið upp nýtt landslag í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar og við komum
til með að skoða þetta landslag og gefa okkur tíma til að átta okkur á því

Ég sjálfur tel þó niðurstöðu ríkisstjórnarinnar ekki þýða endalok jarðganga til Vestmannaeyja.  Ég hef þá trú að jarðgöng milli lands og Eyja muni koma fyrr eða síðar. Kostnaður við jarðgangagerð er alltaf að lækka en það þarf einhverja aðra lausn þar til að því kemur.  Nú er hinsvegar algerlega ljóst að það þarf að leika millileik í stöðunni og það eru fleiri kostir
í stöðunni.

Besti kosturinn er ekki fær, en við berjum ekkert höfðinu í steininn með það að það þarf þá að leita annarra leiða.

Þær fimmtán ferðir sem Herjólfur mun fara aukalega á ári fram til 2010 er búbót en þessum ferðum var lofað í maí og við hefðum þurft á þeim að halda í sumar.  Þetta er hinsvegar skref í rétt átt.  Herjólfur er þjóðvegurinn til Vestmannaeyja.  Fleiri ferðir þýða það að þjóðvegurinn
getur verið opinn meira. Það er vilji og krafa allra Íslendinga að geta ferðast eftir þjóðvegunum.  En þetta er ekki nægjanlegt og það þarf meira til.

Ég get ekki lokið þessari færslu án þess að minnast lítilega á orð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.  Í viðtali núna um daginn dró hún í efa að þeir sem unnið hafa að framgangi þessa máls hefði til að bera heilbrigða skynsemi.  Í viðtali við Blaðið í dag segir hún svo:

“Ég sagði í viðtali við ykkur um daginn að heilbrigð skynsemi hefði sagt mönnum að þetta væri ekki raunhæft og það kallaði á sterk viðbrögð ýmissa aðila, meðal annars bæjarstjóra
Vestmannaeyja.  En ég held að ég hafi verið að tala fyrir munn mjög margra landsmanna
í þessu sambandi.”

og bætir svo við:
“Þessi niðurstaða staðfestir það sem margir hafa talið í gegnum tíðina.  Þetta er eyja og hefur alla tíð verið  Það er því miklu skynsamlegra að einbeita sér að annarskonar samgöngum heldur en að vera endalaust að tala um þessi jarðgöng.“

Ég verð að viðurkenna að mér finnst fyrstu skref Steinunnar Valdísar í hlutverki formanns samgöngunefndar ekki gæfuleg.  Hingað til hef ég nefnilega haft álit á þessari konu og oft þótt hún komast vel frá erfiðum málum.  En að hún skuli hefa störf sem formaður samgöngunefndar á því að efast um heilbrigða skynsemi okkar, síðan að telja það hlutverk sitt sem þingmanns/formanns samgöngunefndar að básúna meinta skoðun landsmanna og bíta svo höfuðið af skömminni með því að telja þörf á því að benda Eyjamönnum á að þeir búi á Eyju.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband